Ferill 285. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 321  —  285. mál.
Fyrirsögn.




Tillaga til þingsályktunar


um CBD í almennri sölu.


Flm.: Halldóra Mogensen, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Álfheiður Eymarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Þór Ólafsson, Vilhjálmur Árnason, Willum Þór Þórsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að gera viðeigandi breytingar á reglugerðum, og leggja fram frumvarp, ef þess þarf, til að gera sölu á vörum sem innihalda CBD (cannabidiol) heimila í almennri sölu.
    Ráðherra ljúki nauðsynlegum reglugerðarbreytingum og leggi fram frumvarp, ef þess þarf, á haustþingi 2020.

Greinargerð.

    Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um notagildi hampjurtarinnar. Eftirspurn eftir iðnaðarhampi hefur vaxið hratt í heiminum, en hann er notaður í fjölmargar iðnaðarvörur, t.d. einangrun í bíla, pappír, matvæli og byggingarefni og geta því mikil tækifæri falist í því að rækta iðnaðarhamp hér á landi. Úr jurtinni er einnig hægt að vinna virku efnin THC og CBD en hið síðarnefnda hefur m.a. verið notað sem fæðubótarefni, í matvæli, snyrtivörur og sem lyf.
    Í 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, er cannabis (kannabis, marihuana, hass) tilgreint sem ávana- og fíkniefni sem fellur undir 1. mgr. 2. gr. laganna. Tekur ákvæðið hvort tveggja til plantna innan kannabisættkvíslarinnar og þeirra efna sem unnin eru úr þeim plöntum. Helstu virku efni kannabisplantna eru THC (tetrahydrocannabinol), sem er vímugjafi og CBD (cannabidiol), sem er ekki vímugjafi. Bæði efnin hafa læknisfræðilegt notagildi og má nota þau í ýmsum tilgangi, en vegna skilgreiningar á kannabisi og afleiðum þess sem ávana- og fíkniefnis, eða ávana- og fíknilyfs þegar um er að ræða tilbúin lyf, eru vörur sem innihalda THC eða CBD lyfseðilsskyld, eftirritunarskyld og Z-merkt. Slík lyf verða því aðeins fengin gegn ávísun læknis með sérfræðimenntun.
    Í ljósi þess að CBD er ekki vímugjafi eru engin rök sem standa til þess að það skuli flokkað sem ávana- og fíkniefni eða lyf. Núverandi lagaleg staða CBD er óskýr þar sem það er ekki sérstaklega tilgreint í lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, né heldur í reglugerðum settum á grundvelli laganna. Hins vegar hefur CBD (cannabidiol) alla jafna verið skilgreint sem eitt af virkum efnum kannabisplöntunnar, sem flokkast sem ávana- og fíkniefni samkvæmt áðurgreindum lögum. Því má telja líklegt að um CBD skuli gilda sömu reglur og um önnur efni sem unnin eru úr kannabisi, þ.e. að einungis sé heimilað að flytja það inn að fengnu markaðsleyfi Lyfjastofnunar, það sé lyfseðilsskylt, eftirritunarskylt og Z-merkt. Skýtur þetta skökku við þegar um er að ræða efni með óumdeilanlegt notagildi og er hvorki ávanabindandi né vímugjafi.
    Hægt er með einföldum hætti að vinna virka efnið CBD úr iðnaðarhampi sem inniheldur mjög lítið eða ekkert THC. Mörg nágrannaríki Íslands hafa farið þá leið að heimila slíka vinnslu og lausasölu á afurðunum, þegar styrkleiki THC er innan við skilgreind mörk. Sem dæmi má nefna að í Bretlandi er heimilt að vinna hamptrefjar, olíu og aðrar vörur úr hampjurt að því gefnu að framleiðandinn hafi leyfi fyrir því og að tiltekin skilyrði um magn THC séu uppfyllt. Þegar kemur að lagasetningu um kannabisvörur hefur Evrópusambandið þegar aðgreint THC frá öðrum vörum sem vinna má úr hampjurtinni. Þannig er ræktun og vinnsla úr hampjurtinni lögleg í mörgum Evrópusambandsríkjum þegar um er að ræða plöntur sem innihalda THC-magn undir skilgreindum mörkum. Þær reglur sem gilda um hvaða vörur megi vinna úr jurtinni og fyrirkomulagið á sölu þeirra fer eftir löggjöf hvers lands. Mörg lönd hafa þegar heimilað sölu á vörum sem innihalda CBD sem annaðhvort lausasölulyf eða fæðubótarefni.
    Eftirspurn eftir aðgengi að vörum sem innihalda CBD hér á landi er nú þegar talsverð. Rétt er að bregðast við þeirri eftirspurn og heimila slíkt aðgengi, enda eru engin rök sem mæla gegn því. Efnið veldur engri vímu, það er ekki ávanabindandi og notkun þess getur verið til hagsbóta fyrir einstaklinga. Er því lagt til með þingsályktunartillögu þessari að ráðherra verði falið að gera viðeigandi breytingar á reglugerðum til þess að heimila að vörur sem innihalda CBD verði aðgengilegar í almennri sölu. Ef þess þarf leggi ráðherra einnig fram frumvarp til laga til nauðsynlegra breytinga á lögum.