Ferill 538. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1110  —  538. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um stuðning við almenningssamgöngur.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver hefur stuðningur ríkisins verið við almenningssamgöngur hvert ár undanfarin fimm ár? Svar óskast sundurgreint eftir samgöngumáta, því hvort um er að ræða samgöngur innan landshluta eða á milli landshluta og því hvort um er að ræða kostnað við uppbyggingu, stuðning við rekstur eða styrki til notenda. Jafnframt er þess óskað að fram komi heildarútgjöld og útgjöld reiknuð á hvern farþega. Svarið skal ná til farþegaflutninga á landi, á sjó og með flugi.

    Stuðning ríkisins við rekstur almenningssamgangna sl. fimm ár má sjá í töflu 1 hér að aftan. Farþegafjölda eftir ferðamáta er að finna í töflu 2 og í töflu 3 er reiknaður stuðningur á farþega. Í töflu 4 má finna sérstaka styrki sem veittir voru til ríkisstyrktra almenningssamgangna vegna COVID-faraldursins. Í töflu 5 eru tilgreindar samningsgreiðslur til að tryggja flug til Egilsstaða, Ísafjarðar og Vestmannaeyja í COVID-faraldrinum á flugleiðum sem annars eru ekki ríkisstyrktar.
    Ekki er unnt greina í sundur styrki við landsamgöngur innan eða á milli landshluta þar sem þær upplýsingar hafa ekki verið skráðar sérstaklega. Það kerfi sem nú er notað til að halda utan um ferðir miðast við gjaldsvæði en ekki mörk landshluta. Unnið er að því að bæta þær tölulegu upplýsingar sem safnað er.
    Nær allur kostnaður vegna rekstrarstyrkja til flugs er beinn rekstrarstyrkur til flugrekenda á ríkisstyrktum flugleiðum. Annað sem fellur til er t.d. kostnaður vegna útboða og markaðsrannsókna.
    Kostnaður vegna Loftbrúar er styrkur til farþega en ekki til flugfélaga. Styrkinn geta farþegar nýtt sér hvort sem umrædd flugleið er styrkt af ríkinu eða ekki. Því er hann aðgreindur.
    Stofnkostnaður við Loftbrú árið 2020 var 30 millj. kr. Hann nýtist til framtíðar. Við að meta kostnað á hvern farþega er talið eðlilegra að miða við þær rétt um 45 millj. kr sem fóru til að greiða niður flugfargjöld. Ferðir í Loftbrú árið 2020 voru 7.108. Kostnaður á hvern miða er þá 6.333 kr. Árið 2021 voru ferðir í Loftbrú 57.974. Kostnaður var 367 millj. kr. Kostnaður á hvern miða var því 6.330 kr. Farþegar í Loftbrú eru að hluta inni í tölum um fjölda farþega í ríkisstyrktu flugi.
    Styrkir til reksturs almenningsvagna á landsbyggðinni eru að stærstum hluta beinir rekstrarstyrkir. Annar kostnaður sem fellur til er m.a. við þróunarverkefni með landshlutasamtökum sveitarfélaganna á árunum 2016 og 2017 og kostnaður vegna yfirtöku samninga frá landshlutasamtökunum árið 2019. Árið 2020 féll einnig til kostnaður við markaðsrannsóknir og útboð.
    Í gegnum byggðaáætlun var á árunum 2020 og 2021 úthlutað samtals 68,5 millj. kr. í styrki til eflingar almenningssamgangna milli byggða. Hafa styrkirnir runnið til ýmissa verkefna um land allt sem og eru flest unnin á vettvangi landshlutasamtaka sveitarfélaga. Þessar tölur eru ekki reiknaðar niður á farþega þar sem þeim var ekki varið til tiltekins samgöngumáta.
    Framlög til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu eru öll beinir rekstrarstyrkir til Strætó bs.
    Hlutfall rekstrarstyrks vegna ferja er lægra en vegna flugs og samgangna á landi þar sem Vegagerðin (ríkið) á þrjár af ferjunum. Viðhald þeirra og tengdur kostnaður fellur því beint á eiganda.
    Sérstakur styrkur til Isavia var veittur árin 2020 og 2021 vegna áhrifa COVID-faraldursins á innanlandsflug. Styrkurinn nam 323 millj. kr. árið 2020 og 57 millj. kr. árið 2021. Þær tölur eru teknar með í töflu 1.

Tafla 1.
Útgjöld Vegagerðarinnar í millj. kr. 2017 2018 2019 2020 2021
Flug rekstrarstyrkur 338 386 460 838 574
Flug annað 28 0 1 16 16
Flug samtals 366 386 461 854 590
Hlutfall rekstrarstyrks 92,0% 99,9% 99,8% 98,0% 97,0%
Alm.vagn. landsb. rekstrarst. 431 549 739 754 713
Alm.vagn. höfuðborgarsv. rekstrarst. 989 1.005 888 900 906
Alm.vagn. landsb. annað 23 4 97 127 110
Almenningsvagnar samtals 1.443 1.558 1.724 1.781 1.729
Hlutfall rekstrarstyrks 98,5% 99,7% 94,4% 92,9% 93,6%
Ferjur rekstrarstyrkur 1.298 1.502 1.382 1.386 1.520
Ferjur annar kostnaður 219 175 384 349 198
Ferjur samtals 1.518 1.677 1.766 1.736 1.717
Hlutfall rekstrarstyrks 86,0% 90,0% 78,0% 80,0% 88,5%
Loftbrú 75 367
Byggðaáætlun 33 36

Tafla 2.
Farþegafjöldi 2017 2018 2019 2020 2021
Flug 16.320 16.905 16.478 9.977 15.073
Alm.vagn. landsbyggð 444.394 389.158 360.302 190.132 234.911
Alm.vagn. höfuðborgarsv. 11.737.200 11.205.700 12.183.300 8.850.400 9.492.400
Ferjur 433.588 437.816 463.542 340.252 440.567

Tafla 3.
Kostnaður á farþega 2017 2018 2019 2020 2021
Flug – rekstrarstyrkur 22.451 22.855 27.989 85.589 39.144
Almenningsvagnar landsbyggð 1.024 1.421 2.320 4.632 3.503
Almenningsvagnar höfuðborgarsv. 84 90 73 102 95
Ferjur 3.501 3.830 3.810 5.101 3.898
Flug – Loftbrú 6.333 6.330

    Sérstakur styrkur var veittur á árunum 2020 og 2021 vegna áhrifa COVID-faraldursins á samgöngur. Styrkurinn dreifðist eins og sjá má í töflu 4.

Tafla 4 (allar tölur í millj. kr).
Flug: 2020 2021
Stuðningur við einstakar flugleiðir 96 0
Rekstur flugvalla 323 57
Ferjur:
Rekstur ferja 253 50
Samgöngur á landi:
Rekstur almenningsvagna 82 155
Samtals 754 262

Tafla 5.
Flug: 2020 2021
Stuðningur við einstakar flugleiðir 1 4