Ferill 562. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1496  —  562. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla,
nr. 10/2008, með síðari breytingum (vörukaup, þjónusta).

(Eftir 2. umræðu, 29. júní.)


1. gr.


    Á eftir 24. gr. laganna kemur ný grein, 24. gr. a, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:

Bann við mismunun í tengslum við vörukaup og þjónustu.
    

    Hvers konar mismunun á grundvelli kyns er varðar aðgang að eða afhendingu á vöru sem og aðgang að eða veitingu þjónustu er óheimil. Ákvæði þetta gildir þó ekki um aðgang að eða afhendingu vöru annars vegar eða aðgang að eða veitingu þjónustu hins vegar á sviði einka- og fjölskyldulífs. Jafnframt gildir ákvæði þetta ekki um málefni er varða störf á vinnumarkaði.
    Hvers konar mismunun á grundvelli kyns við ákvörðun iðgjalds eða við ákvörðun bótafjárhæðar vegna vátryggingarsamnings eða samkvæmt annarri skyldri fjármálaþjónustu er óheimil. Kostn­aður tengdur með­göngu og fæðingu skal ekki leiða til mismunandi iðgjalda og bóta fyrir einstaklinga.
    Ef leiddar eru líkur að því að mismunun samkvæmt ákvæði þessu hafi átt sér stað, hvort sem hún er bein eða óbein, skal sá sem talinn er hafa mismunað sýna fram á að ástæður þær sem legið hafi til grundvallar meðferðinni tengist ekki kyni nema unnt sé að réttlæta meðferðina á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná þessu markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar.

2. gr.

    Við 34. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Með lögum þessum er innleidd tilskipun ráðsins 2004/113/EB, um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð kvenna og karla að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu, sem vísað er til í XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 147/2009.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. september 2015 og gilda einungis um samninga sem gerðir verða 1. september 2015 eða síðar.