Ferill 396. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 925  —  396. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um kostnað vegna skipunar dómara við Landsrétt.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna skipunar dómara við Landsrétt, sundurliðað eftir eftirfarandi liðum:
     a.      sérfræðiráðgjöf til dómsmálaráðuneytisins í aðdraganda skipunar dómara,
     b.      dæmdur málskostnaður vegna mála er tapast hafa fyrir íslenskum dómstólum,
     c.      dæmdur málskostnaður vegna dóma Mannréttindadómstóls Evrópu,
     d.      dæmdur málskostnaður vegna dóma yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu,
     e.      dæmdar miska- og/eða skaðabætur er íslenska ríkinu ber samkvæmt dómum að greiða umsækjendum um dómarastarf,
     f.      umsamdar miska- og/eða skaðabætur er íslenska ríkinu ber samkvæmt samningum við ríkislögmann að greiða umsækjendum um dómarastarf,
     g.      kostnaður Landsréttar vegna settra dómara í fjarveru fjögurra dómara í leyfi frá Landsrétti,
     h.      skaða- og/eða miskabætur sem íslenska ríkinu kann að vera gert með dómi að greiða dómurum sem skipaðir voru við Landsrétt en fóru síðar í leyfi,
     i.      sérfræðiráðgjöf til dómsmálaráðuneytisins í aðdraganda og í kjölfar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu og yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu,
     j.      þýðingakostnaður íslenska ríkisins vegna málareksturs fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu,
     k.      annar mögulegur kostnaður íslenska ríkisins?

    Beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna skipunar dómara við Landsrétt, sundurliðað eftir umbeðnum liðum.

a. Sérfræðiráðgjöf til dómsmálaráðuneytisins í aðdraganda skipunar dómara.
    Enginn kostnaður greiddur.

b. Dæmdur málskostnaður vegna mála er tapast hafa fyrir íslenskum dómstólum.
    Málskostnaður sem íslenska ríkinu var gert að greiða samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 591/2017, Ástráður Haraldsson gegn íslenska ríkinu: 1.000.000 kr.
    Kærumálskostnaður sem íslenska ríkinu var gert að greiða samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 451/2017, Ástráður Haraldsson gegn íslenska ríkinu: 800.000 kr.
    Málskostnaður sem íslenska ríkinu var gert að greiða samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 592/2017, Jóhannes Rúnar Jóhannsson gegn íslenska ríkinu: 1.000.000 kr.
    Kærumálskostnaður sem íslenska ríkinu var gert að greiða samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 452/2017, Jóhannes Rúnar Jóhannsson gegn íslenska ríkinu: 800.000 kr.
    Málskostnaður sem íslenska ríkinu var gert að greiða í máli Jóns Höskuldssonar gegn íslenska ríkinu: 3.500.000 kr., sbr. dóm Hæstaréttar frá 11. febrúar 2021 í máli nr. 23/2020.
    Málskostnaður sem íslenska ríkinu var gert að greiða í máli Eiríks Jónssonar gegn íslenska ríkinu: 3.500.000 kr., sbr. dóm Hæstaréttar frá 11. febrúar 2021 í máli nr. 22/2020.

c.     Dæmdur málskostnaður vegna dóma Mannréttindadómstóls Evrópu,
    Sjá svar við d-lið.

d.     Dæmdur málskostnaður vegna dóma yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu.
    Dæmdur málskostnaður sem íslenska ríkinu var gert að greiða samkvæmt dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 26374/18, Guðmundur Andri Ástráðsson gegn Íslandi: 20.000 evrur.

e. Dæmdar miska- og/eða skaðabætur er íslenska ríkinu ber samkvæmt dómum að greiða umsækjendum um dómarastarf.
    Miskabætur samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 591/2017, Ástráður Haraldsson gegn íslenska ríkinu að meðtöldum dráttarvöxtum: 743.066 kr.
    Miskabætur samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 592/2017, Jóhannes Rúnar Jóhannsson gegn íslenska ríkinu að meðtöldum dráttarvöxtum: 743.066. kr.
    Miskabætur samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands, frá 11. febrúar 2021, í máli nr. 23/2020, Jón Höskuldsson gegn íslenska ríkinu: 1.000.000 kr. auk dráttarvaxta frá 6. mars 2018 til greiðsludags og skaðabætur 8.500.000 kr. með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2018 til 6. mars 2018 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
    Með dómi Hæstaréttar Íslands, frá 11. febrúar 2021, í máli nr. 22/2020, Eiríkur Jónsson gegn íslenska ríkinu var viðurkennd skaðabótaskylda íslenska ríkisins gagnvart Eiríki.

f. Umsamdar miska- og/eða skaðabætur er íslenska ríkinu ber samkvæmt samningum við ríkislögmann að greiða umsækjendum um dómarastarf.
    Sátt við Eirík Jónsson um greiðslu miskabóta: 700.000 kr.

g. Kostnaður Landsréttar vegna settra dómara í fjarveru fjögurra dómara í leyfi frá Landsrétti.
    Kostnaður Landsréttar í árslok 2020 var 73.064.583 kr.

h. Skaða- og/eða miskabætur sem íslenska ríkinu kann að vera gert með dómi að greiða dómurum sem skipaðir voru við Landsrétt en fóru síðar í leyfi.
    Ekki er unnt að segja til um hvaða bætur kunni hugsanlega að verða greiddar.

i. Sérfræðiráðgjöf til dómsmálaráðuneytisins í aðdraganda og í kjölfar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu og yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu.
    Vegna niðurstöðu MDE og yfirdeildar samtals 36.096.084 kr.

j. Þýðingakostnaður íslenska ríkisins vegna málareksturs fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu.
    Íslensk þýðing dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 26374/18, Guðmundur Andri Ástráðsson gegn Íslandi: 1.146.671 kr.
    Þýðing á íslenskum dómum, nefndarálitum og öðrum gögnum samtals 5.259.373 kr. (1.105.962 kr. fyrir undirrétti og 4.153.411 kr. fyrir yfirdeild).

k. Annar mögulegur kostnaður íslenska ríkisins.
    Hér er ótalinn kostnaður af starfi dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti dómara og starfsmanns hennar, kostnaður vegna auglýsinga og annar slíkur kostnaður sem til féll á undirbúningsstigi.