Ferill 174. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 982  —  174. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um mengun á byggingarstað við Hringbraut.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra láta gera úttekt á hvers konar mengun og ónæði frá byggingarstað núverandi húsnæðis Landspítala við Hringbraut, ekki síst í ljósi þess að heilbrigðiseftirlitið hefur bent á að nú séu ekki gerðar kröfur um að verktakar bleyti byggingarsvæði til að minnka loftmengun en að nauðsynlegt sé að taka slíkt verklag upp við ákveðnar veðuraðstæður?

    Framkvæmdir við Landspítala eru samkvæmt lögum nr. 160/2010, um mannvirki, og byggingarreglugerð, nr. 112/2012, byggingarleyfisskyldar og háðar byggingareftirliti byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar og þar koma fram þær kröfur sem varða framkvæmdina. Þá ber sveitarstjórn ábyrgð á því að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laga um mannvirki og byggingarreglugerðar. Sú skylda hvílir á byggingarstjóra og iðnmeisturum við byggingarframkvæmdir að sjá til þess að sem minnst hætta, óþrifnaður eða önnur óþægindi stafi af framkvæmdum eftir því sem aðstæður leyfa. Einnig ber að hanna mannvirki og byggja þannig að heilsu og innra umhverfi sé ekki spillt vegna mengunar, m.a. vegna úrgangs sem kann að myndast á framkvæmdatíma. Mannvirkjastofnun fer með eftirlit með framkvæmd laga um mannvirki og byggingarreglugerðar og getur tekið til athugunar hvort afgreiðsla byggingarfulltrúa fari í bága við lög. Í samræmi við lög um mannvirki getur stofnunin krafist þess að bætt sé úr ef tilefni er til og tekið við meðferð mála þegar þörf er á.
    Mengunarvarnir og ónæði frá byggingarstöðum í Reykjavík heyra að öðru leyti undir heilbrigðisnefnd Reykjavíkur (HER). Kröfur samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, verða áfram gerðar í starfsleyfi spítalans þegar það verður endurnýjað og áður fara drög að starfsleyfisskilyrðum í auglýsingu. Skipulagsfulltrúi og byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar eiga samráð við HER vegna teikninga þegar þær eru í vinnslu og þeim þáttum framkvæmdarinnar sem snúa að mengunarvörnum, hollustuháttum og matvælaöryggi.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafa ekki borist kvartanir vegna hávaða frá framkvæmdum við Landspítalann. Að sögn eftirlitsins hefur ekki komið fram að ekki séu gerðar kröfur um að verktakar bleyti byggingarsvæði til að minnka loftmengun. Á vefnum er að finna upplýsingar þar sem fram koma ýmsar aðgerðir til að draga úr mengun, m.a. er gert ráð fyrir vatnsúðabyssum á rykmyndandi svæðum og hjóla- og undirvagnaþvottastöð. *
    Síðustu formlegu samskipti HER vegna Landspítalans koma fram í umsögnum HER frá árunum 2011 og 2012. Í umsögn til skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 19. september 2012 um tillögu að deiliskipulagi vegna nýs Landspítala við Hringbraut er bæði fjallað um hávaða og loftgæði vegna framkvæmdanna en einnig niðurrif og að verktakar þurfi að sækja um starfsleyfi vegna niðurrifs til nefndarinnar. Ráðuneytið hefur fengið upplýsingar um að sá starfsmaður Reykjavíkurborgar sem er með þetta verkefni á vegum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar hefur eftir þörfum verið í sambandi við og haft samráð við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur um þau málefni sem heyra undir eftirlitið.
    Samkvæmt framangreindu eru leyfisveitingar og eftirlit með viðkomandi framkvæmd á vegum Reykjavíkurborgar, þ.e. byggingarfulltrúa sem hefur einnig eftirlit með framkvæmdinni, og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur hvað varðar hollustuhætti og mengunarvarnir. Eftirlitið er hins vegar ekki á forræði umhverfis- og auðlindaráðherra og hefur því ekki komið til skoðunar að láta gera úttekt á mengun og ónæði frá umræddum byggingarstað. Þá virðist samkvæmt framangreindu ekki hafa verið tilefni til þess að eftirlitsaðilar gerðu kröfur um úrbætur vegna hávaða eða mengunar frá byggingarstaðnum.
*     www.nyrlandspitali.is/fjolmidlasamskipti/item/342-%C3%ADb%C3%BAafundur-um-verklegar-framkv%C3%A6mdir-%C3 %A1-landsp%C3%ADtalal%C3%B3%C3%B0.html
     www.nyrlandspitali.is/images/frettir/2018/kynningarfundur_september2018/Asbjorn_Jonsson_NLSH.pdf