Ferill 730. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1373  —  730. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um fulltrúa Hæstaréttar í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum stjórnvalda.


    Leitað var til Hæstaréttar Íslands til að svara fyrirspurninni.

1.         Hvaða viðmið eru höfð til grundvallar þegar Hæstiréttur tilnefnir starfsmenn lagadeilda háskólanna í nefndir, ráð og stjórnir á vegum stjórnvalda?
    Hæstiréttur Íslands leggur áherslu á að tilnefna ávallt hæfustu einstaklingana til að takast á við þau verkefni sem óskað er tilnefningar í. Jafnframt er þess gætt að verkefnunum sé dreift þannig að þau leggist á fleiri hendur. Þá er leitast við að tryggja að einstaklingar af báðum kynjum séu tilnefndir. Að því er varðar tilnefningar á starfsmönnum lagadeilda er litið til rannsóknarsviða þeirra með hliðsjón af því verkefni sem tilnefning lýtur að.
    
2.         Hversu margir starfsmenn lagadeilda hafa verið tilnefndir af Hæstarétti síðan árið 2003? Svar óskast sundurliðað eftir háskóla og ári.
    Hæstiréttur Íslands tilnefnir á hverju ári fjölda einstaklinga í nefndir ráð og stjórnir lögum samkvæmt. Allar þessar tilnefningar koma fram í ársskýrslum réttarins sem er að finna á vefsíðu hans. Starfsmenn lagadeilda eru einungis hluti þeirra sem tilnefndir eru. Árið 2020 voru tilnefndir 25 einstaklingar í nefndir, ráð og stjórnir en þar af voru starfsmenn lagadeilda þrír. Telur Hæstiréttur rök standa til að þessi verkefni verði færð frá réttinum til dómstólasýslunnar í samræmi við tillögur í skýrslu dr. Páls Hreinssonar um sjálfstæðar stjórnsýslunefndir frá því í desember 2019.
    Dómsmálaráðherra er þeirrar skoðunar að þessar tilnefningar séu arfur frá gamalli tíð og að rétt sé að fela þessi verkefni dómstólasýslunni. Lagaákvæði sem fela Hæstarétti þetta hlutverk er hins vegar að finna í löggjöf víðs vegar. Hefur dómsmálaráðherra beint því til forsætisráðuneytisins að hafa þessa ábendingu í huga við yfirlestur á frumvörpum til breytinga á lögum þar sem þessi ákvæði er að finna.

    2003:     2 úr lagadeild Háskóla Íslands.
    2004:     1 úr lagadeild Háskóla Íslands.
    2005:     2 úr lagadeild Háskóla Íslands.
    2006:     Enginn.
    2007:     Enginn.
    2008:     2 úr lagadeild Háskóla Íslands.
    2009:     1 úr lagadeild Háskóla Íslands.
    2010:     1 úr lagadeild Háskóla Íslands.
    2011:     Enginn.
    2012:     2 úr lagadeild Háskóla Íslands.
    2013:     2 úr lagadeild Háskóla Íslands.
    2014:     Enginn úr lagadeild Háskóla Íslands og 1 úr lagadeild Háskólans í Reykjavík.
    2015:     4 úr lagadeild Háskóla Íslands.
    2016:     Enginn.
    2017:     5 úr lagadeild Háskóla Íslands og 2 úr lagadeild Háskólans í Reykjavík.
    2018:     3 úr lagadeild Háskóla Íslands.
    2019:     4 úr lagadeild Háskóla Íslands.
    2020:     2 úr lagadeild Háskóla Íslands og 1 úr lagadeild Háskólans í Reykjavík.
    2021, til 20. apríl: 2 úr lagadeild Háskóla Íslands og 3 úr lagadeild Háskólans í Reykjavík.

3.         Hvaða reglur gilda um hæfi dómara sem gegna jafnframt akademískri stöðu við lagadeild háskóla þegar þeir tilnefna samstarfsmenn sína við deildina í nefndir, ráð og stjórnir á vegum framkvæmdarvaldsins?
    Um sérstakt hæfi dómara við tilnefningar gilda óskráðar reglur stjórnsýsluréttar en í þeim efnum verður einkum höfð hliðsjón af 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem fjallar um vanhæfisástæður til meðferðar stjórnsýslumáls.