Ferill 70. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 173  —  70. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ástu Guðrúnu Helgadóttur um viðbúnað við kjarnorkumengun.


     1.      Hvaða viðbúnaðaráætlanir eru við kjarnorkumengun á Íslandi og við Íslandsstrendur? Hvenær voru þessar áætlanir síðast uppfærðar?
    Ekki hafa verið gerðar sérstakar viðbragðsáætlanir vegna geislavár og eiturefnaárása. Hins vegar er fyrir hendi mjög góður grunnur að slíkri viðbragðsáætlun vegna umfangsmikillar viðbragðsáætlunar í tengslum við heimsfaraldur inflúensu. Sú áætlun var upphaflega gefin út árið 2008 og svo aftur í fyrra með nokkrum breytingum. 1
    Komi upp alvarleg atvik á Íslandi varðandi geislavá mun ríkislögreglustjóri, í samvinnu við Geislavarnir ríkisins, virkja almennt skipulag almannavarna.
    Almennt skipulag felur í sér:
          Virkjun samhæfingarstöðvarinnar í Skógarhlíð
          Virkjun aðgerðastjórnar í viðkomandi lögregluumdæmi
          Virkjun vettvangsstjórnar á vettvangi
    Samhæfingarstöðin ber ábyrgð á að samhæfa viðbrögð á landsvísu, aðkomu ríkisstofnana og stjórnvalda.
    Aðgerðastjórn ber ábyrgð á að samhæfa viðbrögð allra viðbragðsaðila og stofnana í viðkomandi lögregluumdæmi.
    Vettvangsstjórn ber ábyrgð á að samhæfa störf allra viðbragðsaðila á vettvangi.
    Geislavarnir ríkisins tóku saman og gáfu út í febrúar 2010 lýsingu á viðbúnaðarstarfsemi Geislavarna eins og staðan var á síðari hluta árs 2009. Samantektin heitir Viðbúnaður við geislavá. 2
    Geislavarnir, sóttvarnalæknir og almannavarnir eru í víðtæku alþjóðlegu samstarfi sem veitir íslenskum stjórnvöldum aðgang að sérþekkingu og búnaði í nágrannalöndunum.

     2.      Hversu margar joðtöflur hefur íslenska ríkið aðgang að þurfi að bregðast við kjarnorkumengun og er til áætlun um dreifingu þeirra?
    Hjá sóttvarnalækni eru til 10.000 joðtöflur á vábirgðalager. Í 4. tölublaði Farsóttafrétta, sem kom út í október 2017, er fjallað um þessi mál. Þar kemur fram að eftir kjarnorkuslysið í Fukoshima í Japan árið 2011 hafi sóttvarnalæknir ákveðið að halda lager með joðtöflum hér á landi, enda sýndi sig að tugir Íslendinga sem voru staddir í Japan á þessum tíma gætu hafa þurft á slíkri meðferð að halda í fyrirbyggjandi skyni. Enda þótt Ísland sé fjarri öllum kjarnorkuverum getur ógn stafað af geislun frá skipum og kafbátum í námunda við landið. Á Íslandi er birgðahald joðtaflnanna miðlægt og þeim verður dreift ef á þarf að halda samkvæmt fyrirmælum sóttvarnalæknis í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

     3.      Hversu margir hlífðarbúningar gegn geisla- og efnamengun eru til reiðu?
    Samkvæmt upplýsingum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra miðast það við eðli geisla- og eiturefnavár hverju sinni hvaða hlífðarbúnaðar er krafist og hvort slíkt gagnist yfir höfuð. Búnaðurinn getur verið frá rykgrímum, einföldum samfestingum og hönskum upp í lokaða eiturefnagalla með yfirþrýstingi. Einfaldur hlífðarbúnaður er til í nokkru magni á hverjum tíma og yfirleitt auðvelt að útvega slíkt. Ekki eru til margir lokaðir eiturefnagallar með loftkút á Íslandi.
    Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er með 12 eiturefnagalla (lokaða galla með yfirþrýstingi) sem standast allar kröfur um endingartíma frá framleiðenda, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu. Einnig er Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hverju sinni með lágmark 12 einnota eiturefnagalla, svokallaða slettuvörn, til nota í fyrstu aðgerðum og þá lífbjörgun. Báðar tegundirnar veita mjög takmarkaða vernd gegn geislun en það fer þó eftir því um hvaða tegund geislunar er að ræða. Samkvæmt upplýsingum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins munu alls vera til reiðu hér á landi 20–25 margnota eiturefnagallar.

1     www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item29596/2016_%C3%A1%C3%A6tlun%20vegna%20heimsfaraldurs%20infl%C3%BAensu-%20%C3%BAtg%C3%A1fa%202.pdf
2     gr.is/wp-content/uploads/2016/06/vidbunadarskyrsla.pdf