Ferill 37. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 37  —  37. mál.
Leiðréttur texti.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, nr. 160/2008, með síðari breytingum (heiti stofnunar).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Í stað orðanna „þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: Sjónstöðina.

2. gr.

    Í stað orðanna „Þjónustu- og þekkingarmiðstöð“ í 1. mgr. 8. gr. a laganna kemur: Sjónstöðin.

3. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um Sjónstöðina.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að heiti þeirrar stofnunar sem sinnir þjónustu við blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu verði breytt. Stofnunin heitir nú því óþjála heiti Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Heiti stofnunarinnar er því þrettán orð og heilir 144 bókstafir. Lengst af hét þessi stofnun lögum samkvæmt Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra en gekk undir nafninu Sjónstöðin. Við endurskoðun laga í gegnum árin hefur heitið ítrekað tekið breytingum og stafafjöldinn aukist. Það tíðkast almennt ekki í heiti annarra stofnana að telja upp í heiti þeirra hvert og eitt einasta viðfangsefni stofnunar. Því er engin ástæða til að beita þeirri formúlu einungis um heiti þessarar stofnunar. Nú er kominn tími til að gefa stofnuninni venjulegt heiti. Nafnið Sjónstöðin lýsir vel hlutverki stofnunarinnar, þ.e. að aðstoða þá sem eru blindir, sjónskertir eða með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Auk þess kannast margir við heitið, enda var starfrækt Sjónstöð allt frá árinu 1987 til 2008.