Ferill 993. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 1882  —  993. mál.
Viðbót.
Tillaga til þingsályktunar


um úttekt á fjárhagslegum áhrifum þess fyrir ríkissjóð að afnema skerðingar ellilífeyris almannatrygginga vegna tekna af atvinnu.


Frá velferðarnefnd.


    Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að láta gera úttekt á fjárhagslegum áhrifum þess fyrir ríkissjóð að afnema skerðingar ellilífeyris almannatrygginga vegna tekna af atvinnu.
    Úttektin verði gerð af óháðum aðilum í samstarfi við félagsmálaráðuneytið. Við mat á fjárhagslegum áhrifum skuli meta áhrifin á bæði útgjaldahlið og tekjuhlið ríkissjóðs. Leiði úttektin í ljós að afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna feli ekki í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð leggi félags- og barnamálaráðherra fyrir 1. mars 2020 fram frumvarp sem feli í sér afnám skerðinga ellilífeyris almannatrygginga vegna tekna af atvinnu. Leiði úttektin aftur á móti í ljós að breytingarnar feli í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð verði málinu vísað til starfshóps um kjör aldraðra þar sem rætt verði um áhrif tekjuskerðinga almennt og hvaða leiðir séu í boði í þeim efnum.

Greinargerð.

    Flokkur fólksins lagði fram frumvarp á yfirstandandi löggjafarþingi (24. mál) sem áður var lagt fram á 148. löggjafarþingi (51. mál). Við þinglokasamninga á yfirstandandi þingi féllust allir flokkar á að þetta þingmál Flokks fólksins næði fram að ganga í formi þessarar þingsályktunartillögu.
    Samkvæmt 23. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, hafa ellilífeyrisþegar sérstakt 100.000 kr. frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna. Auk þess hafa ellilífeyrisþegar almennt frítekjumark sem nemur 25.000 kr. á mánuði og gildir það um allar tekjur þeirra, þ.m.t. atvinnutekjur.
    Í mars 2019 voru 36.402 einstaklingar með virk réttindi til ellilífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þar af voru 32.178 eða 88,4% ekki með neinar skráðar atvinnutekjur. Af þeim 4.224 ellilífeyrisþegum sem voru með skráðar atvinnutekjur voru 1.535 með tekjur á bilinu 1–50.000 kr. á mánuði og 717 einstaklingar með tekjur á bilinu 50.000–100.000 kr. á mánuði. Því voru aðeins 1.972 ellilífeyrisþegar með hærri atvinnutekjur en sem nam 100.000 kr. frítekjumarkinu eða 5,4% allra þeirra ellilífeyrisþega sem fengu greiðslur frá stofnuninni. Í því sambandi ber þó að hafa í huga að gera má ráð fyrir því að talsverður fjöldi einstaklinga 67 ára og eldri sé í vinnu og hafi ekki sótt um greiðslur þar sem atvinnutekjur þeirra geri það að verkum að þeir eigi ekki rétt til neinna greiðslna frá almannatryggingum.
    Fram hafa komið kröfur af hálfu hagsmunasamtaka aldraðra og fleiri aðila um að afnema með öllu skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna og hefur því m.a. verið haldið fram að það þurfi ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og að ríkissjóður gæti jafnvel haft fjárhagslegan ávinning af því. Því er mikilvægt að meta með einhverjum hætti áhrifin á tekjuhlið ríkissjóðs með tilliti til aukinnar atvinnuþátttöku ellilífeyrisþega og þjóðhagslegra áhrifa vegna þeirra breytinga. Aldraðir á vinnumarkaði eru verðmætt vinnuafl sem býr yfir mikilli reynslu og þekkingu. Mikilvægt er að aldraðir hafi sem hæstar ráðstöfunartekjur þannig að þeir geti lifað sjálfstæðu lífi. Áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara og eykur lífsgæði þeirra.
    Mikilvægt er talið að réttindakerfi almannatrygginga sé þannig uppbyggt að það hvetji til atvinnuþátttöku einstaklinga sem byggja framfærslu sína að hluta eða öllu leyti á stuðningi opinberra aðila. Jafnframt er mikilvægt að í bótakerfinu séu innbyggðir hvatar sem stuðli að aukinni atvinnuþátttöku fólks sem fær greiðslur frá almannatryggingum. Meta verður hvaða áhrif skerðingar vegna atvinnutekna, frítekjumörk og möguleg hækkun þeirra og loks afnám skerðinga vegna atvinnutekna hefðu á atvinnuþátttöku aldraðra og fjárhag ríkissjóðs.
    Með tillögunni er lagt til að félags- og barnamálaráðherra verði falið að láta gera úttekt á fjárhagslegum áhrifum þess fyrir ríkissjóð að afnema skerðingar ellilífeyris almannatrygginga vegna tekna af atvinnu og á fjárhagslegum áhrifum þess að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna. Lagt er til að úttektin verði gerð af óháðum aðila og í samstarfi við félagsmálaráðuneytið. Leiði úttektin í ljós að afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna feli ekki í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð skuli félags- og barnamálaráðherra leggja fram frumvarp á næsta löggjafarþingi, fyrir 1. mars 2020, sem feli í sér afnám skerðinga ellilífeyris almannatrygginga vegna atvinnutekna. Leiði úttektin aftur á móti í ljós að breytingarnar feli í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð verði málinu vísað til starfshóps um kjör aldraðra þar sem rætt verði um áhrif tekjuskerðinga almennt og hvaða leiðir séu í boði í þeim efnum.