Ferill 733. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
2. uppprentun.

Þingskjal 1268  —  733. mál.
Breyttur texti.





Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðir í þágu námsmanna vegna COVID-19.


Flm.: Guðmundur Andri Thorsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra, í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru vegna COVID-19-sjúkdómsins, að hafa forgöngu um að ríkisstjórnin undirbúi og hrindi í framkvæmd eftirfarandi aðgerðum í þágu námsmanna:
     1.      Námsmönnum verði tryggður réttur til atvinnuleysisbóta frá 1. júní til 31. ágúst. Lánasjóður íslenskra námsmanna móti aðgerðir til að auka fjárhagslegt svigrúm stúdenta með því að bjóða upp á framfærslustyrk fyrir júní, júlí og ágúst sem stúdentar í hlutastarfi geti nýtt sér til að framfleyta sér yfir sumarið að ákveðnum skilyrðum uppfylltum sem ráðherra yrði falið að útfæra í samvinnu við lánasjóðinn.
     2.      Aðgengi námsmanna að geðheilbrigðisþjónustu verði bætt. Geðheilbrigðisþjónusta innan þeirra háskóla sem eru með slíka þjónustu verði styrkt og sömuleiðis verði geðheilbrigðisþjónusta tryggð innan allra háskóla landsins. Einnig verði geðheilbrigðisþjónusta niðurgreidd og standi námsmönnum um allt land til boða til 1. september.
     3.      Námsmenn sem sóttu nám erlendis á vorönn 2020 geti sótt um endurgreiðslu á ferðakostnaði til Íslands. Þeir námsmenn sem sóttu nám erlendis á vorönn 2020 og geta ekki lokið önninni fái lánsupphæð sína fellda niður að ákveðnum skilyrðum uppfylltum sem ráðherra yrði falið að útfæra í samvinnu við lánasjóðinn.
     4.      Starfsnám iðnnema verði tryggt með auknu fjármagni í vinnustaðanámssjóð svo að fleiri meistarar geti tekið að sér nema. Stjórnvöld tryggi jafnframt að nemar sem verða af starfsnámssamningi fyrir 1. september geti eigi að síður lokið námi á tilskildum tíma.
     5.      Styrktarsjóðir Rannsóknamiðstöðvar Íslands (Rannís) verði efldir enn frekar, svo sem Nýsköpunarsjóður námsmanna, Rannsóknasjóður og Tækniþróunarsjóður.
    Ráðherra leggi fram frumvarp og kynni aðgerðaáætlun fyrir Alþingi í samræmi við ályktun þessa eigi síðar en 15. maí næstkomandi.

Greinargerð.

    Ljóst er að atvinnuleysi mun aukast mikið á næstu vikum og mánuðum og má reikna með því að það taki töluverðan tíma að snúa þeirri þróun við. Líkur má leiða að því að þetta ástand geri námsmönnum erfitt um vik að ganga inn í sumarstörf þetta árið. Því þurfa stjórnvöld að tryggja námsmönnum:
     a.      Rétt til atvinnuleysisbóta í sumar til að mæta þessari miklu óvissu á vinnumarkaði. Svo að hægt sé að sporna við brottfalli úr skólum skiptir miklu máli að slíkar tímabundnar atvinnuleysisbætur til námsmanna reiknist ekki til skerðingar á námslánum.
     b.      Viðunandi framfærslu með því að Lánasjóður íslenskra námsmanna móti aðgerðir til að auka fjárhagslegt svigrúm námsmanna. Sjóðurinn gæti m.a. boðið námsmönnum í hlutastarfi, sem ekki eiga kost á að nýta sér hlutabótaleiðina, þriggja mánaða framfærslustyrk til að brúa bilið yfir sumarið að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skoða þyrfti sérstaklega þann hóp sem hefur orðið fyrir tekjutapi og er með skert lán vegna tekna ársins á undan.
    Um það bil 34% íslenskra námsmanna eru foreldrar og gefur það auga leið að hjálpa verður þeim hópi sérstaklega að sjá fjölskyldum sínum farborða. 1
    Í umræðunni hefur verið varað við auknum kvíða meðal almennings í kjölfar þessa faraldurs og því þarf að tryggja námsmönnum greiðan aðgang að sálfræðiþjónustu. Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu er til staðar innan tveggja háskóla en aukið fjármagn þarf til þess að sinna auknu álagi, auk þess þarf að bæta aðgengi námsmanna að sálfræðiaðstoð um land allt með því að koma á slíkri þjónustu í öllum háskólum landsins. Samhliða því að auka almenn úrræði í sálfræðiþjónustu í samfélaginu þyrfti námsmönnum að standa til boða að fá allt að 15.000 kr. endurgreiðslu á mánuði vegna útlagðs kostnaðar við sálfræðiþjónustu, helst þyrfti að gera slíkt úrræði varanlegt en í það minnsta til 1. september.
    Námsmenn á vorönn 2020 sem komu heim úr námi erlendis eða eru enn í sínu námslandi eiga við fjölþættan vanda að stríða sem þarf að mæta svo að þessir námsmenn lendi ekki í alvarlegum fjárhagsörðugleikum sem getur leitt til þess að þeir þurfi að hætta í námi. Hafi námsmenn þurft að leggja út fyrir miklum ferðakostnaði vegna ferðalaga frá námslandi til Íslands væri æskilegt að þeim gæfist kostur á endurgreiðslu þess kostnaðar frá lánasjóðnum. Sjái námsmenn sér ekki fært að ljúka vorönn vegna þessa ástands ættu þeir að eiga kost á að fá lánsupphæð sína hjá lánasjóðnum niðurfellda. Þessar aðgerðir eru mikilvægar til þess að draga úr brottfalli íslenskra námsmanna úr námi bæði hérlendis og erlendis. Afleiðingar þess geta reynst námsmönnum verulega þungbærar til lengri tíma. Mikilvægt er í þessu ástandi að halda áfram að styðja við nýsköpun og menntaþróun hér á landi með því að veita námsmönnum, sem kjósa að stunda nám bæði erlendis og hér á landi, aukið svigrúm í því árferði sem nú gengur yfir á heimsvísu.
    Staða iðnnema er sérstaklega viðkvæm vegna COVID-19. Stór hluti af námi iðnnema er í formi starfsnáms og treysta iðnnemar á að bóklegt og verklegt nám sé kennt samtímis. Án starfssamnings er nám iðnnema í hættu. Tryggja þarf aukið fjármagn í vinnustaðanámssjóð Rannís svo að unnt sé að gera fleiri meisturum kleift að taka við iðnnemum í þessu ástandi. Þá þurfa þeir iðnnemar sem missa samning fyrir 1. september að eiga kost á því að ljúka sínu námi með öðrum hætti á tilskildum tíma. Með því er hægt að koma í veg fyrir brottfall úr þessum mikilvægu námsgreinum. Samband íslenskra framhaldsskólanema hefur vakið sérstaka athygli á þessum vanda og hafa sambærilegar aðgerðir komist til framkvæmda á Norðurlöndum.
1     database.eurostudent.eu/