Ferill 412. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 600  —  412. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á vegalögum, nr. 80/2007, með síðari breytingum (framlenging).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


1. gr.

    Í stað ártalsins „2020“ í ákvæði til bráðabirgða í lögunum kemur: 2021.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Samkvæmt vegalögum skal Vegagerðin sjá um gerð og viðhald þjóðvega sem eru ætlaðir almenningi til frjálsrar umferðar. Sveitarfélög skulu hafa umsjón með sveitarfélagsvegum en það eru vegir sem teljast ekki þjóðvegir skv. 8. gr. laganna. Þegar vegalögin voru sett árið 2007 var skilgreiningu á stofnvegum breytt, sem eru ein tegund þjóðvega, sem leiddi til þess að tiltekinn hluti vega sem áður höfðu talist til þjóðvega í þéttbýli féllu utan skilgreiningarinnar og heyrðu því ekki lengur undir Vegagerðina. Hófust þá samningaviðræður milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaga um yfirfærslu vega, sem ekki flokkast sem þjóðvegir samkvæmt skilgreiningu laganna, til viðkomandi sveitarfélaga en þær báru ekki árangur. Heildarlengd þessara vega og vegarkafla telst nú vera 55,6 km.
    Í kjölfar endurskoðunar á vegalögum árið 2014 var samþykkt bráðabirgðaákvæði þess efnis að Vegagerðinni væri heimilt að semja við sveitarfélögin um yfirfærslu hinna svokölluðu skilavega sem færðust frá Vegagerðinni til sveitarfélaga við gildistöku laganna. Samkvæmt ákvæðinu var Vegagerðinni heimilt að annast veghald þessara vega til ársloka 2019. Vegagerðin og sveitarfélögin hafa ekki gert samning um veghaldið en Vegagerðin hefur annast veghaldið frá því að lögin voru sett.
    Við lok árs 2019 hafði aðeins tekist að ljúka samningum um yfirfærslu lítils hluta skilaveganna og var gildistími bráðabirgðaákvæðisins þá framlengdur um eitt ár, til ársloka 2020, með lögum nr. 146/2019. Var það m.a. gert með vísan til viljayfirlýsingar sem þá stóð til að ráðuneytið, Vegagerðin, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Samband íslenskra sveitarfélaga myndu undirrita þar sem fram kæmi vilji aðila til að ljúka yfirfærslu veganna á þessu ári.
    Nú liggur fyrir að viljayfirlýsingin hefur ekki verið undirrituð vegna ágreinings um efni hennar en viðræður hófust samt sem áður snemma árs milli Vegagerðarinnar og fulltrúa sveitarfélaganna um hvernig ljúka mætti yfirfærslunni. Nokkur árangur hefur náðst í þeim viðræðum, fyrst og fremst varðandi skilgreiningu á þeim vegum og vegarköflum sem teljast skulu til skilavega. Enn ber þó mikið á milli í viðræðum aðila um fjárþörf og í hvaða ástandi vegunum sem eftir eru verði skilað til viðkomandi sveitarfélaga. Er þar alls um að ræða 39,2 km, þar af 25,7 km á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst þykir að samningar um yfirfærslu skilavega nást ekki fyrir árslok 2020 en vonir standa til að hægt verði að ljúka þeim á nýju ári.
    Með frumvarpinu er lagt til að framlengdur verði sá tími sem Vegagerðin hefur samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu til að semja við sveitarfélögin um yfirfærslu veganna frá Vegagerðinni til sveitarfélaga. Lagt er til að gildistími heimildarinnar verði lengdur um eitt ár, til ársloka 2021.
    Verði frumvarpið að lögum mun Vegagerðin áfram um sinn standa straum af kostnaði við veghald vega sem færðust úr flokki stofnvega þegar lögin tóku gildi þar til yfirfærslunni er lokið, þó ekki lengur en til ársloka 2021.