Ferill 291. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 556  —  291. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um viðspyrnustyrki, nr. 160/2020 (framhald viðspyrnustyrkja).

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Sá dráttur sem orðið hefur á framlengingu viðspyrnustyrkja og annarra sambærilegra úrræða hefur þegar bitnað illa á smærri fyrirtækjum sem ekki hafa jafngreiðan aðgang að lánsfjármagni og fyrirtæki sem stærri eru. Þetta á ekki síst við í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Seinagangurinn og skeytingarleysið gagnvart smærri rekstraraðilum vekur þá spurningu hvort það sé óorðuð stefna ríkisstjórnarinnar að knýja fram samþjöppun í ferðaþjónustu og búa þannig um hnútana að fyrirtækjum fækki og framleiðsluþættir færist á hendur stærstu fyrirtækjanna og til annarra greina atvinnulífsins.
    Fram kom í greiningu sem KPMG vann fyrir Ferðamálastofu árið 2020 að það væri ferðaþjónustunni „fyrir bestu að færri og stærri félög [stæðu] að endurreisn til að bæta afkomu og arðsemi“. Í annarri greiningu sama fyrirtækis fyrir Ferðamálastofu frá því í desember 2021 er fullyrt að „þörf [sé] á endurskipulagningu fyrirtækja og samþjöppun í greininni á næstu misserum“. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur hafnað því í ræðustól Alþingis að það sé vilji ríkisstjórnarinnar að fyrirtækjum og starfsfólki í ferðaþjónustu fækki: „Það er alls ekki stefna okkar,“ sagði hann 7. febrúar 2022. Í greinargerð með frumvarpinu sem hér er fjallað um er engu að síður lögð áhersla á að stjórnvöld megi ekki með stuðningi sínum við atvinnulífið aftra tilfærslu framleiðsluþátta milli fyrirtækja og greina.
    Við umfjöllun frumvarpsins í efnahags- og viðskiptanefnd viðruðu gestir áhyggjur af því að það væri einbeitt stefna ríkisstjórnarinnar að fækka fyrirtækjum í ferðaþjónustu og auðvelda stærstu fyrirtækjunum að kaupa upp þau smærri. Minni hlutinn telur þessar áhyggjur skiljanlegar, m.a. í ljósi sterkra hagsmunatengsla tveggja ráðherra ríkisstjórnarinnar við tvö af stærstu ferðaþjónustufyrirtækjum landsins og þess gríðarlega ríkisstuðnings sem stærri fyrirtæki hafa notið í heimsfaraldrinum.
    Minni hlutinn leggur til breytingar á frumvarpinu, bæði til að ná til fleiri fyrirtækja sem orðið hafa fyrir miklu tjóni vegna kórónuveirunnar og sóttvarnatakmarkana og til að tryggja að fjárstuðningur stuðli að heilbrigðum vinnumarkaði og að honum sé beint til fyrirtækja sem fara eftir lögum og reglum.
    Í fyrsta lagi er lagt til að gerð verði breyting á skilgreiningu tekna til að girða fyrir að fyrirtæki geti sótt styrki í ríkissjóð vegna fjármagnshreyfinga frekar en samdráttar í sölu vöru og þjónustu. Er þetta í samræmi við ábendingar sem fram hafa komið í umsögnum Alþýðusambands Íslands og Indriða H. Þorlákssonar, fyrrverandi ríkisskattstjóra.
    Í öðru lagi er lagt til að viðmið um tekjufall frá og með ársbyrjun 2022 verði lækkað úr 40% í 30%. Þannig er tekið mið af hækkun verðlags frá viðmiðunartíma án þess að flækjustigið aukist við framkvæmd úrræðisins hjá Skattinum. Er þetta í takt við sjónarmið sem fram koma í umsögnum Félags atvinnurekenda, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka atvinnulífsins og Samstöðuhóps einyrkja og lítilla fyrirtækja í ferðaþjónustu.
    Í þriðja lagi er lagt til að í lögin bætist afdráttarlaust skilyrði um að fyrirtæki sem njóta stuðningsins hafi staðið skil á skattframtali og fylgigögnum þess, þ.m.t. skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, sbr. 10. gr. reglugerðar um skattlagningu vegna eignarhalds á lágskattasvæðum, nr. 1102/2013. Stjórnarmeirihlutinn hefur áður fellt tillögur minni hluta um að útiloka einstaklinga og fyrirtæki sem nýta sér skattaskjól og aflandsfélög frá stuðningi úr ríkissjóði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Minni hlutinn bindur þó vonir við að stjórnarmeirihlutinn taki undir þá lágmarkskröfu að lögaðilar sem njóta viðspyrnustyrkja og eiga félög á lágskattasvæðum hafi staðið skil á skýrslu um eignarhald fyrirtækja á lágskattasvæðum eins og þeim ber samkvæmt lögum.
    Í fjórða lagi er lagt til að umsóknarfrestur verði framlengdur til 30. júní 2022 og taki til tímabilsins mars 2021 til mars 2022. Með þessu er brugðist við ábendingum um að stuttur umsóknarfrestur hafi bitnað á smáfyrirtækjum sem ekki hafa yfir jafnmiklum mannskap að ráða og þau stærri þegar kemur að bókhaldi, en í þessu sambandi verður að hafa í huga að við framkvæmd tekjufalls- og lokunarstyrkja var sótt um tiltekið tímabil en ekki hvern mánuð um sig eins og gert var við framkvæmd viðspyrnustyrkja. Hefur þetta valdið ruglingi sem eðlilegt er að bregðast við með rýmkun umsóknartímans.
    Í fimmta lagi er lagt til að fyrirtækjum sem verða uppvís að launaþjófnaði eða öðrum svikum á vinnumarkaði verði gert að endurgreiða viðspyrnustyrk.

    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      6. tölul. 3. gr. laganna orðast svo: Tekjur: Rekstrartekjur skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum tekjum skv. C-lið sömu greinar.
     2.      Við 2. gr.
                  a.      Á eftir a-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: Á eftir 1. málsl. 1. tölul. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skal rekstraraðili teljast uppfylla skilyrði 1. málsl. vegna umsókna fyrir tímabilið janúar 2022 til mars 2022 ef tekjur hans eru 30% lægri en í sama mánuði árið 2019 og tekjufallið má rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar.
                  b.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað orðanna „og upplýst um raunverulega eigendur samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda“ í 3. málsl. 3. tölul. komi: og skattframtali og fylgigögnum þess, þ.m.t. skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, sbr. 10. gr. reglugerðar um skattlagningu vegna eignarhalds á lágskattasvæðum, nr. 1102/2013, og öðrum skýrslum og skilagreinum, svo sem staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar og upplýst um raunverulega eigendur samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda.
     3.      4. gr. orðist svo:
                      2. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: Umsókn um viðspyrnustyrk vegna tímabilsins mars 2021 til apríl 2022 skal skilað eigi síðar en 30. júní 2022.

     4.      Á eftir 5. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

             Brot gegn samningum um launakjör.

                      Verði rekstraraðili uppvís að því að greiða launamanni, vísvitandi eða af stórfelldu gáleysi, laun eða önnur starfskjör sem eru lakari en umsamin lágmarkskjör á vinnumarkaði, á tímabilinu sem viðspyrnustyrkir ná til, skal honum gert að endurgreiða viðspyrnustyrk með vöxtum skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá greiðsludegi. Dráttarvextir skv. 6. gr. sömu laga leggjast á kröfu um endurgreiðslu samkvæmt þessu ákvæði ef hún er ekki innt af hendi innan mánaðar frá dagsetningu endurgreiðslukröfu frá Skattinum.
                      Vinnumálastofnun, eða eftir atvikum annað stjórnvald, skal upplýsa Skattinn sé uppi rökstuddur grunur um brot sem fellur undir 1. mgr.

Alþingi, 23. febrúar 2022.

Jóhann Páll Jóhannsson,
frsm.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Ásthildur Lóa Þórsdóttir.