Ferill 334. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 474  —  334. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998 (vefverslun með áfengi).

Flm.: Hildur Sverrisdóttir, Óli Björn Kárason, Bryndís Haraldsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Berglind Ósk Guðmundsdóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „smásölu“ í 1. mgr. kemur: smásölu í vefverslun.
     b.      Á eftir orðinu „heildsölu“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: smásölu í vefverslun.

2. gr.

    Á eftir orðinu „smásala“ í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: smásala í vefverslun.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „smásölu“ í 1. mgr. kemur: smásölu í vefverslun.
     b.      Á eftir orðinu „heildsölu-“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: vefverslunar-.
     c.      5. mgr. orðast svo:
                 Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um fyrirkomulag veitingar leyfa til innflutnings, heildsölu, smásölu í vefverslun eða framleiðslu áfengis í atvinnuskyni og eftirlit með slíkum leyfum. Þá er í reglugerðinni heimilt að fela tilteknu sýslumannsembætti að annast leyfisveitingar á grundvelli laga þessara.

4. gr.

    Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr. a, svohljóðandi:
    Sækja skal um leyfi til að selja áfengi í smásölu í vefverslun til sýslumanns.
    Handhafa vefverslunarleyfis er heimilt að selja áfengi í vefverslun. Áfengisútsala sem fer fram á grundvelli vefverslunarleyfis samkvæmt þessari grein er undanskilin leyfisveitingu skv. 2. mgr. 10. gr.
    Handhafi vefverslunarleyfis eða annar afhendingaraðili skal láta kaupanda eða viðtakanda sanna aldur sinn með því að sýna skilríki með mynd eða á annan fullnægjandi hátt.
    Leyfishafa er óheimilt að hafa áfengi til sýnis á starfsstöð sinni.
    Vefverslunarleyfi sem í fyrsta sinn er gefið út til umsækjanda gildir í eitt ár. Ef leyfi er endurnýjað er gildistími þess ótímabundinn, sbr. þó afturköllun leyfis skv. 24. gr.

5. gr.

    Við 1. mgr. 10. gr. laganna bætist: sbr. þó 9. gr. a.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

7. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011:
                  a.      Í stað orðanna „smásölu á áfengi“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: smásölu ríkisins á áfengi.
                  b.      2. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna fellur brott.
     2.      Lög um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991: Við 11. gr. laganna bætast nýr töluliður, svohljóðandi: Áfengisvefverslunarleyfi 50.000 kr.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á áfengislögum, lögum um verslun með áfengi og tóbak og lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Til ráðgjafar við samningu frumvarpsins voru Haukur Örn Birgisson og Ingvar S. Birgisson, lögmenn hjá Íslensku lögfræðistofunni. Tillögurnar fela í sér undanþágu frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis til neytenda, sem er lögfest í 10. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, og 1. mgr. 7. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011.
    Lagt er til að heimilað verði að starfrækja vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda. Þannig verði heimiluð sala áfengis í gegnum verslanir sem starfræktar eru á netinu, svokallaðar vefverslanir. Í lögum er ekki fjallað um viðskipti almennings með áfengi við erlendar verslanir, t.d. í gegnum vefverslanir þessara aðila. Ekki er óheimilt að almenningur kaupi áfengi í útlöndum og flytji til landsins til einkaneyslu. Aftur á móti hefur óvissa ríkt um hvort heimilt sé að starfrækja slíka vefverslun hér á landi sökum einkaleyfis Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis. Frumvarpinu er ætlað að jafna stöðu innlendrar og erlendrar verslunar að þessu leyti og undirstrika lögmæti innlendrar netverslunar með áfengi.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Vefverslun með áfengi.
    Árið 1995 var einkaréttur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á innflutningi áfengis afnuminn og almenningi þannig gert kleift að flytja áfengi til landsins til einkaneyslu. Í 3. gr. áfengislaga er kveðið á um að sérstakt leyfi þurfi til áfengisinnflutnings í atvinnuskyni en ekki er hins vegar kveðið á um að almenningur þurfi leyfi til að geta flutt áfengi til landsins til einkaneyslu. Almenningur hefur því lengi átt kost á að kaupa áfengi í erlendum verslunum, t.d. vefverslunum, og láta senda heim að dyrum á Íslandi, að áfengis- og innflutningsgjöldum uppgerðum.
    Samhliða þeirri þróun að íslenskir neytendur hafi keypt áfengi erlendis frá hafa viðskipti í gegnum vefverslanir farið sívaxandi á hverju ári. Á síðastliðnum árum hefur orðið sérstaklega mikil aukning á viðskiptum í gegnum innlendar vefverslanir og eru vörurnar jafnan sendar samdægurs heim að dyrum neytandans. Fjölmörg fyrirtæki hafa skapað sér sérstöðu með því að standa vel að rekstri vefverslana sem bjóða daglegar heimsendingar. Þetta fyrirkomulag hefur leitt til þess að neytendur spara sér tíma og geta stundað viðskipti í auknum mæli á eigin forsendum. Samhliða auknu valfrelsi neytenda og alþjóðavæðingu hefur fjöldi sölustaða áfengis hérlendis aukist á síðastliðnum áratugum sem og erlend vefverslun með áfengi.
    Íslenskir áfengisframleiðendur hafa staðið höllum fæti gagnvart erlendri samkeppni um árabil. Ýmsar ástæður liggja þar að baki, hugsanlega meðal annars sú staðreynd að á Íslandi ríkir bann við áfengisauglýsingum, sbr. 20. gr. áfengislaga.
    Í gildandi lagaumhverfi, þar sem Íslendingar geta pantað áfengi heim að dyrum úr erlendum áfengisverslunum, hafa innlendir áfengisframleiðendur reynt að mæta þörfum neytenda með því að bjóða upp á sömu þjónustu. Dæmi eru um að innlendir framleiðendur áfengis selji vörur sínar til erlendra vefverslana. Vörurnar eru svo seldar áfram til íslenskra neytenda í gegnum erlendu vefverslunina. Þannig hefur varan verið flutt frá Íslandi í þeim eina tilgangi að senda hana aftur til landsins, með tilheyrandi kostnaði og losun gróðurhúsalofttegunda. Ljóst er að þetta fyrirkomulag felur í sér ójafnræði fyrir bæði íslenska áfengisframleiðendur og innlenda verslun. Gildandi lagaumhverfi gerir neytendum kleift að kaupa áfengi að vild frá erlendum áfengisverslunum, aðallega á netinu, án þess að skýrt sé að þeim sé heimilt að gera slíkt hið sama í innlendri vefverslun. Með því að heimila innlenda vefverslun með áfengi er lagaleg staða innlendrar og erlendrar vefverslunar með áfengi jöfnuð og gerð skýrari. Af þessu virðist mega ráða að þær hömlur sem nú virðast vera á innlendri vefverslun þjóna ekki tilgangi sínum þar sem almenningur getur, þrátt fyrir hömlurnar, flutt inn áfengi að vild til einkaneyslu. Virðist því skorta rök fyrir þessum takmörkunum á atvinnufrelsi hér á landi.
    Fá, ef einhver dæmi, má finna í íslenskum lögum þar sem almenningi er heimilt að kaupa vörur af erlendum verslunum til innflutnings, en óheimilt að kaupa sömu vöru af íslenskri verslun. Núverandi fyrirkomulag stenst ekki kröfur um jafnræði og er því nauðsynlegt að breyta lögunum til að tryggja jafnræði og samkeppnishæfni innlendrar verslunar við þá erlendu.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Almenn atriði.
    Fyrirrennari Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, Áfengisverzlun ríkisins, var sett á laggirnar árið 1922 á sama tíma og áfengisbanni var aflétt að hluta til. Frumvarp þetta hróflar ekki við hlutverki Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Þá felur frumvarpið ekki í sér tillögur um breytingu á áfengisstefnu, áherslum í lýðheilsumálum eða tekjuöflunarkerfi ríkisins á þessu sviði.
    Atvinnustarfsemi er tengist áfengi er almennt leyfisbundin á Íslandi. Í 8. gr. áfengislaga er áskilið að til innflutnings áfengis í atvinnuskyni þurfi innflutningsleyfi. Innflutningur, heildsala, smásala og framleiðsla áfengis sem fer fram í atvinnuskyni án leyfis samkvæmt lögunum varðar refsingu skv. 27. gr. áfengislaga. Í samræmi við fyrirkomulag varðandi innflutning, framleiðslu og heildsölu áfengis er lagt til að heimilt verði að selja áfengi í smásölu í vefverslun að fengnu leyfi til þess.
    Lagt er til að sömu almennu skilyrði verði sett fyrir vefverslunarsöluleyfi og fyrir öðrum leyfum sem fjallað er um í áfengislögum. Verði frumvarpið að lögum munu einstaklingar og lögaðilar því almennt geta fengið slíkt leyfi hafi þeir náð tilskildum aldri og tilkynnt ríkisskattstjóra um atvinnustarfsemi sína. Þá munu sýslumenn annast leyfisveitingu en lögregla, tollgæsla og skattyfirvöld munu annast eftirlit í samræmi við 4. mgr. 4. gr. laganna. Dómsmálaráðherra mun með reglugerð geta kveðið nánar á um slíka leyfisveitingu og eftirlit með leyfishöfum, sbr. c-lið 3. gr. frumvarpsins.

3.2. Vefverslun með áfengi.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda verði heimil að fengnu vefverslunarleyfi. Felur það í sér undanþágu frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu með áfengi.
    Vefverslun með áfengi mun að meginstefnu fara fram með tvennum hætti, verði frumvarpið að lögum. Annað hvort munu neytendur sækja vöruna á starfsstöð leyfishafans eða fá vöruna senda á þann stað sem þeir tiltaka, t.d. heimili þeirra. Neytendur geta nú þegar fengið áfengi sent heim að dyrum frá útlöndum og gilda engar sérstakar reglur um það fyrirkomulag. Ljóst er að þegar áfengi er sent heim sér milligönguaðili oft um póstsendinguna, t.d. Íslandspóstur eða aðrir aðilar sem sérhæfa sig í vörusendingum. Í ljósi þessa er í frumvarpinu kveðið á um strangari kröfur til sönnunar á aldri viðtakanda. Þannig þarf viðtakandinn í öllum tilvikum að framvísa sönnun þess að hann hafi náð 20 ára aldri. Brot á þessu geta leitt til leyfissviptingar og/eða bakað þeim aðila refsiábyrgð sem stendur að sölu og/eða afhendingu vörunnar.
    Handhafa vefverslunarleyfis verður ekki heimilt að hafa áfengi til sýnis á starfsstöð. Í þeim tilvikum þar sem neytendur sækja áfengi á starfsstöð vefverslunarleyfishafa þarf leyfishafinn því að gæta þess að áfengi sé ekki til sýnis á starfsstöðinni. Honum er einungis heimilt að afhenda áfengið í samræmi við rafræna pöntun. Þessu er ætlað að koma í veg fyrir að hefðbundinn verslunarrekstur eigi sér stað þar sem áfengi er stillt upp, líkt og í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Leyfishafinn taki við áfengispöntunum rafrænt og afhending fari fram strax í kjölfar pöntunar.

3.4. Lýðheilsusjónarmið.
    Ekki er talið að þessi breyting muni hafa teljandi áhrif á lýðheilsu þjóðarinnar þrátt fyrir að breytingin feli í sér fjölgun á áfengisútsölustöðum. Síðastliðna áratugi hefur fjöldi sölustaða áfengis aukist umtalsvert og á það bæði við um fjölda verslana ÁTVR sem og fjölda vínveitingaleyfa án þess að samsvarandi aukning hafi orðið á áfengisneyslu meðal þjóðarinnar. Styðst það meðal annars við upplýsingar frá embætti landlæknis um áfengisneyslu á Íslandi
    Í gildandi lagaumhverfi eru engar sérstakar reglur um vefverslun með áfengi og innflutning áfengis til einkaneyslu neytenda. Þannig geta neytendur nú óhindrað pantað sér áfengi heim að dyrum frá útlöndum og frumvarpið felur því ekki í sér grundvallarbreytingu á áfengislöggjöfinni. Ætla má að vefverslun með áfengi færist að miklu leyti til innlendra vefverslana verði frumvarpið að lögum. Sala verður þá bundin þeim takmörkunum sem kveðið er á um í frumvarpinu, t.d. ítarlegri skilyrði fyrir sönnun á aldri viðtakanda vörunnar heldur en gilda nú þegar um verslanir Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, sbr. nánar í skýringu við 4. gr. frumvarpsins.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið varðar réttindi sem varin eru af 65. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Með frumvarpinu er stuðlað að því að styrkja atvinnufrelsi og jafnrétti með hliðsjón af framangreindum ákvæðum. Frumvarpið verður þannig ekki talið skapa vandkvæði með tilliti til ákvæða stjórnarskrárinnar eða alþjóðlegra skuldbindinga.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. og 2. gr.

    Í 1. og 2. gr. eru lagðar til breytingar á 3. og 4. gr. áfengislaga sem leiðir af því að lagt er til að heimilt verði að veita einstaklingum og lögaðilum leyfi til smásölu á áfengi í vefverslun.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. er lögð til breyting á 5. gr. áfengislaga sem leiðir af því að lagt er til að heimilt verði að veita einstaklingum og lögaðilum leyfi til smásölu á áfengi í vefverslun.
    Í c-lið 3. gr. er lagt til að bætt verði við heimild ráðherra í 5. mgr. 5. gr. um að hann geti með reglugerð kveðið nánar á um eftirlit með fyrirkomulagi veitinga leyfa til innflutnings, heildsölu, smásölu í vefverslun eða framleiðslu áfengis í atvinnuskyni. Þá er lagt til að ráðherra verði gert kleift að fela einu tilteknu sýslumannsembætti að annast leyfisveitingar á grundvelli laga þessara.

Um 4. gr.

    Í 4. gr. er lagt til að bætt verði við áfengislög grein um vefverslunarleyfi, 9. gr. a, sem veiti leyfishafa heimild til að selja áfengi í smásölu í gegnum vefverslun. Um undantekningu er að ræða frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis. Sótt skal um leyfi til sýslumanns og þarf umsækjandi að uppfylla skilyrði og kröfur 5. gr. áfengislaga. Felur það í sér að umsækjandi þarf m.a. að vera orðinn 20 ára auk þess sem hann þarf að hafa tilkynnt ríkisskattstjóra um atvinnustarfsemi sína. Skv. 2. mgr. 9. gr. a þurfa handhafar leyfisins ekki að sækja um sérstakt leyfi til rekstrar áfengisútsölu til sveitarstjórnar í viðkomandi sveitarfélagi, sbr. 2. mgr. 10. gr. áfengislaga, enda er ekki gert ráð fyrir hefðbundnum áfengisútsöluverslunarrekstri eins og tíðkast hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
    Í ljósi þess að afhending áfengis mun almennt séð ekki fara fram á starfsstöð leyfishafans er lagt til að gerðar verði strangari kröfur til sönnunar á aldri viðtakanda en gert er í 18. gr. áfengislaga. Afhending áfengis á grundvelli leyfisins má einungis fara fram ef viðtakandi sannar með skilríki með mynd eða á annan fullnægjandi hátt að hann sé orðinn 20 ára, þ.m.t. með rafrænum hætti sé þess kostur. Felur þetta í sér að kaupandi áfengis í vefverslun þarf, ólíkt því sem á við um kaup á sölustöðum ÁTVR, í öllum tilvikum að sanna aldur sinn þegar afhending áfengis fer fram á grundvelli leyfisins en ekki einungis þegar ástæða er til að ætla að hann sé yngri en 20 ára. Er þetta lagt til í því skyni að tryggja að sala áfengis í vefverslun auki ekki aðgengi einstaklinga undir 20 ára aldri að áfengi. Skiptir í þessu sambandi engu máli hvort leyfishafinn eða undirverktaki, þ.e. afhendingaraðili á hans vegum á borð við póstþjónustu, afhendi áfengið. Brot gegn þessu ákvæði kann að leiða til þess að leyfishafinn verði áminntur eða sviptur leyfi sínu og enn fremur að sá aðili sem afhenti vöruna baki sér refsiábyrgð í samræmi við 18. og 27. gr. áfengislaga.
    Leyfishafa vefverslunarleyfis verður óheimilt að hafa áfengi til sýnis á starfsstöð sinni. Rökin sem liggja að baki því eru þau að handhöfum vefverslunarleyfis er í sjálfsvald sett hvort þeir afhendi vöruna á því heimilisfangi sem neytandi tiltekur eða neytandinn sæki vöruna á starfsstöð leyfishafans. Væri handhafa leyfisins heimilt að hafa áfengi til sýnis á starfsstöð sinni gæti það opnað á rekstur áfengisverslana líkt og þeirra sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins rekur. Markmið frumvarpsins er ekki að leyfa slíka smásölu áfengis.
    Þá er gert ráð fyrir því að vefverslunarleyfi sé fyrsta sinni gefið út til umsækjanda í eitt ár. Að því loknu þurfi umsækjandi að sækja um endurnýjun sem verði ótímabundin, verði leyfið ekki afturkallað, sbr. 24. gr. áfengislaga. Um er að ræða sama fyrirkomulag og er viðhaft með önnur leyfi á grundvelli laganna.
    Geymslu- og lagerstarfsemi vefverslunarleyfishafa fellur undir gildandi löggjöf um geymslu matvæla. Þannig mun heilbrigðiseftirlit á hverju svæði fyrir sig annast eftirlit með lagerstarfsemi leyfishafa.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. 10. gr. áfengislaga er kveðið á um einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis. Með nýrri 9. gr. a, sbr. 4. gr. frumvarpsins, er kveðið á um undantekningu frá því fyrirkomulagi og er því rétt að vísað sé til hennar í 1. mgr. 10. gr.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 7. gr.

    Í 7. gr. er lagt til að 1. mgr. 1. gr. laga um verslun um áfengi og tóbak verði breytt í því skyni að þrengja gildissvið laganna, þ.e. að þau fjalli eingöngu um verslun ríkisins með áfengi og tóbak. Gildissvið laga um verslun með áfengi og tóbak nær til „smásölu á áfengi og heildsölu á tóbaki“, eins og 1. mgr. 1. gr. er orðuð. Lögin fjalla í meginatriðum um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, sem hefur einkaleyfi á smásölu áfengis í gildandi lagaumhverfi. Verði frumvarp þetta að lögum er ljóst að gildissvið laga um verslun með áfengi og tóbak nær ekki til smásölu áfengis í vefverslun og því er rétt að uppfæra gildissviðsákvæði laganna til samræmis við það.
    Lagt er til að 2. málsl. 1. mgr. 14. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak verði felldur brott. Ákvæðið kveður á um að áfengi flutt inn í heimildarleysi verði afhent Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins til ráðstöfunar. Ákvæðið var samið með það að augum að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins væri eini smásöluaðili áfengis á Íslandi en frumvarp þetta leggur til breytingu á því fyrirkomulagi. Óbreytt orðalag 1. mgr. 14. gr. laganna myndi fela í sér óeðlilega mismunun með tilliti til samkeppnissjónarmiða. Vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpi þessu stæðu rök ekki lengur til þess að innflutt áfengi væri gert upptækt og í framhaldinu afhent Áfengis- og tóbakverslun ríkisins, sem verður í samkeppnisrekstri við vefverslunar verði frumvarpið að lögum.
    Þá er í greininni lagt til að við 11. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, verði bætt tölulið þess efnis að fyrir útgáfu á leyfi til að selja áfengi í smásölu í gegnum vefverslun skuli greiða gjald að fjárhæð 50.000 kr.