Ferill 426. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 705  —  426. mál.




Beiðni um skýrslu


frá ríkisendurskoðanda um úttekt á starfsemi Vegagerðarinnar.

Frá Söru Elísu Þórðardóttur, Andrési Inga Jónssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni, Helga Hrafni Gunnarssyni, Hönnu Katrínu Friðriksson, Ingu Sæland, Jóni Þór Ólafssyni, Smára McCarthy og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.


    Með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er þess óskað að ríkisendurskoðandi geri úttekt á Vegagerðinni í samræmi við ákvæði 5. gr., 6. gr. og 6. gr. a laganna.
    Í skýrslunni verði m.a. fjallað um:
          hvernig stjórnsýslu Vegagerðarinnar hefur verið háttað og hvort tækifæri séu til úrbóta,
          hvort gæðastjórnunarkerfi stofnunarinnar skili tilætluðum árangri,
          hvort í rekstri stofnunarinnar sé stuðlað að og tryggð sem best nýting ríkisfjármuna,
          hvort framkvæmdir séu í samræmi við fjárheimildir,
          framkvæmd útboða með tilliti til laga um opinber innkaup, útboðsstefnu ríkisins og hvernig jafnræðis, meðalhófs og gagnsæis sé gætt, og hvort kröfur útboðslýsinga séu nægilega skýrar,
          hvaða gæðakröfur eru gerðar til að tryggja öryggi vegfarenda við vegaframkvæmdir sem Vegagerðin býður út,
          hvernig eftirliti og úttektum útboðinna verkefna sé háttað, þá sérstaklega varðandi gæði og frágang, og
          hvort birgðastjórnun vegaframkvæmda sé með þeim hætti að hún tryggi hraða og örugga framkvæmd verkefna.

Greinargerð.

    Vegagerðin er sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn samgöngu og sveitarstjórnarráðherra. Hlutverk hennar, eins og það er skilgreint í lögum um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, nr. 120/2012, er að byggja upp, viðhalda og reka samgöngukerfi ríkisins samkvæmt lögum. Henni er enn fremur ætlað að stuðla að öruggum sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum og að samgöngur þróist í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið. Hlutverk hennar er veigamikið í íslensku samfélagi en hún stendur vörð um öryggi vegfarenda á þjóðvegum landsins um leið og henni er falið að ráðstafa gríðarlegum fjármunum ár hvert í samgönguúrbætur um land allt. Afar miklu máli skiptir því að vel sé búið að rekstri stofnunarinnar og að hún sé rekin í samræmi við gildandi lög.
    Undanfarin misseri hefur nokkur umræða verið í samfélaginu um störf Vegagerðarinnar, í kjölfar nokkurra mála þar sem ófullkominn frágangur vega leiddi til tjóns og jafnvel dauða vegfarenda. Hefur það vakið upp spurningar um hvort starfsemi hennar sé háttað eins og best má vera. Í ljósi þess mikilvæga hlutverks sem Vegagerðin sinnir og þeirra gríðarlegu fjármuna sem henni er falið að ráðstafa í umboði ríkisins telja skýrslubeiðendur rétt að leggja til að gerð verði sjálfstæð könnun á starfsemi hennar. Með beiðni þessari er því farið fram á að ríkisendurskoðandi geri úttekt á Vegagerðinni og skili Alþingi skýrslu um starfsemi hennar þar sem nokkur nánar tilgreind atriði verði könnuð sérstaklega.
    Ríkisendurskoðandi starfar á vegum Alþingis og er ábyrgur gagnvart því við endurskoðun og eftirlit með rekstri og fjármálum ríkisins. Í úttektinni sem hér er lögð til er lagt mat á frammistöðu aðila sem fellur undir eftirlit ríkisendurskoðanda með það markmið að stuðla að úrbótum þar sem einkum er horft til tiltekinna lögmæltra þátta, sbr. 5. gr., 6. gr. og 6. gr. a laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, þar sem kveðið er á um fjárhagsendurskoðun, stjórnsýsluendurskoðun sem og eftirlit ríkisendurskoðanda með tekjum ríkisins. Í 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um stjórnsýsluendurskoðun en hún felur í sér mat á frammistöðu í tengslum við:
     a.      meðferð og nýtingu ríkisfjár,
     b.      hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins,
     c.      hvort framlög ríkisins skili þeim árangri sem að er stefnt.
    Í skýrslubeiðni þessari eru tilgreindir nokkrir þættir sem lagt er til að fjallað verði sérstaklega um, í fyrsta lagi að metnir verði þættir sem snúa að stjórnsýslu og stjórnun Vegagerðarinnar, í öðru lagi þættir sem varða meðferð almannafjár og ráðstöfun til vegaframkvæmda og í þriðja lagi þættir sem varða öryggi vegfarenda á þjóðvegum landsins og eftirlit með vegaframkvæmdum. Allt eru þetta veigamikil atriði sem ástæða er til að kanna nánar. Í ár hafa komið upp nokkur tilvik þar sem slys og tjón hafa orðið í kjölfar vegaframkvæmda á sama tíma og mikil innspýting var sett í samgönguframkvæmdir fyrr á árinu í sérstöku fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar vegna efnahagslegra áhrifa í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Hefur því líklega aldrei verið eins rík þörf og nú til að hafa eftirlit með og stuðla að nauðsynlegum úrbótum á starfsemi og skilvirkni stofnunarinnar.