Ferill 29. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 29  —  29. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um áhrif hækkunar fasteignamats.

Frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur.


     1.      Hversu mikið má að óbreyttu ætla að álögur á kaupendur íbúðarhúsnæðis aukist vegna áhrifa hækkunar fasteignamats 2023 á stimpilgjöld?
     2.      Telur ráðherra koma til greina að lækka álagningarhlutfall stimpilgjalda til að mæta hækkun fasteignamats um næstu áramót? Telur ráðherra koma til greina að afnema stimpilgjöld?
     3.      Hver verða áhrif hækkunar fasteignamats 2023 á reiknaða eignastöðu einstaklinga sem reiða sig á vaxtabætur og skerðingar vaxtabóta af þeim orsökum? Hversu margir einstaklingar sem hingað til hafa getað fullnýtt hámarksrétt til vaxtabóta verða fyrir skerðingum, hversu margir verða fyrir auknum skerðingum og hversu margir verða fyrir fullum skerðingum vegna eigna og missa þannig allan rétt til vaxtabóta? Hver má að óbreyttu ætla að heildaráhrif þessara breytinga verði fyrir ríkissjóð?
     4.      Telur ráðherra koma til greina að hækka skerðingarmörk vaxtabóta vegna eigna til að mæta auknum skerðingum sem annars leiðir af mikilli hækkun fasteignamats um næstu áramót, með tilliti til þess að tekjur margra í viðkomandi hópum hafa ekki hækkað umfram almennar vísitöluhækkanir?
     5.      Telur ráðherra koma til greina að gera breytingar á skattkerfinu til að draga úr sjálfvirkri tengingu skatta og opinberra gjalda við gjaldstofna sem eru ekki á valdi kjörinna fulltrúa heldur háðir duttlungum markaðarins?


Skriflegt svar óskast.