Ferill 39. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 39  —  39. mál.
Ný grein.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020 (launatekjur).

Flm.: Tómas A. Tómasson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Miða skal við að framfærslulán nægi hverjum námsmanni til að standa straum af almennum framfærslukostnaði á Íslandi meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns og búsetu en án tillits til launatekna námsmanns eða fjölskyldu hans.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                 Nánar skal mælt fyrir um framkvæmd þessa í úthlutunarreglum, þ.m.t. hámark skólagjaldalána og takmarkanir miðað við t.d. námsframvindu námsmanns en án tillits til sjálfsaflafjár námsmanns.

2. gr.

    2. mgr. 26. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Mennt er máttur. Menntakerfið er ein af grunnundirstöðum samfélagsins og þar spilar námslánakerfið lykilhlutverk. Námslán hafa gert fjölda fólks kleift að öðlast menntun, sem ella hefði þurft að hverfa frá námi og halda út á vinnumarkað. Óumdeilt er að aukinn aðgangur að menntun án tillits til efnahags dregur úr stéttaskiptingu og eykur verðmætasköpun í samfélaginu, en námslánakerfið er langt frá því að vera fullkomið. Námslán eru háð ýmsum skilyrðum og lítið þarf að fara úrskeiðis til þess að námsmenn missi bróðurpart framfærslu sinnar.
    Ein helsta hindrunin í vegi námsmanna sem þurfa að treysta á framfærslulán frá Menntasjóði eru reglur um skerðingar á framfærslu vegna tekna námsmanna. Hafi námsmaður tekjur umfram frítekjumörk úthlutunarreglna skerðist framfærsla frá Menntasjóði verulega. Þetta er sérstaklega íþyngjandi í ljósi þess að framfærsla Menntasjóðs dugar almennt ekki ein og sér til að greiða fyrir fæði, klæði og húsnæði. Einhleypur nemandi sem býr á stúdentagörðum getur fengið framfærslulán að fjárhæð 196.040 kr. á mánuði 1 en þarf að greiða 99.999 kr. í leigu. Miðað við neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins má áætla að dæmigerð útgjöld námsmanns séu 244.492 kr. á mánuði. Því munar 48.452. kr. á framfærslu námsmanns og útgjöldum. 2 Þá er frítekjumarkið aðeins 1.410.000 kr. á ári. Ef námsmaður er í fullri vinnu í þrjá mánuði á hverju sumri með 351.000 kr. í mánaðarlaun 3 þá er svigrúmið til frekari tekjuöflunar yfir námsveturinn lítið sem ekkert, tæpar 40.000 kr. á mánuði uns tekjur byrja að hafa áhrif á framfærslu frá Menntasjóði. Þær launatekjur sem námsmaður hefur umfram frítekjumarkið skila sáralitlu, enda skerða þær framfærslulán um 45% auk þess sem greiða þarf af þeim tekjuskatt eftir að persónuafsláttur er fullnýttur.
    Það er erfitt að skilja hver rökin eru fyrir því að skerða svo verulega námslán vegna tekna námsmanna. Varla er það svo að atvinnuþátttaka námsmanna sé samfélaginu skaðleg. Þvert á móti þá eru þeir að skapa verðmæti með vinnu sinni. Ef við göngum út frá því að menntun sé samfélagslega arðbær fjárfesting þá eigum við að sjá til þess að menntun sé öllum aðgengileg án tillits til efnahags. Svo verulegar tekjuskerðingar, þegar grunnframfærslan er eins lítil og raun ber vitni, fela í sér mismunun á grundvelli efnahags. Nám á að vera öllum aðgengilegt en ekki aðeins þeim sem geta treyst á fjárhagslegan stuðning frá fjölskyldu sinni. Ef ekki er gripið í taumana þá er hættan sú að menntun verði brátt aðeins fyrir börn hinna efnameiri.
    Þá er það mikilvægur þáttur í menntun margra að læra af vinnu. Nemendur sækja gjarnan um störf sem tengjast námi þeirra í þeim tilgangi að auka við reynslu og þekkingu á viðkomandi sviði. Samfélagið á að taka slíku frumkvæði fagnandi. Eins og kerfið er uppbyggt í dag þá er lítill fjárhagslegur ávinningur af starfsnámi. Afleiðingarnar eru þær að fyrirtæki og stofnanir hafa tekið upp á því að bjóða námsmönnum launalaust starfsnám. Námsmönnum er því ekki aðeins ætlað að lifa undir fátæktarmörkum heldur eiga þeir einnig að vinna samhliða námi launalaust. Þetta er hættuleg þróun. Við eigum að verðlauna námsmenn fyrir dugnað, í stað þess að refsa þeim fyrir. Það er nauðsynlegt að draga úr tekjuskerðingum og veita nemendum færi á að spreyta sig á vinnumarkaði og leyfa þeim að njóta góðs af.
    Þá mun það ekki hafa neikvæð áhrif á ríkissjóð að draga úr tekjuskerðingum námsmanna. Framfærslulán til nemenda eru fjárfesting sem skilar miklum samfélagslegum ábata. Þau eru á endanum greidd til baka og verðmætasköpun í samfélaginu verður meiri eftir því sem menntun eykst.
    Frumvarp þetta hefur það að markmiði að koma í veg fyrir skerðingar á framfærslu námsmanna vegna launatekna. Í því skyni eru lagðar til breytingar á lögum um Menntasjóð. Lagðar eru til tvær breytingar á 2. gr. laganna sem fela það í sér að ekki megi taka tillit til launatekna námsmanna eða fjölskyldu þeirra við ákvörðun á framfærslu. Verði frumvarpið samþykkt þarf að endurskoða úthlutunarreglur Menntasjóðs og fella úr gildi þær reglur sem kveða á um skerðingar á framfærslu vegna launatekna námsmanns. Þannig er hægt að tryggja að námsmenn geti stundað vinnu samhliða námi í fullri vissu um að þeir fái að njóta ágóðans.
Einnig er lagt til að felld verði brott sú sérregla laga um Menntasjóð sem kemur í veg fyrir að kröfur vegna námslána falli niður í kjölfar gjaldþrots. Sömu reglur eiga að gilda um fyrningu námslána og gilda um kröfur almennt.
1     Miðað við framfærslu í níu mánuði á ári.
2     Þessi umfjöllun er byggð á greininni „Stúdentar eiga betra skilið“ sem var birt á vef Stúdentaráðs Háskóla Íslands þann 31. ágúst 2021: student.is/frettir/studentar-eiga-betra-skilid
3     Tekjutrygging fyrir fullt starf samkvæmt lífskjarasamningum er 351.000 kr. á mánuði.