Ferill 475. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 684  —  475. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru (lífræn framleiðsla).

Frá matvælaráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um matvæli, nr. 93/1995.

1. gr.

    Við 1. málsl. 1. mgr. 2. gr laganna bætist: þ.m.t. lífrænnar framleiðslu.

2. gr.

    Við 4. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
       1.      Aðlögun að lífrænni framleiðslu er umbreyting frá framleiðslu sem ekki er lífræn til lífrænnar framleiðslu á tilteknu tímabili.
          16.      Lífræn framleiðsla og tengd vottun er notkun framleiðsluaðferða, þ.m.t. á aðlögunartímanum, á öllum stigum framleiðslu, vinnslu og dreifingar í samræmi við reglugerð (ESB) 2018/848, svo sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur með heimild skv. 31. gr. a.

3. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: lífrænni framleiðslu, að undanskilinni smásölu.

4. gr.

    Á eftir IV. A kafla laganna kemur nýr kafli, IV. kafli B, Lífræn framleiðsla, með þremur nýjum greinum, 13. gr. g – 13. gr. i, svohljóðandi:

          a.      (13. gr. g.)
    Óheimilt er að nota hvers kyns orð, orðmyndir, hugtök, myndir eða tákn sem vísa til lífrænnar framleiðslu á merkingum umbúða, í auglýsingaefni eða viðskiptaskjölum nema framleiðslan uppfylli skilyrði í reglugerð um lífræna framleiðslu og hafi hlotið vottun til notkunar á vörumerki til lífrænnar framleiðslu frá lögbæru yfirvaldi eða vottunarstofu, sbr. 23. gr.

          b.      (13. gr. h.)
    Um tíðni eftirlits með lífrænni framleiðslu gilda ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur, sbr. 1. mgr. 31. gr. a.

          c.      (13.gr. i.)
    Heimilt er að fella tímabundið úr gildi eða afturkalla vottorð um lífræna framleiðslu að hluta eða í heild þegar ekki er farið eftir ákvæðum reglugerða um lífræna framleiðslu og notkun framleiðsluaðferða sem ráðherra setur, sbr. 5. mgr. 31. gr. a.

5. gr.

    Við 7. mgr. 22. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um tíðni eftirlits með lífrænni vottun gilda ákvæði 13. gr. h.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. a laganna:
     a.      Á eftir orðunum „erfðabreytt matvæli og merkingar þeirra“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara.
     b.      Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/848 frá 30. maí 2018 um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara og um niðurfellingu á reglugerð ráðsins (EB) nr. 834/2007, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 4. febrúar 2022, nr. 31/2022.


II. KAFLI
Breyting á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994.
7. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist nýr málsliður svohljóðandi: Um lífræna framleiðslu fóðurs, áburðar og sáðvöru gilda ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur.

8. gr.

    Á eftir 7. tölul. 2. gr. a laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Lífræn framleiðsla, notkun framleiðsluaðferða sem eru í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 8. mgr. 7. gr.

9. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, svohljóðandi:
    Óheimilt er að nota hvers kyns orð, orðmyndir, hugtök myndir eða tákn sem vísa til lífrænnar framleiðslu á merkingum umbúða, í auglýsingaefni eða viðskiptaskjölum nema framleiðslan uppfylli skilyrði lífrænt vottaðrar framleiðslu og hafi hlotið vottun þar um frá lögbæru yfirvaldi og tilnefndri vottunarstofur, sbr. 7. gr. j.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um lífræna framleiðslu gilda ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur þar um sbr. 1. mgr. 31. gr. a laga um matvæli, nr. 93/1995, og 8. mgr. 7. gr. laga þessara.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/848 frá 30. maí 2018 um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara og um niðurfellingu á reglugerð ráðsins (EB) nr. 834/2007, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 4. febrúar 2022, nr. 31/2022.

11. gr.

    Á eftir 1. mgr. 9. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heimilt er að fella tímabundið úr gildi eða afturkalla vottorð um lífræna framleiðslu að hluta eða í heild þegar ekki er farið eftir ákvæðum reglugerða um lífræna framleiðslu sem ráðherra setur, sbr. 2. gr.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Í því eru lagðar til breytingar á lögum um matvæli, nr. 93/1995, og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994, og að lög nr. 162/1994, um lífræna landbúnaðarframleiðslu verði felld úr gildi í heild sinni.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að innleiða í íslenskan rétt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/848 frá 30. maí 2018 um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara og um niðurfellingu á reglugerð ráðsins (EB) nr. 834/2007.
    Reglugerð ráðsins (EB) nr. 834/2007 og afleiddar gerðir voru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn) og innleiddar í íslenskan rétt. Reglugerðin féll úr gildi 31. desember 2021 og reglugerð (ESB) 2018/848 öðlaðist gildi 1. janúar 2022.
    Lífræn framleiðsla lýtur strangari kröfum og framleiðsluskilyrðum en hefðbundin framleiðsla matvæla. Lífræn ræktun byggist á frjósömum jarðvegi, lífrænum áburði, náttúrulegum vörnum og banni við erfðatækni. Ríkar kröfur eru jafnframt gerðar varðandi búfé eins og til að mynda um aðbúnað, rými dýra í húsum og kost þeirra á útiveru, jafnframt skal fóður vera lífrænt. Óheimilt er að nota hormón og önnur vaxtarhvetjandi efni og notkun sýklalyfja er takmörkuð. Vottun lífrænnar framleiðslu er trygging fyrir bæði framleiðendur og neytendur um að þær ríku kröfur sem gerðar eru séu uppfylltar.
    Með innleiðingu er stefnt að því að einfalda regluverk sem gildir um lífræna framleiðslu, styrkja eftirlitskerfi með framleiðslunni, stuðla að ábyrgri notkun orku og náttúruauðlinda, aukinni dýravelferð og að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni lagasetningarinnar er innleiðing reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/848 frá 30. maí 2018 um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara og um niðurfellingu á reglugerð ráðsins (EB) nr. 834/2007. Reglugerðin öðlaðist gildi í Evrópusambandinu 17. júní 2018 og kom til framkvæmdar frá og með 1. janúar 2022. Reglugerðin var tekin upp í EES-samninginn hinn 4. febrúar 2022 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 31/2022 og með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands. Brýnt er að undirbúningi sé lokið með lagasetningu þessari svo að reglugerðin öðlist gildi eins fljótt og verða má svo að ekki verði mikil röskun á opinberu eftirliti með lífrænum afurðum og inn- og útflutningshagsmunum verði ekki stefnt í uppnám.
    Gildandi lög um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994, eru orðin úrelt og ekki fullnægjandi lagastoð fyrir innleiðingu löggjafarinnar. Að auki haldast ákvæði reglugerðar (ESB) 2018/848 í hendur við ákvæði reglugerðar (ESB) 2017/625 um opinbert eftirlit sem innleidd voru í lög um matvæli, nr. 93/1995, og lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994. Þar af leiðandi er nauðsynlegt að gera þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
          Lagt er til að ákvæðum íslenskra laga verði breytt til samræmis við reglugerð (ESB) 2018/848 um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara.
          Í I. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um matvæli, nr. 93/1995, í þeim tilgangi að lögin nái einnig yfir lífræna framleiðslu á öllum stigum framleiðslu og dreifingar. Er það gert þar sem lagt er til að núgildandi lög um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994, verði felld úr gildi.
          Í samræmi við ákvæði reglugerðar (ESB) 2018/848 verði settar inn orðskýringar er varða lífræna framleiðslu og aðlögun að lífrænni framleiðslu.
          Í samræmi við ákvæði í reglugerð (ESB) 2018/848 er skerpt á því að óheimilt sé að nota hvers kyn orð og/eða tákn sem vísa til lífrænnar framleiðslu þegar ekki er fyrir hendi vottun um slíka heimild frá lögbæru yfirvaldi með það að markmiði að vernda bæði hagsmuni rekstraraðila sem og neytenda.
          Lögð er til breyting á ákvæði um opinbert eftirlit Matvælastofnunar þannig að það taki jafnframt til lífrænnar framleiðslu að undanskildu markaðseftirliti.
          Lagður er til nýr kafli er varðar lífræna framleiðslu. Ráðherra er veitt heimild til þessa setja reglugerð um tíðni eftirlits með lífrænni framleiðslu og er það gert þar sem kröfur um tíðni eftirlits með slíkri framleiðslu eru meiri en í almennu matvælaeftirliti. Þá er sett inn sérákvæði um að heimilt sé að fella tímabundið úr gildi eða afturkalla heimild framleiðanda til notkunar á merkingum um lífrænar vörur ef í ljós kemur að framleiðandi fari ekki að þeim kröfum sem gerðar eru um lífræna framleiðslu.
          Lögð er til reglugerðarheimild þar sem ráðherra er veitt heimild til þess að innleiða reglugerð (ESB) 2018/848.
          Í II. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994.
          Lagðar eru til reglugerðarheimildir sem veita ráðherra heimild til þess að setja reglugerð um lífræna framleiðslu fóðurs, áburðar og sáðvöru og reglugerð til innleiðingar á reglugerð (ESB) 2018/848.
          Lagt er til að samskonar ákvæði og lagt er til í I. kafla, hvað varðar heimild til notkunar á orðum og/eða táknum sem og ákvæði um tímabundið brottfall eða afturköllun þegar ekki er farið að kröfum.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið hefur hvorki gefið sérstakt tilefni til að meta samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, né aðrar alþjóðlegar skuldbindingar en á grundvelli EES-samningsins.

5. Samráð.
    Frumvarpið var birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 25. janúar 2022, mál nr. S-18/2022, og var veittur frestur til að koma umsögnum á framfæri til 8. febrúar 2022. Voru helstu stofnanir og hagaðilar upplýstir um birtinguna. Fimm umsagnir bárust, frá eftirfarandi aðilum: VOR – félagi framleiðenda í lífrænum búskap, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Samtökum iðnaðarins, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Bændasamtökum Íslands.
    Í umsögn VOR kemur fram að félagið telji þær breytingar á lögum um matvæli, nr. 93/1995, og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994, sem frumvarpið felur í sér vel rökstuddar og skýrar. Breytingarnar séu mikilvæg forsenda þess að innleiða nýja reglugerð (ESB) 2018/848 um lífræna framleiðslu hér á landi og að sú reglugerð muni boða tækifæri fyrir framleiðendur hér á landi sem vilja tileinka sér lífræna framleiðslu þó henni fylgi vissulega kvaðir á framleiðendur. Félagið gerir ekki efnislegar athugasemdir en vakti sérstaka athygli á skilgreiningu sem fram kemur í kaflanum um einstakar greinar frumvarpsins, þ.e. um 9. gr., þar sem félagið vekur athygli á skilgreiningu IFOAM á lífrænum búskaparháttum á vefsíðunni lifraentisland.is. Haft verður samráð við VOR þegar kemur að innleiðingu reglugerðar (ESB) 2018/848 hvað þetta atriði varðar.
    Í umsögn Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði kemur fram að samtökin telja mikilvægt að framleiðendur landbúnaðarafurða á Íslandi búi við sömu rekstrarskilyrði og framleiðendur landbúnaðarafurða í Noregi og ESB búa við. Samtökin telja að sú samræming reglna sem lögð er til með frumvarpinu sé jákvætt skref í þá átt að tryggja samkeppnishæfni innlendrar matvælaframleiðslu gagnvart erlendri samkeppni. Samtökin kveðast vita að túlkun og framkvæmd evrópskra reglna um framleiðslu matvæla sé misjöfn á milli landa innan ESB og taka sem dæmi að veittar hafi verið undanþágur frá reglugerð ESB um lífræna framleiðslu og að undanþágur sem veittar eru í hverju landi séu tilkynntar til ESB og þær séu aðgengilegar stjórnvöldum á vefsíðu þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um allar undanþágur innan Sambandsins. Samtökin hvetja stjórnvöld til að fylgjast vel með undanþágum sem þjóðir innan ESB veita frá eigin reglugerðum, að öðrum kosti muni samkeppnishæfni innlendrar framleiðslu skerðast.
    Eitt af meginmarkmiðum reglugerðar (ESB) 2018/848 er að draga úr undanþáguheimildum og í sumum tilvikum falla þær niður. Markmiðið með því að draga úr undanþágum er að draga úr þeim vanda er snýr að mismunandi túlkun og mismunandi notkun undanþáguheimilda á milli ríkja og þar með samræma löggjöfina betur. Hægt hefur verið að sækja um undanþágur á heimasíðu Matvælastofnunar og hafa vottaðir aðilar á Íslandi nýtt sér það. Áfram verður hægt að sækja um undanþágur innan þeirra heimilda sem reglugerð (ESB) 2018/848 veitir. Íslensk stjórnvöld og opinberir eftirlitsaðilar vilja eftir sem áður vera samstíga Evrópusambandinu og vinna samkvæmt reglugerð (ESB) 2018/848.
    Samtök iðnaðarins (SI) benda á að gildistökudagur reglugerðarinnar, sem sett var 30. maí 2018, var 1. janúar 2021. Ástæða þótti til að hafa um tveggja og hálfs árs aðlögunarfrest til að koma til móts við aðildarríki og haghafa innan Evrópusambandsins til að tryggja eðlilegt svigrúm til að bregðast við breytingum. Með tilkomu Covid-19 var talið að aðildarríki og hagaðilar myndu ekki hafa þá burði né vera í þeirri aðstöðu að tryggja rétta framkvæmd og beitingu reglugerðarinnar eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Var af þeim sökum ákveðið að fresta gildistöku reglugerðarinnar um eitt ár til viðbótar, þ.e. til 1. janúar 2022. Var það gert til að tryggja að öll starfsemi hagaðila sem heyrir undir greinina yrði með sem eðlilegustum hætti og forðast mögulega markaðsárekstra.
    SI benda einnig á að í greinargerð með frumvarpsdrögunum sé bent á mikilvægi þess að undirbúningi sé lokið með lagasetningu svo að reglugerðin öðlist gildi eins fljótt og verða má svo ekki verði mikil röskun á opinberu eftirliti með lífrænum afurðum og inn- og útflutningshagsmunum verði ekki stefnt í uppnám. Að mati SI þykir ljóst vera að við innleiðingu umræddrar reglugerðar í íslenskan rétt standi ekki til að gæta að því að íslenskir framleiðendur geti aðlagað sig að breyttu regluverki, líkt og gildir um samkeppnisaðila þeirra innan Evrópusambandsins. Í engu virðist gætt að hagsmunum framleiðenda né heldur haft samráð við undirbúning frumvarpsins.
    Samkvæmt upplýsingum matvælaráðuneytisins var frestun á gildistöku nýrra reglna um lífræna framleiðslu ekki gerð til þess að veita hagaðilum aukinn frest heldur sökum þess að enn átti eftir að samþykkja töluverðan fjölda afleiddra gerða á vettvangi Evrópusambandsins til þess að reglugerð (ESB) 2018/848 gæti tekið gildi. Þá telur matvælaráðuneytið einnig vert að geta þess að í raun er um litla aðlögun fyrir framleiðendur að ræða því breytingarnar sem felast í löggjöfinni snúa að litlu leyti að framleiðslu og vinnslu framleiðenda heldur beinast þær fremur að bættu og ítarlegra eftirliti, samræmdum innflutningsskilyrðum og eftirliti með ræktun og vinnslu í löndum utan EES-svæðisins sem vilja lífrænar vörur þangað inn. Matvælaráðuneytið telur loku ekki vera skotið fyrir að kostnaðarauki kunni að fylgja innleiðingu á reglugerð (ESB) 2018/848 vegna breytinga sem hugsanlega þarf að gera á aðbúnaði og húsakynnum en í raun er því þó þannig háttað að ríkar kröfur hvað slíkar breytingar varðar, t.d. bann við grindargólfum í sauðfjárhúsum, komu með þeim reglum sem innleiddar voru hér á landi árið 2017 með reglugerð (EB) nr. 834/2007 og hafa þær því verið í gildi í tæplega fimm ár.
    Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur (heilbrigðiseftirlitið) gerði athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins sem varða breytingar á lögum um matvæli, nr. 93/1995. Heilbrigðiseftirlitið telur óþarft að bæta við orðunum „lífrænnar framleiðslu“ við 1. mgr. 2. gr. laganna þar sem lífræn framleiðsla matvæla fellur vel undi 2. gr. laganna eins og hún er í dag enda segir þar að „Lög þessi taka til framleiðslu og dreifingar á matvælum á öllum stigum“. Heilbrigðiseftirlitið telur það ekki vera til eftirbreytni að fara að telja upp einstakar gerðir matvæla því þá sé hætta á að einhverjar gerðir matvæla vanti. Við samningu frumvarpsins var ákveðið að nýta þær orðskýringar sem fram koma í reglugerð (ESB) 2018/848 og þykir það ekki valda neinum vafa við breytingu á lögum um matvæli að ekki sé kveðið skýrar að orði um hér sé átt við lífræn matvæli eða matvöru.
    Þá telur heilbrigðiseftirlitið hvað varðar nýjar orðskýringar í 4. gr. laganna, að betur fari á að notaðar verði aðrar orðskýringarnar fyrir „aðlögun að lífrænni framleiðslu“ og „lífræn framleiðsla“. „Aðlögun að lífrænni framleiðslu matvæla“ verði skilgreind sem „umbreyting frá framleiðslu matvæla sem ekki er lífræn (hefðbundin framleiðsla matvæla) til lífrænnar framleiðslu matvæla á tilteknu tímabili“. Í stað orðskýringarinnar „lífræn framleiðsla“ komi orðskýringin „lífræn framleiðsla matvæla“. Heilbrigðiseftirlitið leggur jafnframt til að í stað þess að nota „lífræn framleiðsla og merking lífrænna vara“ verði notað „lífræn framleiðsla matvæla og merking lífrænna matvara“. Að lokum bendir heilbrigðiseftirlitið á að skoða þurfi betur áhrif 3. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að við 6. gr. bætist nýr stafliður, k-liður, svohljóðandi: lífrænni framleiðslu, að undanskildu markaðseftirliti. Heilbrigðiseftirlitið bendir á að verið sé að leggja til breytingu á opinberri eftirlitsskyldu Matvælastofnunar sem ákvæði eru um í 6. gr. matvælalaga. Samkvæmt 6. gr. laganna annast Matvælastofnun opinbert eftirlit samkvæmt lögunum með allri frumframleiðslu matvæla, annarra en matjurta, sbr. 6. gr. a. Í frumvarpinu er lagt til að stofnunin fari með eftirlit með allri lífrænni framleiðslu og þá er ekki undanskilin lífræn frumframleiðsla á matjurtum. Til að koma til móts við ábendingu þessa er orðalagi k-liðar breytt og orðast svo: lífrænni framleiðslu, að undanskilinni smásölu.
    Í umsögn Bændasamtaka Íslands (BÍ) kemur fram að samtökin styðja markmið frumvarpsins um einföldun regluverks í lífrænni framleiðslu. Hins vegar telja samtökin að aðlögunartími hafi verið of skammur og að skortur hafi verið á samráði sem og kynningu á áhrifum frumvarpsins gagnvart bændum. Við undirbúning frumvarpsins hafi verið haft samráð við Matvælastofnun og vottunarstofuna Tún en í ljósi áhrifa frumvarpsins á rekstraraðila í lífrænni framleiðslu hefði verið rétt að hafa samráð við samtök bænda og fulltrúa þeirra en ekki eingöngu eftirlits- og vottunaraðila. Bændasamtökin telja að veita þurfi tveggja ára frest til aðlögunar, bæði hvað varðar frumvarpið og innleiðingu reglugerðar ESB. Jafnframt er bent á að enn sé ekki búið að tryggja til lengri tíma fast niðurgreiðsluhlutfall á raforkuverði til ylræktar né hafi verið mótuð heildstæð, tímasett áætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu. Að lokum er óskað sérstaklega eftir því að haft verði samráð við samtökin þegar líður að innleiðingu reglugerðarinnar.
    Við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við Matvælastofnun og Vottunarstofuna Tún sökum þess að helstu breytingar sem er að finna í reglugerð (ESB) 2018/848 varða þá aðila sem fara með opinbert eftirlit með lífrænni framleiðslu líkt og rakið er hér að framan. Verndun og ræktun, VOR – félag framleiðenda í lífrænum búskap var upplýst um málið en félagið auk Vottunarstofunnar Tún standa að hópi Íslandsdeildar Evrópuhóps International Federation of Organic Agriculture Movements sem hefur komið að vinnu við hina nýju reglugerð Evrópusambandsins. Ekki verður séð að frumvarpið né reglugerð Evrópusambandsins 2018/848 tengist með beinum hætti áformum um tímasetta áætlun til að efla lífræna framleiðslu né heldur niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði til ylræktar. Ráðuneytið hyggst hafa samráð við hagaðila við setningu reglugerðar til innleiðingar á reglugerð (ESB) 2018/848.
    
6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið felur í sér tillögur að efnisbreytingum á gildandi rétti sem nauðsynlegar þykja til innleiðingar á reglugerð (ESB) 2018/848 um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara og miðar jafnframt að því að einfalda regluverk.
    Frumvarpið hefur áhrif á rekstraraðila í lífrænni landbúnaðarframleiðslu sem getur falið í sér kostnaðarauka vegna breytinga sem gera þarf á aðbúnaði og húsakynnum. Með frumvarpinu ætti traust neytenda lífrænna vara á merkingar lífrænnar framleiðslu að aukast þar sem reglur um notkun þess eru styrktar í löggjöfinni. Með innleiðingu reglugerðar (ESB) 2018/848 eru reglur varðandi eftirlit í þriðju löndum gerðar ítarlegri og reglur um vottunarstofur í þriðju löndum eru hertar, er það gert til koma í veg fyrir og stöðva matvælasvindl og neytendur geta því betur treyst því að lífrænar vörur í verslunum séu sannarlega framleiddar með lífrænum aðferðum með áherslu á verndun vistkerfa, dýravelferð, umhverfis- og loftslagsmál. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir óverulegum kostnaði Matvælastofnunar sem rúmast innan fjárheimilda stofnunarinnar. Áhrifin á afkomu ríkissjóðs verða óbreytt sem áður.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að víkka gildissvið 1. mgr. 2. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995, í þeim tilgangi að lögin taki einnig til lífrænnar framleiðslu. Eins og fram kemur í kafla 2 eru gildandi lög um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994, úrelt og að auki ekki talin veita fullnægjandi lagastoð fyrir innleiðingu á reglugerð (ESB) 2018/848. Ákvæði reglugerðar (ESB) 2018/848 eru að auki nátengd ákvæðum reglugerðar (ESB 2017/625 um opinbert eftirlit sem innleidd hafa verið í lög um matvæli. Breytingunni er ætlað að einfalda regluverkið með því að sameina ákvæði um lífræna framleiðslu við matvælalöggjöfina.

Um 2. gr.

    Lagðar eru til tvær nýjar orðskýringar við 4. gr. laganna sem hafa þýðingu fyrir ákvæði frumvarpsins um lífræna framleiðslu.
    Skilgreiningar á annars vegar aðlögun að lífrænni framleiðslu og hins vegar lífrænni framleiðslu byggjast á hugtökum sem skilgreind eru í 3. gr. reglugerðar (ESB) 2018/848 en þau hafa fram til þessa ekki verið skilgreind sérstaklega í lögum.

Um 3. gr.

    Lagt er til að opinbert eftirlit Matvælastofnunar nái til lífrænnar framleiðslu, að undanskildu eftirliti með smásölu en það verður áfram í höndum heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Sambærilegt ákvæði er að finna í lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994, sem með frumvarpi þessu er lagt til að felld verði úr gildi, sbr. 12. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að bætt verði við nýjum kafla, IV. kafla B, með þremur nýjum greinum, sem beri heitið Lífræn framleiðsla.
    Í fyrsta lagi er lagt til að óheimilt sé að nota hvers kyns orð, orðmyndir, hugtök, myndir eða tákn sem vísa til lífrænnar framleiðslu á merkingum umbúða, í auglýsingaefni eða viðskiptaskjölum nema framleiðslan uppfylli skilyrði í reglugerð um lífræna framleiðslu og hafi hlotið vottun þar um frá lögbæru yfirvaldi eða tilnefndri vottunarstofu sbr. 23. gr. laganna. Breytingin er í samræmi við ákvæði 30. gr. reglugerðar (ESB) 2018/848 og er lögð til svo hafið sé yfir allan vafa hvernig nota megi orðið „lífrænt“ og eru hagsmunir neytenda og framleiðenda lífrænna afurða þar hafðir að leiðarljósi.
    Í öðru lagi er lagt til að ráðherra hafi heimild til að kveða í reglugerð á um tíðni eftirlits með lífrænni framleiðslu en um hana gilda ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur, sbr. 6. mgr. 31. gr. a laganna (5. gr. frumvarpsins). Kröfur um tíðni eftirlits með lífrænni framleiðslu eru meiri en í almennu matvælaeftirliti. Því er lagt til sérákvæði um tíðni eftirlits hvað varðar lífræna framleiðslu og heimild ráðherra til þess að útfæra það nánar í reglugerð. Ákvæðið er sett til samræmis við ákvæði 3. tölul. 38. gr. reglugerðar (ESB) 2018/848.
    Í þriðja lagi er kveðið á um heimilt sé að fella tímabundið úr gildi eða afturkalla vottorð um lífræna framleiðslu ef ekki er farið eftir ákvæðum reglugerðar um lífræna framleiðslu og notkun framleiðsluaðferða sem ráðherra setur, sbr. 5. mgr. 31. gr. a laganna (6. gr. frumvarpsins). Ákvæðið er sett til samræmis við ákvæði 42. gr. reglugerðar (ESB) 2018/848.
    

Um 5. gr.

    Í greininni er lagt til að um tíðni eftirlits með lífrænni vottun gildi ákvæði IV. kafla B laganna. Í 7. mgr. 22. gr. er mælt um tíðni opinbers eftirlits.

Um 6. gr.

    Í greininni er bætt við heimild ráðherra í lögum um matvæli til þess að innleiða reglugerð um lífræna framleiðslu (ESB) 2018/848, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 31/2022 frá 4. febrúar 2022.

Um 7. gr.

    Lagt er til að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð um lífræna framleiðslu fóðurs, áburðar og sáðvöru.

Um 8. gr.

    Lagt er til að hugtakið lífræn framleiðsla sé skilgreint sem notkun framleiðsluaðferða sem eru í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur sbr. 8. mgr. 7. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Lagt er til að óheimilt verði að nota orðið lífrænt á merkingum umbúða, í auglýsingaefni eða viðskiptaskjölum nema framleiðslan uppfylli skilyrði lífrænt vottaðrar framleiðslu og hafi hlotið vottun þar um frá lögbæru yfirvaldi og tilnefndri vottunarstofu, sbr. 7. gr. j frumvarpsins. Ákvæðið er til samræmis við þá breytingu sem lögð er til í 4. gr. þessa frumvarps og ákvæði reglugerðar (ESB) 2018/848 og þykir nauðsynlegt í ljósi þess að nokkuð er um að framleiðendur merki vörur sínar sem lífrænar án þess að hafa tilskilda vottun.

Um 10. gr.

    Í greininni er bætt við heimild ráðherra í lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru til að setja reglugerð um lífræna framleiðslu. Þá er einnig bætt við heimild ráðherra til þess að innleiða með reglugerð reglugerð (ESB) 2018/848 um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara.


Um 11. gr.

    Lagt er til að heimilt sé að fella tímabundið úr gildi eða afturkalla vottorð um lífræna framleiðslu ef ekki er farið eftir ákvæðum reglugerðar um lífræna framleiðslu og notkun framleiðsluaðferða sem ráðherra setur, sbr. 2. gr. laganna.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.