Ferill 579. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 820  —  579. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (samræmd könnunarpróf).

Frá mennta- og barnamálaráðherra.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 39. gr. er ekki skylt að leggja fyrir samræmd könnunarpróf til og með 31. desember 2024.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er lagt fram til að afnema tímabundið skyldu til að leggja fyrir samræmd könnunarpróf. Mikið álag hefur verið á skólakerfinu á undanförnum árum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru auk þess sem fyrirlagning samræmdra könnunarprófa hefur ekki tekist í öllum tilvikum á undanförnum árum. Óvissa tengd framkvæmd samræmdra könnunarprófa hefur valdið óöryggi meðal barna og fjölskyldna. Með vísan til þess að það sem er barni fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar hið opinbera gerir ráðstafanir er varða börn er lagt til að fresta samræmdum könnunarprófum tímabundið þar til ráðuneytið hefur innleitt nýtt samræmt námsmat sem byggist á tillögu skýrslu um framtíðarstefnu um samræmt námsmat frá árinu 2020.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarpið felur í sér tímabundna frestun 39. gr. laganna en ákvæðið fjallar um samræmt námsmat í grunnskólum. Meginefni frumvarpsins er að veita stjórnvöldum heimild til tímabundinnar niðurfellingar samræmds námsmats.
    Eftir samráð og ábendingar skólasamfélagsins er ekki talið forsvaranlegt að halda áfram með samræmt námsmat að teknu tilliti til álags á skólakerfið, meðal annars vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Hafin hefur verið vinna við innleiðingu nýs samræmds námsmats sem byggist á tillögu skýrslu frá 2020, skrifaðri með aðkomu breiðs hóps hagsmunaaðila, Framtíðarstefna um samræmt námsmat: Tillögur starfshóps um markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa. Innleiðing nýs samræmds námsmats, sem gefur færi til mun umfangsmeira mats en áður, er yfirgripsmikið verkefni og brýnt að svigrúm sé gefið til vinnu við hönnun og innleiðingu þess. Aðalmarkmiðið er að færa skipulag námsmats nær nemendum og kennurum þannig að það þjóni sem skólaþróunarverkfæri, aðgengileg fyrir kennara og skóla til að nota eftir þörfum.
    Í ljósi þessa þarf að leggja upp og skipuleggja frekar faglega vinnu með breiðu samráði við hagsmunaaðila, sem og innihald tengt hönnun verkefnisins.
    Með vísan til þess sem að framan greinir er lagt til að samræmdum könnunarprófum verði frestað út árið 2024 og stjórnvöldum veittur kostur á að vinna úr þeirri stöðu sem upp er komin.
    Samræmd próf voru tengd innritun í framhaldsskóla um árabil. Á undanförnum árum hefur aukin áhersla verið lögð á að samræmt námsmat veiti skólum, nemendum og foreldrum upplýsingar um stöðu nemenda og skapa færi á að styðja við nám þeirra áður en grunnskólanámi lýkur. Komið hefur fram gagnrýni á fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa sem hefur meðal annars beinst að því að vísbendingar hafi verið um að próffræðilega og próftæknilega hafi þau ekki náð að prófa nemendur í ýmsum lykilþáttum aðalnámskrár.
    Samhliða breytingunni verður ytra mat skóla eflt því að almennt eru próf og ytra mat hvers skóla talin heppileg tæki til að sinna eftirlitsskyldu ráðuneytisins og gefa nákvæmari heildarniðurstöður yfir stöðu menntakerfisins en samræmd könnunarpróf hafa gert.
    Með þessum breytingum, sem eru samkvæmt tillögum starfshóps um samræmd könnunarpróf, á að fjölga verkfærum og efla traust til skólanna. Matsferill á að gefa nákvæmari mynd af stöðu hvers nemanda sem nýtist kennurum, nemendum, forsjáraðilum og skóla á þann veg að hægt verði að sjá hvað þurfi að bæta.
    Gert er ráð fyrir að í vor liggi fyrir útfærsla verkefnisstjórnar á fyrirkomulaginu til framtíðar, en að samráð um áframhaldandi þróun matsferils haldi áfram með hagsmunaaðilum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið kveður á um að þrátt fyrir 39. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, sem kveður á um skyldu til að standa fyrir samræmdu námsmati, sé heimilt að halda ekki samræmd könnunarpróf til og með 31. desember 2024.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir skólasamfélagið í heild sinni, svo sem börn, kennara, skólastjórnendur, foreldra, sveitarfélög og aðra sem koma að skólastarfi. Frumvarpið fór ekki í hefðbundið samráðsferli en um er að ræða viðbrögð við þeirri stöðu sem upp er komin vegna samræmdra könnunarprófa og ekki gafst svigrúm til hefðbundins samráðs fyrir framlagningu þess á Alþingi.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið mun hafa jákvæð áhrif á börn og skólasamfélagið í heild sinni.
    Fjármagn sem notað hefur verið til samræmdra könnunarprófa verður nýtt í að móta, byggja upp og innleiða nýtt samræmt námsmat.