Ferill 530. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 758  —  530. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum í þágu barna (samþætting þjónustu, snemmtækur stuðningur).

Frá félags- og vinnumarkaðsráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

1. gr.

    Á eftir orðinu „ungmenna“ í b-lið 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: og mæta þörfum þeirra fyrir þjónustu á skilvirkan hátt um leið og þörf krefur.

2. gr.

    3. tölul. 2. gr. laganna orðast svo: Stuðningsþjónustu.

3. gr.

    Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein, 3. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Stofnanir ríkisins.

    Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefur eftirlit með gæðum þjónustu sem er veitt á grundvelli laga þessara og laga um stofnunina.
    Barna- og fjölskyldustofa styður við þjónustu sem er veitt í þágu barna á grundvelli laga þessara og laga um stofnunina.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Barn á rétt á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur og þroska. Við meðferð og úrlausn máls sem varðar barn skal taka tillit til sjónarmiða og skoðana barnsins í samræmi við hagsmuni þess hverju sinni.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Samráð við notendur og þátttaka barna.

5. gr.

    Á eftir 9. tölul. 11. gr. laganna kemur nýr töluliður, sem verður 10. tölul., svohljóðandi:
     10.      að vinna að samþættingu félagsþjónustu við aðra þjónustu sem er veitt í þágu barna.

6. gr.

    Við 1. mgr. 12. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sveitarfélög skulu tryggja að stuðningur við íbúa sem hafa barn á framfæri sé í samræmi við það sem er barninu fyrir bestu.

II. KAFLI

Breyting á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018.

7. gr.

    Á eftir orðunum „í samvinnu við“ í 3. mgr. 4. gr. laganna kemur: Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

8. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Stofnanir ríkisins.

    Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefur eftirlit með gæðum þjónustu sem er veitt á grundvelli laga þessara og laga um stofnunina.
    Barna- og fjölskyldustofa styður við þjónustu sem er veitt í þágu barna á grundvelli laga þessara og laga um stofnunina.

9. gr.

    2. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Um rekstrarleyfi og afturköllun þeirra fer samkvæmt ákvæðum laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

10. gr.

    14. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Snemmtækur stuðningur, íhlutun og greining.

    Þjónustuveitendum og þeim sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barna ber skylda til að bregðast við vísbendingum um að þörfum barns sé ekki mætt í samræmi við ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
    Ef þjónustuveitandi telur að barn kunni að hafa stuðningsþarfir vegna fötlunar, sem ekki er mætt, og foreldrar viðkomandi barns kjósa að óska ekki eftir samþættingu þjónustu, sbr. 1. mgr., skal þjónustuveitandi taka saman upplýsingar um aðstæður barns sem varpa ljósi á vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt og stuðningsþarfir og miðla þeim til þess aðila innan sveitarfélags sem bera ábyrgð á skipulagi og þjónustu við fatlað fólk, sbr. 1. mgr. 5. gr.
    Viðbrögð þjónustuveitenda samkvæmt þessari grein skulu miða að því að barn fái snemmtækan stuðning og íhlutun. Frumgreining og/eða annars konar mat á þörfum barns skal fara fram svo fljótt sem verða má. Mæta skal stuðningþörfum barns þótt greining liggi ekki fyrir.

11. gr.

    3. málsl. 18. gr. laganna fellur brott.

12. gr.

    19. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Málstjóri, stuðningsteymi og stuðningsáætlun.

    Um rétt fatlaðra barna, sem hafa þörf fyrir fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi til lengri tíma, til málstjóra stuðningsteymis og stuðningsáætlunar fer samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
    Áður en fatlað barn, sem hefur þörf fyrir fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi, verður 18 ára skal stuðningsteymi gera áætlun þar sem fjallað er um þjónustu fyrir barnið eftir að það nær fullorðinsaldri, eftir atvikum í samstarfi við þjónustuteymi, sbr. 12. gr.

13. gr.

    4. mgr. 31. gr. laganna orðast svo:
    Barn á rétt á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur og þroska. Við meðferð og úrlausn máls sem varðar barn skal taka tillit til sjónarmiða og skoðana barnsins í samræmi við hagsmuni þess hverju sinni.

III. KAFLI

Breyting á lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, nr. 160/2008.

14. gr.

    Við 4. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Stofnunin hefur samstarf við Barna- og fjölskyldustofu um stuðning við þjónustuveitendur vegna samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna þar sem þörf er á sérþekkingu á sviði fötlunar vegna blindu og sjónskerðingar.

15. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Stofnunin tekur þátt í samþættingu þjónustu þegar hún telst þjónustuveitandi í skilningi laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011.

16. gr.

    Á eftir 2. mgr. 4. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ef um er að ræða fatlað barn skal réttindagæslumaður í störfum sínum hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi. Hann skal hlusta á skoðanir barnsins og taka réttmætt tillit til þeirra í samræmi við aldur og þroska barnsins.

17. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ef réttindagæslumaður telur að þörfum fatlaðs barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti skal hann veita foreldrum og/eða barni leiðbeiningar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Ef foreldri og/eða barn setur fram beiðni þar að lútandi getur réttindagæslumaður tekið saman upplýsingar um aðstæður barns og miðlað þeim til tengiliðar eða málstjóra þjónustu í þágu farsældar barns. Að öðru leyti teljast réttindagæslumenn ekki til þjónustuveitenda í skilningi laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

V. KAFLI

Breyting á lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021.

18. gr.

    Við 22. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála á rétt til upplýsinga úr sakaskrá um einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn ákvæðum XXII. og XXIII. kafla almennra hegningarlaga og eftir atvikum refsidóma fyrir brot gegn ákvæðum annarra laga. Ríkissaksóknari skal láta stofnuninni í té afrit dóma ef hún óskar þess. Þess skal ávallt gætt að ekki sé aflað upplýsinga um sakaferil einstaklinga umfram það sem nauðsynlegt er til að stofnunin geti sinnt eftirlitshlutverki sínu.

19. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Það felur í sér breytingar sem tengjast setningu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, laga um Barna- og fjölskyldustofu, nr. 87/2021, og laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frá árinu 2018 hefur umfangsmikil vinna átt sér stað innan stjórnsýslunnar og á vettvangi þingmannanefndar um málefni barna, með virku samráði við hagsmunaaðila, við að greina stöðu barna og hvernig auka megi farsæld barna og barnafjölskyldna. Meðal helstu niðurstaðna úr þessari vinnu er að bæta þurfi snemmtækan stuðning við börn og auka samvinnu þeirra sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu.
    Umfangsmiklar lagabreytingar voru samþykktar á 151. lögþ. sem stefna að þessum markmiðum. Helst ber að nefna samþykkt laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem fela meðal annars í sér grundvallarbreytingar á umgjörð samvinnu þeirra sem veita börnum og barnafjölskyldum þjónustu. Samhliða voru gerðar breytingar á stofnunum ríkisins sem fara með verkefni sem tengjast þjónustu í þágu barna með samþykkt laga um Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, auk laga um breytingar á lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, nr. 83/2003. Þá var hafist handa við heildarendurskoðun barnaverndarlaga og varð fyrri hluti þeirrar endurskoðunar að lögum, sbr. lög um breytingar á barnaverndarlögum, nr. 80/2002 (barnaverndarþjónusta, samþætting o.fl.), nr. 107/2021.
    Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna kalla á breytingar á verklagi hjá öllum sem veita börnum þjónustu. Verkefnið er umfangsmikið og gera lögin ráð fyrir að þau verði innleidd á þremur til fimm árum. Á þessu innleiðingartímabili er meðal annars gert ráð fyrir að fram fari endurskoðun á allri löggjöf um þjónustu sem er veitt í þágu barna og lagðar fram tillögur að lagabreytingum sem eru nauðsynlegar til að styðja við innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
    Frumvarp þetta felur í sér breytingar á ýmsum lögum á málefnasviði félags- og vinnumarkaðsráðherra sem er ætlað að samræma löggjöf við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og styrkja umgjörð um þjónustu og snemmtækan stuðning í þágu barna.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að skapa umgjörð í lögum sem stuðlar að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Ákvæði frumvarpsins hafa það að markmiði að afnema lagalegar hindranir sem geta komið í veg fyrir samstarf um veitingu þjónustu í þágu farsældar barna. Frumvarpinu er ætlað að skapa skilyrði til að bregðast fyrr við tilteknum aðstæðum eða erfiðleikum í lífi barns með viðeigandi stuðningi þegar þörf þykir. Þá er ætlunin að bæta og skýra ákvæði laga sem fjalla um þjónustu við börn og réttindi barna. Við útfærslu ákvæðanna hefur verið lögð áhersla á að stjórnsýsla og eftirfylgni mála sé skilvirk og eins einföld í framkvæmd og mögulegt er út frá sjónarhorni barna.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Lagt er til að gerðar verði breytingar á fjórum lagabálkum á málefnasviði félag- og vinnumarkaðsráðuneytisins, nánar tiltekið lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, nr. 160/2008, og lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011. Þá eru lagðar til minni háttar breytingar á nýsamþykktum lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021, til að lagfæra mistök sem urðu við setningu þeirra.
    Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar sem tengjast lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021. Um er að ræða nauðsynlegar afleiddar breytingar vegna laganna, þ.m.t. vegna hugtakanotkunar og nýrra verkferla, sbr. einkum 5. gr., 12. gr. og 15. gr. Meðal sértækari breytinga eru skýringar á hlutverki réttindagæslumanna fatlaðs fólks við samþættingu þjónustu, sbr. 17. gr.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar til að endurspegla áherslu á snemmtækan stuðning og almennar aðgerðir á fyrsta stigi þjónustu. Lagt er til í 1. gr. að markmið laga um félagsþjónustu sveitarfélaga endurspegli áherslu á snemmtækan stuðning og snemmtæka íhlutun. Í 10. gr. er lagt til að skerpt verði á ábyrgð þjónustuveitenda til að veita snemmtækan stuðning og snemmtæka íhlutun á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
    Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar sem miða að því að uppfæra lagaumhverfi með tilliti til nýrra stofnana, Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, sbr. 3. gr., 7. gr., 8. gr., og 14. gr. Jafnframt eru lagðar til minni háttar breytingar sem tengjast starfsemi þessara nýju stofnana og hafa að markmiði að skýra valdmörk og draga úr óvissu um ábyrgð á verkefnum sem tengjast þjónustu í þágu barna, sbr. 9. gr. og 11. gr.
    Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar sem er ætlað að auka vægi réttinda barna samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Í því skyni er lagt til í 4. gr., 6. gr., 13. gr. og 16. gr. að bætt verði við ákvæðum sem endurspegla valdar meginreglur samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, einkum 3. gr. samningsins um það sem er barni fyrir bestu og 12. gr. samningsins um þátttöku barna.
    Í fimmta lagi eru lagðar til minni háttar lagfæringar á gildandi lögum vegna ábendinga sem hafa borist félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, sbr. 2. gr. og 18. gr.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995, er kveðið á um það að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Um velferð og farsæld barna og barnafjölskyldna er jafnframt fjallað í ýmsum alþjóðlegum samningum sem íslenska ríkið er aðili að. Þar hefur ríkið skuldbundið sig að þjóðarétti til að grípa til ráðstafana, þ.m.t. á sviði löggjafar, til að tryggja að þau réttindi sem þar eru viðurkennd komi til framkvæmda.
    Við undirbúning frumvarpsins var sérstaklega litið til þess að vinna á virkan hátt að því að ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, komi til framkvæmda, þ.m.t. sértæk ákvæði hans um fötluð börn, sbr. jafnframt 1. mgr. 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem undirritaður var fyrir Íslands hönd 30. mars 2007.

5. Samráð.
    Frumvarpið tengist breytingum í þágu barna sem voru unnar á grundvelli víðtæks samráðs stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, þingmannanefndar um málefni barna og ýmissa hagsmunaaðila. Frá því að boðað var til heildarendurskoðunar í málefnum barna og ungmenna árið 2018 hafa stjórnvöld haft samráð við fagfólk sem starfar við þjónustu í þágu farsældar barna, hagsmunasamtök, börn og ungmenni.
    Við undirbúning frumvarpsins og samningu þess var haft samráð við þáverandi Barnaverndarstofu og Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, Samband íslenskra sveitarfélaga, réttindagæslumenn fatlaðs fólks, Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp.
    Undirbúningur frumvarpsins hófst árið 2020 og voru fyrstu frumvarpsdrög kynnt hagsmunaaðilum í upphafi árs 2021. Tiltekin ákvæði frumvarpsins, einkum ákvæði sem fjölluðu um félagsþjónustu sveitarfélaga, voru gagnrýnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem taldi ekki rétt að takmarka svigrúm sveitarfélaga til að útfæra þjónustu með þeim hætti sem þar var lagt til. Í ljósi afstöðu sveitarfélaganna var ákveðið að fækka ákvæðum í frumvarpinu og leggja þar megináherslu á breytingar sem væru nauðsynlegar til að innleiða samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Breytt skipting stjórnarmálefna í Stjórnarráði Íslands hefur einnig kallað á aðlögun frumvarpsdraganna frá því þau voru fyrst kynnt hagsmunaaðilum.
    Drög að frumvarpinu voru birt almenningi til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 11. febrúar 2022 (mál nr. S-33/2022) og var frestur til umsagna veittur til 28. febrúar 2022. Alls barst ein umsögn í gegnum samráðsgátt frá Landssamtökunum Þroskahjálp. Í umsögninni kemur m.a. fram að styrkja þurfi Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, BUGL og réttindagæsluna svo þessir aðilar nái með fullnægjandi hætti að sinna hlutverki sínu.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun á þjónustu í þágu farsældar barna. Frumvarpið varðar hagsmuni barna og fjölskyldna í víðu samhengi. Áhrif frumvarpsins ná fyrst og fremst til barna sem þurfa á sívirkum og snemmtækum úrræðum að halda og börnum sem þurfa mikinn eða fjölþættan stuðning til lengri tíma, og fjölskyldna þessara barna. Þar á meðal eru fötluð börn, börn fatlaðra foreldra og fjölskyldur sem njóta félagsþjónustu sveitarfélaga. Samþykkt frumvarpsins hefur jákvæð áhrif á réttindi barna og stuðlar að því að íslensk stjórnvöld uppfylli í auknum mæli skyldur sínar samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þar á meðal eru grundvallarákvæði samningsins sem fela í sér að allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda byggist á því sem er barninu fyrir bestu og rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós í málum er þau varða.
    Frumvarpinu er ætlað að stuðla að innleiðingu laga um um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, með því að tryggja að engar lagalegar hindranir standi innleiðingunni í vegi. Í fjármálaáætlun 2022–2026 og fjárlögum árið 2022 er 1.898 millj. kr. veitt til að standa straum af kostnaði hjá ríki og sveitarfélögum við innleiðingu verkefnisins. Þar af er gert ráð fyrir að árlega muni u.þ.b. 1.100 millj. kr. renna til sveitarfélaganna með árlegri úthlutun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Frá árinu 2023 er árleg fjárhæð 1.848 millj. kr. en fjárhæð til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er óbreytt á tímabili fjármálaáætlunar. Þær breytingar sem eru lagðar til í frumvarpinu eru þess eðlis að þær rúmast innan þeirra fjárveitinga sem þegar eru ætlaðar í innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og kalla ekki á viðbótarútgjöld umfram það sem nú er.
    Áætlanir um hagræn og fjárhagsleg áhrif verkefnisins gera ráð fyrir umtalsverðum samfélagslegum ávinningi af innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Aukinn snemmtækur stuðningur og samþætting þjónustu muni fækka áföllum sem börn verða fyrir og auka seiglu þeirra svo áföll séu ólíklegri til að valda frávikum frá farsæld. Ávinningurinn spannar æviskeið þeirra einstaklinga sem munu njóta þessarar þjónustu og mun því taka nokkurn tíma að koma að fullu fram. Fyrstu árin eftir innleiðingu verkefnisins mun kostnaður við aukna þjónustu í þágu barna vera meiri en hagrænn og fjárhagslegur ávinningur af innleiðingunni. Til lengri tíma mun ávinningurinn þó vega þyngra ekki síst þegar sú kynslóð sem fær þjónustu samkvæmt lögunum frá fæðingu kemst út á vinnumarkaðinn. Niðurstaða matsins er að samþætting þjónustu í þágu farsældar barna sé arðbær langtímafjárfesting sem bætir afkomu hins opinbera til lengri tíma.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um I. kafla.

    Í kaflanum eru lagðar til breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

Um 1. gr.

    Eitt af markmiðum laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er að tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði barna og ungmenna, sbr. b-lið 1. mgr. 1. gr. laganna. Félagsþjónusta sveitarfélaga veitir börnum og ungmennum margvíslega þjónustu og stuðning. Þessi þjónusta getur verið frá fyrsta til þriðja stigs, sbr. III. kafla laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, þótt gera megi ráð fyrir að meginþungi hennar sé á öðru stigi.
    Með ákvæðinu er lagt til að við framangreint markmið bætist að félagsþjónustu sveitarfélaga beri að bregðast við þörf barna og ungmenna fyrir þjónustu á skilvirkan hátt um leið og þörf krefur Sambærilegt ákvæði er í 1. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Hér er meðal annars vísað til áherslu á snemmtækan stuðning sem er veittur um leið og þörf krefur og hafa mörg sveitarfélög lagt áherslu á þetta með góðum árangri. Um er að ræða snemmbúnar aðgerðir gagnvart börnum sem glíma við vægan vanda og hafa það meðal annars að markmiði að koma í veg fyrir að vandinn aukist og verði erfiðari viðureignar. Mikill ávinningur getur verið af því að auka áherslu á snemmtækan stuðning við börn og fjölskyldur þar sem slík áhersla minnkar líkurnar á því að börn og fjölskyldur hafi síðar þörf fyrir markvissari eða sérhæfðari stuðning.

Um 2. gr.

    Með lögum nr. 37/2018 voru gerðar nokkrar breytingar á VII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í samræmi við breytingarnar fékk kaflinn, sem áður hafði fyrirsögnina Félagsleg heimaþjónusta, fyrirsögnina Stuðningsþjónusta. Aftur á móti voru ekki gerðar samsvarandi breytingar á 2. gr. laganna en þar er félagsleg heimaþjónusta enn skilgreind sem hluti af félagsþjónustu. Með ákvæðinu er lagt til að gerð verði lagfæring á 2. gr. laganna á þann hátt að í stað orðanna félagsleg heimaþjónusta komi stuðningsþjónusta.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að nýju ákvæði verði bætt við lögin þar sem fjallað er um verkefni stofnana ríkisins á grundvelli laganna. Ákvæðinu er ætlað að tryggja samfellu í lögunum. Það á sér efnislega hliðstæðu í 1. mgr. 3. gr. laga um Barna- og fjölskyldustofu, nr. 87/2021, sbr. jafnframt 2. mgr. 1. gr. þeirra laga, og 3. gr. laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021, sbr. jafnframt 2. mgr. 1. gr. þeirra laga.
    Í 1. mgr. er fjallað um eftirlit Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála með gæðum þjónustu.
    Í 2. mgr. er fjallað um stuðning Barna- og fjölskyldustofu við þjónustu sem er veitt í þágu barna á grundvelli laganna. Verkefni stofnunarinnar á grundvelli ákvæðisins geta meðal annars verið að veita sveitarfélögum almenna og sérhæfða fræðslu, gefa út stuðningsefni og veita leiðbeiningar og ráðgjöf til sveitarfélaga. Barna- og fjölskyldustofa styður eingöngu við félagsþjónustu sem er veitt börnum og fjölskyldum þeirra.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að þátttaka barna í meðferð mála hjá félagsþjónustu sveitarfélaga sé lögfest til samræmis við 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Sérstakt ákvæði um þátttöku barna er liður í að leggja áherslu á þennan lögbundna rétt þeirra.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að við upptalningu á hlutverki félagsmálanefnda bætist tilvísun til samþættingar félagsþjónustu, sbr. lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021. Félagsþjónusta sveitarfélaga gegnir lykilhlutverki í samþættingu þjónustu og er því talið rétt að sérstaklega sé vísað til þess hlutverks í upptalningu 11. gr. laganna.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að við almenn ákvæði IV. kafla laganna verði bætt sérstakri tilvísun til meginreglu 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þótt lög nr. 19/2013 gildi nú þegar um alla starfsemi sveitarfélaga er talið rétt að árétta regluna í samhengi við rétt til félagsþjónustu. Með slíkri tilvísun er ætlunin að renna styrkari stoðum undir skyldu sveitarfélaga til að setja hagsmuni barna í forgrunn við mat á rétti barnafjölskyldna til félagsþjónustu.

Um II. kafla.

    Í kaflanum eru lagðar til breytingar á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að sérstaklega sé tekið fram að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hafi samvinnu við ráðherra um gerð gæðaviðmiða. Í því sambandi er vísað til þess að í 3. gr. laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021, kemur fram að meðal verkefna stofnunarinnar er að þróa gæðaviðmið á verkefnasviði stofnunarinnar. Í ákvæðinu er ekki lagt til að umsjón ráðherra með útgáfu viðmiðanna verði breytt heldur skýrt að ráðherra skuli hafa samvinnu við Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála við útgáfuna.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að nýju ákvæði verði bætt við lögin þar sem fjallað er um verkefni stofnana ríkisins á grundvelli laganna. Ákvæðinu er ætlað að tryggja samfellu í lögunum. Það er efnislega samhljóða 1. mgr. 3. gr. laga um Barna- og fjölskyldustofu, nr. 87/2021, sbr. jafnframt 2. mgr. 1. gr. þeirra laga, og 3. gr. laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. nr. 88/2021, sbr. jafnframt 2. mgr. 1. gr. þeirra laga.
    Í 1. mgr. er fjallað um eftirlit Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála með gæðum þjónustu.
    Í 2. mgr. er fjallað um stuðning Barna- og fjölskyldustofu við þjónustu sem er veitt í þágu barna á grundvelli laganna. Verkefni stofnunarinnar á grundvelli ákvæðisins geta meðal annars verið að veita sveitarfélögum almenna og sérhæfða fræðslu, gefa út stuðningsefni og veita leiðbeiningar og ráðgjöf til sveitarfélaga. Barna- og fjölskyldustofa styður eingöngu við félagsþjónustu sem er veitt börnum og fjölskyldum þeirra.

Um 9. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar 2. mgr. 7. gr. laganna til samræmis við 2. mgr. 10. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sbr. II. kafla laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021.

Um 10. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að gerðar verði breytingar á 14. gr. laganna. Í gildandi ákvæði er fjallað um viðbrögð starfsmanna félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og skóla þegar þeir verða þess áskynja að barn hafi einkenni sem geta bent til skerðingar. Í IV. kafla laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna eru almenn ákvæði sem fjalla um skyldu þjónustuveitenda til viðbragða ef þeir greina vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt. Markmið breytinganna er að enginn vafi leiki á um réttan farveg mála þegar grunur vaknar um að stuðningsþörfum fatlaðs barns sé ekki mætt.
    Í 1. mgr. er lagt til að skýrt sé tekið fram að þjónustuveitendum og þeim sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barna beri að bregðast við vísbendingum um að þörfum barns sé ekki mætt í samræmi við ákvæði laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Í því felst meðal annars að leiðbeina foreldrum um samþættingu þjónustu og, ef barn og/eða foreldri setur fram beiðni um samþættingu, skrá og/eða taka saman upplýsingar um aðstæður barns og miðla þeim til tengiliðar eða málstjóra þjónustu í þágu farsældar barna.
    Þegar ekki liggur fyrir beiðni um samþættingu þjónustu, t.d. þegar foreldrar kjósa að leggja slíka beiðni ekki fram, er ekki unnt leggja mál í farveg skv. 1. mgr. Er því í 2. mgr. mælt fyrir um sérstök viðbrögð þegar þjónustuveitandi telur að barn kunni að hafa stuðningsþarfir vegna fötlunar en úrræði samþættingar koma ekki til greina. Grunur um aðstæður sem kunna að leiða til fötlunar hjá barni, sem eru það alvarlegar að barnið kann að hafa langvarandi stuðningsþarfir, er þess eðlis að nauðsynlegt er að ganga úr skugga um hvort sá grunur er á rökum reistur. Er því talið rétt að tryggja ákveðin viðbrögð við þjónustuþörfum barns óháð afstöðu foreldra til samþættingar. Rétt er að leggja áherslu á að um er að ræða lágmarksviðbrögð sem felast í því að koma upplýsingum um aðstæður barnsins til fagfólks innan sveitarfélags sem hefur yfirsýn yfir úrræði og möguleika á að koma máli barnsins í réttan farveg í samstarfi við barnið og foreldra þess. Ákvæðið veitir ekki heimild til að teknar séu ákvarðanir um þjónustu nema foreldrar hafi aðkomu að þeim.
    Í 3. mgr. er lögð áhersla á snemmtækan stuðning og snemmtæka íhlutun. Hugtakið snemmtækur stuðningur er hér notaður í þeirri merkingu að börnum og fjölskyldum sé veittur stuðningur um leið og þörf krefur. Með snemmtækri íhlutun er átt við markvissa íhlutun og samræmda þjónustu sem byrjað er að veita snemma í lífi barns, sbr. 7. tölul. 2. gr. laga um Ráðgjafar- og greiningarstöð, nr. 83/2003. Bæði hugtökin vísa til mikilvægis þess að ekki verði töf á viðbrögðum gagnvart barni. Í 3. mgr. er það sérstaklega áréttað að frumgreiningar og/eða annars konar mat á þörfum barns skuli fara fram svo fljótt sem verða má. Í gildandi 14. gr. laganna er sambærilegt ákvæði sem nær eingöngu til frumgreininga. Í samræmi við breytta hugtakanotkun í III. kafla laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, er lagt til að ákvæðið verði jafnframt látið ná til annars konar mats á þörfum barns. Þá er í ákvæðinu sérstaklega tekið fram að mæta skuli stuðningsþörfum barns þótt greining liggi ekki fyrir. Um er að ræða sambærilega efnisreglu og er í gildandi 1. málsl. 14. gr. laganna.

Um 11. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að 3. málsl. 18. gr. laganna falli brott. Um er að ræða ákvæði þar sem mælt er fyrir um að um leyfi til sumardvalar fari samkvæmt barnaverndarlögum. Með tilkomu samræmdra rekstrarleyfa í lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála er ekki gerður greinarmunur á rekstrarleyfi eftir því á hvaða lagagrundvelli það er gefið út. Er því lagt til að slík tilvísun til barnaverndarlaga verði felld brott. Rétt er þó að árétta að sumardvalarstaðir verða eftir sem áður rekstrarleyfisskyldir.

Um 12. gr.

    Í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er kveðið á um málstjórn, teymisvinnu og einstaklingsbundnar þjónustuáætlanir fyrir öll börn sem þurfa fjölþætta þjónustu á öðru og þriðja stigi til lengri tíma. Er því í 1. mgr. lagt til að gildandi 19. gr. laganna, þar sem fjallað er um þjónustuteymi og einstaklingsbundnar þjónustuáætlanir, falli brott en í staðinn sé vísað til hinna almennari reglna frumvarps til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Jafnframt er lögð til breyting á fyrirsögn greinarinnar í samræmi við breytt inntak hennar.
    Í 2. mgr. er lögð til sambærileg efnisregla og er í 4. mgr. 22. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, að því er varðar lok starfa stuðningsteymis þegar barn verður 18 ára. Mikilvægt er að samfella haldist í þjónustu þegar fatlað barn verður 18 ára og sérstökum reglum um þjónustu barna sleppir. Er því í ákvæðinu fjallað um að við þessi tímamót sé gerð sérstök áætlun þar sem fjallað er um þjónustu þegar barn nær fullorðinsaldri. Þá er í ákvæðinu vísað til 12. gr. laganna þar sem fram kemur að fatlaður einstaklingur sem hefur þörf fyrir viðvarandi fjölþættan stuðning þjónustukerfa félags-, heilbrigðis- og menntamála eigi rétt á einstaklingsbundinni þjónustuáætlun og þverfaglegu þjónustuteymi. Ákvæðinu er ætlað að stuðla að samfellu í þjónustu þegar barn nær fullorðinsaldri.

Um 13. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að gerðar séu breytingar á 31. gr. til samræmis við 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Sérstakt ákvæði um þátttöku þeirra er liður í leggja áherslu á þennan rétt barna.

Um III. kafla.

    Í kaflanum eru lagðar til breytingar á lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, nr. 160/2008. Breytingarnar eru að mestu leyti samhljóða breytingum sem gerðar voru á lögum um Ráðgjafar- og greiningarstöð, nr. 83/2003, með lögum nr. 85/2021, en stofnanirnar eiga það sameiginlegt að veita skilgreindum hópi barna þjónustu og stuðning.

Um 14. gr.

    Í 1. gr. laga um Barna- og fjölskyldustofu, nr. 87/2021, eru stofnuninni m.a. falin verkefni á grundvelli laga um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, nr. 160/2008. Í 3. gr. fyrrnefndu laganna kemur m.a. fram að verkefni Barna- og fjölskyldustofu séu að veita almenna og sérhæfða fræðslu til stjórnvalda og annarra, útgáfa leiðbeininga, gátlista og annars stuðningsefnis og leiðbeiningar og ráðgjöf um vinnslu einstakra mála. Í 3. og 4. mgr. 4. gr. laga um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu er stofnuninni falið að vera til ráðgjafar og veita aðstoð þjónustuveitenda sé þörf á sérfræðiþekkingu til að þeir geti ræktað hlutverk sitt gagnvart þeim sem eru blindir eða sjónskertir.
    Ljóst er að ákveðin samlegð er á milli verkefna stofnunarinnar að því er varðar þjónustu, stuðning og fræðslu vegna blindra og sjónskertra barna. Því er talið rétt að mæla sérstaklega fyrir um samstarf stofnananna tveggja í lögum. Talið er rétt að ákvæðið sé almennt orðað svo stofnanirnar hafi svigrúm til að útfæra samstarfið.

Um 15. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til sérstakt ákvæði um þátttöku stofnunarinnar í samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þar eru tekin af öll tvímæli um að þegar stofnunin er í hlutverki þjónustuveitanda geti hún m.a. tekið sæti í stuðningsteymi í þágu farsældar barns og unnið með persónuupplýsingar innan ramma samþættingarinnar.

Um IV. kafla.

    Í kaflanum eru lagðar til breytingar á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011. Breytingarnar lúta að störfum réttindagæslumanna með tilliti til réttinda barna og samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna.

Um 16. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um réttindi fatlaðra barna gagnvart réttindagæslumönnum sem starfa á grundvelli laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011. Þar er lagt til að meginreglur 3. og 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, verði lögfestar sérstaklega að því er varðar störf réttindagæslumanna.

Um 17. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að skýra aðkomu réttindagæslumanna að samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Ljóst er að réttindagæslumenn sinna ekki hefðbundinni þjónustu í þágu barna þar sem verkefni þeirra eru m.a. hagsmunagæsla og fyrirsvar fyrir fötluð börn og eftir atvikum fatlaða foreldra. Er því ekki talið rétt að réttindagæslumenn komi að samþættingu þjónustu á þeim forsendum að um sé að ræða þjónustuveitendur í skilningi 14. tölul. 2. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsælda barna, nr. 86/2021. Þó er talið rétt að á réttindagæslumönnum hvíli sambærilegar skyldur til að leiðbeina um samþættingu og koma upplýsingum áleiðis til tengiliðar og málstjóra vegna vísbendinga um að þörfum barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti.
    Í ákvæðinu er því mælt fyrir um skyldu réttindagæslumanns til að bregðast við ef hann telur að þörfum fatlaðs barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti. Viðbrögðin eiga að vera þau að veita foreldrum og/eða barni leiðbeiningar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og eftir atvikum koma upplýsingum um barnið áleiðis til tengiliðar eða málstjóra. Þessi skylda kemur til viðbótar við aðrar skyldur réttindagæslumanns. Verður að telja að það sé ekki ósamrýmanlegt hagsmunagæsluhlutverki réttindagæslumanns að hann geti komið upplýsingum með þessum hætti til tengiliðar og málstjóra.
    Í ákvæðinu er jafnframt mælt fyrir um að réttindagæslumenn teljist ekki til þjónustuveitenda í skilningi laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þótt verkefni réttindagæslumanna geti talist verkefni sem eru skilgreind sem farsældarþjónusta í skilningi laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er lagt til að réttindagæslumenn standi utan við samþættinguna. Er í því sambandi m.a. litið til þess að réttindagæslumenn geta komið fram og verið fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra innan handar varðandi kvartanir yfir þjónustu og samþættingu þjónustu. Ekki fæst séð að þátttaka réttindagæslumanns í samþættingu geti samrýmst þeim verkefnum.

Um V. kafla.

    Í kaflanum er lögð til breyting á lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021, sem tóku gildi 1. janúar sl. Um er að ræða lagfæringu á ákvæðum laganna sem kom í ljós að þyrfti að gera eftir að lögin tóku gildi.

Um 18. gr.

    Lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála kveða á um að stofnunin gefi út rekstrarleyfi til einkaaðila sem hyggjast starfrækja þjónustu sem er m.a. veitt á grundvelli barnaverndarlaga, laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og hafi eftirlit með þjónustunni. Í þessum lögum eru ákvæði sem koma í veg fyrir að einstaklingar, sem hlotið hafa refsidóma fyrir brot gegn tilgreindum ákvæðum almennra hegningarlaga, geti unnið við þjónustuna.
    Í því skyni að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála geti rækt eftirlitshlutverk sitt, meðal annars með því að einstaklingum sé ekki veitt rekstrarleyfi fyrir tiltekinni þjónustu ef þeir hafa hlotið refsidóm sem kemur alfarið í veg fyrir að þeir geti starfrækt þjónustuna, er nauðsynlegt að stofnunin hafi aðgang að upplýsingum um sakaferil einstaklinga. Samkvæmt gildandi reglum um sakaskrá einstaklinga hafa einstaklingar ekki eins ríkan rétt og yfirvöld til að fá aðgang að upplýsingum um sakaferil sinn. Er því lagt til í 1. málsl. að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála fái sérstaka lagaheimild til að afla upplýsinga úr sakaskrá milliliðalaust.
    Í 2. málsl. er jafnframt lagt til að stofnunin fái heimild til að fá afrit dóma frá ríkissaksóknara. Er heimildin samhljóða heimild sem Barna- og fjölskyldustofa hefur skv. 36. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.
    Í 3. málsl. er lagt til að sérstaklega verði áréttað að stofnunin gæti þess ávallt að ekki sé aflað upplýsinga um sakaferil einstaklinga umfram það sem nauðsynlegt er til að stofnunin geti sinnt eftirlitshlutverki sínu. Er hér um að ræða áréttingu á reglum sem koma m.a. fram í 8. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.

Um 19. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.