Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 287  —  146. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Halldóru Mogensen um óhefðbundnar lækningar.


     1.      Hver er afstaða ráðherra til skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um stefnu í óhefðbundnum lækningum (WHO Traditional Medicine Strategy 2014–2023)?
    Skýrsla um óhefðbundnar lækningar (WHO Traditional Medicine Strategy 2014–2023) var lögð fram á síðasta aðalfundi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem haldinn var í Genf 19.–24. maí 2014. Ekki er gert ráð fyrir að aðildarlöndin lýsi formlega yfir afstöðu sinni til skýrslunnar og því hefur heilbrigðisráðherra ekki gert það frekar en ráðherrar annarra aðildarlanda stofnunarinnar.

     2.      Verða af hálfu ríkisstjórnarinnar tekin skref til að fara eftir ráðum stofnunarinnar varðandi samþættingu mismunandi lækningaleiða innan heilbrigðiskerfisins?

    Ekki hefur verið rætt um nein skref sem þurfi að taka af hálfu ríkisstjórnarinnar vegna skýrslunnar enda er ekki hægt að líta á umrædda skýrslu sem ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Tekið er fram í skýrslunni að stofnunin sem slík beri ekki ábyrgð á henni heldur höfundar skýrslunnar. Einnig er tekið fram að ekki megi líta á þá afstöðu eða þær skoðanir sem fram eru settar í skýrslunni sem afstöðu eða skoðanir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Þá er einnig tekið fram, eins og almennt er um skýrslur á vegum stofnunarinnar, að skýrslan leggi engar lagaskyldur á aðildarlöndin. Dr. Margaret Chan, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, bendir hins vegar á í formála skýrslunnar að skýrslan geti nýst löndunum til stefnumörkunar og að í þeim tilgangi sé hún fram sett.
    Hvað varðar einstakar ráðleggingar um stefnumörkun í málum er snúa að óhefðbundnum lækningum sem er að finna í skýrslunni má benda á fyrirliggjandi stefnumörkun sem felst í lögum um græðara, nr. 34/2005, og skýrslu heilbrigðisráðherra um græðara og starfsemi þeirra á Íslandi sem lögð var fyrir og samþykkt á Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005. Ljóst er að almenningur á rétt á að nýta sér heilsutengda þjónustu græðara og í ríkjandi stefnu er að finna flesta þá þætti sem dregnir eru fram í umræddri skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Um „samþættingu mismunandi lækningaleiða innan heilbrigðiskerfisins“ sem sérstaklega er spurt um má benda á ákvæði í 7. gr. laga um græðara, nr. 34/2005, þar sem kveðið er á um að sjúklingar geti óskað eftir þjónustu græðara vegna alvarlegra sjúkdóma í samráði við lækni. Komi til endurskoðunar á þeirri stefnu sem Alþingi hefur markað um óhefðbundnar lækningar mun umrædd skýrsla Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar ugglaust nýtast ásamt öðrum gögnum.