Ferill 435. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 622  —  435. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998 (bogfimi ungmenna).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Andrés Ingi Jónsson, Bryndís Haraldsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jódís Skúladóttir, Tómas A. Tómasson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    31. gr. laganna orðast svo:
    Barni yngra en 16 ára má ekki selja eða afhenda örvaboga með meiri togkrafti en 7 kg eða oddhvassar örvar nema til æfinga og keppni undir eftirliti lögráða einstaklinga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður flutt á 151. löggjafarþingi (386. mál) og er nú endurflutt í óbreyttri mynd. Í skýringum við frumvarp til vopnalaga segir um 31. gr. að ákvæðið sé í samræmi við gildandi reglur, að það þyki eðlilegt að setja tiltekin takmörk við kaupum barna á bogum sem kunna að hafa slíkan togkraft að sérstakri hættu geti valdið. Þessi grein á sér enga hliðstæðu á Norðurlöndum og né í öðrum löndum sem setja hömlur á íþróttaiðkun ungmenna í bogfimi. Í flestum löndum eru engar hömlur á bogfimi eða bogum yfirhöfuð.
    Ungmenni á Íslandi geta bara æft og keppt utan Íslands ef þau stefna til dæmis á Norðurlandamót ungmenna, Ólympíumót ungmenna og sambærileg mót. Í alþjóðlegum mótum er yngsti aldursflokkurinn í kringum 13 ára og eru þá oftast notaðir 15–25 kg bogar. Það gefur því auga leið að sú takmörkun sem er í vopnalögum kemur í veg fyrir æfingar og keppni ungmenna í bogfimi, en sú íþrótt hefur vaxið mjög mikið á undanförnum árum, bæði á heimsvísu og á Íslandi.
    Núverandi fyrirkomulag 31. gr. vopnalaga kemur í veg fyrir að ungmenni geti stundað bogfimi og keppt í henni. Því er lagt til að bætt sé við skilyrði um að það megi selja eða afhenda örvaboga til æfinga eða keppni undir eftirliti lögráða einstaklinga.