Ferill 588. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 830  —  588. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996 (sjálfstæði eftirlitsstofnana Alþingis).

Flm.: Jóhann Páll Jóhannsson, Dagbjört Hákonardóttir, Hilda Jana Gísladóttir, Kristrún Frostadóttir, Oddný G. Harðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson,
Jakob Frímann Magnússon, Bergþór Ólason.


1. gr.

    Við 36. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvæði þetta tekur hvorki til Alþingis og stofnana þess né dómstóla.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Hinn 27. janúar 2022 gaf forseti Alþingis út tilkynningu um að hann hefði fallist á beiðni menningar- og viðskiptaráðherra um að þáverandi ríkisendurskoðandi yrði fluttur til nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis og skipaður þar ráðuneytisstjóri á grundvelli 36. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þetta vakti athygli og kom til umræðu á Alþingi, enda gefa athugasemdir við frumvarp það sem varð að lögum nr. 70/1996 til kynna að ákvæðið taki aðeins til ráðherra og veiti þeim heimild til flutnings embættismanns úr einu embætti í annað en nái hvorki til dómara né embættismanna hjá sjálfstæðum eftirlitsstofnunum sem starfa á vegum Alþingis. Umboðsmaður Alþingis vakti athygli á þessu og benti á að ríkisendurskoðandi heyrir lagalega undir Alþingi, er sjálfstæður og engum háður í störfum sínum og stendur utan stjórnkerfis framkvæmdarvaldsins þegar litið er til þrískiptingar ríkisvalds, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar.
    Í íslenskri stjórnskipan fara Alþingi og forseti Íslands með löggjafarvaldið, forseti og önnur stjórnvöld með framkvæmdarvaldið og dómendur með dómsvaldið. Þá gegnir Alþingi veigamiklu eftirlitshlutverki gagnvart framkvæmdarvaldinu og veitir því aðhald, bæði ríkisstjórn og allri stjórnsýslu. Tvær stofnanir á vegum Alþingis, Ríkisendurskoðun og embætti umboðsmanns Alþingis, sinna viðamiklu hlutverki í eftirliti þingsins með framkvæmdarvaldinu. Að mati flutningsmanna skýtur það skökku við að ákvæði um flutning embættismanna á vegum framkvæmdarvaldsins sé túlkað með þeim hætti að það taki til stofnana sem starfa á vegum Alþingis sem liður í eftirlitshlutverki þess.
    Af athugasemdum sem fram koma í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 70/1996 verður, að mati flutningsmanna, ekki ráðið að löggjafinn hafi gert ráð fyrir flutningi embættismanna milli hinna þriggja valdþátta ríkisins. Með slíkri beitingu ákvæðis 36. gr. og þeirri lagatúlkun sem birtist í tilkynningum frá forseta Alþingis og minnisblöðum frá lagaskrifstofu Alþingis hefur verið sett hættulegt fordæmi sem ógnar sjálfstæði eftirlitsstofnana sem starfa á vegum Alþingis. Frumvarp þetta er viðbragð við því. Lagt er til að skotið verði inn nýrri málsgrein í 36. gr. laga nr. 70/1996 sem taki af allan vafa um að ákvæðið nái ekki til dómara eða embættismanna hjá eftirlitsstofnunum sem starfa á vegum Alþingis heldur einvörðungu til embætta og starfa sem heyra undir framkvæmdarvaldið.