Ferill 268. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 298  —  268. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um könnun á hagkvæmni strandflutninga.


Flm.: Ásmundur Friðriksson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigurður Páll Jónsson, Guðjón S. Brjánsson, Ari Trausti Guðmundsson.


    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að láta kanna hagkvæmni þess að halda úti tveimur strandflutningaskipum til að flytja vörur um landið með það að markmiði að minnka vöruflutninga á þjóðvegum og draga þannig úr sliti á vegakerfinu. Í úttektinni verði m.a. skoðaður möguleiki á að nýta skipin til sorpflutninga og sem björgunarskip í neyðartilfellum. Jafnframt verði skoðuð hugsanleg aðkoma ríkis og sveitarfélaga að slíku verkefni.
    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skili skýrslu og kynni Alþingi niðurstöður hennar eigi síðar en 1. apríl 2021.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 150. löggjafarþingi (367. mál) og er nú lögð fram að nýju óbreytt.
    Markmiðið með tillögunni er að strandflutningar verði skoðaðir sem hagkvæmur og umhverfisvænn kostur í vöruflutningum þannig að hægt verði að flytja þungaflutninga af vegakerfinu.
    Með vaxandi umferð hefur slit á vegum aukist til muna en þar vega þungaflutningar mest. Þungar bifreiðar slíta þjóðvegum landsins margfalt á við léttar fólksbifreiðar. Þungaumferð brýtur niður burðarlög veganna sem veldur því að með tímanum minnkar burðarþol þeirra og viðhaldsþörf eykst. Talið er að áhrif þyngdar hafi fjórða veldis áhrif á niðurbrot veganna. Þetta þýðir að öxull sem er 10 tonn að þyngd hefur 10 þúsund sinnum meiri áhrif á niðurbrot vega en öxull sem er 1 tonn.
    Strandsiglingar væru nútímalegri og umhverfisvænni kostur en landflutningar þar sem mögulegt er að tvö vel búin skip sem sigla í kringum landið, annað réttsælis og hitt rangsælis, í vikulegri og tveggja vikna áætlun losi minni koltvísýring en losaður er með landflutningi. Hægt væri að hafa vélbúnaðinn knúinn að hluta eða öllu leyti með vistvænu eldsneyti, t.d. náttúrugasi (LNG) eins og metani. Skipin sem yrðu notuð þyrftu að uppfylla ýtrustu kröfur um öryggi og vera útbúin tveimur öflugum Azimuth-skrúfum ásamt tveimur öflugum hliðarskrúfum, þola vindálag á hlið allt að 25 m/sek. og hafa fulla stjórnhæfni við slíkar aðstæður, m.a. til þess að komast inn í litlar hafnir við erfið skilyrði. Með slíku vélarafli yrði dráttargeta skipanna um 80 tonn (e. bollard pull).
    Eitt stærsta og mest krefjandi vandamál sveitarfélaga á Íslandi í nánustu framtíð er flutningur, losun og urðun sorps. Heildarmagn úrgangs er komið yfir milljón tonn á ári, en miðað við þróun síðustu ára má gera ráð fyrir að flutningar á vegum landsins á úrgangi til endurvinnslu, útflutnings eða til brennslu í sorpbrennslu aukist. Þrátt fyrir að settum markmiðum um endurnýtingu og endurvinnslu sorps verði náð má gera ráð fyrir að ávallt verði nauðsynlegt að losa sig við um 10–20% alls úrgangs með öðrum hætti, svo sem með brennslu eða urðun. Stefnt er að því að allri urðun sorps verði hætt á Íslandi innan fárra ára. Það eru því aðeins tveir kostir í stöðunni, að flytja sorpafganginn til útlanda til förgunar þar eða reisa hér hæfilega stóra fullkomna sorporkustöð til brennslu á sorpi. Aðeins ein sorpbrennsla á landinu stenst þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til slíkrar starfsemi. Afkastageta hennar er u.þ.b. 12.300 tonn á ári, en talið er að hér þurfi að reisa 80.000–100.000 tonna sorpbrennslu til að annast brennslu á þeim innanlandsúrgangi sem verður eftir þegar búið er að endurnýta og endurvinna það sem hægt er.
    Strandsiglingar gætu gegnt því lykilhlutverki að flytja sorp frá höfnum allt í kringum landið til förgunar. Með endurvakningu strandferða mætti færa stærstan hluta landflutninga, þ.e. annað en ferskar afurðir, í vistvænni og ódýrari farveg til sjós. Hvers konar iðnaðarframleiðslu, búslóðir og hráefni mætti færa af vegum landsins og flytja með sjófrakt og þannig minnka kolefnisspor og eldsneytiseyðslu.
    Góðar líkur eru á því að sjóflutningar yrðu mun ódýrari en landflutningar. Því gæti endurvakning strandflutninga haft bein áhrif á afkomu heimila og fyrirtækja um land allt. Í þessu sambandi þarf sérstaklega að skoða hafnargjöld við rekstur strandferðaskipa, en nú eru þau langt umfram þann kostnað sem landflutningar greiða. Strandsiglingar gætu því verið raunhæfur kostur bæði af umhverfislegum og fjárhagslegum ástæðum.
Það eru fleiri kostir við rekstur tveggja strandferðaskipa, en þau mætti t.d. nýta sem viðbótaröryggi fyrir sjófarendur og íbúa í dreifbýli. Skoða þyrfti kostina við að útbúa strandferðaskip með öflugan slökkvibúnað á brúarþaki, tilbúna dráttartaug í kanal neðst fyrir miðju skipi, aðstöðu fyrir mikinn fjölda fólks um borð vegna náttúruhamfara í landi og þyrlupall og eldsneytisgeyma fyrir þyrluolíu. Það væri mikið öryggismál fyrir sjófarendur og íbúa bæjarfélaga við hafnir sem nú hafa litla eða enga tengingu hver við aðra ef skip væri til taks á sífelldum hringferðum sínum um landið alla daga ársins, sérstaklega þegar válynd veður geisa og ófært er bæði með flugi og bíl.
    Flutningsmenn hafa ekki skoðað eignarfyrirkomulag strandferðaskipa en telja að samstarfsverkefni hins opinbera og einkaaðila væri hagkvæmasti kosturinn. Verkefnið yrði þá samstarf ríkis og sveitarfélaga og fyrirtækja og/eða einstaklinga með þekkingu á strandflutningum og yrði boðið út sem samvinnuleiðarverkefni (e. public private partnership). Leggja flutningsmenn því til að aðkoma ríkis og sveitarfélaga að slíku verkefni verði skoðuð sérstaklega.
    Flutningsmenn leggja til að strandflutningar verði þegar skoðaðir sem framtíðarlausn á stærstum hluta flutninga allt í kringum landið með tilheyrandi sparnaði og minni kolefnislosun og að niðurstöðum um þennan valkost verði skilað eigi síðar en 1. apríl 2021.