Ferill 509. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 855  —  509. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003 (EES-reglur, gjaldtaka, rafræn vöktun).

Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.



1. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna kemur ný grein, 7. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Rafræn vöktun.

    Stjórn hafnar er heimilt að viðhafa rafræna vöktun á hafnarsvæði eða taka myndir með reglulegu millibili í öryggisskyni. Henni er jafnframt heimilt að miðla upplýsingum sem þannig er aflað til notenda hafna með rafrænum hætti í rauntíma í því skyni að notendur geti fylgst með aðstæðum hafna. Þá er heimilt að miðla upplýsingum með rafrænum hætti til Vaktstöðvar siglinga vegna verkefna hennar og til lögreglu, Landhelgisgæslu Íslands og rannsóknarnefndar samgönguslysa þegar rannsakað er sakamál, mannshvarf eða samgönguslys. Ráðherra er heimilt með reglugerð að mæla fyrir um vinnslu persónuupplýsinga og skilyrði hennar.

2. gr.

    Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Hafnir innan samevrópska flutninganetsins.

    Höfnum innan samevrópska flutninganetsins er skylt að eiga samráð við notendur hafna um gjaldtöku sína. Þær skulu jafnframt veita notendum hafna upplýsingar um breytingar á eðli eða fjárhæð hafnargjalds a.m.k. tveimur mánuðum áður en breytingarnar taka gildi.
    Aðgangur að markaði til að veita hafnarþjónustu getur verið háður lágmarkskröfum um veitingu hafnarþjónustu, takmörkunum á fjölda veitenda, skyldum til að veita opinbera þjónustu og takmörkunum sem tengjast innri rekstraraðilum.
    Ráðherra skal með reglugerð tilgreina þær íslensku hafnir sem eru innan samevrópska flutninganetsins. Honum er jafnframt heimilt að mæla nánar fyrir um veitingu hafnarþjónustu og gagnsæi í fjármálum og sjálfstæði þeirra hafna í reglugerð, þ.m.t. um samráð við notendur hafna um gjaldtöku.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      Við 1. tölul. 2. mgr. 17. gr. bætist við nýr stafliður, svohljóðandi: Eldisgjald af eldisfiski í sjókvíum, þ.m.t. eldisseiði, sem umskipað er, lestaður er eða losaður í höfnum. Hafnargjald samkvæmt þessum staflið skal standa undir kostnaði við að byggja, reka, viðhalda og endurnýja viðlegumannvirki, aðstöðu við bryggjur og á hafnarbakka, þar sem við á, og almennan rekstrar- og stjórnunarkostnað. Gjöld samkvæmt þessum staflið skulu greidd af þeim sem rækta eldisfiskinn sem fer um höfn hverju sinni.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                      Gjaldtaka hafna skv. 2.–10. tölul. 2. mgr., að undanskilinni 4. mgr. 17. gr., skal miðuð að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er ásamt sameiginlegum kostnaði, eftir því sem við á.
     c.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Heimilt er að veita afslátt af gjöldum með vísan til umhverfissjónarmiða, orkunýtni eða kolefnisnýtni sjóflutninga samkvæmt nánari útfærslu í gjaldskrá. Afslættir skulu vera gagnsæir, hlutlægir og án mismununar og samrýmast samkeppnislögum.
     d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ráðherra er heimilt með reglugerð að mæla nánar fyrir um gjaldtöku hafna og afslætti af gjöldum.

4. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Gjaldtaka hafnar samkvæmt þessum kafla, að undanskilinni 3. mgr. 20. gr., skal miðuð við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er ásamt hlutdeild í sameiginlegum rekstri hafnarinnar, stofnkostnaði og kostnaði við viðhald hennar, auk þess sem heimilt er að taka tillit til arðsemi á endurmetnu eigin fé.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Heimilt er að veita afslátt af gjöldum með vísan til umhverfissjónarmiða, orkunýtni eða kolefnisnýtni sjóflutninga samkvæmt nánari útfærslu í gjaldskrá. Afslættir skulu vera gagnsæir, hlutlægir og án mismununar og samrýmast samkeppnislögum. Ráðherra er heimilt með reglugerð að mæla nánar fyrir um afslætti af gjöldum.

5. gr.

    Á eftir 1. mgr. 27. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 1. mgr. er heimilt er að kæra gjaldskrárákvarðanir hafna innan samevrópska flutninganetsins, sem varða efni reglugerðar (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir, til Samgöngustofu.

6. gr.

    Við 30. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lög þessi eru jafnframt til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir, sem vísað er til í tölul. 56z í V. kafla XIII. viðauka samningsins við Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019 frá 8. maí 2019.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Því er ætlað að innleiða ákvæði reglugerðar (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir. Í frumvarpinu er einnig að finna tvö ákvæði sem ekki tengjast innleiðingu umræddrar reglugerðar ESB. Í fyrsta lagi er í 1. gr. mælt fyrir um rafræna vöktun í höfnum og í öðru lagi er í a-lið 3. gr. mælt fyrir um eldisgjald, þ.e. gjald sem tekið er fyrir eldisfisk í sjókvíum, þ.m.t. eldisseiði, sem umskipað er, lestaður er eða losaður í höfnum. Að mati ráðuneytisins er rík þörf á ákvæðum um eldisgjald og rafræna vöktun og er því vikið frá meginreglunni um að frumvarp skuli aðeins fela í sér þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að endurspegla þá EES-skuldbindingu sem við á.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Innleiðing reglugerðar (ESB) 2017/352.
    Reglugerð (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019 frá 8. maí 2019. Reglugerðin var sett í því markmiði að stuðla að nútímalegri hafnarþjónustu, skilvirkri notkun hafna og hagstæðu fjárfestingarumhverfi til að þróa hafnir í samræmi við kröfur varðandi flutninga og vörustjórnun. Með því að bæta aðgengi að hafnarþjónustu, innleiða gagnsæi í fjármálum og kveða á um sjálfstæði hafna er ætlað að gæði og skilvirkni þjónustu við hafnarnotendur muni aukast ásamt því að draga úr kostnaði fyrir flutningsþega og stuðla að eflingu flutninga á stuttum sjóleiðum og betri samþættingu sjóflutninga við aðra flutningsmáta.
    Veiting hafnarþjónustu hér á landi er að mörgu leyti ólík því sem viðgengst í öðrum höfnum í Evrópu. Hefðbundin starfsemi hafna á Íslandi hefur um áratugaskeið falist í því að byggja og reka hafnarmannvirki, útvega nauðsynlegt bakland hafna, annast hefðbundna þjónustu við skip sem koma til eða frá höfn (festarþjónusta, sala á vatni, móttaka á sorpi, rafmagnstengingar o.fl.), hafnsöguþjónustu og dráttarbátaþjónustu. Íslenskar hafnir hafa hins vegar aldrei annast losun og lestun skipa eða rekstur farmstöðva. Þau verkefni hafa nær alfarið verið á könnu skipafélaga, fyrirtækja og skipaeigenda. Sjálfstæðir aðilar í þeim verkefnum, eins og þekkist í erlendum höfnum (e. stevedoring-fyrirtæki), eru því ekki margir á Íslandi. Þó eru nokkur fyrirtæki sem taka að sér losun og er það aðallega um að ræða losun á fiski en þau fyrirtæki starfa alfarið sem verktakar á vegum útgerðarfyrirtækja.
    Í reglugerðinni er ekki innleitt tiltekið líkan fyrir stjórnun hafna og hún hefur ekki nein áhrif á heimildir Íslands til að veita þjónustu í almannaþágu sem er ekki af efnahagslegum toga. Hægt er að viðhafa mismunandi form hafnarstjórnunar að því tilskildu að reglur þessar um veitingu hafnarþjónustu og gagnsæi í fjármálum séu virtar. Íslensk lög eru því þegar að miklu leyti í samræmi við ákvæði reglugerðar (ESB) 2017/352. Þó er þörf á því að gera lagabreytingar til að ákvæði laganna séu til samræmis við ákvæði reglugerðar (ESB) 2017/352. Er fyrirhugað að full innleiðing á ákvæðum gerðarinnar eigi sér síðan stað með reglugerð.

2.2. Rafræn vöktun.
    Á mörgum hafnarsvæðum er viðhaft myndavélaeftirlit. Þá er algengt að rauntímaefni myndavélanna sé sýnt á vefsíðum hafna í því skyni að bátaeigendur geti fylgst með bátum sínum og veðurlagi. Hafa skipstjórnarmenn sem eru á leið til hafnar einnig notað þessar upplýsingar til að sjá hvar laus pláss við hafnir eru. Þörf er á lagaheimild fyrir vinnslu persónuupplýsinga svo að gildandi réttur fullnægi kröfum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

2.3. Eldisgjald.
    Í 17. gr. hafnalaga er kveðið á um gjöld og gjaldtöku hafna samkvæmt gjaldskrá. Skiptast þessi gjöld í ýmsa flokka, svo sem hafnargjald, farþegagjald, geymslugjald, leigugjald, lóðargjald, festargjald, vigtar- og skráningargjald o.fl. Hafnargjald er sundurgreint í skipagjald, vörugjald, hafnsögugjald, leigugjald, aflagjald og gjald fyrir móttöku, meðhöndlun og förgun úrgangs og farmleifa frá skipum.
    Fiskeldisfyrirtæki eiga í viðskiptum við hafnir víðs vegar um landið. Ýmiss konar skip í þessum rekstri nýta þessar hafnir í störfum sínum og geta sum fyrrnefndra gjalda átt við eftir þeirri þjónustu sem veitt er hverju sinni. Einn þátturinn í starfsemi fiskeldisfyrirtækja varðar flutning eldisfisks um hafnir, þ.e. umskipun, lestun og losun. Sumar hafnir hafa byggt gjaldtöku vegna þessarar starfsemi í höfnum á ákvæði um aflagjald, þ.e. e-lið 1. tölul. 2. mgr. 17. gr. laganna. Þar segir að höfnum sé í gjaldskrá heimilt að innheimta aflagjald af sjávarafurðum sem umskipað er, lestaðar eru eða losaðar í höfnum. Sé gjaldið innheimt skuli gjaldið vera minnst 1,25% og mest 3% af heildaraflaverðmæti. Þó skuli gjaldið vera minnst 0,70% af heildaraflaverðmæti frystra sjávarafurða. Í framkvæmd, þegar þessu ákvæði hefur verið beitt, hefur ekki ávallt verið notast við þau viðmið um hlutfall heildarverðmætis sem nefnd eru í þessu ákvæði. Uppi er ágreiningur um lögmæti þessarar gjaldtöku þar sem hún nái samkvæmt orðum sínum til afla sjávarútvegsfyrirtækja en ekki til eldisfisks frá fiskeldisfyrirtækjum. Að mati ráðuneytisins er þörf á því að leysa úr þessari réttaróvissu.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á nýtt ákvæði, 7. gr. a um rafræna vöktun í höfnum. Þetta er annað tveggja ákvæða frumvarpsins sem er ekki til innleiðingar á reglugerð (ESB) 2017/352. Er talin þörf á þessu ákvæði til að vinnsla persónuupplýsinga byggist á viðhlítandi lagastoð. Horft hefur verið til 4. mgr. 4. gr. laga um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, nr. 120/2012, sbr. lög um breytingu á ýmsum lögum vegna laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 150/2018. Lög nr. 150/2018 vörðuðu stofnanir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og voru samin í tilefni af heildarendurskoðun á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga sem tengdist innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Í 4. mgr. 4. gr. laga um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, segir: „Vegagerðinni er heimilt að viðhafa rafræna vöktun eða taka myndir með reglulegu millibili á samgöngumannvirkjum í þeim tilgangi að stuðla að auknu samgönguöryggi. Stofnuninni er heimilt að miðla upplýsingum sem þannig er aflað til vegfarenda með rafrænum hætti að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Vegagerðinni er einnig heimilt að miðla upplýsingum til lögreglu og rannsóknarnefndar samgönguslysa með rafrænum hætti þegar rannsakað er sakamál, mannshvarf eða samgönguslys.“
    Í a-lið 3. gr. er að finna hitt ákvæði frumvarpsins sem tengist ekki innleiðingu fyrrnefndrar EES-gerðar. Þar er lagt til að nýr stafliður bætist við 1. tölul. 2. mgr. 17. gr. laganna, um eldisgjald, þ.e. gjald sem tekið er fyrir eldisfisk í sjókvíum, þ.m.t. eldisseiði, sem umskipað er, lestaður er eða losaður í höfnum. Um er að ræða þjónustugjald sem hafnir geta mælt fyrir um í gjaldskrám en í ákvæðinu er skýrt hvaða þætti í rekstri hafna gjaldinu er ætlað að standa undir. Eins og ákvæðið ber með sér er hér um afmarkað gjald að ræða sem nær ekki til annarrar starfsemi fiskeldisfyrirtækja. Þannig gilda önnur ákvæði, t.d. vigtar- og skráningargjald, skipagjald, vörugjald o.s.frv. áfram um aðra þjónustu sem veitt er til þessara fyrirtækja.
    Önnur ákvæði þessa frumvarps snúa að innleiðingu ákvæða reglugerðar (ESB) 2017/352. Sú reglugerð nær samkvæmt gildissviði sínu eingöngu til hafna innan samevrópska flutninganetsins, sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1315/2013 um viðmiðunarreglur Sambandsins varðandi uppbyggingu samevrópska flutninganetsins og um niðurfellingu á ákvörðun nr. 661/2010/ESB, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 280/2015, frá 30. október 2015. Samevrópska flutninganetið samanstendur af samgöngugrunnvirkjum og fjarvirknibúnaði ásamt ráðstöfunum sem stuðla að skilvirkri stjórnun og notkun slíkra grunnvirkja og gerir kleift að stofna og reka sjálfbæra og skilvirka flutningaþjónustu. Grunnvirki netsins nær til allra hliða samgangna, þ.m.t. járnbrauta, skipgengra vatnaleiða, vega, samgöngugrunnvirkja siglinga og hraðbrauta hafsins. Í síðastnefnda flokkinn falla meðal annars hafnir við sjó.
    Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 197/2016 frá 23. september 2016 var framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/758 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 1315/2013 að því er varðar aðlögun III. viðauka við hana tekin upp í EES-samninginn. Reglugerð (ESB) 2016/758 gerir breytingu á III. viðauka við reglugerð (ESB) 1315/2013 þannig að samevrópska flutninganetið nær til Íslands og í Noregs. Með þessari útvíkkun eru íslenskir vegir, flugvellir og hafnir færðar inn á heildarkort yfir flutninganetið. Í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019 segir að hvað EFTA-ríkin varðar skuli reglugerð (ESB) 2017/352 gilda um eftirfarandi íslenskar hafnir við sjó innan samevrópska flutninganetsins, sbr. framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/758: Faxaflóahafnir/Sundahöfn, Höfnin á Seyðisfirði, Hafnir Fjarðabyggðar/Mjóeyrarhöfn Reyðarfirði, Höfnin í Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn. Í 6. mgr. 1. gr. reglugerðar (ESB) 2017/352 segir að aðildarríkin geti einnig ákveðið að þessi reglugerð gildi um aðrar hafnir. Ekki er farin sú leið með frumvarpi þessu að ganga lengra í innleiðingu en þörf krefur og munu ákvæði reglugerðarinnar einungis gilda um hafnir innan samevrópska netsins, að undanskildum ákvæðum um umhverfisafslætti sem fjallað er um hér að aftan. Í 3. mgr. 2. gr. segir að ráðherra skuli tilgreina þær hafnir sem eru innan samevrópska flutninganetsins. Verða þessar fimm hafnir því tilgreindar í reglugerð. Þykir fara betur á því að nefna þessar hafnir sérstaklega í stjórnvaldsfyrirmælum ef breyting verður á þeim höfnum sem íslenska ríkið telur til þessa nets. Verður þá hægt að gera viðhlítandi breytingar í stjórnvaldsfyrirmælum.
    Reglugerð (ESB) 2017/352 fjallar, eins og heiti hennar ber með sér, um tvo tiltekna þætti í starfsemi hafna, annars vegar veitingu hafnarþjónustu og hins vegar um gagnsæi í fjármálum og sjálfstæði hafna. Ákvæði um veitingu hafnarþjónustu er að finna í II. kafla reglugerðarinnar. Í 1. mgr. 8. gr. reglugerðar (ESB) 2017/352 er fjallað um skipulag hafnaþjónustu. Í 2. mgr. 2. gr. þessa frumvarps er innleiðing á þessu ákvæði, þ.e. um að aðgangur að markaði til að veita hafnarþjónustu geti verið háður lágmarkskröfum um veitingu hafnarþjónustu, takmörkunum á fjölda veitenda, skyldum til að veita opinbera þjónustu og takmörkunum sem tengjast innri rekstraraðilum. Í 2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar segir að aðildarríki geti ákveðið að engin þeirra skilyrða sem um getur í 1. mgr. gildi um einn eða fleiri flokka hafnarþjónustu. Í 3. mgr. 2. gr. þessa frumvarps er ráðherra veitt heimild til að mæla nánar fyrir um veitingu hafnarþjónustu. Verður í þessari reglugerð horft til heimildar í 2. mgr. 8. gr. og einungis innleidd þau ákvæði sem þörf krefur.
    Í III. kafla reglugerðarinnar er fjallað um gagnsæi í fjármálum og sjálfstæði. Ákvæði þessi hafa ekki að geyma undanþágur sambærilegar við þær sem er að finna í II. kafla. Hafnalög eru að mestu leyti í samræmi við ákvæðin sem er að finna í reglugerðinni hvað fjármál varðar. Þó er þörf á þeim breytingum sem finna má í 1. mgr. 2. gr. um gjaldtöku hafna. Er þar kveðið á um að höfnum, sem eru innan samevrópska flutninganetsins, sé skylt að eiga samráð við notendur hafna um gjaldtöku sína. Þær skuli jafnframt veita notendum hafna upplýsingar um breytingar á eðli eða fjárhæð hafnargjalds a.m.k. tveimur mánuðum áður en breytingarnar taka gildi. Þá er í 5. gr. mælt fyrir um að ný málsgrein komi eftir 1. mgr. 27. gr. um kærur. Í 18. gr. reglugerðar (ESB) 2017/352 segir að allir aðilar sem eiga lögmætra hagsmuna að gæta skuli eiga rétt á að áfrýja ákvörðunum eða einstökum aðgerðum sem framkvæmdastjórn hafnarinnar, lögbært yfirvald eða annað viðeigandi landsyfirvald grípur til, samkvæmt þessari reglugerð. Þar sem gjaldskrárákvarðanir eru undanskildar í 1. mgr. 27. gr. hafnalaga er þörf á því að setja nýja málsgrein um að heimilt sé að kæra gjaldskrárákvarðanir hafna innan samevrópska flutninganetsins, sem varða efni reglugerðarinnar.
    Í b- og c-lið 3. gr. og 4. gr. er mælt fyrir um breytingu á 17. gr. og 20. gr. hafnalaga en í þessum greinum laganna er fjallað um gjaldtöku hafna samkvæmt gjaldskrá. Í 13. gr. reglugerðar (ESB) 2017/352 er kveðið á um hafnargrunnvirkjagjöld. Þar segir að ríki skuli tryggja að lagt sé á hafnargrunnvirkjagjald. Þetta skuli ekki koma í veg fyrir að veitendur hafnarþjónustu, sem nýta sér grunnvirki hafnarinnar, leggi á hafnarþjónustugjöld. Nánar er kveðið á um hafnargrunnvirkjagjöld í 3. mgr. ákvæðisins. Í 4. mgr. segir að hafnargrunnvirkjagjöld megi vera breytileg í samræmi við efnahagsáætlun hafnarinnar og stefnu hennar á sviði landnotkunarskipulags, m.a. í tengslum við tiltekna flokka notenda, eða í því skyni að stuðla að skilvirkari notkun hafnargrunnvirkja, flutningum á stuttum sjóleiðum eða miklum árangri í umhverfismálum, orkunýtni eða kolefnisnýtni flutningsaðgerða, sbr. þó 3. mgr. Viðmiðanir um slíkan breytileika skuli vera gagnsæjar, hlutlægar og án mismununar sem og samrýmast samkeppnislögum, þ.m.t. reglum um ríkisaðstoð. Með hafnargrunnvirkjagjöldum sé heimilt að taka tillit til ytri kostnaðar og þau geti verið breytileg með hliðsjón af viðskiptaháttum.
    Talið er að ákvæði hafnalaga uppfylli þær kröfur sem reglugerð (ESB) 2017/352 gerir til hafnargjalda. Hins vegar er ekki ákvæði um að höfnum sé heimilt að veita afslætti eins og 4. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar heimilar en í 2. mgr. 20. gr. hafnalaga segir að gjaldtaka samkvæmt kaflanum skuli miðuð við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er ásamt hlutdeild í sameiginlegum rekstri hafnarinnar, stofnkostnaði og kostnaði við viðhald hennar, auk þess sem heimilt sé að taka tillit til arðsemi á endurmetnu eigin fé. Samkvæmt gildandi lögum er höfnum því ekki heimilt að veita umhverfisafslætti nema sýnt sé fram á að kostnaður lækki við þá þjónustu sem þau veita. Verður að gera breytingu á þessu ákvæði hafnalaga til að höfnum sé heimilt að gera þetta. Með frumvarpi þessu er lagt til að heimild til að veita afslætti af þessu tagi verði ekki bundin við þær íslensku hafnir sem eru á samevrópska flutninganetinu heldur nái hún til allra þeirra hafna sem falla undir gildissvið hafnalaga. Lagt er til að ráðherra fái heimild til að mæla nánar fyrir um þessa þætti í reglugerð. Er ætlunin að ráðherra geti þar kveðið á um viðmið sem horft skuli til við ákvörðun þessara afslátta. Í Evrópu er framkvæmdin þannig að horft er til alþjóðlegra vísitalna, eða staðla, um það hversu umhverfisvæn skip eru. Notast margar hafnir t.a.m. við skrá skipa út frá umhverfissjónarmiðum, Environmental Ship Index – ESI, sem skráir og metur skip með tilliti til þess hve umhverfisvæn skipin eru. Eru afslættir síðan veittir eftir því skori sem skip fá á þessari skrá. Ráðuneytið mun útfæra nánar þessi viðmið í reglugerð.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarp þetta er að hluta samið til innleiðingar á ákvæðum reglugerðar (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir. Reglugerðin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019 frá 8. maí 2019.
    Frumvarp þetta felur í sér nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar reglugerðarinnar. Það veitir ráðherra jafnframt heimild til setningar reglugerðar sem mælir nánar fyrir um þessa þætti. Með setningu þeirrar reglugerðar verða kröfur á grundvelli gerðarinnar uppfylltar. Líkt og rakið er í 3. kafla þessarar greinargerðar veitir reglugerð (ESB) 2017/352 svigrúm við innleiðingu í 2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar. Þar segir að aðildarríki geti ákveðið að engin þeirra skilyrða sem um getur í 1. mgr. gildi um einn eða fleiri flokka hafnarþjónustu. Verður horft til heimildar í 2. mgr. 8. gr. við setningu reglugerðar og einungis innleidd þau ákvæði sem þörf krefur.
    Aðrir þættir frumvarpsins gefa ekki tilefni til að ætla að þeir stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Áform um lagasetningu voru kynnt hagsmunaaðilum á fundi fagráðs um siglingamál 3. september 2020. Áformin voru jafnframt kynnt á samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is frá 21. ágúst til 4. september 2020 (mál nr. S-153/2020). Sjö umsagnir bárust í samráðinu, frá Hafnasambandi Íslands, Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga, Fjarðabyggð, Eimskipafélagi Íslands hf., Samtökum ferðaþjónustunnar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur síðan fundað með ýmsum hagsmunaaðilum um fyrirhugað frumvarp.
    Að loknu samráði um áform um lagasetningu voru fundir haldnir í október 2020 með hagsmunaaðilum til að kalla eftir frekari sjónarmiðum varðandi áformað frumvarp.
    Drög að frumvarpi voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is frá 10. nóvember til 23. nóvember 2020 (mál S-242/2020). Þrettán umsagnir bárust, frá Eimskipafélagi Íslands hf., Fjarðabyggðahöfnum, Hafnasambandi Íslands, Múlaþingi, Norðurþingi, Persónuvernd, Reykjaneshöfn, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, SFS, Tálknafjarðarhreppi, Vestfjarðarstofu, Vesturbyggð og sameiginleg umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka verslunar og þjónustu. Að samráði loknu voru fundir haldnir að ósk tiltekinna hagsmunaaðila. Rétt er að taka fram að í umsögnum Reykjaneshafnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Múlaþings er tekið undir ábendingar Hafnasambands Íslands.
    Athugasemdir við 1. gr. frumvarpsins, sem heimilar rafræna vöktun í höfnum, bárust m.a. frá Persónuvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Hafnasambandi Íslands. Að mati Persónuverndar er nauðsynlegt að tilgangur vinnslu persónuupplýsinga sé skýrt tilgreindur í lagatexta, í samræmi við kröfur 3. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Ráðuneytið hefur gert breytingu á orðalagi 1. gr. til að skýra nánar heimild til að miðla upplýsingum til notenda hafna með rafrænum hætti. Hafnasamband Íslands segir í umsögn sinni að bæta mætti við ákvæði um að setja skuli vinnureglur um með hvaða hætti myndavélavöktun hafnar skuli fara fram, hvernig tryggja skuli örugga vörslu gagna og hvernig skuli standa að miðlun efnis til þeirra aðila sem greinin tekur til. Málslið hefur verið bætt við 1. gr. þess efnis að ráðherra sé heimilt með reglugerð að mæla fyrir um vinnslu persónuupplýsinga og skilyrði hennar. Þá segir Sambandið að æskilegt sé að skýrt komi fram að miðlunin verði á opnu vefsvæði en ekki aðgangsstýrðu. Með ákvæði þessu er ekki tekin afstaða til þess hvernig hafnir skuli miðla upplýsingum af þessu tagi, sé það yfirhöfuð gert. Er það í valdi þeirra að ákveða hvort miðlunin fer fram á opnu vefsvæði eða aðgangsstýrðu.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að sett verði ný grein, 9. gr. a, um hafnir innan samevrópska flutninganetsins. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að höfnum innan netsins sé skylt að eiga samráð við notendur sínar um gjaldtöku. Í umsögnum Sambands íslenskra sveitarfélaga, Hafnasambands Íslands o.fl. er bent á að skýra þurfi orðið „samráð“ betur. Liggja þurfi fyrir hvernig og með hvaða hætti hafnir skuli hafa samráð við notendur hafna. Þannig þurfi að skilgreina að samráðið skuli aðeins taka til þess hluta viðskiptavina sem tengjast því að höfn er skilgreind innan samevrópska flutninganetsins. Í 1. mgr. þessa ákvæðis er lögð til meginregla en í 3. mgr. 9. gr. a er mælt fyrir um heimild ráðherra til að mæla nánar fyrir um gagnsæi í fjármálum með reglugerð. Er ætlunin að innleiða nánar ákvæði reglugerðar (ESB) 2017/352 í slíkri reglugerð. Verður samráðið útfært nánar í þeirri reglugerð. Samráð verður haft við hagsmunaaðila í þeirri vinnu.
    Í umsögn sinni gera Hafnasamband Íslands og Eimskipafélag Íslands hf. athugasemdir við það hvaða hafnir hér á landi séu í samevrópska flutninganetinu. Hafnir innan ESB séu mun stærri fyrirtæki en þær íslensku og þær hafi aðgang að innviðasjóðum sem Ísland sé ekki aðili að. Æskilegt sé því að endurmeta þörfina og skylduna á tilnefningu hafna í flutninganetið. Þá er bent á í umsögn Vesturbyggðar að ekki verði ráðið af frumvarpsdrögum til hvaða atriða verði litið þegar ákveðið verður hvaða hafnir falli innan samevrópska flutninganetsins og að leiðbeiningar séu veittar til ráðherra um þau atriði sem líta beri til við ákvörðun um hvaða hafnir falli innan evrópska flutninganetsins. Eins og fram kemur í greinargerð hér að framan hafa fimm íslenskar hafnir verið skráðar í samevrópska flutninganetið. Reglugerð sem samin verður af ráðuneytinu þarf að taka mið af þessu. Til framtíðar litið er að mati ráðuneytisins rétt að meta þörfina á því að íslenskar hafnir séu innan samevrópska flutninganetsins og hvort ástæða sé til að fækka eða fjölga höfnum innan þess. Breytingar af því tagi kalla ekki á lagabreytingar ef frumvarp þetta er samþykkt óbreytt. Í vinnu við að meta þörf á tilnefningu hafna í samevrópska flutninganetið og við smíð reglugerðar verður samráð haft við Samband íslenskra sveitarfélaga og Hafnasamband Íslands.
    Í 1. mgr. 3. gr. er lagt til að sett verði nýtt ákvæði um eldisgjald. Í umsögnum taka hagsmunaaðilar undir þörfina á að skýra heimildir hafna til gjaldtöku af fiskeldi. Þó er jafnan tekið fram að þetta ákvæði komi ekki til með að leysa ágreining sem uppi er um gjaldtöku og tekjuöflun hafna sem leiðir af starfsemi fiskeldisfyrirtækja. Eins og fram kemur í 2. kafla þessarar greinargerðar er ákvæði þessu ætlað að leysa úr réttaróvissu sem uppi hefur verið vegna beitingar aflagjaldsákvæðis e-liðar 1. tölul. 2. mgr. 17. gr. hafnalaga og tryggja að hafnir hafi fullnægjandi heimildir til gjaldtöku vegna umskipunar, lestunar og losunar eldisfisks. Þá eru fyrir í 17. gr. aðrar gjaldtökuheimildir sem geta náð til starfsemi fiskeldisfyrirtækja, svo sem skipagjöld, vörugjöld, leigugjald o.fl.
    Í umsögn Hafnasambands Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga o.fl. er lagt til að ákvæðið heimili sambærilega gjaldtöku og kveðið er á um í aflagjaldsákvæði e-liðar 2. mgr. 17. gr. hafnalaga, þ.e. að miðað verði við heildarverðmæti afla við gjaldtöku eða að hafnir hafi val á milli þess eða að miða við krónur á tonn. Með ákvæði þessu er ætlunin að hafnir horfi til þess magns sem um höfn fer, þ.e. krónur á hvert kíló eða tonn sem fer um höfn, þegar gjaldtaka er ákvörðuð. Með þessari aðferð sé skýrari tenging við þá þjónustu sem veitt er og gjaldtöku heldur en ef miðað er við verðmæti.
    Í umsögn Vesturbyggðar segir að skýra þurfi hvernig eigi að afla upplýsinga um magnið sem fer um höfnina en eldisfiski er jafnan dælt beint í sláturhús. Er í umsögninni lagt til að kveðið verði á um að horfa skuli til opinberra gagna Matvælastofnunar í þessum efnum. Hafnasamband Íslands leggur til í umsögn sinni að lögfest verði vigtunarskylda. Að mati ráðuneytisins er ekki þörf á slíkri skyldu. Hafnir geti notast við opinber gögn, t.a.m. frá Matvælastofnun, eða vigtað fisk. Í 10. tölul. 2. mgr. 17. gr. hafnalaga er kveðið á um vigtargjald sem skal standa straum af kostnaði við rekstur, viðhald og endurnýjun hafnarvogar.
    Þá er í umsögnum fjallað um þá þætti sem eldisgjaldinu er ætlað að standa undir. Í frumvarpinu er nefnt að það skuli „standa undir kostnaði við að byggja, reka, viðhalda og endurnýja viðlegumannvirki, aðstöðu við bryggjur og á hafnarbakka, þar sem við á, og almennan rekstrar- og stjórnunarkostnað“. SFS telur að þessir kostnaðarliðir standi ekki í beinum, nánum og efnislegum tengslum við þá þjónustu sem hafnir láta í té við umskipun. Telja þau þörf á að afmarka betur þessa kostnaðarliði. Eins og fyrirhugað ákvæði er úr garði gert telja samtökin verulega hætt við því að eldisgjaldið verði, þegar á hólminn er komið, nýtt til að fjármagna almennan rekstur og uppbyggingu hafna án þess að sérgreind þjónusta komi á móti. Á móti telur Hafnasamband Íslands og aðrir aðilar að í ákvæði um eldisgjald vanti kostnaðarliði sem taldir eru upp í aflagjaldsheimild hafnalaga, svo sem dýpkanir og viðlega í höfn. Vesturbyggð bendir sérstaklega á að mikilvægt sé að dýpkun sé meðal kostnaðarliða. Að mati ráðuneytisins er ekki sjálfgefið að sömu viðmið eigi við um aflagjald og eldisgjald. Við samningu þessa ákvæðis var horft til þeirra kostnaðarliða sem tengjast þjónustu hafna við fiskeldi. Til að mynda getur stærð fiskiskipa kallað á að dýpkanir í höfnum fari fram og er sá kostnaðarliður í aflagjaldsákvæði hafnalaga. Ekki verður séð að þörf sé á slíkri heimild vegna djúpristu fiskeldisskipa.
    Þá gera Fjarðabyggðahafnir og fleiri aðilar athugasemd við að ekki sé kveðið á um gjaldtöku fyrir fóður sem flutt er á fóðurpramma án viðkomu í höfn. Ráðuneytið hefur áður gefið út leiðbeiningar um að í þessum tilvikum væri gjaldtaka ekki í samræmi við forsendur þjónustugjalda enda væri ekki til staðar mæld þjónusta af hálfu hafna fyrir gjaldið sem væri greitt.
    Fram komu einnig ábendingar um þörf á leiðbeiningum um útreikning gjaldtöku, t.a.m. til hvaða tímabils beri að horfa þegar litið er til þeirra kostnaðarþátta sem þjónustugjaldi er ætlað að standa undir, t.a.m. vegna viðhaldsþarfar. Er að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga æskilegt að kveðið sé skýrar á um í reglugerð hvernig skuli reikna út gjöld vegna þjónustu hafna. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 61/2003 er fjallað um gjaldtöku hafna (661. mál, þskj. 1075 á 128. lögþ. 2002–2003). Segir þar að sveitarsjóðir beri ábyrgð á að gjöld séu í samræmi við reglur um gjöld opinberra fyrirtækja. Það sé eiganda hafnar að sjá til þess að gjaldskrá fyrir þjónustu hafnar uppfylli þær kröfur sem réttarreglur um tekjuöflun hins opinberra setja um gjaldtöku af þess tagi. Almennt sé gert ráð fyrir að gjöld verði miðuð við að gjaldtaka fyrir viðkomandi þjónustu standi straum af kostnaði við hana. Í 2. máls. 1. mgr. 17. gr. hafnalaga segir að miða skuli við að gjaldtaka standi undir rekstri hafnarinnar, sbr. 5. tölul. 3. gr. laganna, þ.m.t. fjármagnskostnaði, afskriftum, kostnaði við endurnýjun hafnarinnar og stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun hafnarinnar. Ljóst er að aðstæður eru mismunandi milli hafna, hver þörfin sé á endurnýjun og uppbyggingu hafna o.s.frv. Með hliðsjón af athugasemdum sem borist hafa telur ráðuneytið að það kunni að vera þörf fyrir nánari leiðbeiningum til hafna um gjaldtöku. Er lagt til í frumvarpi þessu að ráðherra sé veitt heimild til setningu reglna um álagningu gjalda.
    Í c-lið 3. gr. er lagt til að sett verði ákvæði sem heimili höfnum að veita afslátt af gjöldum með vísan til umhverfissjónarmiða, orkunýtni eða kolefnisnýtni sjóflutninga samkvæmt nánari útfærslu í gjaldskrá. Í umsögn Hafnasambands Íslands segir að mikilvægt sé að bæta við að þar sem landtengingar eru til staðar í höfnum þá beri skipum sem geti tengst skylda til að landtengjast. Með ákvæðinu sem hér um ræðir er lögð til heimild til að veita afslátt með vísan til umhverfissjónarmiða. Er með því myndaður efnahagslegur hvati til fjárfestinga í umhverfisvænni skipum. Er ekki talin þörf á því að mæla samhliða því fyrir um skyldu til tengingar. Kann þetta að verða endurmetið á síðari stigum.
    Í 5. gr. er mælt fyrir um heimild til að kæra gjaldskrárákvarðanir hafna innan samevrópska flutninganetsins til Samgöngustofu. Hafnasamband Íslands telur að það þurfi að vera skýrt hvort heimild til að kæra gjaldskrárákvarðanir hafna innan samevrópska flutninganetsins gildi um allar gjaldskrárákvarðanir eða takmarkist við ákvarðanir sem varða gjöld sem tengjast ákvörðun um að höfn sé innan samevrópska netsins. Lagt er til að ákvæði þessu verði breytt þannig að kærur verði að leiða af ákvæðum reglugerðar (ESB) 2017/352.
    Loks er rétt að geta þess að við smíði frumvarps hafa borist ábendingar um önnur atriði hafnalaga sem talið er að þarfnist breytinga, sem ekki eru til umfjöllunar í frumvarpi þessu. Varða athugasemdirnar m.a. ákvæði um hafnsöguþjónustu, heimild hafna til að taka lögveð í skipi, skilgreiningu hafnarreglugerða á hafnarsvæði, nánar tiltekið til sjávar, og upplýsingar sem höfnum ber að veita um forsendur gjaldtöku. Breytingar þær sem athugasemdir þessar varða kalla á frekari undirbúning af hálfu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins áður en tillögur eru gerðar um breytingar. Hyggst ráðuneytið vinna að frekari umbótum á þessu regluverki.

6. Mat á áhrifum.
    Ekki er gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi umtalsverð áhrif á ríkissjóð í för með sér. Reikna má þó með að verkefni muni koma til Samgöngustofu vegna kæruheimildar á gjaldskrárákvörðunum hafna skv. 5. gr. frumvarpsins. Frumvarpið kemur til með að hafa kostnað í för með sér fyrir hafnir sem eru innan samevrópska flutninganetsins á meðan þær aðlagast nýjum reglum um gjaldtöku. Frumvarpið er ekki talið hafa umtalsverð áhrif á atvinnulífið. Með eldisgjaldi er verið að koma á nýrri gjaldtökuheimild í 17. gr. hafnalaga en horfa verður til þess að hafnir hafa til þessa tekið gjald fyrir sömu þjónustu með vísan til aflagjaldsákvæðis e-liðar 1. tölul. 2. mgr. 17. gr. Er því erfitt að áætla hversu mikil áhrifin verða í raun og veru. Hins vegar verður talið að hagræði sé í því fólgið fyrir fiskeldisfyrirtæki og hafnir að skorið sé úr réttaróvissu sem nú ríkir. Loks verður talið að áhrif frumvarpsins séu jákvæð frá umhverfislegu sjónarmiði með heimild til umhverfisafslátta í gjaldskrám hafna.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði heimild handa stjórnum hafna til að viðhafa rafræna vöktun á hafnarsvæði eða taka myndir með reglulegu millibili í öryggisskyni. Skv. 2. tölul. 3. gr. auglýsingar nr. 828/2019, um skrár yfir vinnsluaðgerðir sem krefjast ávallt mats á áhrifum á persónuvernd, segir að slíkt mat skuli ávallt fara fram vegna umfangsmikils kerfisbundins eftirlits, að meðtalinni myndavélavöktun, á svæðum opnum almenningi. Þar af leiðandi er ljóst að gera þarf mat á áhrifum á persónuvernd vegna vöktunarinnar enda fer hún fram á svæðum sem eru í einhverjum tilvikum opin almenningi. Skv. 10. mgr. 35. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 þarf mat á áhrifum á persónuvernd ekki að fara fram ef vinnslan byggist á lögum að því tilskildu að mat á áhrifum hafi farið fram í tengslum við samþykkt laganna. Í ljósi þess að með ákvæðinu er lagt til að lögfest verði heimild til rafrænnar vöktunar hafna sem hefur tíðkast síðustu ár og ekki er um nýja vinnslu að ræða var það mat ráðuneytisins að ábyrgðaraðilar vinnslunnar geri mat á áhrifum á persónuvernd fremur en að það yrði gert við samningu frumvarpsins þar sem þeir eru betur í stakk búnir til að framkvæma slíkt mat. Þá ber jafnframt að líta til þess að slíkt mat ætti nú þegar að hafa farið fram.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að stjórnir hafna sem falla undir gildissvið laganna fái heimild til að vakta hafnarsvæði með rafrænum hætti líkt og tíðkast hefur undanfarin ár. Vöktunin fer fram með myndavélum og hafa hafnir miðlað myndefni til notenda hafna með rafrænum hætti, meðal annars á opnum svæðum á vefsíðum hafnanna. Þetta er gert í öryggisskyni auk þess sem notendur hafna hafa notað myndefni þetta til að fylgjast með skipum sínum og fylgst með aðstæðum í höfn auk þess sem skipstjórnarmenn sem eru á leið í höfn hafa notað myndavélarnar til að kanna hvar skip geti lagst að.
    Persónugreinanlegar upplýsingar geta safnast upp við notkun þessara myndavéla. Vaktstöð siglinga hefur stuðst við slíkt myndefni í störfum sínum í þeim tilvikum þegar skipstjórnarmenn hafa ekki tilkynnt um brottför úr höfn en vaktstöðin hefur upplýsingar um annað. Getur vaktstöðin þá athugað myndavélar í höfnum til að kanna hvort skip sé í höfn. Þá geta upplýsingar sem aflað er með myndavélum þessum geti nýst við rannsóknir slysa og rannsóknir á saknæmri háttsemi eða mannshvörfum.
    Af þessum ástæðum er þörf á því að stjórnum hafna verði heimilað að miðla gögnum í rauntíma til almennings og að henni verði heimilað að miðla upplýsingum til lögreglu, Landhelgisgæslu Íslands, rannsóknarnefndar samgönguslysa og Vaktstöðvar siglinga. Með ákvæði þessu er ekki tekin afstaða til þess hvernig hafnir skuli miðla upplýsingum af þessu tagi, sé það yfirhöfuð gert. Er það í valdi þeirra að ákveða hvort miðlunin fer fram á opnu vefsvæði eða aðgangsstýrðu.

Um 2. gr.

    Í greininni er að finna sérákvæði sem varðar einungis hafnir innan samevrópska flutninganetsins svokallaða. Í 1. mgr. er kveðið á um samráð við notendur hafna um gjaldtöku og að hafnir skuli veita notendum hafna upplýsingar um breytingar á hafnargjöldum. Mælt er fyrir um þetta í 5. tölulið 13. gr. og 1. mgr. 15. gr. reglugerðar (ESB) 2017/352. Er ráðherra heimilað að mæla nánar um þessa þætti, þ.e. gagnsæi í fjármálum og sjálfstæði hafna, í reglugerð samkvæmt 3. mgr. þessarar greinar.
    Í 2. mgr. er að finna sérákvæði um að aðgangur að markaði til að veita hafnarþjónustu geti verið háður lágmarkskröfum. Í II. kafla reglugerðar (ESB) 2017/352 er mælt fyrir um þessa þætti. Í 3. mgr. er kveðið á um að ráðherra sé heimilt að setja nánari reglur um þessa þætti.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ráðherra skuli með reglugerð tilgreina þær íslensku hafnir sem eru innan þessa nets. Þegar frumvarp þetta er samið hefur íslenska ríkið tilgreint fimm hafnir innan þessa nets eins og fjallað hefur verið um í 3. kafla greinargerðar, þ.e. Faxaflóahafnir/Sundahöfn, Höfnin á Seyðisfirði, Hafnir Fjarðabyggðar/Mjóeyrarhöfn Reyðarfirði, Höfnin í Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn. Ekki er fyrirhugað að fjölga íslenskum höfnum á þessum lista en ef breytingar verða er talið æskilegt að hægt verði að gera breytingar til samræmis við það með stjórnvaldsfyrirmælum.
    Eins og rakið er í 3. kafla greinargerðar hér að framan er fyrirhugað að setja reglugerð til innleiðingar á ákvæðum reglugerðar (ESB) 2017/352. Mun sú reglugerð byggja á lagaheimild í 3. mgr.

Um 3. gr.

    Í a-lið greinarinnar er mælt fyrir um nýjan staflið um eldisgjald sem bætist við 1. tölul. 2. mgr. 17. gr. hafnalaga. Gjaldið tekur til eldisfisks og eldisseiða sem fara um höfn. Rekstur hafnar er skilgreindur í 5. tölul. 3. gr. laganna og í 1. mgr. 17. gr. er kveðið á um gjaldtöku og undir hverju hún skal standa. Ákvæði þetta kveður nánar á um hvaða þætti í starfsemi hafna eldisgjaldinu er ætlað að standa undir. Ekki er kveðið á um með hvaða móti hafnir skuli mæla veitta þjónustu, þ.e. hvaða einingar skuli miðað við í gjaldskrá, en eðlilegt er að áætla að miðað sé við magn þess fisks sem fer um höfn, þ.e. krónur á hvert kílógramm eða tonn. Loks segir í ákvæðinu að gjöld samkvæmt þessum staflið skuli greidd af fiskeldisfyrirtækjum.
    Eins og ráða má af orðalagi ákvæðisins nær ákvæði þetta ekki til umskipunar á innfluttum matvælum, þ.e. fersks eða frosins eldisfisks, sem ræktaður hefur verið erlendis og er ætlaður til sölu á Íslandi. Í slíku tilviki gilda sömu reglur og um önnur innflutt matvæli
    Í b- og c-lið greinarinnar eru gerðar breytingar sem veita rekendum hafna heimild til að veita svokallaða umhverfisafslætti en í 4. mgr. 13. gr. reglugerðar (ESB) 2017/352 er kveðið á um að höfnum skuli vera kleift að veita þessa afslætti. Ólíkt öðrum ákvæðum þessa frumvarps sem leggja til breytingar til samræmis við þá reglugerð, sem gilda eingöngu um hafnir á samevrópska flutninganetinu, er lagt til að þetta ákvæði eigi við um allar hafnir í eigu sveitarfélaga. Hafnir í eigu sveitarfélaga geta annars vegar verið með eða án hafnarstjórnar. 17. gr., sem gerð er tillaga um breytingu á, er að finna í V. kafla laganna um hafnir með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags. Ákvæði þetta nær hins vegar ekki einungis til slíkra hafna. Í 11. gr. laganna, sem er að finna í IV. kafla laganna um hafnir án sérstakrar hafnarstjórnar í eigu sveitarfélaga, segir að höfn samkvæmt þeim kafla sé heimilt að innheimta gjöld skv. 17. gr.
    Í b-lið er lögð til breyting á 3. mgr. ákvæðisins. Orðunum „að undanskilinni 3. mgr. 17. gr.“ er skeytt inn í setninguna. Með c-lið þessarar greinar er kveðið á um heimild hafna til veita afslátt af gjöldum vegna umhverfissjónarmiða, orkunýtni eða kolefnisnýtni sjóflutninga samkvæmt nánari útfærslu í gjaldskrá. Líkt og gert er í reglugerð (ESB) 2017/352 er í ákvæði þessu kveðið á um að afslættir af þessu tagi skuli vera gagnsæir, hlutlægir og án mismununar og samrýmast samkeppnislögum.
    Í d-lið er mælt fyrir um heimild ráðherra til að mæla fyrir um gjaldtöku hafna. Að mati sveitarfélaga og hafna er þörf á frekari leiðbeiningum stjórnvalda um útreikning gjalda, t.a.m. þess tímabils sem horfa ber til við uppbyggingu og endurnýjun hafnarmannvirkja. Þá er ráðherra veitt heimild til að mæla nánar fyrir um afslætti af gjöldum í reglugerð. Er fyrirhugað að þar verði nánar mælt fyrir um viðmiðanir um það hvenær skip teljist umhverfisvæn.

Um 4. gr.

    Í greininni eru gerðar sambærilegar breytingar og í b- og c-lið 3. gr. þessa frumvarps. Þörf er á sams konar breytingu á 20. gr. laganna þannig að heimildin gildi einnig að því er varðar hafnir sem teljast ekki til opinbers reksturs. Vísast til umfjöllunar um 3. gr. hér að ofan um inntak ákvæðisins.

Um 5. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um sérreglu í 27. gr. laganna um kæruheimild. Í 1. mgr. gildandi laga segir að notendum hafna sé heimilt að skjóta ákvörðunum hafnarstjórna samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, öðrum en gjaldskrárákvörðunum, til Samgöngustofu.
    Í 18. gr. reglugerðar (ESB) 2017/352 segir að allir aðilar sem eiga lögmætra hagsmuna að gæta skuli eiga rétt á að áfrýja ákvörðunum eða einstökum aðgerðum, sem framkvæmdastjórn hafnarinnar, lögbært yfirvald eða annað viðeigandi landsyfirvald grípur til, samkvæmt þessari reglugerð. Þar sem gjaldskrárákvarðanir eru undanskildar í 1. mgr. 27. gr. hafnalaga er þörf á því að setja nýja málsgrein um að heimilt sé að kæra gjaldskrárákvarðanir hafna innan samevrópska flutninganetsins. Verða slíkar kærur að varða efni reglugerðar (ESB) 2017/352.

Um 6. gr.

    Í greininni er lagt til að ný málsgrein bætist við 30. gr. þess efnis að hafnalög, nr. 61/2003, séu jafnframt til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir. Líkt og fjallað er um í kafla 2.2. fela sum ákvæði þessa frumvarps í sér tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum til að ákvæði laganna séu til samræmis við ákvæði reglugerðar (ESB) 2017/352.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra verði heimilt skv. 3. mgr. 9. gr. a, að mæla nánar fyrir um veitingu hafnarþjónustu og gagnsæi í fjármalum og sjálfstæði þeirra hafna í reglugerð. Er fyrirhugað að full innleiðing á ákvæðum gerðarinnar eigi sér síðan stað með slíkri reglugerð, sem og birting reglugerðar (ESB) 2017/352.

Um 7. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.