Ferill 27. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 27  —  27. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993, með síðari breytingum (dreifing ösku).

Flm.: Bryndís Haraldsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Halla Signý Kristjánsdóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Búa ber um öskuna í þar til gerðum duftkerum úr forgengilegu efni. Heimilt er að grafa kerin niður í grafarstæði eða leggja þau í leiði ef vandamenn, er greinir í 1. mgr. 47. gr., óska þess. Sé ákveðið að grafa duftker skal dýpt duftkersgrafar vera um 1 metri.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                  Virða ber ósk hins látna um hvar og hvernig ösku er dreift eða hún varðveitt sé ósk hins látna sú að askan sé ekki jarðsett. Um nánari reglur um dreifingu ösku látins manns fer samkvæmt reglugerð settri með heimild í 1. mgr. 50. gr.
     c.      5. og 6. mgr. falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er nú flutt í fjórða sinn. Það var síðast lagt fram á 152. löggjafarþingi (178. mál) en hlaut ekki afgreiðslu.
    Með lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993, er óhætt að segja að um töluverða opinbera íhlutun sé að ræða þegar kemur að jarðneskum leifum fólks. Er það álit flutningsmanna að sú opinbera íhlutun sé ónauðsynleg og engin ástæða til annars en að einstaklingar hafi meira frelsi um hvernig og hvort jarðneskar leifar þeirra séu varðveittar, grafnar eða þeim dreift. Með frumvarpi þessu er lagt til að dreifing jarðneskra leifa verði gefin frjáls. Áfram þurfi að búa um öskuna í þar til gerðum duftkerum eftir líkbrennslu. Aftur á móti verður gefið frjálst hvað gert verður við kerin. Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að ekki verði kveðið á um skyldu til að grafa kerin niður í grafarstæði eða leggja þau í leiði vandamanna heldur verði um heimild að ræða. Sé hins vegar ákveðið að grafa ker í kirkjugarði skal fylgja ákvæði laganna.
    Gerðar hafa verið nokkrar breytingar á umræddum lögum en þær hafa fyrst og fremst snúið að verkaskiptingu milli sýslumanna og lögregluembætta og breytingum á heiti ráðuneytis viðkomandi málaflokks. Töluverðar breytingar hafa orðið á málaflokknum á síðustu árum hvað við kemur óskum einstaklinga um hvað beri að gera við jarðneskar leifar. Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn um bálfarir og kirkjugarða (374. mál á 149. löggjafarþingi) kemur fram að árið 2017 voru bálfarir um 35% allra útfara. Einnig hefur færst í vöxt að óskað sé eftir því að dreifa ösku utan kirkjugarða. Skv. 7. gr. laganna eru ströng skilyrði fyrir dreifingu ösku. Í 4. mgr. 7. gr. laganna kemur m.a. fram að sýslumaður getur heimilað að ösku verði dreift yfir öræfi eða sjó, enda liggi fyrir ótvíræð ósk hins látna þar að lútandi. Óheimilt er að dreifa ösku á fleiri en einn stað, sem og að merkja dreifingarstað. Með frumvarpinu er lagt til að felld verði brott umrædd skilyrði fyrir dreifingu ösku enda verði hún gerð frjáls. Með frumvarpinu er þó lagt til að áfram verði kveðið á um að duftker skuli vera úr forgengilegu efni og að kveðið verði á um nánari reglur um dreifingu ösku látins manns í reglugerð, þar á meðal um upplýsingar til legstaðaskrár um staðsetningu dreifingar ösku.
    Víðast hvar í nálægum löndum er dreifing ösku ekki takmörkuð eins mikið og hér, svo sem er varðar staðsetningu eða auðkenningu slíkra dreifingarstaða. Til að mynda þekkist á Norðurlöndunum að sérstakir skógar séu fyrir dreifingu líkamsleifa og þar megi setja upp minningarskjöld sem ættingjar geta svo vitjað og viðhaldið. Á Norðurlöndunum eru þó ákveðin skilyrði fyrir dreifingu ösku en þau eru almennt rýmri en hér tíðkast. Alla jafna þarf að tilkynna og/eða upplýsa um dreifingarstað ösku sem getur verið eftir atvikum háð leyfi stjórnvalda eða eiganda/umráðamanns lands.
          Danmörk: Ösku má dreifa yfir opið haf. Biskup getur heimilað að farið sé með öskuna á annan hátt.
          Finnland: Fara skal með ösku látins manns af virðingu og þannig að minning hans sé heiðruð. Dreifa má ösku t.d. yfir vatn eða land. Forstöðumaður bálstofu má því aðeins láta öskuna af hendi að hún sé greftruð eða henni komið fyrir á varanlegan stað. Þá þarf innan árs að grafa öskuna eða koma henni fyrir á varanlegum stað. Afla þarf þó leyfis hjá eiganda eða umráðamanni lands þar sem öskunni er komið fyrir.
          Noregur: Sýslumaður veitir leyfi fyrir dreifingu ösku.
          Svíþjóð: Ösku má dreifa annars staðar en í kirkjugarði að fengnu leyfi hjá lénsstjórn (länsstyrelser). Slíkt leyfi er aðeins veitt ef sá staður, þar sem öskunni skal dreift, er talinn hentugur og ef það er augsýnilegt að askan verði meðhöndluð af virðingu.