Ferill 143. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 143  —  143. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um ráðstöfun útvarpsgjalds.


Flm.: Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.


    Alþingi ályktar að fela menningar- og viðskiptaráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram frumvarp þess efnis að lögum um ráðstöfun útvarpsgjalds skuli breytt. Breytingin lúti að því að hverjum og einum greiðanda útvarpsgjalds skuli heimilt að ráðstafa allt að þriðjungi gjaldsins til annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins eins og hann kýs.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi er nú flutt í þriðja sinn en var síðast lögð fram á 152. löggjafarþingi (129. mál) og er nú endurflutt óbreytt.
    Allir þeir sem skattskyldir eru á Íslandi, einstaklingar og lögaðilar, greiða sérstakt gjald til Ríkisútvarpsins ohf. Útvarpsgjaldið, sem lagt er á við álagningu opinberra gjalda ár hvert, er lagt á þá einstaklinga sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga um tekjuskatt og lögaðila sem bera sjálfstæða skattskyldu skv. 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, aðra en dánarbú, þrotabú og þá lögaðila sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 4. gr. sömu laga. Undanþegnir gjaldinu eru þeir sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skulu fá það gjald fellt niður skv. 2. mgr. 10. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Gjaldið nemur fastri fjárhæð sem er ákvörðuð með lögum. Hér er um að ræða nefskatt sem enginn skattskyldur aðili kemst undan að greiða. Skiptir þá engu hvort hann getur notað fjölmiðlaþjónustu Ríkisútvarpsins, hvort hann sættir sig við hana eða hvort hann skilur hana yfirleitt.
    Með tillögu þessari er lagt til að unnið verði að breytingum á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, sem fela í sér breytt fyrirkomulag við innheimtu útvarpsgjalds. Lagt er til að landsmenn hafi valfrelsi um ráðstöfun hluta þessa gjalds. Þannig geti þeir með framlagi sínu tryggt tiltekinn fjölbreytileika í rekstri fjölmiðla landsins. Með því að sitja eitt að þessum gjaldstofni hefur Ríkisútvarpið haft yfirburðastöðu gagnvart öllum öðrum fjölmiðlum, og gildir það um fréttaflutning sem dagskrárgerð. Slík einokunarstaða, sérstaklega ríkismiðils, er óeðlileg nú á tímum og vinnur beinlínis gegn hugmyndum um sjálfstæði og fjölbreytni hugsunar og skoðana.
    Í 1. gr. laga um Ríkisútvarpið er tiltekið að markmið þeirra sé að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í samfélaginu með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er þannig falin framkvæmd þessarar stefnu stjórnvalda. Það sé þjóðarmiðill og skuli rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Þá skuli það leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.
    Það er skoðun flutningsmanna þessarar tillögu að til þess að Ríkisútvarpið geti rækt þessa skyldu þurfi að vera rými fyrir aðra öfluga fjölmiðla á markaðinum. Hér er átt við fjölmiðla sem geti veitt Ríkisútvarpinu aðhald og um leið aukið fjölbreytileika þjóðfélagsumræðunnar og eflt frekar skilning almennings á henni. Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/65/EB kemur fram að fjölmiðlalæsi snúist um að gera neytendum kleift að nýta sér fjölmiðla á öruggan og skilvirkan hátt (sbr. 37. lið aðfaraorða tilskipunarinnar). Áhrif fjölmiðla á samfélagið eru svo viðamikil að fjölmiðlalæsi neytenda er ein af grundvallarforsendum þess að þeir geti talist fullgildir og virkir borgarar í lýðræðisríki. Að veita einum ríkisreknum miðli lungann úr fjölmiðlastyrkjum hins opinbera vinnur gegn þessum markmiðum.
    Undanfarið hafa birst margvíslegar upplýsingar um að stjórnendur Ríkisútvarpsins telji sig hafa sjálfdæmi um það hvernig staðið er að rekstri þess. Bæði Ríkisendurskoðun og fjölmiðlanefnd hafa ítrekað gert alvarlegar athugasemdir við starfsemi Ríkisútvarpsins og framkvæmd á ýmsum lögbundnum skilyrðum sem gilda um rekstur stofnunarinnar. Hvað lögbundnar skyldur hennar varðar má jafnframt benda á að Ríkisútvarpið gegnir nú á dögum hvergi nærri sama öryggishlutverki og fyrr á tíð.
    Nefskattur á borð við útvarpsgjald þekkist nú þegar í lögum um sóknargjöld. Þar er kveðið á um að þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög samkvæmt lögum um þau skuli eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti sem lagður er á samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Er það val skattgreiðenda til hvaða safnaðar gjaldið rennur. Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að útfæra útvarpsgjaldið á svipaðan hátt, t.d. þannig að skattskyldur aðili tilgreini á skattframtali hverju sinni hvert hann vill beina hluta útvarpsgjaldsins.
    Um árabil hefur verið rætt um að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og renna þannig styrkari stoðum undir frjálsa fjölmiðla. Augljóslega hefur slík útfærsla ekki hlotið brautargengi. Telja því flutningsmenn tillögunnar rétt að fara þessa leið með farsæld frjálsrar fjölmiðlunar fyrir augum og tryggja þannig heilbrigðari og fjölbreyttari þjóðmálaumræðu í landinu.