Ferill 138. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 138  —  138. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (skattafsláttur sjálfboðaliða).

Flm.: Gísli Rafn Ólafsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Andrés Ingi Jónsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


I. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við A-lið 30. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Frá tekjum einstaklinga sem taka þátt í sjálfboðastarfi á vegum lögaðila sem skráður er í almannaheillaskrá hjá Skattinum á grundvelli c-liðar 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. má draga 675 kr. fyrir hverja klukkustund sem einstaklingur ver í sjálfboðastarfi til almannaheilla. Til sjálfboðastarfs telst þjálfun, þátttaka í æfingum og námskeiðum og útköll á vegum lögaðila sem skráður er í almannaheillaskrá hjá Skattinum á grundvelli c-liðar 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. Skattafsláttur sjálfboðaliða er að hámarki 500.000 kr. ár hvert og er ekki millifæranlegur á milli hjóna eða sambúðarfólks.
    Fjárhæð skattafsláttar fyrir hverja klukkustund og árlegt hámark skal uppfærast árlega með tilliti til breytinga á vísitölu neysluverðs.
    Lögaðili sem skráður er í almannaheillaskrá hjá Skattinum á grundvelli c-liðar 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. skal við lok hvers árs sem hann er þar skráður veita Skattinum, á því formi sem Skatturinn ákveður, upplýsingar um þann tímafjölda sem hver einstaklingur hefur það ár varið í sjálfboðastarf á hans vegum.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð á grundvelli ákvæðis þessa.

II. KAFLI

Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

2. gr.

    Á eftir 8. mgr. 42. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Endurgreiða skal einstaklingum virðisaukaskatt af kaupum á björgunarbúnaði sem ætlaður er fyrir starfsemi björgunarsveita. Endurgreiðslan skal gerð á grundvelli framlagðra reikninga. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara endurgreiðslna.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023.

Greinargerð.

    Björgunarsveitir landsins vinna þróttmikið starf í þágu þjóðar. Fagmennska íslenskra björgunarsveita á sér fáar hliðstæður og hefur vakið eftirtekt á heimsvísu. Björgunarsveitirnar búa yfir gríðarlegri sérþekkingu sem þær hafa aflað víða. Það er því mikilvægt að hlúa að því góða starfi sem hefur byggst upp hérlendis á undanförnum áratugum. Eins hefur hlutverk mannúðar- og líknarstarfsemi aukist jafnt og þétt undanfarin ár.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að þeir einstaklingar sem sinna sjálfboðastarfi til almannaheilla skuli eiga rétt á tekjuskattsafslætti sjálfboðaliða. Hugmyndin á sér rætur að rekja til sambærilegs skattafsláttar sem tíðkast í Bandaríkjunum.
    Undanfarin ár hefur reynst erfiðara fyrir björgunarsveitir og önnur samtök sem vinna í þágu almannheilla að afla nýrra sjálfboðaliða sem og að halda sjálfboðaliðum virkum. Kostnaður sjálfboðaliða hefur sífellt hækkað, svo sem vegna búnaðar, þátttöku á æfingum o.fl. Frumvarpi þessu er ætlað að koma til móts við þennan kostnað sjálfboðaliða og þar með hvetja fólk til þess að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi til almannaheilla. Þá má einnig nefna að álag á björgunarsveitir hefur aukist töluvert undanfarin ár vegna stóraukins fjölda ferðamanna.
    Þar sem störf sjálfboðaliða eru alfarið unnin í sjálfboðavinnu þykir réttara að útfæra endurgreiðslu til þeirra í formi skattafsláttar frekar en í formi beinna launagreiðslna. Samtök sem starfa í þágu almannaheilla halda vel utan um þátttöku á æfingum og aðgerðum í gegnum svokallaðan aðgerðagrunn. Því væri unnt með einföldum hætti að afla tímaskýrslna þegar skattárið er gert upp.