Ferill 473. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 797  —  473. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um viðbrögð við dómi um uppgreiðslugjöld Íbúðalánasjóðslána.

Frá Ólafi Ísleifssyni.


     1.      Hver er fjöldi þeirra tilvika og heildarfjárhæð uppgreiðslugjalda sem ÍL-sjóður hefur innheimt af áður uppgreiddum lánum en sem samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2020 í máli nr. E-3141/2020 standast ekki áskilnað laga um húsnæðismál?
     2.      Hver er fjöldi útistandandi lána ÍL-sjóðs með skilmálum um uppgreiðslugjöld og hver væri heildarfjárhæð þeirra gjalda ef öll umrædd lán yrðu greidd upp?
     3.      Telur ráðherra yfirlýsingu á vef ráðuneytisins frá 8. desember þar sem fram kemur að fyrrgreindum dómi verði áfrýjað fela í sér bindandi viðurkenningu fyrir hönd ÍL-sjóðs á skyldu til að endurgreiða og fella niður uppgreiðslugjöld lána sjóðsins, verði niðurstaða héraðsdóms staðfest af æðri dómstólum? Ef ekki, telur ráðherra rétt að leggja það fyrir ÍL-sjóð að gefa út yfirlýsingu sama efnis?
     4.      Verði niðurstaða héraðsdóms staðfest, verður þá tryggt að allir sem hafa greitt uppgreiðslugjöld fái þau endurgreidd, óháð því hvenær þau voru greidd?
     5.      Verði niðurstaða héraðsdóms staðfest, verður þá tryggt að jafnframt verði greiddir dráttarvextir frá einum mánuði liðnum eftir innheimtu uppgreiðslugjalds í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms?
     6.      Telur ráðherra það forsvaranlegt með hliðsjón af meðalhófsreglu að halda áfram að innheimta uppgreiðslugjöld með óbreyttum hætti þrátt fyrir fyrrnefndan dóm, eins og kemur fram í fyrrnefndri yfirlýsingu? Ef svo er, með hvaða rökum?
     7.      Telur ráðherra það forsvaranlegt að því sé haldið fram í fyrrnefndri tilkynningu að hlutaðeigandi einstaklingar hafi notið „ávinnings“ af því að mega greiða 5,5% vexti af láni með verðtryggingu sem hefur hækkað um 70% eins og í fyrrnefndum dómi og jafnvel meira á elstu hlutaðeigandi lánum? Ef svo er, hvaða rök liggja að baki því að svo mikill fjármagnskostnaður geti talist ávinningur lántakenda?


Skriflegt svar óskast.