Ferill 646. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 924  —  646. mál.




Fyrirspurn


til forsætisráðherra um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022.

Frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur.


     1.      Með hvaða rökum hafnaði ráðherra sjónarmiðum og viðvörunarorðum menningar- og viðskiptaráðherra, sem sú síðarnefnda kom á framfæri í aðdraganda útboðs á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars sl., um að hún væri mótfallin aðferðafræðinni við söluna og hún hefði ekki viljað að bréf yrðu seld til valins hóps fjárfesta? Með hvaða rökum féllst ráðherra á þá aðferð sem fjármála- og efnahagsráðherra lagði til um fyrirkomulag sölunnar?
     2.      Telur ráðherra að menningar- og viðskiptaráðherra kunni að hafa gerst brotleg við siðareglur ráðherra með því að upplýsa ekki um þessi sjónarmið fyrr en eftir að útboð hafði farið fram, en siðareglurnar mæla fyrir um að ráðherra leyni ekki upplýsingum sem varða almannahag nema lög bjóði eða almannahagsmunir krefjist þess?
     3.      Hefur ráðherra skoðun á því hvort efni voru til að fjármála- og efnahagsráðherra hefði átt að víkja sæti við meðferð þessa máls á einhverju stigi þess vegna sjónarmiða um vanhæfi?
     4.      Hvers vegna var við söluna látið hjá líða að fara að skilyrðum 3. gr. laga um sölumeðferð  eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, nr. 155/2012, þar sem kemur fram að þess skuli gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis og að við sölu skuli kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði?


Skriflegt svar óskast.