Ferill 224. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 431  —  224. mál.
Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Snæbirni Brynjarssyni um innleiðingu starfsgetumats og hlutastörf fyrir fólk með skerta starfsgetu.


     1.      Hefur ráðherra hafið undirbúning að innleiðingu starfsgetumats eins og fulltrúar í samráðshópi ráðherra um breytt framfærslukerfi almannatrygginga hafa lagt til? Ef svo er, hvernig miðar þeirri vinnu?
    Tveir starfshópar eru að störfum, annars vegar faghópur um mótun og innleiðingu starfsgetumats og hins vegar samráðshópur um nýtt framfærslukerfi almannatrygginga, en þeir fjalla um hvernig meta skuli heildstætt aðstæður einstaklinga með skerta starfsgetu þannig að þeir fái tækifæri til að taka þátt í samfélaginu, þar á meðal á vinnumarkaði. Er jafnframt lögð á það áhersla að framfærslukerfið stuðli að aukinni þátttöku á vinnumarkaði. Áætlað er að starfshóparnir skili tillögum sínum til ráðherra í nóvember, og því er undirbúningur að eiginlegri innleiðingu á nýju kerfi ekki hafinn.

     2.      Hvernig miðar vinnu að fyrsta skrefi stjórnvalda varðandi breytingar á bótakerfinu, sbr. sáttmála ríkisstjórnarflokkanna, þ.e. að skipuleggja framboð hlutastarfa hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsgetu og hversu mörg hlutastörf er áætlað að verði til?
    Sú vinna er ekki hafin þar sem ákveðið var að bíða eftir tillögum fyrrnefndra starfshópa í því skyni að átta sig á hvaða leiðir verði farnar í því sambandi. Þegar niðurstöður um skipulag kerfisins liggja fyrir verður hafist handa við að skipuleggja hvernig framboð starfa hjá hinu opinbera, sem ætluð eru fólki með skerta starfsgetu, verður aukið.