Ferill 564. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 800  —  564. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um bættar vegasamgöngur yfir Hellisheiði.


Flm.: Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Ágúst Bjarni Garðarsson, Guðbrandur Einarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Helga Þórðardóttir, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að stofna starfshóp sem hafi það að markmiði að greina og koma með tillögur um hvernig bæta megi vegasamgöngur yfir Hellisheiði svo að ekki þurfi að koma til lokana yfir vetrarmánuði.
    Ráðherra leggi niðurstöður starfshópsins fyrir Alþingi eigi síðar en fyrir árslok 2022.

Greinargerð.

    Umferð um Hellisheiði hefur aukist verulega á síðustu árum. Samkvæmt tölum frá Vegagerðinni fóru að meðaltali nærri 9.500 bílar yfir Hellisheiðina á dag árið 2021, áætla má að enn fleiri bílar fari þar um þegar umferð færist aftur í eðlilegt horf eftir heimsfaraldur COVID-19. Aukinn umferðarþunga yfir Hellisheiði má að einhverju leyti skýra með fjölgun ferðamanna, en nær 80% ferðamanna sem koma til landsins leggja leið sína á Suðurland. Telja má víst að langflestir þeirra keyri yfir Hellisheiðina. En ein af meginástæðum aukins umferðarþunga yfir Hellisheiði er að vinnusóknarsvæði höfuðborgarsvæðisins hefur teygt anga sína langt austur fyrir fjall. Fyrir því eru fleiri en ein ástæða. Telja má að bættar samgöngur og skortur á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu ásamt því að fólk kýs í auknum mæli að búa í smærri, rólegri samfélögum spili þar inn í. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni hefur íbúum í sveitarfélögum fyrir austan fjall farið ört fjölgandi, frá árinu 2014 hefur íbúum á Selfossi fjölgað um 2.396. Þá hefur á sama tímabili íbúum fjölgað um 446 í Hveragerði og 357 í Þorlákshöfn. Fjölgun hefur orðið í öllum þéttbýliskjörnum á svæðinu. Samkvæmt mannfjöldaspá er útlit fyrir að íbúum þar komi enn til með að fjölga á næstu árum. Samhliða fjölgun íbúa er einnig orðið algengara að fyrirtæki flytji starfsemi sína frá höfuðborgarsvæðinu í umrædd sveitarfélög.
    Árið 2017 var gerð könnun á vinnusókn til höfuðborgarsvæðisins frá öðrum byggðarlögum á Suðvesturlandi 1 . Könnun á vinnusókn til höfuðborgarsvæðisins frá Hveragerði, Ölfusi, Árborg og Flóahreppi sýndi eftirfarandi niðurstöður: Hveragerði og Ölfus 539 – konur16%, karlar 37%, Árborg og Flóahreppur 438 – konur 10%, karlar 20%. Því miður er ekki nýrri könnun að finna en ef fjöldi íbúa árið 2021er uppreiknaður miðað við sömu hlutfallstölur um vinnusókn og komu fram í rannsókninni eru tölurnar eftirfarandi fyrir árið 2021: Hveragerði/Ölfus – konur 1.233 x 16% = 197, karlar: 1.457 x 37% = 539, Árborg/Flóahreppur – konur 2.690 x 10% = 269, karlar 3.053 x 20% = 611. Ef þessar tölur eru lagðar saman er útkoman 1.616 manns. Óvíst er hvort fjarvinna vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hafi áhrif á þessar tölur en þær sýna að stór hluti íbúa á þessu svæði sækir vinnu á höfuðborgarsvæðið og allar líkur eru á að þessar tölur hækki á komandi árum.
    Veður á Hellisheiði geta verið válynd og vegurinn lokast með skömmum fyrirvara með tilheyrandi vandkvæðum. Flutningsmenn telja mikilvægt að kanna alla þá kosti sem í boði eru til þess að bæta vegasamgöngur yfir heiðina. Þegar þetta er skrifað, í mars 2022, hefur veginum yfir Hellisheiði verið lokað 19 sinnum á árinu, samtals í 229 klst. Lokanir á Hellisheiði á árunum 2014–2022 eru eftirfarandi: 2014 átta skipti í alls 57,6 klst., 2015 21 skipti í alls 135,9 klst., 2016 átta skipti í alls 43,1 klst., 2017 fjögur skipti í alls 27 klst., 2018 16 skipti í alls 132,2 klst., 2019 13 skipti í 65,8 klst., 2020 19 skipti í alls 133,3 klst., 2021 tvö skipti í alls 13,6 klst.
    Jarðgöng undir Hellisheiði hafa verið lauslega skoðuð á korti en engar athuganir hafa verið gerðar um göng á þessum stað. Þar sem um er að ræða háhitasvæði eru jarðfræðilegar aðstæður erfiðar en rétt er að skoða um hvaða tæknilegu vandamál er að ræða og hvort og hvernig unnt sé að leysa þau. Þá mætti að sama skapi kanna möguleika á því að setja hluta af veginum í stokk eða byggja upp tvöfaldar stofnbrautir í gagnstæðar áttir í stað þess að skipta veginum með vegriði. Árið 2020 voru sett sérstök lög um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir þar sem tilteknar voru nokkrar framkvæmdir sem lagt var til að unnar væru sem samvinnuverkefni. Flutningsmenn telja að skoða ætti hvort mögulegar vegabætur á veginum um Hellisheiði væru hentugar sem samvinnuverkefni. Með samvinnuverkefnum má flýta mögulegum framkvæmdum en reynsla erlendis frá hefur sýnt að einkaaðilar ná að jafnaði að ljúka framkvæmdum á styttri tíma en opinberir aðilar. Hugtakinu samvinnuverkefni er lýst þannig í lögum um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir, nr. 80/2020, að um sé að ræða: „Verkefni þar sem einkaaðili annast fjármögnun í heild eða að hluta eða tekur með öðrum hætti áhættu af gerð og rekstri opinbers mannvirkis, eftir atvikum með heimild til gjaldtöku fyrir notkun mannvirkisins á rekstrartíma. Samvinnuverkefni felur að jafnaði í sér samvinnu um eftirtalið: fjármögnun, áætlanagerð, hönnun, uppbyggingu mannvirkja, viðhald, rekstur og annað sem nauðsynlegt er til að ljúka megi framkvæmd og reka mannvirki í tiltekinn tíma.“
    Í ljósi aukins umferðarþunga, lokana og oft og tíðum erfiðra veðurskilyrða telja flutningsmenn mikilvægt að skoðað verði af fullri alvöru hvaða möguleikar séu í boði til þess að bæta vegasamgöngur yfir vetrarmánuðina á Hellisheiði og leggja því til að innviðaráðherra skipi starfshóp sem falið verði að kanna allar mögulegar leiðir. Markmiðið er að tryggja umferðaröryggi og bættar vegsamgöngur fyrir íbúa og fyrirtæki sem starfrækt eru á svæðinu sem og fyrir ferðafólk sem yfirleitt er óvant akstri í vetrarfærð.
1     www.efnahagsmal.is/article/view/a.2018.15.2.6