Ferill 257. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 275  —  257. mál.
Flutningsmaður.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum (fæðingarstyrkur vegna ættleiðingar).

Flm.: Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorgrímur Sigmundsson, Þorsteinn Sæmundsson.


1. gr.

    Á eftir V. kafla laganna kemur nýr kafli, V. kafli A, Fæðingarstyrkur vegna ættleiðingar, með tveimur nýjum greinum, 17. gr. a og 17. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (17. gr. a.)

Fæðingarstyrkur til móður sem gefur barn sitt til ættleiðingar.

    Móðir sem gefur barn sitt til ættleiðingar við fæðingu þess, að uppfylltum skilyrðum laga um ættleiðingar, á rétt á fæðingarstyrk í 6 mánuði frá fæðingu barnsins.
    Fæðingarstyrkur til móður vegna ættleiðingar skal vera 135.525 kr. á mánuði. Móðirin skal eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma.
    Hafi móðir haft lögheimili hér á landi í a.m.k. einhvern tíma í síðasta mánuði fyrir fæðingardag barns skal Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til búsetutímabila móður í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar þegar metið er hvort móðir fullnægi lögheimilisskilyrði skv. 2. mgr. enda hafi móðirin verið tryggð á sama tíma í því ríki og ekki hefur liðið meira en mánuður frá því að tryggingatímabili samkvæmt lögum þess ríkis var lokið. Móðir skal láta tilskilin vottorð um búsetutímabil og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur samkvæmt þessu ákvæði.
    Fjárhæð fæðingarstyrks kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er ráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta styrkfjárhæðinni til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar áðurgreind skilyrði leiða til hækkunar á fjárhæð fæðingarstyrks skal ráðherra breyta fjárhæðinni í reglugerð.

    b. (17. gr. b.)

Umsókn til Vinnumálastofnunar.

    Móðir, sbr. 1. mgr. 17. gr. a, skal sækja skriflega um fæðingarstyrk vegna ættleiðingar til Vinnumálastofnunar þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns.
    Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um tilhögun á afgreiðslu Vinnumálastofnunar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Ættleiðingar barna sem fædd eru á Íslandi eru mjög fáar, að meðaltali eitt barn á ári. Samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri ættleiðingu bíða nú um 50 pör eftir því að fá að ættleiða barn og fer þeim fjölgandi ár frá ári. Ættleiðingar erlendis frá fela í sér langt, kostnaðarsamt og erfitt ferli. Á síðasta ári voru einungis sex börn ættleidd erlendis frá og hefur alþjóðlegum ættleiðingum fækkað. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að konur sem gefa barn sitt til ættleiðingar, strax við fæðingu, eigi rétt á fæðingarstyrk í sex mánuði, að upphæð 135.525 kr. á mánuði.
    Fóstureyðing er erfið og í mörgum tilfellum þungbær ákvörðun fyrir konur. Öllum konum sem íhuga fóstureyðingu stendur til boða að fara í viðtal til félagsráðgjafa. Á síðasta ári voru framkvæmdar hér á landi 1.007 fóstureyðingar af félagslegum ástæðum og fer þeim fjölgandi. Aðstæður kvenna, sem eru í þessum sporum, eru mjög misjafnar. Félagsráðgjafi fer yfir aðstæður og valmöguleika sem eru í boði fyrir þungaðar konur. Einn af þeim kostum sem konum stendur til boða er að ganga með barnið og gefa það við fæðingu til ættleiðingar. Tilgangur þessa frumvarps er að styðja konur sem taka ákvörðun um að gefa barn sitt til ættleiðingar við fæðingu, en þær hafa hingað til ekki notið sérstakrar aðstoðar af hálfu hins opinbera.