Ferill 81. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 81  —  81. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016 (framsal kröfuréttar).

Flm.: Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Á eftir 16. gr. a laganna kemur ný grein, 16. gr. b, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Framsal réttar.

    Ef lánveitandi framselur kröfurétt sinn til þriðja aðila samkvæmt lánssamningi, eða samninginn sjálfan, á neytandi rétt á því að halda uppi sömu mótbárum gegn framsalshafa sem hann gat nýtt sér gagnvart upphaflegum lánveitanda, þ.m.t. rétt til skuldajafnaðar.
    Upphaflegur lánveitandi skal upplýsa neytanda um framsal sem um getur í 1. mgr. nema þegar upphaflegur lánveitandi heldur áfram lánsþjónustu sinni við neytanda með samkomulagi við framsalshafa.

2. gr.

    Á eftir 10. tölul. 1. mgr. 53. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 16. gr. b um skyldu lánveitanda til að upplýsa neytanda um framsal réttar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að við lög um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, bætist ákvæði sama efnis og ákvæði laga um neytendalán, nr. 33/2013, varðandi réttindi og skyldur í tengslum við framsal lánveitanda á kröfuréttindum samkvæmt lánssamningi, sbr. 19. gr. síðarnefndra laga.
    Sambærilegt ákvæði var áður í 17. gr. laga um neytendalán, nr. 121/1994, en með lögum nr. 179/2000 voru fasteignalán felld undir gildissvið þeirra. Þegar þau lög voru leyst af hólmi með núgildandi lögum um neytendalán, nr. 33/2013, náðu þau einnig yfir fasteignalán. Með gildistöku laga um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, voru fasteignalán felld undan gildissviði laga um neytendalán, án þess að sambærilegt ákvæði væri að finna í hinum nýju lögum. Tilgangur frumvarps þessa er að bæta úr þeim ágalla og tryggja réttindi neytenda í tengslum við framsal kröfuréttinda samkvæmt samningum um fasteignalán.
    Ákvæði 1. gr. frumvarpsins er samhljóða 19. gr. laga um neytendalán, nr. 33/2013, og ákvæði 2. gr. er efnislega samhljóða s-lið 1. mgr. 30. gr. sömu laga. Skýringar að baki þeim ákvæðum eiga því að sama skapi við um efnisleg ákvæði frumvarps þessa. Ákvæði 3. gr. frumvarpsins þarfnast ekki skýringar.