Ferill 182. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 184  —  182. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (frádráttur).

Flm.: Óli Björn Kárason, Njáll Trausti Friðbertsson, Haraldur Benediktsson, Vilhjálmur Árnason.


1. gr.

    Við 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr liður, C-liður, svohljóðandi:
    Fé sem varið er til fjárfestingar í:
     1.      hlutabréfum sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða á markaðstorgi fjármálagerninga,
     2.      hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða sem eingöngu fjárfesta í hlutabréfum sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga,
     3.      hlutdeildarskírteinum hlutabréfasjóða sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.
    Frádráttur skv. 1. mgr. skal miðast við fjárfestingu á hverju ári og vera 100% af verðmæti keyptra hlutabréfa umfram verðmæti seldra hlutabréfa, en þó aldrei hærri en 400.000 kr. hjá einstaklingi og 800.000 kr. hjá hjónum.
    Það er skilyrði frádráttar skv. 1. mgr. að einstaklingur eigi viðkomandi hlutabréf eða hlutdeildarskírteini yfir þrenn áramót og geri árlega grein fyrir eignarhaldi þeirra. Selji hann hlutabréfin eða hlutdeildarskírteinin innan þess tíma færist nýttur frádráttur til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa eða hlutdeildarskírteina. Ekki skal þó beita ákvæði um tekjufærslu frádráttar ef einstaklingur kaupir á sama ári og eigi síðar en 30 dögum eftir söluna önnur hlutabréf eða hlutdeildarskírteini fyrir a.m.k. sömu fjárhæð og nemur söluverði hinna seldu hlutabréfa eða hlutdeildarskírteina, sem uppfylla skilyrði 1.–3. tölul. 1. mgr. Sé kaupverðið lægra skal ákvæði 2. málsl. eiga við um mismuninn.
    Ekki er heimilt að flytja á milli ára og nýta sem frádrátt það sem fjárfest er umfram hámark á hverju ári skv. 2. mgr.
    Frádráttur samkvæmt þessum staflið heimilast frá tekjum skv. A- og B-lið 7. gr.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd frádráttar samkvæmt þessum staflið.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2022.

Greinargerð.

    Frumvarpið er flutt í þriðja sinn en það var síðast lagt fram á 151. löggjafarþingi (29. mál). Með frumvarpinu er einstaklingum veitt heimild, með ákveðnum takmörkunum, til að draga frá tekjuskatti kaup á skráðum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og hlutabréfasjóðs sem eru skráðir á skipulegan verðbréfamarkað eða fjárfesta eingöngu í skráðum hlutabréfum.
    Frumvarpið byggist á grunni 30. gr. eldri laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, en ákvæðið var fellt brott úr lögunum árið 2002. Þegar lögin voru sett á sínum tíma var miðað við eignarhald á hlutabréfunum í þrjú ár og við það er miðað hér.
    Með frumvarpi þessu er hins vegar eingöngu lagt til að heimilt verði að fjárfesta í hlutabréfum sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga (skráð hlutabréf). Eldri lögin gerðu ráð fyrir því að hægt væri að kaupa í óskráðum hlutabréfum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, en þá þurfti ríkisskattstjóri að staðfesta að hlutabréfin féllu undir þessi skilyrði. Með því að leggja til að eingöngu verði heimilt að fjárfesta í skráðum hlutabréfum er ferlið við skattafsláttinn einfaldað auk þess sem almenningur nýtur lögbundinnar fjárfestaverndar með kaupum á skráðum hlutabréfum. Flutningsmenn telja hins vegar að víkka eigi heimildina út á komandi árum.
    Margvíslegar reglur gilda um viðskipti með skráð hlutabréf. Fyrst má nefna reglur um fjárfestavernd, sem gegna lykilhlutverki í því að efla traust og trúverðugleika fjárfesta, þ.m.t. almennings, á fjármálamarkaðnum. Reglunum er ætlað að tryggja að fjárfestar séu upplýstir í samræmi við þekkingu sína og reynslu og fái viðeigandi upplýsingar um fjárfestingarkosti og þá þjónustu sem er í boði hverju sinni. Með þeim á einnig að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra á milli fjármálafyrirtækja og viðskiptavina þeirra og stuðla að því að hagsmuna viðskiptavina sé gætt í hvívetna.
    Með innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga (e. MiFID) árið 2007 voru gerðar umfangsmiklar breytingar á reglum um fjárfestavernd og gerir MiFID II tilskipunin enn frekari kröfur til fjármálafyrirtækja um fjárfestavernd.
    Þá gilda einnig reglur um upplýsingaskyldu útgefanda, þ.e. útgefanda ber að birta allar þær innherjaupplýsingar sem varða hann eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli. Reglum um upplýsingaskyldu er ætlað að tryggja að ávallt liggi fyrir allar upplýsingar sem skipta fjárfesta máli og þar með tryggja eðlilega og sanngjarna verðmyndun á markaðnum. Þá tryggja þær líka að allir fjárfestar fái aðgang að innherjaupplýsingum útgefanda á sama tíma. Undir innherjaupplýsingar falla, eftir atvikum, ársreikningar og árshlutauppgjör, verulegar breytingar á starfsemi útgefanda, fjárhagslegir erfiðleikar auk upplýsinga um stjórnendur félagsins, þ.m.t. viðskipti stjórnenda og annarra innherja. Fjárfestum er því auðveldað að fylgjast með rekstri félagsins á hverjum tíma.
    Reglur um upplýsingaskyldu hvíla ekki eingöngu á hlutafélögunum sjálfum heldur gilda einnig svokallaðar flöggunarreglur, þ.e. skylda sem myndast þegar breyting verður á verulegum hlut atkvæðisréttar en þær reglur gilda um hluthafa félagsins og tengda aðila. Reglunum er ætlað að tryggja að fjárfestar séu upplýstir um hvaða aðilar fari með verulegan hlut atkvæðisréttar í viðkomandi félagi en það getur skipt fjárfesta miklu máli hver fari með verulegan hlut í félaginu. Að auki gilda reglur um yfirtöku sem gerir fjárfestum kleift að fá sinn hlut keyptan á ákveðnu verði sem er lagt til viðmiðunar, ef til þess kemur að aðili nái beint eða óbeint yfirráðum í skráðu félagi.
    Þá er fjármálafyrirtækjum gert að opinbera upplýsingar um verð, umfang og tímasetningu viðskipta sem þau eiga eða hafa milligöngu um, eins nálægt rauntíma og mögulegt er, auk þess sem kauphöllum ber að birta opinberlega upplýsingar um tilboð og viðskipti í viðskiptakerfum sínum. Fá fjárfestar því aðgang að mikilvægum upplýsingum um framboð og eftirspurn eftir viðkomandi hlutabréfum.
    Með framangreindum reglum eru fjárfestum tryggðar þær upplýsingar sem þeir þurfa til að taka upplýsta ákvörðun um viðskipti með skráð hlutabréf. Ákvæðum um markaðsmisnotkun er síðan ætlað að styrkja áreiðanleika upplýsinganna, með því að leggja bann við hverri þeirri háttsemi sem er líkleg til þess að villa um fyrir almenningi. Þá ber einnig að hafa í huga að lögin um verðbréfaviðskipti geyma ströng viðurlög ef fyrrgreindum reglum er ekki fylgt og almennt er því gott aðhald og eftirlit með því að útgefendur, fjármálafyrirtæki og fjárfestar á markaði fylgi framangreindum reglum.
    Hlutabréfamarkaðurinn er mikilvæg uppspretta fjármagns og gerir fyrirtækjum kleift að afla sér viðbótarfjármagns í formi nýs hlutafjár. Markaðurinn veitir jafnframt skráðum félögum aðhald þar sem þau búa við ríka upplýsingaskyldu sem leiðir að öðru óbreyttu til aukins aga, vandaðra stjórnarhátta, gagnsæis, trúverðugleika, og ekki síst skilvirkni í rekstri. Sagan sýnir að skilvirkur hlutabréfamarkaður er óaðskiljanlegur frá öflugu efnahagslífi og hagvexti þróaðra þjóða. Sterkur markaður þar sem fyrirtæki hafa greiðan aðgang að fjármagni sem nýta má til fjárfestingar og vaxtar er þjóð allri til hagsbóta.
    Skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa, hvort heldur sem er í sjóðum eða stökum hlutabréfum, hvetur til aukins sparnaðar af hálfu heimila ásamt því að búa til meiri dýpt á markaði með fjölgun þátttakenda og því fjármagni sem þeim fylgir. Slík fjölgun getur liðkað fyrir viðskiptum með því að auka seljanleika og þannig dregið úr flökti á markaði ásamt því að auka möguleika fyrirtækja til fjármögnunar. Skattafslátturinn hvetur heimilin til þátttöku í atvinnurekstri og tvinnar því saman hagsmuni þeirra og atvinnulífs, sem leitt getur til meiri meðvitundar meðal almennings um stöðu hagkerfisins og þeirra afleiðinga sem breytingar í rekstrarumhverfi fyrirtækja, t.d. skattbreytingar eða almenn launaþróun, kunna að hafa í för með sér. Við þetta má bæta að afslátturinn hvetur einnig til þess að heimilin nýti sér þær sparnaðarleiðir sem þeim standa til boða, að teknu tilliti til áhættu og ávöxtunar, og nýti sér möguleikann á frekari áhættudreifingu.
    Við lok árs 2018 var verðbréfaeign heimilanna aðeins um 7,6% af heildareignum og hefur ekki mælst minni frá því að mælingar hófust. Hæst fór hlutfallið í ríflega 14% árið 2007 en það féll niður í 8,6% við fjármálahrunið 2008 og hefur ekki náð sér á strik síðan. Verðbréfaeign heimila er ekki aðeins lítil í sögulegum samanburði heldur einnig í norrænum samanburði líkt og sést á meðfylgjandi mynd en verðbréfaeign íslenskra heimila er um helmingi minni en verðbréfaeign sænskra heimila, svo dæmi sé tekið.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


                                  Heimild: Hagstofa Íslands.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


                             Heimild: Hagstofur viðeigandi landa.

    Bein eignarhlutdeild einstaklinga í markaðsvirði skráðra hlutabréfa er nú einungis um 4–5% samanborið við 11–17% á árunum 2002–2007. Hin litla beina þátttaka almennings er áhyggjuefni með hliðsjón af hagsmunum einstaklinganna sjálfra sem og íslensks atvinnulífs. Það kemur ekki á sama stað niður að einstaklingar fjárfesti óbeint í hlutabréfum í gegnum lífeyrissjóði (og, í takmörkuðum mæli, verðbréfasjóði).
    Fjármögnunarmöguleikar íslenskra fyrirtækja, ekki síst smárra og meðalstórra fyrirtækja, eru til að mynda vafalaust lakari en ef sparnaður almennings færi eftir fleiri farvegum í fjárfestingar í atvinnulífinu. Lífeyrissjóðir kjósa fyrst og fremst að fjárfesta í stærri fyrirtækjum. Vegna umfangs lífeyrissjóða á markaði og tiltölulega lítillar þátttöku annarra fjárfesta geta fyrirtæki sem eru minni en 10 milljarðar kr. að markaðsvirði átt erfitt uppdráttar á íslenskum hlutabréfamarkaði. Reynslan erlendis sýnir að fyrirtæki af þessari stærðargráðu geti verið vel fær um að mæta kröfum hlutabréfamarkaðar og notið mjög góðs af skráningu ef þau búa við réttar aðstæður. Þannig eru til að mynda um 70% félaga á First North markaði Nasdaq á Norðurlöndum minni en 5 milljarðar kr. að markaðsvirði og 87% minni en 10 milljarðar kr. Sjálfsagt ræður nokkru að þátttaka almennra fjárfesta hefur verið mikil á First North markaðnum. Lítil þátttaka almennings á íslenskum hlutabréfamarkaði skapar þá hættu að íslensk fyrirtæki telji hag sínum best borgið utan landsteinanna, sérstaklega smærri vaxtarfyrirtæki sem njóta síður athygli stærstu fjárfesta á íslenskum markaði.