Ferill 835. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1852  —  835. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um langvinn áhrif COVID-19.


     1.      Hvernig er haldið utan um tölfræði um þau sem hafa sótt sér heilbrigðisþjónustu vegna langvinnra eftirkasta sýkingar af völdum COVID-19? Hversu mörg er talið að glími við langvinn áhrif COVID-19? Óskað er að svarið sé greint eftir kyni og tegund heilbrigðisþjónustu.
    Haldið er utan um tölfræði þeirra sem hafa sótt sér heilbrigðisþjónustu vegna langvinnra eftirkasta sýkingar af völdum COVID-19 annars vegar í Vistunarskrá heilbrigðisstofnana og hins vegar í Samskiptaskrá heilsugæslustöðva. Þá hefur embætti landlæknis reglulega kallað eftir upplýsingum frá endurhæfingarstofnununum Reykjalundi og Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands (HNLFÍ). Slík innköllun var nýlega gerð, en upplýsingar frá Reykjalundi bárust síðast þann 20. mars 2023 og frá HNLFÍ þann 15. mars 2023.
    Töluverð óvissa er um fjölda þeirra sem glíma við þessi langvinnu einkenni. Almennt er talið að um 10–30% þeirra sem greinast með COVID-19 glími við einhverjar langvinnar afleiðingar eftir sýkinguna. Langvinn áhrif COVID-19 eru skilgreind sem einkenni sem hafa varað lengur en þrjá mánuði og komu fram við sýkinguna eða eftir sýkinguna og ekki er hægt að útskýra með öðrum hætti.
    Í neðangreindum upplýsingum eru einstaklingar taldir einkvæmt fyrir hvert ár. Hins vegar getur sami einstaklingur nýtt sér þjónustu heilsugæslu fleiri ár og telst viðkomandi þá einu sinni á hverju ári. Sömuleiðis er hver einstaklingur talinn einu sinni í samantekt fyrir tímabilin og þar af leiðandi stemmir samtalan fyrir árin ekki alltaf, vegna þess að hver einstaklingur er talinn einu sinni yfir tímabilið. Gögnin eru ekki samtengd, þar sem til þess þarf sérstakt leyfi Persónuverndar, og því getur sami einstaklingurinn verið talinn hjá heilsugæslu, með sjúkrahúslegu og á ferildeildum. Einnig er bent á að ICD-10 kóðarnir fyrir skráningu á langvinnum eftirköstum vegna COVID-19, U09.9 og U10.9, voru teknir í notkun í október 2020 og því viðbúið að skráning með þessum kóðum hafi ekki orðið almenn fyrr en að einhverjum tíma liðnum. ICD-10 kóðinn fyrir þreytuheilkenni eftir veirusýkingu, G93.3 er einnig notaður við skráningu á langvinnum eftirköstum vegna COVID-19. Eftirfarandi talning miðar við stöðuna 22. mars 2023.
    Fjöldi einstaklinga sem áttu viðtal við lækni á heilsugæslu á árunum 2018–2023, eftir kyni og fjöldi einstaklinga á tímabilinu:

Kyn G93.3 U09.9 U10.9 Einkvæm talning
2018–2023
Karl 131 927 2 1.040
Kona 288 1724 5 1.982
Kynsegin 1 4 0 5
Einstaklingar 417 2.652 3.017

    Fjöldi einstaklinga sem áttu komur á ferildeildir (göngudeildir) heilbrigðisstofnana á árunum 2018–2022, einkvæm talning eftir kynjum og fjöldi einstaklinga á tímabilinu:

Kyn G93.3 U09.9 U10.9
Karl 12 69 2
Kona 34 77 1
Einstaklingar 46 149 3

    Þann 20. mars 2023 höfðu alls borist 255 beiðnir til Reykjalundar þar sem langvinn einkenni eftir COVID-19 voru aðalástæða meðferðarbeiðnar. Þar af hafa 144 lokið meðferð. Á sama tíma voru 20 í meðferð og 26 á leið í meðferð.
    Þá hafa um 100 einstaklingar leitað til HNLFÍ vegna endurhæfingar eftir COVID-19- sýkingu.

     2.      Hvaða meðferðar- og endurhæfingarúrræði eru í boði fyrir einstaklinga sem glíma við langvinn áhrif COVID-19?
    Heilsugæslan er yfirleitt fyrsti viðkomustaður einstaklinga innan heilbrigðiskerfisins. Heilbrigðisstarfsfólk þar getur veitt meðferð, ráðgjöf og tilvísun ef þörf er á til m.a. sérgreinalækna og/eða endurhæfingarstofnana á borð við Reykjalund, HNLFÍ eða Kristnes. Gerðu Sjúkratryggingar Íslands sérstakan samning við bæði Reykjalund og HNLFÍ í maí 2021 um þjónustu við þá sem þurftu á endurhæfingu að halda í kjölfar veikinda vegna COVID-19-sýkingar.
    Þar sem einkenni þeirra sem glíma við langvinn áhrif COVID-19 eru fjölbreytileg er ekki hægt að segja til um hvaða meðferð eða endurhæfing hentar best fyrir hópinn í heild. Til viðbótar hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gefið út ráðleggingar varðandi þennan hóp þar sem mælt er með að ákvarða og skipuleggja endurhæfingu út frá einkennum hvers og eins, frekar en þeirri staðreynd að um langvinn áhrif COVID-19 sé að ræða.

     3.      Hvaða rannsóknum hefur ráðuneytið komið að þar sem skoðað er umfang og eðli langvinnra áhrifa COVID-19-sýkingar hér á landi? Hvernig hafa niðurstöður slíkra rannsókna verið nýttar til úrbóta á þjónustu við einstaklinga?
    Ráðuneytið hefur ekki framkvæmt rannsóknir á áhrifum COVID-19-sýkingar hér á landi, en bendir á að aðrir aðilar hafa framkvæmt rannsóknir tengdar langvinnum áhrifum sýkingarinnar, þar á meðal Íslensk erfðagreining, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu (ÞÍH), Landspítali og Reykjalundur.

     4.      Hvaða fræðsla hefur átt sér stað innan heilbrigðiskerfisins og gagnvart almenningi um langvinn áhrif COVID-19-sýkingar?
    ÞÍH hefur í samvinnu við Landspítala og endurhæfingarstofnanirnar Reykjalund, HNLFÍ og Kristnes gefið út leiðbeiningar um skipulag þjónustu við sjúklinga með langdregin einkenni eftir COVID-19-sýkingu. Einnig hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gefið út ítarlegar leiðbeiningar varðandi meðferð einstaklinga sem hafa fengið COVID-19. Ekki hefur verið sérstök fræðsla til almennings vegna langvinnra áhrifa sýkingarinnar.