Ferill 305. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 578  —  305. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þórunni Egilsdóttur um transteymi barna- og unglingageðdeildar Landspítala.


     1.      Hefur transteymi barna- og unglingageðdeildar Landspítala verið fullmannað?
    Transteymi barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL) hefur ekki verið fullmannað frá ársbyrjun 2020, en sérhæfðir starfsmenn sem störfuðu innan teymisins létu af störfum á árinu 2019. Transteymið hefur þó verið starfandi þannig að þverfaglegt teymi stjórnenda á BUGL, ásamt öðrum fagaðilum göngudeildar, hafa sinnt málum skjólstæðinga þess.

     2.      Hefur fengist fagmenntað starfsfólk fyrir teymið?
    Hinn 1. desember 2020 var ráðið í stöðu teymisstjóra við teymið. Viðkomandi er að hefja aðlögunar- og þjálfunarferli. Ekki hefur náðst að ráða sálfræðing eða aðra fagaðila með löggilt starfsleyfi frá landlæknisembættinu í teymið, þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar.

     3.      Hafa öll börn fengið þá þjónustu hjá transteyminu sem þörf hefur verið á síðastliðin tvö ár? Ef ekki, hvaða þjónusta hefur verið boðin í staðinn?
    Öll börn sem hafa þurft þjónustu transteymis BUGL hafa fengið hana. Flest barnanna sem vísað er í transteymi BUGL þarfnast þjónustu göngudeildarteyma, samhliða þjónustu vegna kynmisræmis, vegna geð- og þroskaraskana sem þarfnast greiningar og/eða meðferðar. BUGL álítur það eitt af hlutverkum sínum, samhliða ráðgjöf og meðferð vegna kynmisræmis, að tryggja geðrænan stöðugleika og betri líðan barnsins og BUGL sér til þess að sú þjónusta sem þarf til þess að tryggja betri líðan barna sé einnig veitt.

     4.      Hvaða þjónusta er veitt af hálfu barna- og unglingageðdeildar Landspítala fyrir transbörn á landsbyggðinni?
    Barna- og unglingageðdeild Landspítala sinnir börnum á landsvísu. Varðandi börn sem upplifa kynmisræmi og búa á landsbyggðinni gilda sömu skilyrði og um þjónustu og fyrir börn á höfuðborgarsvæðinu.

     5.      Hve mörg börn undir 18 ára aldri hafa hafið kynleiðréttingarferli með lyfjameðferð?
    Allmörg börn hefja lyfjameðferð fyrir 18 ára aldur, oftar er hafin kynhormónabælandi meðferð en nokkur börn eldri en 16 ára hafa hafið meðferð með krosshormónum. Gagnagrunnur til að taka út slíkar tölur með skjótum hætti er ekki til staðar.

     6.      Hve mörg börn undir 18 ára aldri hafa undirgengist skurðaðgerð sem lið í kynleiðréttingarferli?
    Engin börn hafa undirgengist skurðaðgerð sem lið í kynleiðréttingarferli, fyrir 18 ára aldur, á meðan þau eru í þjónustu BUGL.

     7.      Hve langur tími leið frá fyrsta viðtali þar til barn hóf lyfjameðferð?
    Börn sem vísað er í transteymi hafa mismunandi þarfir. Sum þarfnast ýmissa meðferðarúrræða, svo sem fjölskyldu, hóp- og einstaklingsmeðferða. Hvert mál er einstakt og því þarf að gera einstaklingsmiðaða meðferðaráætlun. Það gerir erfitt um vik að mæla meðaltíma frá því að barn kemur í fyrsta viðtal og þar til lyfjameðferð hefst. Samkvæmt alþjóðlegum vinnuleiðbeiningum sem gefnar eru út af WPATH (The World Professional Association for Transgender Health) eru gerðar ákveðnar kröfur um stöðugleika í nýju kynhlutverki og meðferð vegna geðraskana áður en til lyfjameðferðar kemur. BUGL hefur fylgt því verklagi. Það getur tekið mislangan tíma að uppfylla þessi skilyrði. Lyfjameðferð sem veitt er vegna kynmisræmis er á ábyrgð innkirtlasérfræðinga barna í samvinnu við transteymi BUGL.
    Niðurstaða úttektar á greiningum skjólstæðinga teymisins á árunum 2012–2019 sýnir að skjólstæðingar, sem vísað hefur verið til teymisins, hafa jafnframt verið að glíma við geðrænan vanda og þroskavanda, svo sem áföll, þunglyndi, kvíða, alvarlegan sjálfskaða og sjálfsvígshugsanir sem tengjast ekki endilega erfiðleikum tengdum upplifðu kynmisræmi.

     8.      Hve mörgum börnum hefur verið synjað um lyfjameðferð?
    Meðferð í transteymi BUGL felst m.a. í því að tryggja geðrænan stöðugleika og betri líðan samhliða fræðslu og ráðgjöf. Það ferli tekur mislangan tíma, eins og áður segir. Þegar talað er um lyfjameðferð getur um tvenns konar íhlutun verið að ræða. Annars vegar er hormónabælandi meðferð sem er afturkræf meðferð. Meginmarkmið þeirrar meðferðar er að stöðva kynþroska og gefa börnum/unglingum tíma til að skoða betur afstöðu sína og vilja til frekari inngripa. Þessi meðferð er ekki án aukaverkana. Hins vegar er um að ræða meðferð með krosshormónum. Sú meðferð framkallar annars stigs kyneinkenni þess kyns sem viðkomandi óskar að lifa í og sum af þeim einkennum eru óafturkræf. Þeir skjólstæðingar sem til BUGL leita geta verið komnir mislangt í kynþroska og þarfir þeirra eru því mismunandi. Í sumum tilvikum á kynhormónabælandi meðferð ekki við, sem dæmi ef kynþroska er lokið. Ákvarðanir varðandi lyfjameðferð eru teknar í transteyminu í samráði við innkirtlalækni, barn og forsjáraðila. Varðandi krosshormónameðferð er slík meðferð að öllu jöfnu ekki veitt börnum yngri en 16 ára. Áður en lyfjameðferð með krosshormónum hefst þarf ákveðnum skilmerkjum að vera náð. Til dæmis þarf viðkomandi að lifa í upplifðu kyni í ákveðinn tíma, eða í um 1–2 ár. Jafnframt þarf geðrænt ástand að vera stöðugt.