Ferill 170. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 172  —  170. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013 (viðskiptaboð).

Flm.: Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Hildur Sverrisdóttir


1. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Ríkisútvarpinu er óheimilt að markaðssetja, kynna, selja eða birta viðskiptaboð. Eftirfarandi telst ekki til viðskiptaboða:
     a.      Tilkynningar frá Ríkisútvarpinu um myndmiðlunarefni þess og stoðframleiðslu sem leiðir beint af því efni, kostunartilkynningar og tilkynningar um vöruinnsetningu og sýndarauglýsingar.
     b.      Tilkynningar um opinbera þjónustu og hjálparbeiðnir líknarstofnana sem birtar eru endurgjaldslaust.
    Ríkisútvarpinu er óheimilt að afla tekna með kostun dagskrárefnis.
    Ríkisútvarpinu er óheimilt að selja viðskiptaboð til birtingar á veraldarvefnum. Heimilt er þó að láta þau viðskiptaboð og kostunartilkynningar sem eru hluti af útsendingu dagskrár Ríkisútvarpsins birtast á vef þess. Þá er Ríkisútvarpinu heimilt að birta á vef sínum viðskiptaboð sem tengjast vefútsendingum sérstaklega og kynna þar dagskrá Ríkisútvarpsins ásamt þjónustu og hlutum sem tengjast henni.
    Vöruinnsetning er óheimil í efni sem Ríkisútvarpið framleiðir sjálft og/eða framleiðir í samstarfi við aðra innlenda aðila og er sérstaklega framleitt fyrir Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpinu er þó heimilt að nota upptökustaði og leikmuni eða vísa til ákveðinnar þjónustu vegna notagildis og/eða í listrænum tilgangi og skal það gert með látlausum hætti.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 2. mgr. 7. gr. er Ríkisútvarpinu óheimilt að afla tekna með kostun dagskrárefnis.
    Þrátt fyrir 3. mgr. 7. gr. er Ríkisútvarpinu óheimilt að slíta í sundur dagskrárliði með viðskiptaboðum í sjónvarpi.
    Þrátt fyrir 4. mgr. 7. gr. skal við myndmiðlun hlutfall viðskiptaboð og fjarkaupainnskota innan hverrar klukkustundar ekki fara yfir fimm mínútur. Í merkingu þessa ákvæðis telst eftirfarandi ekki til viðskiptaboð:
     a.      Tilkynningar frá Ríkisútvarpinu um myndmiðlunarefni þess og stoðframleiðslu sem leiðir beint af því efni, kostunartilkynningar og tilkynningar um vöruinnsetningu og sýndarauglýsingar.
     b.      Tilkynningar um opinbera þjónustu og hjálparbeiðnir líknarstofnana sem birtar eru endurgjaldslaust.
    Þrátt fyrir 5. mgr. 7. gr. skal Ríkisútvarpið setja og birta gjaldskrá fyrir viðskiptaboð og skal gæta jafnræðis gagnvart viðskiptamönnum Ríkisútvarpsins. Afsláttarkjör fyrir auglýsendur skulu vera gagnsæ og standa öllum viðskiptamönnum til boða fyrir sambærilegt umfang viðskipta. Ríkisútvarpinu og dótturfélögum þess er óheimilt að markaðssetja, kynna eða selja með beinum hætti viðskiptaboð.
    Þrátt fyrir 6. mgr. 7. gr. er Ríkisútvarpinu óheimilt að selja viðskiptaboð til birtingar á veraldarvefnum. Heimilt er þó að láta þau viðskiptaboð og kostunartilkynningar sem eru hluti af útsendingu dagskrár Ríkisútvarpsins birtast á vef þess. Þá er Ríkisútvarpinu heimilt að birta á vef sínum viðskiptaboð sem tengjast vefútsendingum sérstaklega og kynna þar dagskrá Ríkisútvarpsins ásamt þjónustu og hlutum sem tengjast henni.
    Ríkisútvarpið setur reglur um birtingu viðskiptaboð samkvæmt þessu ákvæði og skulu þær birtar á vef þess.
    Ákvæði þetta gildir á tímabilinu 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024.
    Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast 2. gr. gildi 1. janúar 2023.

Greinargerð.

Frumvarp þetta var áður lagt fram á 151. löggjafarþingi (694. mál). Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, sem fela í sér takmarkanir á fyrirkomulagi auglýsinga Ríkisútvarpsins. Markmið frumvarpsins er að jafna samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla gagnvart ríkisreknu fjölmiðlafyrirtæki.
    Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til nýtt bráðabirgðaákvæði þar sem lagt er til að fyrst í stað verði Ríkisútvarpinu ohf. óheimilt að stunda beina sölu á auglýsingum, hlutfall auglýsinga megi ekki fara yfir fimm mínútur á hvern klukkutíma í útsendingartíma, óheimilt verði að slíta í sundur dagskrárliði með auglýsingum og að lokum er lagt til að kostun verði bönnuð, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Takmarkanir þessar verði á tímabilinu 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023. Samkeppnisrekstri Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði verði síðan hætt í byrjun árs 2024, sbr. 1. gr. frumvarpsins.
    Með því að taka Ríkisútvarpið út af samkeppnismarkaði auglýsinga í tveimur skrefum gefst stjórn Ríkisútvarpsins tækifæri til að aðlaga rekstur að breyttum aðstæðum. Sé það talið nauðsynlegt að koma til móts við ríkisfyrirtækið vegna lægri nettótekna hefur fjárveitingavaldið ágætt svigrúm til þess.
    Flutningsmenn telja með því að Ríkisútvarpið verði dregið út af samkeppnismarkaði auglýsinga og kostunar fái fyrirtækið aukið svigrúm til að sinna því menningarlega hlutverki sem því er ætlað samkvæmt lögum.
    Um það verður vart deilt að frjáls fjölmiðlun á Íslandi stendur höllum fæti. Á sama tíma og samkeppnisstaðan er skekkt með lögverndaðri yfirburðastöðu Ríkisútvarpsins standa einkareknir innlendir fjölmiðlar frammi fyrir harðri sókn alþjóðlegra stórfyrirtækja inn á auglýsingamarkaðinn. Frjálsir fjölmiðlar eru forsenda opinnar lýðræðislegrar umræðu og veita stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald.
    Stofnanir og fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga eru víða í samkeppni við einkaaðila. Vísbendingar eru um að opinberir aðilar, ekki síst opinber hlutafélög, hafi hert samkeppnisrekstur sinn á síðustu árum. Þegar hið opinbera keppir við einkarekstur er mikilvægt að tryggja jafnræði með eins góðum hætti og kostur er. Reglur verða að vera skýrar og afmarkaðar um umfang opinbers samkeppnisrekstrar. Umsvif opinberra aðila á samkeppnismarkaði geta leitt til skaðlegrar fákeppni, rutt sjálfstæðum rekstri út af markaði og jafnvel leitt til einokunar. Undir slíkum aðstæðum er nýjum aðilum gert erfiðara fyrir að hasla sér völl á markaði. Leiða má rök að því að samkeppnisrekstur hins opinbera geti unnið gegn markmiði samkeppnislaga sem er að efla virka samkeppni í viðskiptum.
    Opinberir aðilar njóta oft forskots á grundvelli laga í samkeppni við einkaaðila. Dæmi um þetta er fjölmiðlarekstur ríkisins undir hatti Ríkisútvarpsins ohf. Augljóst er að samkeppnisrekstur ríkisins hefur verulega neikvæð áhrif á rekstur og fjárhag sjálfstæðra fjölmiðla sem flestir standa höllum fæti. Takmörkun á umsvifum og síðar bann við samkeppnisrekstri á sviði auglýsinga og kostunar ætti því að öðru óbreyttu að bæta hag sjálfstæðra fjölmiðla.
    Samkvæmt ársreikningi Ríkisútvarpsins ohf. námu tekjur af samkeppnisrekstri á árinu 2020 1.946 millj. kr., þar af námu tekjur af auglýsingum 1.624 millj. kr. Óvarlegt er að ætla að þær tekjur sem ríkisfyrirtækið hefur haft af sölu auglýsinga og kostunar komi óskertar í hlut sjálfstætt starfandi fjölmiðla eftir 1. janúar 2024. Þó má ætla að tekjur sjálfstæðra fjölmiðla aukist verulega og mun meira en gert er ráð fyrir í frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra um ríkisstuðning við einkarekna fjölmiðla (367. mál á 151. löggjafarþingi).
    Flutningsmenn telja að skynsamlegra sé að styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla með því að takmarka verulega samkeppnisrekstur ríkisins fremur en að koma upp flóknu kerfi millifærslna og ríkisstyrkja. Slíkt stuðlar að auknu heilbrigði á fjölmiðlamarkaði.