Ferill 952. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1645  —  952. mál.




Frumvarp til laga


um brottfall og breytingu á ýmsum lögum og ákvæðum um presta, trúfélög og lífsskoðunarfélög (sjálfstæði kirkjunnar).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Olga Margrét Cilia, Smári McCarthy.


1. gr.

    Forordning áhrærandi uppvaxandi ungdómsins confirmation og staðfesting í hans skírnarnáð, 13. janúar 1736, fellur brott.

2. gr.

    Konungsbréf (til biskupanna) um confirmation, 29. maí 1744, fellur brott.

3. gr.

    Tilskipun um húsvitjanir, 27. maí 1746, fellur brott.

4. gr.

    Erindisbréf handa biskupum, 1. júlí 1746, fellur brott.


5. gr.

    Tilskipun um ferminguna, 25. maí 1759, fellur brott.

6. gr.

    Prestastefnusamþykkt um sjúkravitjanir presta og aukatekjur, júlí 1764, fellur brott.

7. gr.

    Tilskipun um heimaskírn barna, 27. júlí 1771, fellur brott.


8. gr.

    Tilskipun um ráðstafanir til viðurhalds á eignum kirkna og prestakalla á Íslandi, og því, sem þeim fylgir, 24. júlí 1789, fellur brott.


9. gr.

    Tilskipun um vald biskupa til að veita undanþágur frá fermingartilskipunum, 23. mars 1827, fellur brott.

10. gr.

    Bréf kansellíisins um tilhögun á kirkjuhurðum, 28. október 1828, fellur brott.


11. gr.

    Tilskipun um fardaga presta á Íslandi og um réttindi þau, er prestur sá, sem frá brauði fer, eður erfingjar hans og einkum ekkjan eiga heimting á, 6. janúar 1847, fellur brott.

12. gr.

    Tilskipun, er nákvæmar tiltekur það sem fyrir er mælt í reglugerð fyrir Ísland 17. júlí 1782, um tekjur presta og kirkna o.fl., 27. janúar 1847, fellur brott.

13. gr.

    Lög um leysing á sóknarbandi, nr. 9/1882, falla brott.

14. gr.

    Lög um viðauka við 1. gr. laga nr. 29 16. desember 1885, um lögtak og fjárnám án undangengins dóms eða sáttar, nr. 31/1915, falla brott.

15. gr.

    Lög um innheimtu og meðferð á kirknafé, nr. 20/1890, falla brott.


16. gr.

    Lög um umsjón og fjárhald kirkna, nr. 22/1907, falla brott.

17. gr.

    Lög um laun sóknarpresta, nr. 46/1907, falla brott.

18. gr.

    Lög um sölu á prestsmötu, nr. 54/1921, falla brott.

19. gr.

    Lög um bókasöfn prestakalla, nr. 17/1931, falla brott.

20. gr.

    Lög um utanfararstyrk presta, nr. 18/1931, falla brott.

21. gr.

    Lög um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, nr. 36/1931, falla brott.


22. gr.

    Lög um útrýmingu sels í Húnaósi, nr. 29/1937, falla brott.

23. gr.

    Lög um kirkju- og manntalsbækur (sálnaregistur), nr. 3/1945, falla brott.

24. gr.

    Lög um kirkjuítök og sölu þeirra, nr. 13/1956, falla brott.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 4. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962:
     a.      2. málsl. 2. tölul. fellur brott.
     b.      6. tölul. orðast svo: Sérstakar upplýsingar sveitarstjórna, Útlendingastofnunar og annarra opinberra aðila um menn.


26. gr.

    Lög um Kristnisjóð o.fl., nr. 35/1970, falla brott.

27. gr.

    Lög um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, falla brott.

28. gr.

    4. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, fellur brott.

29. gr.

    Lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, falla brott.

30. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008:
     a.      Í stað orðanna „eða prest“ í c-lið 1. mgr. 99. gr. laganna kemur: prest, forstöðumann trúfélags eða lífsskoðunarfélags.
     b.      Á eftir orðunum „forstöðumanni trúfélags“ í 3. mgr. 119. gr. laganna kemur: eða lífsskoðunarfélags.

31. gr.

    4. mgr. 49. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, orðast svo:
    Ekki er heimilt að hlusta á símtöl fanga við lögmann, fulltrúa trúfélags eða lífsskoðunarfélags sem fangi tilheyrir, heilbrigðisstarfsfólk, opinberar stofnanir eða umboðsmann Alþingis.

32. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.

    Lagt er til að ýmis lög með ákvæðum um presta, trúfélög eða lífsskoðunarfélög falli brott eða taki breytingum. Lögin sem falla brott eða breytast, bæði gömul og ný, eru lagaleg afskipti af því hvernig prestar, trúfélög eða lífsskoðunarfélög haga starfsemi sinni.
    Ekki er vitað til þess að önnur trúfélög, eða önnur félagasamtök, séu með starfsreglur sínar skráðar í landslög, umfram almenn lög um slík félög. Lagafrumvarpið jafnar því stöðu biskupsstofu og sókna landsins á við önnur trúfélög. Með þessu getur þjóðkirkjan einnig einfaldlega breytt reglum sínum á eigin forsendum og án afskipta Alþingis.
    Ljóst er líka að stór hluti þeirra lagabálka sem taldir eru upp í frumvarpinu eru löngu úr sér gengnir og eiga ekki lengur við. Meðal þess sem þarna má finna er skylda presta til að heimsækja öll sóknarbörn sín tvisvar á ári og heimild sem nær eingöngu til biskupa að undanskilja sóknarbörn frá fermingu. Má því kalla þetta frumvarp lið í tiltekt í lagasafni landsins og einföldun regluverks.
    Með þessari tiltekt er líka lagt af að biskup Íslands, vígslubiskupar, prófastar og prestar þjóðkirkjunnar séu embættismenn samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins enda erfitt að sjá hvaða stjórnsýsluhlutverki þessi embætti eiga að gegna í opinberri stjórnskipan.
    Stærsta breyting þessa frumvarps er niðurfelling laga um sóknargjöld. Í stað þess að innheimta þau með hlutfalli af skatttekjum munu trúfélög landsins þurfa að sjá sjálf um innheimtu sóknargjalda. Munu þau því sjálf geta ákvarðað hversu há sóknargjöldin skulu vera og hvernig innheimta þeirra fer fram. Einnig er trú- og lífsskoðunarfélögum í sjálfsvald sett hvort þau hyggist yfirleitt innheimta félags- og sóknargjöld.