Ferill 216. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 218  —  216. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2020 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.


Frá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2020 frá 7. febrúar 2020 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/1042 frá 23. júlí 2018 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 965/2012 að því er varðar tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferðir er varða stuðningsáætlanir, sálrænt mat á flugáhöfn, sem og kerfisbundna og handahófskennda skimun fyrir geðvirkum efnum til að tryggja heilbrigði flugliða og öryggis- og þjónustuliða og að því er varðar uppsetningu á landslagsgreiningarkerfi í nýlega framleiddar flugvélar, knúnar hverfihreyflum með 5700 kg skráðan hámarksflugtaksmassa eða minna og sem samþykktar hafa verið til að bera sex til níu farþega.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2020 frá 7. febrúar 2020 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (sbr. fskj. I), og fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/1042 frá 23. júlí 2018 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 965/2012 að því er varðar tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferðir er varða stuðningsáætlanir, sálrænt mat á flugáhöfn, sem og kerfisbundna og handahófskennda skimun fyrir geðvirkum efnum til að tryggja heilbrigði flugliða og öryggis- og þjónustuliða og að því er varðar uppsetningu á landslagsgreiningarkerfi í nýlega framleiddar flugvélar, knúnar hverfihreyflum með 5700 kg skráðan hámarksflugtaksmassa eða minna og sem samþykktar hafa verið til að bera sex til níu farþega (sbr. fskj II).
    Þar sem innleiðing fyrrnefndrar gerðar krefst breytinga á lögum var ákvörðun nr. 25/2020 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni gerðanna sem hér um ræðir. Þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.

2. Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þó er um að ræða tiltölulega lágt hlutfall af heildarfjölda þeirra gerða sem ESB samþykkir. Í skýrslu utanríkisráðuneytisins, „Gengið til góðs – skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins“, kemur fram að frá árinu 1994 til ársloka 2016 hafi Ísland tekið upp 13,4% þeirra gerða sem ESB samþykkti á sama tímabili.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Almennt hafa íslensk stjórnvöld einungis gert stjórnskipulegan fyrirvara þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Helstu efnistök reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar nr. 2018/1042 frá 23. júlí 2018.
    Markmið reglugerðarinnar er að stemma stigu við þeirri hættu sem kann að stafa af því að flugverjar sinni störfum sínum um borð í loftfari undir áhrifum geðvirkra efna eða ef þeir eru ófærir um að sinna störfum sínum vegna meiðsla, þreytu, lyfja, veikinda eða af öðrum keimlíkum orsökum. Tiltekur reglugerðin m.a. skyldu flugrekenda til að setja sér stefnu um forvarnir og verkferla til að koma í veg fyrir misnotkun geðvirkra efna og skyldu lögbærra landsyfirvalda (Samgöngustofa hér á landi) til að tryggja skimun fyrir geðvirkum efnum hjá flugverjum, þ.m.t. alkóhóli, í skoðunum loftfara á hlaði.
    Í reglugerðinni er einnig fjallað um framkvæmd sálfræðimats á flugmönnum áður en þeim er heimilt að hefja störf og innleiðingu á stuðningsáætlun fyrir flugmenn sem ætlað er að styðja við og hjálpa þeim við að þekkja og bregðast við hvers konar vanda sem gæti haft áhrif á getu þeirra til að sinna störfum sínum af öryggi. Þá tiltekur reglugerðin einnig kröfur til landslagsgreiningarkerfis (e. terrain awareness and warning system) fyrir flugvélar sem eru með hámarksflugtaksmassa yfir 5700 kg.
    Efni reglugerðarinnar byggist að miklu leyti á viðbrögðum við Germanwings flugslysinu svonefnda sem átti sér stað árið 2015.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Ekki er lagaheimild í núgildandi lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum, fyrir þeirri skimun fyrir geðvirkum efnum sem kveðið er á um í reglugerðinni. Sú lagaheimild verður fengin í nýjum loftferðalögum, en samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hyggst leggja fram frumvarp til nýrra loftferðalaga á 151. löggjafarþingi. Reglugerðin yrði í kjölfarið innleidd með breytingu á reglugerð um tæknikröfur og stjórnsýslureglur í tengslum við starfrækslu loftfara, sbr. reglugerð nr. 237/2014 sem ber sama heiti.

5. Samráð við Alþingi.
    Í reglum Alþingis um þinglega meðferð EES-mála er kveðið á um að ESB-gerðir, sem fyrirhugað er að fella inn í EES-samninginn en taka ekki gildi á Íslandi nema að undangengnu samþykki Alþingis, skuli sendar utanríkismálanefnd til umfjöllunar. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/1042 var send utanríkismálanefnd til samræmis við framangreindar reglur. Í bréfi frá utanríkismálanefnd Alþingis dagsett 19. desember 2019, kemur fram að nefndin hafi fjallað um gerðina og ekki hafi verið gerðar athugasemdir við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn.


Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2020 frá 7. febrúar 2020 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.


www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s0218-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/1042 frá 23. júlí 2018 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 965/2012 að því er varðar tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferðir er varða stuðningsáætlanir, sálrænt mat á flugáhöfn, sem og kerfisbundna og handahófskennda skimun fyrir geðvirkum efnum til að tryggja heilbrigði flugliða og öryggis- og þjónustuliða og að því er varðar uppsetningu á landslagsgreiningarkerfi í nýlega framleiddar flugvélar, knúnar hverfihreyflum með 5700 kg skráðan hámarksflugtaksmassa eða minna og sem samþykktar hafa verið til að bera sex til níu farþega.


www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s0218-f_II.pdf