Ferill 582. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 824  —  582. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002 (umhverfisvæn orkuöflun).

Frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „vistvænni“ í 5. mgr. kemur: umhverfisvænni.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Með búnaði til umhverfisvænnar orkuöflunar er í lögum þessum átt við allan þann tækjabúnað sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun, þ.m.t. nauðsynlegan fylgibúnað fyrir virkni hans, að undanskildum breytingum á hitakerfum húsnæðis innan dyra.

2. gr.

    2. mgr. 4. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    2. mgr. 5. gr. fellur brott.

4. gr.

    5. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. bætist: sem og til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun.
     b.      5. tölul. orðast svo: Til íbúðareigenda sem fjárfesta í og tengja tækjabúnað sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun.

6. gr.

    Í stað 4. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Styrkir á grundvelli 5. tölul. 11. gr. skulu jafngilda helmingi kostnaðar við kaup á tækjabúnaði, sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun, að hámarki 1 millj. kr. Þessi fjárhæð uppfærist 1. janúar ár hvert í hlutfalli við vísitölu neysluverðs, miðað við grunnvísitöluna 1. júlí 2022. Styrkirnir eru samningsbundnir til 15 ára á viðkomandi húseign.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Ákvæði til bráðabirgða.

    Notendur, sem fyrir gildistöku þessara laga hafa sett upp og tengt búnað til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun og ekki hlotið til þess styrk, skulu eiga rétt á styrk í samræmi við ákvæði 4. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna eins og þau voru áður en lög þessi tóku gildi enda óski þeir sérstaklega eftir því og leggi fram raunhæf markmið um orkusparnað að mati Orkustofnunar.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu í samvinnu við Orkustofnun. Með frumvarpinu er lagt til breytt fyrirkomulag á stuðningskerfi vegna umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun fyrir þá sem hita hús sín með raforku, en núverandi stuðningskerfi hefur reynst flókið og óskilvirkt í framkvæmd. Meginbreytingin er sú að lagt er til að veittir verði styrkir, að hámarki 1 millj. kr., til íbúðareigenda sem fjárfesta í og tengja tækjabúnað sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun. Er þá sérstaklega horft til varmadælna, en annar tækjabúnaður sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun getur einnig fallið þar undir. Tillögur frumvarpsins fela í sér einföldun á styrkveitingakerfinu og minni eigin áhættu notenda við að taka upp umhverfisvænni orkuöflun. Með aukinni notkun varmadælna við húshitun í stað rafhitunar sparast einnig mikil raforka sem þá er hægt að nýta á annan hátt, t.d. til orkuskipta í samgöngum.
    Notendur sem ekki eiga kost á að nýta jarðvarma til húshitunar hita nær allir hús sín með raforku. Húshitun með raforku er talsvert dýrari en húshitun frá jarðvarmaveitu. Til að jafna búsetuskilyrði greiðir ríkið niður dreifi- og flutningskostnað raforku til hitunar heimila.
    Lög um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002, mæla fyrir um niðurgreiðslur kostnaðar, styrkveitingar og úthlutun fjár sem ákveðið er í fjárlögum til verkefna í tengslum við niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar. Samkvæmt lögunum geta eigendur eða umráðamenn íbúða sem uppfylla skilyrði um niðurgreiðslur sótt um slíkt hjá Orkustofnun.
    Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar eru umtalsverðar þar sem ríkið niðurgreiðir að fullu dreifi- og flutningskostnað raforku til húshitunar hjá notendum, þó aldrei meira en skilgreindur hámarksfjöldi kWst hvers notanda. Lækkun á húshitunarkostnaði er því sameiginlegt hagsmunamál ríkis og notenda sem njóta niðurgreiðslna. Þeir notendur sem njóta niðurgreiddrar rafhitunar og vilja taka upp umhverfisvæna orkuöflun eiga þess kost að sækja um styrk til Orkustofnunar sem felur í sér fyrirframgreidda niðurgreiðslu sem tekur mið af meðalnotkun viðkomandi húseignar og þeim sparnaði sem slík framkvæmd skilar eða er áætlað að skili. Helst ber hér að nefna varmadælur sem eru umhverfisvæn lausn sem bætir orkunýtingu og geta lækkað bæði rafhitunarkostnað notenda og niðurgreiðslukostnað ríkisins umtalsvert. Varmadælur eru mismunandi að gerð og spara mismikla orku. Hefðbundnar varmadælur hafa ársvarmastuðul á bilinu 2–5 sem þýðir að spara má frá helmingi til 4/ 5 húshitunarkostnaðar á hverju ári. Verð á varmadælum og sambærilegum búnaði og kostnaður við uppsetningu er mjög mismunandi og geta útgjöld orðið þónokkur við að koma búnaðinum í notkun.
    Hagur bæði notenda og ríkis af umhverfisvænni orkuöflun er óumdeildur. Fyrir notendur leiðir slíkur búnaður af sér minni raforkunotkun með tilheyrandi lækkuðum kostnaði. Þá lækkar mótframlag ríkisins vegna minni raforkunotkunar. Á sama tíma skilar slíkur búnaður gjarnan aukinni orku út í kerfið en ljóst er að losa þarf raforku til nauðsynlegra orkuskipta á næstu árum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Eins og rakið er í 1. kafla eiga notendur sem njóta niðurgreiddrar rafhitunar þess kost að sækja um eingreiðslu hjá Orkustofnun vegna kaupa á varmadælu. Samkvæmt 5. tölul. 11. gr. skal veita styrki til íbúðareigenda sem vilja taka upp umhverfisvæna orkuöflun og/eða ráðast í aðgerðir sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun. Fjárhæð slíkra styrkja skal, eftir því sem mælt er fyrir um í 12. gr., jafngilda átta ára áætluðum niðurgreiðslum sem lækka í réttu hlutfalli við orkusparnað tengdan umhverfisvænni orkuöflun og/eða aðgerðum sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun. Þannig er um að ræða eingreiðslu sem byggist á krónutölu niðurgreiðslna á hverju dreifisvæði sem þýðir að opinber styrkupphæð fyrir sams konar framkvæmd og árangur er mismunandi milli svæða. Notandi þarf að leggja fram upplýsingar um orkunotkun síðustu fimm ára, meta sjálfur tæknilegan ávinning framkvæmdarinnar, lækka niðurgreiðslustuðul sinn út frá eigin áhættumati og meta aukna raforkunotkun til framtíðar til að forðast óþarfa aukakostnað. Þar sem notandi þarf að lækka eigin niðurgreiðslustuðul út frá mati á áætluðum orkusparnaði getur reynst kostnaðarsamt ef orkunotkun fer fram úr áætlunum, þ.e. upp fyrir hinn lækkaða niðurgreiðslustuðul. Þá kallar kerfið á tímafreka umsýslu Orkustofnunar en þar má nefna samskipti og leiðbeiningar til notenda, samningagerð og endurskoðun vegna eigendaskipta og búferlaflutninga.
    Tillaga þessa frumvarps er að styrkur vegna kaupa á varmadælu afmarkist við helming af kostnaði við kaup á búnaði, allt að 1 millj. kr. Í því felst veruleg einföldun fyrir notendur sem ætti að stuðla að aukinni notkun slíks búnaðar. Tillagan er einnig í betra samræmi við jafnræðissjónarmið þar sem ekki er hætta á mismunun á milli svæða. Hagur notenda og ríkis af notkun varmadælna er óumdeildur eins og rakið er hér að framan.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með þessu frumvarpi er lögð til breyting á fyrirkomulagi styrkveitinga vegna umhverfisvænnar orkuöflunar. Fyrirkomulagið sem komið var á með lögum nr. 41/2009, um breytingu á lögum, nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, felur í sér að notandi sem vill taka upp umhverfisvæna orkuöflun og/eða ráðast í aðgerðir sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun getur sótt um styrk til Orkustofnunar sem jafngildir átta ára áætluðum niðurgreiðslum sem lækka í réttu hlutfalli við orkusparnað tengdan umhverfisvænni orkuöflun og/eða aðgerðum sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun. Þannig byggist styrkfjárhæðin á áætlunum notandans á eigin orkusparnaði en um leið lækkar niðurgreiðslustuðull viðkomandi notanda.
    Með frumvarpinu er lagt til að miða fjárhæð styrksins við helming kostnaðar við kaup á tækjabúnaði sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun. Þannig mun styrkurinn miðast við kostnað af kaupum á tækjabúnaði í stað útreikninga notenda sjálfra á áætluðum sparnaði. Með breytingunum mun niðurgreiðslustuðullinn ekki lækka og áhætta notenda verður þannig lágmörkuð. Er þetta talið einfaldara og sanngjarnara fyrirkomulag. Að mati Orkustofnunar hefur hátt flækjustig núverandi kerfis og eigin áhætta styrkþega fælingarmátt gagnvart notendum sem þurfa að áætla orkusparnað og afsala sér á þeim grunni hlutfalli af niðurgreiðslurétti gegn eingreiðslu. Einfaldara og sanngjarnara þykir að réttur til eingreiðslu miðist alfarið við hlutfall af kostnaði sem notandi leggur út vegna kaupa á tækjabúnaði sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar. Einfaldara og sanngjarnara kerfi er talið stuðla að aukinni notkun varmadælna, og eftir atvikum öðrum tækjabúnaði sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun með tilheyrandi ávinningi fyrir neytendur, ríki, raforkukerfið og orkuskipti.
    Ætla má að rafhitun í landinu sé á bilinu 600–650 GWst og af því eru um 320 GWst niðurgreiddar, þar af 225 GWst vegna beinnar rafhitunar. Með varmadælum og öðrum orkusparandi búnaði væri að mati Orkustofnunar hægt að losa um allt að 110 GWst í aðra notkun, en 110 GWst samsvarar raforkunotkun 50 þúsund rafbíla.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gefur ekki tilefni til umfjöllunar um samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Áform um lagasetninguna voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 28. janúar 2022 (mál nr. S-21/2022). Á kynningartíma áformanna var fulltrúum Samorku og sveitarstjórna á köldum svæðum boðið til sérstaks kynningarfundar. Sex umsagnir bárust um áformin, frá Sveitarfélaginu Skagafirði, Fjórðungssambandi Vestfirðinga og fjórum einstaklingum.
    Sveitarfélagið Skagafjörður lýsir ánægju með áformin. Ljóst sé að hvatar til aukinnar notkunar varmadælna á köldum svæðum sem njóta ekki húshitunar með jarðvarma geti skilað umtalsverðum ávinningi til lengri tíma litið fyrir neytendur, ríkið og raforkukerfið í heild sinni.
    Fjórðungssamband Vestfirðinga telur að við undirbúning frumvarpsins þurfi að skýra nánar hvaða forsendur liggi að baki skilgreiningu á ódýrum hitaveitum og hvaða landsvæði og byggðarlög falli undir ódýrar hitaveitur. Fjórðungssambandið telur ekki ljóst hvort áformin feli í sér stefnubreytingu þannig að niðurgreiðslur á varmadælum verði meginþáttur til að ná fram markmiði laganna eða hvort einvörðungu sé verið að auka skilvirkni við framkvæmd þessa verkefnis til að ná betur markmiðum laganna. Þá telur sambandið tilefni til að skoða samspil tillögunnar við önnur lög eða áætlanir sem tengist heildarmarkmiðum stjórnvalda um jöfnun húshitunarkostnaðar til lengri eða skemmri tíma litið, svo sem markmiða orkustefnu og verkefna í byggðaáætlun. Þá er í umsögn sambandsins bent á fleiri atriði og álitaefni almenns eðlis sem varða löggjöf um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar.
    Einstakir umsagnaraðilar telja jákvætt skref tekið með áformunum en bent er á að mikilvægt sé að taka af allan vafa varðandi niðurgreiðslur vegna húshitunar, að við móttöku styrks sé einungis verið að styrkja viðkomandi húseiganda til orkusparnaðar og niðurgreiðslur vegna húshitunar haldist óbreyttar. Þá verði hlutfall styrkjar að vera nokkuð veglegt svo að húseigandi telji sig hafa hag af því að fara í framkvæmdir til orkusparnaðar. Umsagnaraðilar benda á að raunkostnaður við uppsetningu búnaðar afmarkist ekki við sjálfan búnaðinn enda krefjist uppsetning sérþekkingar. Hafa þurfi í huga langtímaáhrif breytinganna. Með betri nýtingu rafmagns á köldum svæðum og útvíkkun niðurgreiðslu til fyrirtækja og samtaka megi styrkja aðstöðu orkufrekari iðnaðar og afhenda þá orku sem sparist til nýrra kaupenda í iðnaði sem ekki séu staðsettir á köldum svæðum. Einnig er bent á að varmadælubúnaður hafi ákveðinn endingartíma. Því sé eðlilegt að eftir 12–15 ár eigi húseigandi rétt á öðrum styrk til kaupa á varmadælu. Einnig að umsóknarferlið ætti að vera eins einfalt og hægt er og vel kynnt.
    Umsagnirnar voru almennt jákvæðar. Í nokkrum þeirra koma fram sjónarmið um að mikilvægt sé að styrkþegar haldi óskertum rétti á niðurgreiðslum. Frumvarp þetta gerir ráð fyrir því að styrkur vegna tækjakaupa hafi ekki áhrif á niðurgreiðslurétt viðkomandi notanda, en í því samhengi ber að hafa í huga að minni orkunotkun leiðir óhjákvæmilega til lægri niðurgreiðslu. Frumvarpið er afmarkað við styrk vegna kaupa á tækjabúnaði sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun . Þar undir getur fallið margvíslegur búnaður, m.a. sólarrafhlöður. Í nokkrum umsögnum koma fram sjónarmið um að mikilvægt sé að fjárhæð styrkjar sé nægilega há til þess að fela í sér hvata til að ráðast í slíka fjárfestingu. Að mati ráðuneytisins ætti styrkur fyrir 50% af kostnaði tækjabúnaðar að vera nægjanlega hvetjandi enda leiðir búnaðurinn til minni raforkunotkunar með tilheyrandi lækkuðum kostnaði fyrir notanda. Hvað varðar sjónarmið um kostnað af vinnu við uppsetningu og viðhald bendir ráðuneytið á að styrknum er ætlað að koma til móts við allan kostnað notanda þó að tekið sé mið af kostnaði við kaup á tækjabúnaði. Varðandi ábendingu um endingartíma er miðað við að samningar um styrk gilda í 15 ár og eftir þann tíma verði hægt að sækja um aftur. Hvað varðar umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga er rétt að benda á að almennt er gengið út frá því að jarðvarmi sem nýtist beint til húshitunar telst ódýr orkugjafi í samanburði við aðra orkugjafa. Bent er á að frumvarpið varðar fyrst og fremst breytingu á fyrirkomulagi styrkveitinga vegna umhverfisvænnar orkuöflunar.
    Drög að frumvarpi var til samráðs í samráðsgátt stjórnvalda 23. febrúar til 9. mars 2022 (mál nr. S-42/2022). Tvær umsagnir bárust, frá Sveitarfélaginu Skagafirði og Hörgársveit. Báðir umsagnaraðilar lýsa yfir stuðningi við framgang frumvarpsins.

6. Mat á áhrifum.
    Lagasetningin mun einfalda stuðningskerfi við uppsetningu búnaðar til umhverfisvænnar orkuöflunar sem og umsýslu hins opinbera vegna þess. Notkun slíks búnaðar lækkar útgjaldaþörf ríkis til niðurgreiðslna til langs tíma. Verði frumvarpið að lögum má vænta þess að áhugi á uppsetningu á búnaði til umhverfisvænnar orkuöflunar muni aukast sem hefur mögulega í för með sér aukna fjárþörf tímabundið.
    Markmið breytinganna er að auka hlutdeild orkusparandi tækjabúnaðar, sérstaklega varmadælna, við húshitun á rafhituðum svæðum með breytingum á styrkjakerfi til uppsetningar á slíkum búnaði. Nýtt kerfi mun einfalda notendum að sækja styrki til kaupa og uppsetningar á orkusparandi tækjabúnaði þar sem verulega er dregið úr áhættu notenda varðandi áhrif á niðurgreiðslurétt til framtíðar. Nýtt kerfi mun því væntanlega auka áhuga notenda á uppsetningu varmadælna og öðrum orkusparandi tækjabúnaði þar sem verulega er dregið úr áhættu notenda varðandi áhrif á niðurgreiðslurétt til framtíðar. Nýtt kerfi mun því væntanlega auka áhuga notenda á uppsetningu varmadælna og öðrum orkusparandi tækjabúnaði sem kallar á aukið fé til ráðstöfunar í verkefnið.
    Áætlanir Orkustofnunar gera ráð fyrir að fjöldi varmadæluverkefna geti verið um 7.800 talsins og að tæpur helmingur þeirra komi til framkvæmda á næstu 8 til 10 árum eða um 3.500 verkefni. Fjölgun umsókna mun kalla á viðbótarfjárframlög inn í fjárlagaliðinn og eru b ein áhrif þess metin svo að útgjaldaþörf muni aukast til skemmri tíma litið vegna aukinnar eftirspurnar eftir uppsetningu varmadælna en á móti koma uppsöfnuð áhrif þess að niðurgreiðslur til húshitunarkostnaðar í núverandi styrkumhverfi munu lækka til langs tíma. Mismunur þessara liða er áætlaður á bilinu 1 til 1,3 milljarðar kr. á næstu 8 til 10 árum. Gert er ráð fyrir að mismunur útgjalda til skamms tíma verði fjármagnaður með auknu 50 millj. kr. árlegu útgjaldasvigrúmi á málefnasviði 15 Orkumál frá og með 2023 og það sem eftir stendur með ráðstöfun fjárheimilda af málefnasviði 17 Umhverfismál sem ætlaðar eru til orkuskipta. Því mun lögfesting frumvarpsins ekki hafa nein fjárhagsáhrif á ríkissjóð.
Til nánari útskýringar er hér vísað í meðfylgjandi töflu:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


* Miðað við fjölda umsókna frá árinu áður.

    Dæmi 1: Árið 2022 eru ráðgerðar 80 umsóknir og fjárþörf vegna þeirra nemur 40–50 millj. kr. (miðað við meðalstyrk og hámarksstyrk) að teknu tillitil til 30 millj. kr. árlegrar fjárheimildar sem fyrir er á liðnum vegna niðurgreiðslna. Á móti koma engin uppsöfnuð áhrif til lækkunar vegna lækkaðra niðurgreiðslna fyrri ára.
    Dæmi 2: Árið 2023 eru ráðgerðar 270 umsóknir og fjárþörf þeirra nemur á bilinu 206–240 millj. kr. að teknu tilliti til 30 millj. kr. árlegrar fjárheimildar á liðnum. Á móti koma engin uppsöfnuð áhrif til lækkunar vegna lækkaðra niðurgreiðslna fyrri ára.
    Dæmi 3: Árið 2028 eru ráðgerðar 300 umsóknir og fjárþörf þeirra nemur á bilinu 233–300 millj. kr. að teknu tilliti til 30 millj. kr. árlegrar fjárheimildar sem fyrir er á fjárlagaliðnum. Á móti koma til lækkunar 171 millj. kr. áætluð uppsöfnuð áhrif vegna lækkaðra niðurgreiðslna umsókna fyrri ára sem leiðir til þess að aukin fjárþörf á fjárlagalið nemur 62–99 millj. kr.
    Hér að framan hefur ekki verið tekið tillit til mögulegra áhrifa á útgjaldaþörf vegna jöfnunar dreifingu orku í dreifbýli, en orkusparandi tækjabúnaður eins og varmadælur sem er settur upp í dreifbýli lækkar útgjaldaþörf ríkissjóðs við slíkar jöfnunaraðgerðir. Enn fremur er ekki tekið tillit til þess að breytingin mun einnig skila sér í auknum virðisaukaskattstekjum þar sem litið er á að allar kWst sem sparast færast úr 11% virðisaukaskatti fyrir rafhitun í 24% virðisaukaskatt fyrir aðra raforkunotkun en áætlaður orkusparnaður er af Orkustofnun metin 110 GWst á ári.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 5. mgr. 3. gr. laganna segir að með vistvænni orkuöflun sé átt við hagkvæma nýtingu endurnýjanlegra orkulinda til húshitunar. Hugtakið vistvæn orkuöflun kemur þó hvergi fyrir í efnisgreinum laganna heldur er talað um umhverfisvæna orkuöflun. Til að gæta samræmis við önnur ákvæði laganna er lagt til að notast verði við hugtakið umhverfisvæn orkuöflun.
    Eins og fram kemur í 3. kafla er með frumvarpinu lagt til að í stað áætlunar notanda á orkusparnaði miðist styrkir við kostnað á þeim búnaði sem notandi hefur fest kaup á til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar. Því er þörf á að skilgreina styrkhæfan búnað. Í b-lið ákvæðisins er því lagt til að við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein þar sem skilgreint verði hvað átt sé við með búnaði til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar. Er þá átt við allan þann tækjabúnað sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun, þ.m.t. nauðsynlegan fylgibúnað fyrir virkni hans. Undir styrkhæfan búnað falla einkum varmadælur en einnig t.d. sólarrafhlöður, vindmyllur og hitastýringartæki. Þá er einnig styrkhæfur þar til gerður búnaður utan dyra sem þarf að setja upp (tengja) til þess að búnaðurinn geti virkað, t.d. lagnir fyrir jarðvarmadælur. Sá kostnaður og breytingar sem þarf að fara í á hitakerfum húsnæðis innan dyra, t.d. á ofnakerfi, telst hins vegar ekki styrkhæfur. Rétt er að taka fram að ákvæðið tekur aðeins til tækjabúnaðar og nauðsynlegs fylgibúnaðar fyrir virkni hans og því falla einangrunarefni og glugga-, hurða- og þakskipti ekki þar undir.

Um 2. og 3 gr.

    Lagt er til að ákvæði 2. mgr. 4. gr. laganna falli brott. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að greiða niður hluta kostnaðar við hitun húsnæðis sem er skráð sem íbúðarhúsnæði hjá Fasteignaskrá Íslands þótt þar sé ekki föst búseta. Heimildin er til niðurgreiðslu á orkumagni sem svarar til fjórðungs af því orkumagni sem niðurgreitt er vegna þeirra íbúða sem njóta fullra niðurgreiðslna. Þessi heimild hefur ekki verið nýtt undanfarin 10 ár þar sem talið hefur verið að þeir fjármunir sem veittir eru til málaflokksins nýtist best til niðurgreiðslu íbúðarhúsnæðis þar sem er föst búseta.
    Í 2. mgr. 5. gr. er mælt fyrir um umsóknir um niðurgreiðslur skv. 2. mgr. 4. gr. Í samræmi við brottfall 2. mgr. 5. gr. er í 3. gr. lagt til að 2. mgr. 5. gr. falli brott.

Um 4. gr.

    Í 5. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að niðurgreiðslur til notenda sem hljóti styrk vegna umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða aðgerða sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun skuli skerðast í samræmi við þau markmið um orkusparnað sem samið er um milli notanda og Orkustofnunar. Eins og fram er komið er með þessu frumvarpi lagt til að fallið verði frá því fyrirkomulagi að skerða niðurgreiðslur notenda sem hljóta styrk vegna umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða aðgerða sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun. Þar af leiðandi er lagt til að ákvæðið verði fellt brott. Brottfall heimildarinnar til skerðingar á niðurgreiðslu felur einnig í sér, verði frumvarpið að lögum, að notendur sem tekið hafa á sig skerðingu samkvæmt gildandi lögum eiga rétt á óskertum niðurgreiðslum frá og með gildistöku laganna.

Um 5. gr.

    Í 11. gr. laganna er fjallað um skilyrði styrkja vegna stofnunar nýrra hitaveitna, umhverfisvænnar orkuöflunar og bættrar orkunýtingar. Skv. 1. málsl. skal veita styrki til stofnunar nýrra hitaveitna eða til stækkunar eldri veitna. Hér er lagt til að bætt verði við málsliðinn að einnig skuli veita styrki til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun, en þeir styrkir eru ætlaðir íbúðareigendum en ekki hitaveitum, eins og fjallað er um í 5. tölul. 11. gr. laganna.
    Þá er einnig lagt til að 5. tölul. 11. gr. verði breytt þannig að styrkir verði veittir til íbúðareigenda sem fjárfesta í og tengja tækjabúnað sem leiði til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun. Eru styrkirnir þannig miðaðir við tækjabúnaðinn en ekki útreikninga viðkomandi notanda út frá væntum sparnaði eins og er samkvæmt gildandi lögum. Eins og ákvæðið er þurfa notendur að setja upp áætlun um sparnað með nýjum tækjabúnaði sem erfitt getur verið að áætla. Í slíkum útreikningum er margt sem þarf að taka mið af og má til að mynda nefna stærð og hönnun húsnæðisins, ástand einangrunar, svo sem glugga, hurðir og þak, ástand núverandi hitakerfis, áhrif vegna breytinga á hitastigi utan dyra, aðra raforkunotkun, t.d. ef viðkomandi er með alla raforkunotkunina á einum mæli, og fyrirhugaðar framtíðarframkvæmdir. Notendur sem skerða niðurgreiðslur sínar umfram raunverulega notkun þurfa að greiða umframnotkunina fullu verði í stað þess að fá það niðurgreitt án skerðingar. Í núverandi fyrirkomulagi getur það á endanum leitt til þess að notendur tapi á því að fá styrkinn. Með því að tengja styrkveitingu beint við kaup á tækjabúnaði í stað áætlana notenda verður til mun einfaldara kerfi sem felur ekki í sér þá eigin áhættu viðkomandi notanda sem lýst er hér.

Um 6. gr.

    Með 6. gr. er lögð til breyting á 12. gr. laganna um fjárhæð styrkja. Sú breyting sem lögð er til á útreikningi á fjárhæð styrkja er rakin í 3. kafla. Lagt er til að styrkirnir verði að hámarki 1 millj. kr. Samkvæmt athugun Orkustofnunar fer kostnaður slíks tækjabúnaður almennt ekki yfir 2 millj. kr. Jafnframt er lagt til að styrkirnir verði samningsbundnir til 15 ára á viðkomandi húseign, en eftir þann tíma verði aftur hægt að sækja um styrk. Hingað til hefur gildistími styrks verið 20 ár samkvæmt fyrirmælum í reglugerð. Að fenginni reynslu telur Orkustofnun að 15 ára gildistími sé eðlilegri og sanngjarnari en 20 ár þar sem gera megi ráð fyrir að líkur á stórfelldri bilun aukist hratt eftir 15–20 ára líftíma.

Um 7. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að umsóknir um styrki til uppsetningu á varmadælu eða sambærilegum búnaði verði afgreiddar á grundvelli breyttra laga, enda er það almennt hagstæðara fyrir notendur og hið opinbera. Aftur á móti er ekki loku fyrir það skotið að útreikningar notanda á áætluðum orkusparnaði samkvæmt hinu eldra kerfi leiði til hærri styrkfjárhæðar en samkvæmt nýju kerfi. Með ákvæðinu til bráðabirgða er lagt til að notendur sem sett hafi upp búnað í gildistíð eldra kerfis eigi þess kost að fá styrk í samræmi við eldra kerfið. Þar sem frumvarpið felur í sér brotfall skerðingar á niðurgreiðslu er þó sleginn sá varnagli að notandi þarf að leggja fram markmið um orkusparnað sem geta talist raunhæf að mati Orkustofnunar. Þannig er komið í veg fyrir að notandi geti aflað óeðlilega hárrar niðurgreiðslu með því að leggja fram óraunhæf markmið um orkusparnað í þeirri vissu að réttur hans til niðurgreiðslu skerðist ekki á móti.