Ferill 794. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1443  —  794. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um alhliða úttekt á starfsemi vist- og meðferðarheimila á Íslandi.


Flm.: Olga Margrét Cilia, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að framkvæma alhliða úttekt á starfsemi vist- og meðferðarheimila á Íslandi. Til þess setji ráðherra á fót sérstaka nefnd sem hafi eftirfarandi hlutverk:
     1.      Að framkvæma rannsókn á öllum vist- og meðferðarheimilum barna og fatlaðra einstaklinga sem starfrækt hafa verið af ríkinu, sveitarfélögum, félagasamtökum og einkaaðilum svo langt aftur sem fyrirliggjandi gögn og upplýsingar gefa tilefni til.
     2.      Að gera fyrrverandi vistfólki á umræddum vist- og meðferðarheimilum og aðstandendum þeirra kleift að koma til nefndarinnar ábendingum og kvörtunum vegna meðferðar sem þau urðu fyrir þegar þau voru vistuð á umræddum heimilum.
     3.      Að hafa frumkvæði að rannsókn á einstökum vist- og meðferðarheimilum ef nefndin telur vera tilefni til slíkrar rannsóknar.
    Ráðherra tryggi nefndinni nægt fjármagn og leggi fram lagafrumvarp um lagaheimildir hennar og starfsskyldur gerist þess þörf. Ráðherra kynni Alþingi skýrslur nefndarinnar þegar þær liggja fyrir.

Greinargerð.

    Liðna öld hafa á Íslandi verið starfrækt mörg vistheimili fyrir börn og fatlaða einstaklinga. Á undanförnum árum og áratugum hafa ítrekað verið sagðar fréttir af því að vistfólk á slíkum heimilum hafi þurft að þola slæma meðferð og oft verið beitt ofbeldi af hálfu þeirra sem störfuðu þar. Vegna fjölda frétta af slæmri meðferð og ofbeldi í garð vistfólks verður að líta svo á að um kerfislægt vandamál hafi verið að ræða frekar en einstök og afmörkuð tilvik. Þykir flutningsmönnum því rétt að gerð verði alhliða úttekt á starfsemi slíkra vistheimila til þess að upplýsa hvað hafi farið þar fram, til að hlusta á raddir þolenda, til að greina hinn kerfislæga vanda sem þar var fyrir hendi, til að læra af mistökum fortíðarinnar og til að koma í veg fyrir að fleiri þurfi að upplifa slíka meðferð á stofnunum sem ríki og sveitarfélög starfrækja.

Störf vistheimilanefndar og lög um sanngirnisbætur.
    Árið 2007 samþykkti Alþingi lög um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, nr. 26/2007, svokallaðrar vistheimilanefndar. Nefndin starfaði með hléum allt til ársins 2020 en lög um hana voru felld úr gildi með lögum nr. 148/2020 sem tóku gildi 1. janúar 2021. Samhliða brottfalli laganna samþykkti Alþingi breytingar á lögum um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007, nr. 47/2010, sem víkkuðu gildissvið laganna. Með lagabreytingunum er öllum þeim gert kleift að sækja um sanngirnisbætur sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum fyrir fötluð börn sem starfræktar voru á vegum hins opinbera og þar sem börn voru vistuð sólarhringsvistun allt til 1. febrúar 1993. Þannig var rutt úr vegi þeirri hindrun að einungis þau sem höfðu verið vistuð á vistheimili sem rannsakað hefði verið af vistheimilanefnd gætu sótt um sanngirnisbætur eins og rík krafa hafði verið um. Tengiliður vistheimila hjá dómsmálaráðuneytinu er að hluta til ábyrgur fyrir framkvæmd við mat og greiðslu sanngirnisbóta og aðstoðar hann vistmenn við framsetningu krafna og við að leita úrræða hjá opinberum aðilum vegna náms og endurhæfingar. Sjálf meðferð og úrvinnsla krafna um sanngirnisbætur er á hendi sýslumannsins á Norðurlandi eystra.
    Kveikjan að því að hafið var að kanna aðstæður og meðferð fólks á vistheimilum í umsjá íslenska ríkisins var fjölmiðlaumfjöllun um aðbúnað barna á vistheimilinu Breiðavík. Í kjölfar hennar ákvað ríkisstjórnin í febrúar árið 2007 að láta fara fram rannsókn á því hvernig rekstri vistheimilisins var háttað á árabilinu 1950–1980 og eftir atvikum hliðstæðra stofnana og sérskóla þar sem börn dvöldu. Vistheimilanefndin skilaði af sér fjórum skýrslum um vistheimili barna og fatlaðra einstaklinga. Að því loknu taldi vistheimilanefnd sig hafa lokið störfum. Forsætisráðherra ákvað hins vegar að endurskipa nefndina árið 2012 í kjölfar erindis frá Landssamtökunum Þroskahjálp þar sem farið var fram á sérstaka rannsókn á aðbúnaði fatlaðra barna á stofnunum á vegum opinberra aðila á árum áður. Á starfstíma sínum rannsakaði vistheimilanefnd alls níu heimili eða stofnanir, sem gerð voru skil í fimm skýrslum, en þau voru: Vistheimilið Breiðavík (1952–1979), Heyrnleysingjaskólinn (1947–1992), vistheimilið Kumbaravogur (1965–1984), vistheimilið Reykjahlíð (1956–1972), skólaheimilið Bjarg (1965–1967), vistheimilið Silungapollur (1950–1969), heimavistarskólinn Jaðar (1946–1973), Upptökuheimili ríkisins (1945–1971) og Unglingaheimili ríkisins (1971–1994).
    
Ákall um frekari rannsóknir.
    Þrátt fyrir fyrrgreind störf vistheimilanefndar hafa stjórnvöld ekki látið rannsaka til hlítar fjölmörg vistheimili sem starfrækt hafa verið. Þar ber hæst vistheimilin Arnarholt og Laugaland en kallað hefur verið eftir rannsókn á báðum þessum heimilum undanfarin ár. Geðhjálp og Landssamtökin Þroskahjálp hafa farið fram á að Alþingi láti gera óháða rannsókn á aðbúnaði fatlaðs fólks og fólks með geðrænan vanda undanfarin 80 ár. Steinunn Finnbogadóttir borgarfulltrúi vakti athygli á aðstæðum vistmanna á vistheimilinu Arnarholti á borgarstjórnarfundum árið 1970 og sérstök nefnd rannsakaði aðstæður og skilaði áliti árið 1971. Um tuttugu árum fyrr hafði Katrín Thoroddsen læknir gert athugasemdir við aðbúnað vistmanna og taldi Arnarholt „hvorki samræmast kröfum um mannúð né heilsufræði“. Þá sendu ellefu konur sem dvöldu á meðferðarheimilinu Laugalandi á árunum 1997–2007 félagsmálaráðherra bréf þar sem þær óskuðu eftir því að hann skipaði rannsóknarnefnd til að kanna starfsemi Laugalands í forstöðumannstíð Ingjalds Arnþórssonar. Barnaverndarstofa hefur yfirfarið öll gögn sem til eru um starfsemina á Laugalandi. Sú skoðun hefur leitt í ljós að á starfstíma heimilisins komu fram vísbendingar um óeðlilegar starfsaðferðir. Barnaverndarstofa taldi að hægt hefði verið að fylgja eftir þessum vísbendingum og bregðast við með markvissari hætti en gert var.
    Flutningsmenn þessarar tillögu telja fullt tilefni til að bregðast við því ákalli sem hér birtist og láta framkvæma þær rannsóknir sem kallað er eftir. Þessar kröfur sýna jafnframt að þrátt fyrir fyrri störf vistheimilanefndar eru enn mörg vistheimili sem þörf er á að kanna. Meðal annarra heimila sem ekki hafa verið rannsökuð undanfarin ár, en ákall er um að athuguð verði, má nefna Bitru sem var rekið bæði sem vistheimili fyrir fatlaða og fangelsi á níunda áratug síðustu aldar. Þá eru nokkur heimili sérstaklega nefnd í skýrslu vistheimilanefndar um Kópavogshæli. Þetta eru Sólheimar í Grímsnesi frá því um 1930; Kleppjárnsreykir í Borgarfirði sem ríkið rak frá 1944; Tjaldanes í Mosfellssveit sem tók til starfa árið 1965 sem sjálfseignarstofnun en heilbrigðisráðuneytið rak á árunum 1973–2004; og Sólborg á Akureyri sem tók til starfa sem vistheimili á vegum Styrktarfélags vangefinna á Norðurlandi árið 1970 og var rekið sem sjálfseignarstofnun allt þar til ríkinu voru afhentar eignir heimilisins árið 1984. Stofnanirnar Bræðratunga á Ísafirði og Vonarland á Egilsstöðum voru einnig nefndar í skýrslu vistheimilanefndar en þó gerður fyrirvari um sérstöðu þeirra þar sem þær virðast á mörkum þess að hafa verið vistheimili eða sambýli. Einnig var talið upp heimilið Skálatún sem tók til starfa 1954 en starfsemin þróaðist smátt og smátt yfir í nokkur sambýli. Þá minnti vistheimilanefnd á að rekin voru meðferðarheimili fyrir einhverf börn, fyrst að Trönuhólum í Reykjavík og síðan að Sæbraut á Seltjarnarnesi sem síðar var breytt í sambýli fyrir fatlað fólk. Jafnframt voru fötluð börn vistuð á fjölskylduheimili Öskjuhlíðarskóla og vistheimili fyrir börn við Holtaveg og Árland. Auk fyrrnefndra stofnana sem sérstaklega voru fyrir fötluð börn og/eða fatlaða á fullorðinsaldri benti nefndin á að fötluð börn voru vistuð ásamt öðrum börnum á vöggustofu Thorvaldsensfélagsins.
    Til viðbótar við framangreind vistheimili hefur frá upphafi 20. aldar nokkur fjöldi vistheimila verið starfræktur sem ástæða er til að kanna jafnvel þótt engar kvartanir hafi komið fram vegna slæmrar meðferðar. Ætla má að vegna stærðar þeirra hafi mikill fjöldi barna eða fatlaðra á fullorðinsaldri verið vistaður þar. Í ljósi þess kerfislæga vanda sem virðist hafa hrjáð íslensk vistheimili er ekki síður ástæða til að taka þau til skoðunar. Þar má finna þó nokkur vistheimili sem einkaaðilar og félagasamtök hafa rekið en meðal þeirra má nefna Vorblómið (1928–1938), Silungapoll á vegum Oddfellowreglunnar (frá 1931), heimavist Laugarnesskóla (1935–1962), vistheimili Barnavinafélagsins Sumargjafar (frá 1938), Hlaðgerðarkot í Mosfellssveit (1964–1974) og heimavistarskólann í Reykjadal (frá 1969). Þá má einnig nefna önnur upptöku- og vistheimili á vegum Reykjavíkurborgar, þ.e. Upptökuheimilið að Dalbraut 12 (1966–1986), Vistheimili barna í Hraunbergi 15 (1986–2001), Vistheimili barna við Mánagötu 25 (1986–1993) og Vistheimilið við Mánagötu (1993–2001) en starfsemin þar var síðar sameinuð vistheimilinu að Laugarásvegi 39. Í fjölmiðlum hafa einnig komið fram vísbendingar um að þörf sé á að kanna nokkur vistheimili fyrir fatlaða til viðbótar við þau sem þegar hafa verið nefnd en þar má nefna Hólabrekku, Kerlingardal, Skaftholt, Blindraskólann, Höfðaskóla, Lýsuhól, Botn, Lyngás, Ás í Hveragerði og Fellsenda.

Störf nefndarinnar.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að forsætisráðherra verði falið að skipa nefnd til að framkvæma alhliða úttekt á starfsemi þeirra vist- og meðferðarheimila sem starfrækt hafa verið hér á landi. Sum þeirra hafa þegar verið tilgreind hér en önnur ekki og kemur það í hlut nefndarinnar að skilgreina nánar hversu ítarlega rannsókn þarf að framkvæma á hverjum stað fyrir sig. Fer það væntanlega eftir umfangi starfseminnar hverju sinni og því hversu langt er liðið frá því að starfsemi lauk á hverju heimili.
    Enn fremur er nefndinni falið, og er það hluti af rannsóknarhlutverki hennar, að taka við kvörtunum og ábendingum frá fyrrverandi vistfólki og aðstandendum þeirra. Mikilvægt er að til séu skýrar leiðir fyrir þá aðila, sem hafa orðið fyrir brotum eða hafa upplýsingar um brot á vist- og meðferðarheimilum, að koma athugasemdum á framfæri.
    Í þriðja lagi er kveðið á um að nefndin skuli hafa frumkvæði að rannsóknum telji hún tilefni til. Af því leiðir að nefndin leggi ekki niður störf þegar skýrslugerð er lokið heldur verði á einhvern hátt tryggt að hún geti að nýju hafið frumkvæðisrannsókn á einstaka vist- og meðferðarheimili ef upplýsingar gefa tilefni til þess.