Ferill 231. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 527  —  231. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni um lönd

og veiðirétt Landsvirkjunar við Þingvallavatn, Efra-Sog og Úlfljótsvatn.


    Þar sem fyrirspurnin snýr sérstaklega að Landsvirkjun óskaði fjármála- og efnahagsráðuneytið eftir því að félagið gerði ráðuneytinu grein fyrir löndum og veiðirétti sínum við Þingvallavatn, Efra-Sog og Úlfljótsvatn í samræmi við fyrirspurnina. Eftirfarandi er svar Landsvirkjunar.

     1.      Hvaða lönd á Landsvirkjun við Þingvallavatn, Efra-Sog og Úlfljótsvatn? Óskað er eftir að kort fylgi þar sem nákvæmlega kemur fram um hvaða hlut strandlengjunnar í fyrrgreindu vatnakerfi er að ræða og hversu langt út í vötn forræði eða eignarhald Landsvirkjunar nær.
    Við neðri Sogsvirkjanir (Ljósafossstöð og Írafossstöð) eru í eigu Landsvirkjunar um 35,3 ha lands á austurbakka Sogsins og um 28,8 ha lands á vesturbakkanum, sjá fylgiskjal. Forræði fyrirtækisins nær að miðjum farvegi Sogsins neðan Írafossvirkjunar og í Úlfljótsvatni ofan Ljósafosstöðvar nær rétturinn til netlaga, þ.e. 115 m út í vatnið, sjá fylgiskjal. Við Efra- Sog er 38 ha land umhverfis Steingrímsstöð í eigu Landsvirkjunar. Það land liggur að Þingvallavatni að norðan og Úlfljótsvatni að sunnan og fylgir norður- og austurbakka Efra- Sogs á milli vatnanna. Forræði fyrirtækisins í framangreindum vötnum fyrir bakka þeirra nær til netlaga, þ.e. 115 m út í vötnin, og í farvegi Sogsins ná réttindin að miðjum farvegi. Austan Efra-Sogs ná réttindin til notkunar lands er til þarf vegna reksturs virkjananna, lands fyrir stíflumannvirki og mælibúnaðar auk aðkomuvegar að mannvirkjum og farvegi.

     2.      Hvaða veiðirétt hefur Landsvirkjun á fyrrgreindum svæðum? Óskað er upplýsinga um fjölda neta og stanga á dag sem réttinum fylgja formlega, veiðitíma og veiðireglur.
    Landsvirkjun á veiðirétt í Sogi frá útfalli Írafossvirkjunar að landamörkum við Bíldsfell, þó ekki á 30 m kafla næst gangamunna samkvæmt lögum um lax og silungsveiði. Landsvirkjun á veiðirétt á austurbakka Úlfljótsvatns frá inntaki Ljósafossvirkjunar að Heiðará, en þó ekki nær inntaki en 30 m. Samtals er bakkalengd um 280 m. Landsvirkjun á einnig veiðrétt efst í Úlfljótsvatni fyrir landi sínu og upp eftir farvegi Efra-Sogs. Veiðitími í Úlfljótsvatni er frá 1. maí til 30 september og vísast að öðru leyti á útgefnar veiðireglur veiðifélagsins á netinu. Loks á Landsvirkjun veiðirétt í Þingvallavatni á vesturbakkanum til hliðar við gangainntak Steingrímsstöðvar, samtals á um 70 m bakkalengd. Samkvæmt arðskrá Veiðifélags Þingvallavatns er réttur þessi metinn á 0,5 einingu (af 100).

     3.      Hvernig er þessi réttur nýttur? Er einhver hluti hans framseldur öðrum til nýtingar?
    Landsvirkjun hefur ekki nýtt veiðirétt fyrir landi sínu í Sogi. Í Úlfljótsvatni ofan Ljósafossstöðvar (svæði III) hefur Landsvirkjun ekki nýtt sér veiðirétt sinn, en á svæðinu við Steingrímsstöð (svæði XI) hefur dvalargestum í orlofshúsi Starfsmannafélag Landsvirkjunar gefist tækifæri á að veiða samkvæmt reglum veiðifélagsins, og er þessi réttur nýttur að hluta til á veiðitímanum. Í Þingvallavatni hefur Landsvirkjun ekki nýtt sér veiðirétt fyrir landi fyrirtækisins. Enginn veiðiréttur hefur verið framseldur og veiði fyrir landi fyrirtækisins er almennt bönnuð. Varðandi síðari hluta spurningarinnar um það hversu langt út í vötn rétturinn nær vísast í svör við 1. lið hér að framan.


Fylgiskjal.


Landsvirkjun:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.