Ferill 288. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 662  —  288. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um eftirlit landlæknis með heilbrigðisþjónustu.


     1.      Hvert hefur umfang eftirlits landlæknis með heilbrigðisþjónustu á vegum hins opinbera annars vegar og einkaaðila hins vegar verið frá árinu 2000? Óskað er eftir að í svarinu komi fram:
                  a.      hvaða opinberu einingum embættinu ber að hafa eftirlit með,
                  b.      hvaða einkareknu einingum embættinu ber að hafa eftirlit með,
                  c.      hvernig ber að haga eftirlitinu,
                  d.      fjöldi stöðugilda hjá embættinu þar sem fyrrgreint eftirlit fer fram,
                  e.      verklag og tíðni eftirlits á hverri rekstrareiningu, og
                  f.      að gerð verði sérstök grein fyrir því hvernig eftirliti með starfsemi lokaðra deilda og meðferðarúrræða er háttað, hvort tveggja opinberra og einkarekinna, og fjölda slíkra þjónustueininga á landinu.
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis hefur embættið eftirlit með rúmlega 3.300 einingum. Eru einingarnar allt frá Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem eru ein eining hvor um sig, yfir í fámenna dagvist. Þá hafa rúmlega 25.000 heilbrigðisstarfsmenn starfsleyfi frá landlækni, þar af um 19.000 sem eru undir 70 ára aldri og skráðir með búsetu á Íslandi.
    Í 2. tölul. 3. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, er heilbrigðisþjónusta skilgreind sem: Hvers kyns heilsugæsla, lækningar, hjúkrun, almenn og sérhæfð sjúkraúsþjónusta, sjúkraflutningar, hjálpartækjaþjónusta og þjónusta heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma eða endurhæfa sjúklinga.
    Samkvæmt e-lið 1. mgr. 4. gr. sömu laga er það hlutverk landlæknis að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum, en mælt er fyrir um eftirlit með heilbrigðisþjónustu í II. kafla laganna.
    1.a. Landlæknir hefur eftirlit með allri heilbrigðisþjónustu sem hið opinbera starfrækir, t.d. sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og hjúkrunarheimilum.
    1.b.     Landlæknir hefur eftirlit með allri einkarekinni heilbrigðisþjónustu, t.d. heilsugæslustöðvum, hjúkrunarheimilum og starfsstofum löggiltra heilbrigðisstarfsmanna.
    Hér á landi eru 33 heilbrigðisstéttir löggiltar skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn. Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis hafa eftirfarandi löggiltar heilbrigðisstéttir tilkynnt embættinu um rekstur í heilbrigðisþjónustu þ.e. áfengis- og vímuefnaráðgjafar, félagsráðgjafar, fótaaðgerðafræðingar, heyrnafræðingar, hjúkrunarfræðingar, hnykkjarar (kírópraktorar), iðjuþjálfar, ljósmæður, lífeindafræðingar, næringarfræðingar, læknar, osteópatar, sálfræðingar, sjóntækjafræðingar, sjúkranuddarar, sjúkraþjálfarar, talmeinafræðingar, tannlæknar, tannsmiðir og þroskaþjálfar.
    Eftirlitsskylda landlæknis nær þó til allra heilbrigðisstarfsmanna sem hafa starfsleyfi landlæknis.
    Má jafnframt benda á að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa einnig eftirlit með heilbrigðisþjónustu sbr. t.d. 1. mgr. 45. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, sem er svohljóðandi:
    Sjúkratryggingastofnunin skal hafa eftirlit með starfsemi samningsaðila og þeirra þjónustuveitenda sem þiggja greiðslur á grundvelli gjaldskrár sem stofnunin setur, sbr. 38. gr. Eftirlitið miðar að því að tryggja að tegundir, magn, gæði, kostnaður og árangur þjónustu sé í samræmi við gerða samninga eða eftir atvikum að reikningsgerð sé í samræmi við veitta þjónustu og gjaldskrá stofnunarinnar. Stofnunin skal hafa samráð við landlækni um fyrirkomulag og framkvæmd eftirlits.
    Embætti landlæknis og SÍ hafa í vissum tilvikum samstarf um eftirlit.
    1.c. Í II. kafla laga um landlækni og lýðheilsu eru ákvæði um eftirlit með heilbrigðisþjónustu, en í þeim kafla er m.a. kveðið á um fyrirmæli og leiðbeiningar landlæknis, faglegar kröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna skal landlæknir hafa reglubundið eftirlit með því að heilbrigðisþjónusta sem veitt er hér á landi uppfylli faglegar kröfur og ákvæði heilbrigðislöggjafar á hverjum tíma. Landlæknir hefur heimild til að krefja heilbrigðisstarfsmenn, heilbrigðisstofnanir og aðra sem veita heilbrigðisþjónustu um upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg til að sinna eftirlitshlutverki sínu og er þeim skylt að verða við slíkri kröfu. Að öðru leyti skilgreina lög ekki með sérstökum hætti hvernig landlækni beri að haga eftirliti með heilbrigðisþjónustu. Veigamikill þáttur í eftirlitinu er innleiðing áætlunar um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu 2019–2030.
    Árangursríkasta leiðin til að bæta gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu er að efla samstarf og samráð við stjórnendur og starfsfólk heilbrigðisstofnana og benda á umbótatækifæri. Úttektir embættis eru liður í eftirliti landlæknis en þær eru í flestum tilfellum áhættutengdar (e. risk based) og gagnadrifnar (e. data-driven). Eftirfarandi þættir eru skoðaðir við gerð áhættumats:
          Gæðauppgjör (umbótaverkefni, niðurstöður gæðavísa, atvikaskráning, niðurstöður þjónustukannana)
          Alvarleg atvik og önnur atvik.
          Margvísleg heilbrigðistölfræði.
          RAI-gögn.
          Kvartanir og ábendingar.
          Niðurstöður gæðavísa.
          Tilkynning um rekstur.
          Aðrar úttektir.
    Í kjölfar úttektar er almennt gerð úrbótaáætlun sem byggir á athugasemdum og ábendingum embættis landlæknis, en þá er kallað eftir skýrslum um framgang úrbóta. Ef þörf krefur er farið í eftirfylgdarúttekt. Eftirlit er þannig ýmist að gefnu tilefni í kjölfar ábendinga eða ef niðurstöður tölfræði gefa tilefni til en stöku sinnum án gefins tilefnis. Liður í eftirliti er rannsókn kvartana vegna heilbrigðisþjónustu og alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu. Ef við á, að lokinni rannsókn, eru gerðar kröfur um úrbætur varðandi gæði þjónustu og öryggi sjúklinga. Í þessum tilvikum er ekki gefin út sérstök skýrsla.
    1.d. Fjórir starfsmenn sinna eftirliti með heilbrigðisstofnunum en einnig öðrum umfangsmiklum verkefnum, t.d. rannsóknum á alvarlegum atvikum og gæðamálum í heilbrigðisþjónustu. Áætla má að um tvö stöðugildi hjá embætti landlæknis falli undir eftirlit með heilbrigðisstofnunum.
    1.e. Verklag er nú með þeim hætti að nær eingöngu er brugðist við brýnustu þörf fyrir eftirlit, þá til að bregðast við tiltekinni uppákomu eða máli en frumkvæðiseftirlit er sjaldnar. Hér á eftir eru tilgreindar skýrslur sem gefnar hafa verið út í kjölfar úttekta undanfarin ár, en ekki lýkur öllu eftirliti með útgefnum skýrslum. Þá má nefna fjölda eftirlitsmála gagnvart heilbrigðisstarfsfólki án þess að talið verði að efni fyrirspurnarinnar lúti að því eftirliti. Þess má jafnframt geta að á árinu 2020 tók starfsfólk embættis landlæknis að sér ýmis verkefni sem tengdust COVID-19. Ein afleiðing þess var að hægði á öðrum verkefnum, t.d. úttektum.
    Eftirfarandi eru úttektir á heilbrigðisstofnunum og starfsstofum sl. fimm ár:
     2021.
     Úttekt. Hlein Reykjalundi.
     Hlutaúttekt á legudeild D á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS).
     COVID-19 smit í starfi í heilbrigðisþjónustu febrúar 2020 – febrúar 2021.
     Eftirlit í faraldri 3 bylgja – heilbrigðisþjónusta.
     Niðurstaða rannsóknar embættis landlæknis á hópsýkingu af völdum SARS-CoV-2 áLandakoti í október 2020.
     Fjarúttekt á geðheilbrigðisþjónustu á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Ási.
     Fjarúttekt á geðheilbrigðisþjónustu á hjúkrunarheimilinu Fellsenda.
     Eftirfylgni úttektar. Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð.
     Hlutaúttekt á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands.
    Réttar- og öryggisgeðdeild Landspítala – yfirstandandi og fylgt eftir – skýrsla væntanleg.
    BUGL – skýrsla væntanleg.
     2020.
     Eftirlit í faraldri – fyrsta bylgja – heilbrigðisþjónusta. Október 2020.
     Eftirfylgni úttektar. Hjúkrunarheimilið Skjól.
     Úttekt. Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA).
     Eftirfylgni úttektar. Hjúkrunarheimilið Skógarbær.
     2019.
     Eftirfylgni úttektar. Heilsugæsla Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
     Hlutaúttekt. Reykjalundur endurhæfingamiðstöð SÍBS.
     Eftirfylgniúttekt vegna alvarlegrar stöðu á bráðamóttöku Landspítalans.
     Úttekt. Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð.
     Hlutaúttekt. Aðgengi að göngudeildarþjónustu vegna gigtarsjúkdóma.
     Eftirfylgni úttektar. Heilsugæsla Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
     Hlutaúttekt. Hjúkrunarheimilið Skjól.
     2018.
     Hlutaúttekt vegna alvarlegrar stöðu á bráðamóttöku Landspítalans.
     Úttekt. Hjúkrunarheimilið Skógarbær.
     Eftirfylgni úttektar. Æðaskurðdeild A4 Landspítala Fossvogi.
     Eftirfylgni hlutaúttektar. Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
     Eftirfylgni hlutaúttektar. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS).
     Úttekt. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.
     Hlutaúttekt. Aðgengi að göngudeildarþjónustu vegna taugasjúkdóma.
     2017.
     Hlutaúttekt. Heilsugæsla. Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU).
     Hlutaúttekt. A-4, Æðaskurðdeild Landspítala (LSH).
     Eftirfylgni úttektar. 23B Fæðingarvakt Landspítala (LSH).
     Hlutaúttekt. Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN).
     Hlutaúttekt. Heilsugæsla. Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS).
     Eftirfylgni úttektar. B2 Taugalækningadeild Landspítala.
     Eftirfylgni úttektar hjá SÁÁ.
     Eftirfylgni úttektar. Meðferðarheimilið Hlaðgerðarkot.
    1.f. Eftirlit með starfsemi lokaðra deilda og meðferðarúrræða er almennt ekki frábrugðið öðrum úttektum. Undir lokaðar deildir falla tvær deildir sem um gildir að sjúklingar fá ekki að fara af deildinni nema í fylgd starfsmanna. Einnig falla hér undir fimm deildir sem um gildir að sjúklingar fá að fara af deildinni í samræmi við sjúkdómsástand sitt, þ.e. ýmist í fylgd starfsmanna eða ekki. Þá falla hér undir deildir fyrir heilabilaða á hjúkrunarheimilum, en embætti landlæknis hefur ekki tæmandi skrá yfir fjölda slíkra deilda.

     2.      Hvað hafa embættinu borist margar kvartanir vegna heilbrigðisþjónustu og vegna starfsemi geðdeilda og meðferðarúrræða ár hvert frá árinu 2000?
    Embætti landlæknis hefur ekki tölur um fjölda kvartana aftur til ársins 2000. Breytingar á málaskrá í áranna rás og breytingar í flokkun mála gera einnig erfitt um vik að taka saman áreiðanlegar tölur eldri en frá 2016. Liggja þannig ekki fyrir tölur um fjölda mála sem tengjast geðþjónustu en frá 2016. Samantekt úr málaskrá sýnir fjölda kvartana sem hér segir:

Ár Fjöldi kvartana Þar af sem tengist geðþjónustu
2012 148
2013 100
2014 105
2015 121
2016 104 3
2017 118 2
2018 116 6
2019 132 12
2020 165 9
2021 190 8

    Að lokum má taka fram að landlæknir hefur einnig eftirlit með ýmsu öðru en heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Má þar til dæmis nefna eftirlit með starfsemi lífsýnasafna, eftirlit með blóðbönkum, vefjamiðstöðvum og rannsóknastofum sem starfa innan ramma sóttvarnalaga.