Ferill 807. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1478  —  807. mál.
Beiðni um skýrslufrá innanríkisráðherra um stöðu hafna.Frá Haraldi Einarssyni, Ásmundi Einari Daðasyni, Páli Val Björnssyni,
Oddnýju G. Harðardóttur, Vilhjálmi Árnasyni, Líneik Önnu Sævarsdóttur,
Þorsteini Sæmundssyni, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur,
Fjólu Hrund Björnsdóttur og Ásmundi Friðrikssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að innanríkisráðherra skili Alþingi skýrslu um stöðu íslenskra hafna. Í skýrslunni verði m.a. fjallað um eftirfarandi:
          Hvaða hafnir þarfnist viðhalds og hver sé fjárþörf þeirra.
          Hvað margar hafnir séu reknar af hafnasamlögum.
          Hvort hagkvæmt sé talið að einhverjar hafnir sameinist eða að ­sveitarfélög sameinist um notkun hafna.
          Hversu margar hafnir standi ekki undir rekstri eða nýframkvæmdum. Hvað geri það að verkum að sumar hafnir hafi betri rekstrargrunn en aðrar.
          Loks verði reifað hvernig hægt sé að styrkja rekstrargrunn hafna þannig að þær standi undir rekstri og nauðsynlegum framkvæmdum.

Greinargerð.

    Mikilvægt er að skýrsla þessi verði þannig úr garði gerð að hún nýtist við úthlutun fjármuna í sam­gönguáætlun og greini fjárþörf hafna með tilliti til notkunar og þjónustugildis til framtíðar. Í dag þarfnast margar hafnir viðhalds og sumar hafa verið teknar úr notkun að fullu eða að hluta vegna viðhaldsleysis. Aðrar eru í takmarkaðri notkun með tilheyrandi hættu á slysum. Nú liggur fyrir að taka þurfi ákvörðun um að leggja niður hafnir, sameina rekstur hafna eða bæta við fjármunum. Einnig er nauðsynlegt að skýra hlutverk hafna og hvaða tilgangi þær eiga að þjóna. Nauðsynlegt er að fá greinargóða mynd af stöðunni.
    Margar íslenskar hafnir glíma við bágan rekstur og litlar tekjur. Rekstrarafkoman er mismunandi. Framlegð dugir hjá mörgum ekki fyrir fjármagnsgjöldum. Reglulegt viðhald situr á hakanum og margar hafnir hafa ekki fjármuni til úrbóta. Ástæður þessa má rekja til mikillar skuldsetningar, lítilla tekna og smæðar margra hafna. Verðbólga undanfarinna ára hefur líka haft neikvæð áhrif á rekstrargrundvöllinn.
    Siglingastofnun skiptir höfnum landsins niður í fjóra flokka með tilliti til starfsemi þeirra. Gerðar eru mismunandi staðalkröfur í hverjum þeirra og er flokkunin unnin með hjálp reiknilíkans sem tekur mið af þjónustustigi, aflamagni, aflaverðmæti, magni sem unnið er í viðkomandi verstöð, vöruflutningum sem fara um höfnina og aðstæðum til hafnargerðar. Hafnirnar eru flokkaðar í stórar fiskihafnir, meðalstórar fiskihafnir, bátahafnir og smábátahafnir og iðnaðarhafnir.
    Frá árinu 2000 hefur hag- og upplýsingasvið Sambands íslenskra ­sveitarfélaga tekið saman skýrslur um stöðu hafnarsjóða. Undir eðlilegum kringumstæðum á framlegð að nægja til að standa undir afskriftum og fjármagnskostnaði. Úttekt fyrir árið 2013 sýnir þó að tekjur þriggja hafnarsjóða dugðu ekki til að greiða daglegan kostnað og áhvílandi lán: Hvammstanga­höfn (-15,6%), Blönduós­höfn (-560%) og Voga­höfn (-600%).
    Staða Reykjaneshafnar var afar slæm, en hafnarsjóðurinn skuldaði með áhvílandi skuldbindingum samtals 7,3 ma.kr. Heildarskuldir hafnarsjóðsins voru 33,4 sinnum hærri en heildartekjur sjóðsins árið 2013. 21 af 35 hafnarsjóðum var með hlutfall skulda og heildartekna undir viðunandi mörkum sem eru 1,5. Veltufé frá rekstri var misjafnt, allt frá -137,8 m.kr. upp í 1.323,7 m.kr.
    Úttekt fyrir árið 2010 sýnir að þrír hafnarsjóðir voru með neikvæða framlegð: Súðavíkur­höfn (-12,3%), Hvammstanga­höfn (-125,0%) og Blönduós­höfn (-193,8%). 16 af 35 hafnarsjóðum voru með hlutfall skulda og heildartekna undir viðunandi mörkum (1,5). Í árslok 2010 voru heildarskuldir hafnarsjóða 15,8 ma.kr., en árið áður 14,1 ma.kr. Skuldastaða hafnarsjóða var misjöfn og sömuleiðis geta þeirra til að greiða af lánum. Reykjanes­höfn skuldaði samtals 5,67 ma.kr. en Kópavogs­höfn skuldaði 50-faldar tekjur hafnarinnar.
    Fjórar hafnir við Faxaflóa, í Reykjavík, Akranesi, Borgarnesi og á Grundartanga, mynda hafnasamlagið Faxaflóa. Úttekt fyrir árið 2013 sýnir að hafnarsjóður Faxaflóahafna sker sig úr með heildartekjur upp á 2,84 ma.kr. eða 39% af heildartekjum og framlegð upp á 1.342 m.kr. Aflagjöld eru þó einungis um 8% af heildartekjum hafnarsjóðs Faxaflóahafna.
    Yfirlitsskýrsla af því tagi sem hér er óskað eftir ætti að geta orðið mjög gagnleg og nýst vel við vinnu að gerð sam­gönguáætlunar til 12 ára.