Ferill 702. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1426  —  702. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um greiðslur til LOGOS lögmannsþjónustu.


     1.      Hvað greiddi Bankasýsla ríkisins LOGOS lögmannsþjónustu fyrir vinnu við lögfræðiálit um jafnræði við sölumeðferð eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka hf. sem dagsett er 11. maí 2022?
    Vegna vinnu við greiningu lagalegra álitaefna um jafnræði bjóðenda og gerð minnisblaðs um efnið greiddi Bankasýsla ríkisins LOGOS slf. („LOGOS“) samtals 1.475.750 kr. án virðisaukaskatts. Gerð þessa minnisblaðs hófst eftir að útboði á hlutum í Íslandsbanka lauk 23. mars 2022 og þar með lauk formlegum störfum LOGOS sem lögfræðilegs ráðgjafa stofnunarinnar í tengslum við það.

     2.      Lét Bankasýsla ríkisins LOGOS lögmannsþjónustu meta hvort sölumeðferð á 22,5% eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka stæðist reglur um jafnræði áður en salan fór fram?
    Nei, ekki sérstaklega. LOGOS var lögfræðilegur ráðgjafi Bankasýslu ríkisins við sölumeðferðina, sem lauk eins og áður sagði 23. mars 2022, auk þess sem Bankasýslan naut ráðgjafar annarra sérfræðinga. Hvorki af hálfu lögmannsstofunnar né annarra ráðgjafa Bankasýslunnar við sölumeðferðina voru gerðar athugasemdir um að salan stæðist ekki reglur um jafnræði enda ekki tilefni til þess.

     3.      Hvers vegna var þeirri lögmannsstofu sem kom að sölumeðferðinni sem innlendur lögfræðilegur ráðgjafi Bankasýslu ríkisins falið að leggja mat á lögmæti sölumeðferðarinnar eftir að salan var um garð gengin í stað þess að fela það annarri lögmannsstofu sem hafði ekki komið áður að málinu?
    LOGOS var lögfræðilegur ráðgjafi Bankasýslu ríkisins við sölumeðferðina. LOGOS hefur jafnframt verið Bankasýslunni til ráðgjafar eftir söluna í tengslum við ýmis álitaefni og fyrirspurnir sem upp hafa komið enda er stofnuninni heimilt, eins og stjórnvöldum almennt, að leita sér ráðgjafar við þau verkefni og ákvarðanir sem hún hefur með höndum. Tekið skal fram að LOGOS kom ekki að ákvörðunum um skerðingu áskrifta og úthlutun til bjóðenda og hafði því ekki áður lagt mat á þau álitaefni sem til umfjöllunar voru í minnisblaði lögmannsstofunnar. Af þeim sökum m.a. þótti ekki sérstakt tilefni til að leita annað um ráðgjöf vegna þessara atriða.

     4.      Hvers vegna var ekki gætt jafnræðis gagnvart fjölmiðlum við birtingu lögfræðiálitsins 18. maí 2022?
    Bankasýsla ríkisins ákvað að senda fréttatilkynningu um niðurstöður athugunar LOGOS miðvikudagsmorguninn 18. maí til helstu fjölmiðla landsins. Ráðgjafarfyrirtækinu Athygli var falið að sjá um að senda út tilkynningu fyrir hönd Bankasýslu ríkisins.
    Eftirmiðdaginn 17. maí var hringt í ritstjórnir þeirra prentmiðla sem komu út um miðvikudagsmorguninn (Morgunblaðið og Fréttablaðið) og kannað hvort þeir hefðu áhuga á að fjalla um efni fréttatilkynningar og birta niðurstöður hennar í prentútgáfum sem kæmu út á svipuðum tíma 18. maí og tilkynning yrði send út. Ekki náðist samband símleiðis við ritstjórn Fréttablaðsins en aðili á ritstjórn Morgunblaðsins óskaði eftir að fá tilkynningu senda eftir að hafa samþykkt skilyrði um að efni hennar yrði ekki gert opinbert fyrr en tilkynning hefði verið send helstu fjölmiðlum 18. maí kl. 06.00. Markmið Bankasýslunnar var það eitt að fá umfjöllun um fréttatilkynninguna í sem flestum fjölmiðlum. Þar sem aðeins náðist samband símleiðis við ritstjórn Morgunblaðsins var tilkynningin einungis send Morgunblaðinu daginn áður til birtingar á sama tíma og tilkynning var send öðrum miðlum 18. maí.

     5.      Hverjar hafa greiðslur Bankasýslu ríkisins til LOGOS lögmannsþjónustu verið frá árinu 2017, sundurliðað eftir greiðslum og árum?
    Bankasýsla ríkisins hefur einungis innt af hendi greiðslur til LOGOS á árinu 2022. Nema þóknanir lögmannsþjónustunnar á árinu samtals 6.182.250 kr. án virðisaukaskatts. Í meðfylgjandi töflu er sýnd sundurliðun á þeim verkefnum (verklýsing ásamt kostnaði) samkvæmt reikningum og vinnuskýrslum sem LOGOS hefur sent stofnuninni.

Bókunardagsetning Fjárhæð Verklýsing
31.3.2022 1.500.000 kr. Lögfræðiþjónusta samkvæmt umsaminni þóknun (samningsverð).1
30.4.2022 2.820.500 kr. Lögfræðiráðgjöf og lögfræðiþjónusta í mars og apríl 2022, m.a. tengd réttarreglum um bankaleynd, persónuvernd og skyldu/heimild til að afhenda upplýsingar, skyldum gagnvart þingnefnd og svörum við fyrirspurnum, samskiptum við Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands, réttarstöðu gagnvart söluráðgjöfum, fréttatilkynningum, almennum spurningum og svörum og ýmsum samskiptum.
31.5.2022 1.475.750 kr. Lögfræðiráðgjöf tengd álitaefnum um jafnræði bjóðenda, greiningu álitaefna, réttarreglum, upplýsingaöflun, ritun minnisblaðs og ýmsum samskiptum.2
31.5.2022 386.000 kr. Lögfræðiráðgjöf og lögfræðiþjónusta í maí 2022, m.a. tengd samskiptum og svörum við fyrirspurnum Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, réttarstöðu gagnvart söluráðgjöfum og mögulegum réttarúrræðum.
1 Um var að ræða lögfræðilega ráðgjöf, sem var einungis í tengslum við útboðið, og lauk 23. mars 2022.
2 Um var að ræða vinnu vegna minnisblaðsins sem tilgreint er í svari við 1. tölul.

     6.      Hverjar hafa greiðslur fjármála- og efnahagsráðuneytis til LOGOS lögmannsþjónustu verið frá árinu 2017, sundurliðað eftir greiðslum og árum?
    Fjármála- og efnahagsráðuneyti hefur ekki greitt LOGOS lögmannsþjónustu fyrir ráðgjöf vegna sölu á eignarhlutum í Íslandsbanka. Einu viðskiptin sem ráðuneytið hefur átt við LOGOS frá árinu 2017 eru vegna ráðgjafar í tengslum við grænar fjárfestingar og greiddi ráðuneytið LOGOS lögmannsþjónustu samtals 577.530 kr. með virðisaukaskatti fyrir ráðgjöfina 9. febrúar 2021.