Ferill 43. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 43  —  43. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum (farsímasamband á þjóðvegum).

Flm.: Jakob Frímann Magnússon, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Á eftir 1. málsl. 3. mgr. 19. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Til alþjónustu telst einnig óslitið farsímasamband á þjóðvegum, sbr. 8. gr. vegalaga, nr. 80/2007.

2. gr.

    Á eftir 1. mgr. 20. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Fjarskiptastofu er heimilt að leggja kvaðir á fjarskiptafyrirtæki um að koma upp og reka fjarskiptavirki í því skyni að tryggja farsímasamband á þjóðvegum, sbr. 19. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2022.

Greinargerð.

    Ísland er af náttúrunnar hendi erfitt yfirferðar. Jöklar, ár, fjöll og sandar mynda áskoranir sem erfitt er að sigrast á. Aðeins er hálf öld síðan lokið var við gerð hringvegarins. Þá minnir náttúran reglulega á sig með veðurofsa, jarðhræringum og eldsumbrotum með þeim afleiðingum að brýr fljóta í þúsund molum á haf út.
    Nauðsynlegt er að tengja landið með traustum samskiptaleiðum. Það er ekki nóg að byggja upp vegakerfi, heldur þarf líka að tryggja fjarskipti á vegum landsins. Það ógnar mjög öryggi vegfarenda þegar ekki er hægt að treysta á fjarskiptasamband. Undanfarna áratugi hafa fjarskipti batnað mjög á landsbyggðinni, en þrátt fyrir það finnast víða gloppur. 1 Tæknin er til staðar til að stoppa upp í götin en fjarskiptafyrirtæki virðast hafa lítinn áhuga á því mikilvæga verkefni. Ef fjarskiptafyrirtæki sjá sér ekki hagnaðarvon í því að tryggja öryggi á vegum landsins þá verða stjórnvöld að grípa inn í og útrýma þeim markaðsbresti.
    Þegar eru í lögum ýmsar heimildir fyrir stjórnvöld til að grípa inn í þegar einkaaðilar uppfylla ekki samfélagslegar skyldur sínar. Sem dæmi þá getur Fjarskiptastofa lagt þá kvöð á fjarskiptafyrirtæki að bjóða neytendum alþjónustu eða veita samkeppnisaðilum aðgang að fjarskiptakerfum með samtengingu.
    Frumvarp þetta leggur til að það verði hluti af alþjónustu fjarskiptafyrirtækja að tryggja óslitið farsímasamband á þjóðvegum landsins. Til að tryggja eftirfylgni verði Fjarskiptastofu veitt heimild til að leggja kvaðir á fjarskiptafyrirtæki um að koma upp og reka fjarskiptavirki á nánar tilteknum stöðum, eftir þörfum.

1     Í fundargerðum þeirra funda sem haldnir voru í tengslum við gerð grænbókar um fjarskipti má sjá fjölda athugasemda um stopult farsímasamband frá fulltrúum landsbyggðarinnar. Fundargerðir frá samráðsfundum. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. 2021.
     www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/Fundarger%c3%b0ir%20fr%c3%a1%20samr%c3%a1%c3%b0sfundum.pdf