Ferill 177. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 179  —  177. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013 (kaup einstaklings á íbúðarhúsnæði).

Flm.: Vilhjálmur Árnason, Óli Björn Kárason, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Njáll Trausti Friðbertsson, Hildur Sverrisdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir.


1. gr.

    3.–7. mgr. 5. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Skjöl er varða kaup einstaklings á íbúðarhúsnæði.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er flutt í sjöunda sinn. Það var síðast lagt fram á 151. löggjafarþingi (55. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Umsagnir sem borist hafa um málið eru almennt jákvæðar gagnvart efni frumvarpsins og breytingu þess á fyrirkomulagi stimpilgjalda.
    Með frumvarpinu er lagt til að stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði verði afnumið. Einstaklingum ber nú almennt að greiða 0,8% stimpilgjald vegna kaupa á íbúðarhúsnæði en þó er veittur helmingsafsláttur þegar um fyrstu kaup er að ræða. Verði frumvarpið að lögum mun gjaldið falla alfarið niður vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði og undanþágan verður ekki bundin við fyrstu kaup.
    Markmið frumvarpsins er að auðvelda fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis og auka skilvirkni og flæði á markaði með íbúðarhúsnæði. Mikil þörf er á að auðvelda fólki eins og frekast er unnt að eignast íbúðarhúsnæði, einkum við aðstæður á borð við þær sem nú ríkja á húsnæðismarkaði.
    Sýnt þykir að stimpilgjald hafi áhrif til hækkunar fasteignaverðs, dragi úr framboði og rýri hlut kaupenda og seljenda. Af framangreindu má ætla að afnám stimpilgjalds af fasteignaviðskiptum muni auðvelda verðmyndun á húsnæðismarkaði með tilheyrandi aukningu á framboði sem hefur verið með minnsta móti undanfarin ár.