Ferill 278. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 281  —  278. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og lögum um dómstóla (ýmsar breytingar).

Frá dómsmálaráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

1. gr.

    Í stað orðsins „sakborningur“ í 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: aðili.

2. gr.

    1. málsl. 3. mgr. 147. gr. laganna orðast svo: Sá sem kærir úrskurð eða dómsathöfn skal senda Landsrétti, innan tveggja vikna frá því að kæra hans barst héraðsdómi, þau gögn málsins sem hann telur sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefnið og í þeim fjölda eintaka sem Landsréttur ákveður.

3. gr.

    Á eftir 1. málsl. 148. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þó má lengja frest sem samkvæmt því rynni út á tímabilunum frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með öðrum degi páska sem svarar þeim dagafjölda.

4. gr.

    2. málsl. 4. mgr. 153. gr. laganna orðast svo: Ber þá að fá áfrýjunarstefnu gefna út á ný innan fjögurra vikna frá því að málið átti að þingfesta eða frá niðurfellingu þess eða frávísun og á hún ekki við um gagnáfrýjunarstefnu nema áfrýjunarstefna í aðalsök hafi verið gefin út að nýju eða að gagnsök hafi verið vísað frá Landsrétti.

5. gr.

    Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 158. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þó má lengja frest sem samkvæmt því rynni út á tímabilunum frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með öðrum degi páska sem svarar þeim dagafjölda.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 167. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 3. Unnt er að sækja um leyfi til að kæra til Hæstaréttar úrskurð Landsréttar um önnur atriði en í 1. mgr. greinir. Við mat á því hvort Hæstiréttur eigi að samþykkja að taka slíkt kæruefni til meðferðar skal líta til þess hvort kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, hafi fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins. Þá getur Hæstiréttur tekið kæruefni til meðferðar ef ástæða er til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi eða efni.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „1. og 2. mgr.“ í 3. mgr., sem verður 4. mgr., kemur: 1., 2. og 3. mgr.

7. gr.

    Í stað 1. málsl. 2. mgr. 171. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sá sem kærir dómsathöfn Landsréttar, eftir atvikum með kæruleyfi, skal senda Hæstarétti þau gögn málsins sem hann telur sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefnið og í þeim fjölda eintaka sem Hæstiréttur ákveður. Gögnin skal senda innan viku frá því að Landsréttur sendi Hæstarétti kæru eða ósk um kæruleyfi.

8. gr.

    Á eftir 1. málsl. 172. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þó má lengja frest sem samkvæmt því rynni út á tímabilunum frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með öðrum degi páska sem svarar þeim dagafjölda.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 175. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Slíkt leyfi skal ekki veitt nema niðurstaða málsins geti haft fordæmisgildi, haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna eða haft verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti.
     b.      Við 3. málsl. 1. mgr. bætist: eða enn er deilt um staðreyndir sem sérkunnáttu þarf í dómi til að leysa úr.
     c.      Í stað orðanna „Landsréttur ákveður þá“ í 6. málsl. 2. mgr. kemur: Landsréttur gefur þá út áfrýjunarstefnu og ákveður.

10. gr.

    5. málsl. 1. mgr. 180. gr. laganna orðast svo: Ber þá að fá áfrýjunarstefnu gefna út á ný innan fjögurra vikna frá því að málið átti að þingfesta eða frá niðurfellingu þess eða frávísun og á hún ekki við um gagnáfrýjunarstefnu nema áfrýjunarstefna í aðalsök hafi verið gefin út að nýju eða að gagnsök hafi verið vísað frá Hæstarétti.

11. gr.

    Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 182. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þó má lengja frest sem samkvæmt því rynni út á tímabilunum frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með öðrum degi páska sem svarar þeim dagafjölda.

II. KAFLI

Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

12. gr.

    Við 1. mgr. 98. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef óskað er eftir framlengingu gæsluvarðhalds og slík krafa er tekin fyrir af dómara áður en það rennur út fellur það ekki niður meðan á slíkum fresti stendur.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 104. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þangað skal einungis kveðja þann sem kröfuna gerir ef nauðsyn ber til.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                 Ef sá sem kröfu gerir mætir ekki í þinghaldi skal fella málið niður, sbr. þó lokamálslið 1. mgr., en úrskurða má sakborningi eða öðrum sem sótt hefur þinghaldið ómaksbætur úr hendi hans ef sá sem kröfuna gerir og sakborningur eða sá sem kröfu er beint að voru kvaddir á dómþing.

14. gr.

    Á eftir orðunum „komist að samkomulagi“ í b-lið 3. mgr. 146. gr. laganna kemur: að undangenginni sáttamiðlun hjá lögreglu.

15. gr.

    Við 3. mgr. 181. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í máli sem lýtur að aðgerðum skv. IX.–XIV. kafla má láta nægja að taka orðrétt upp í úrskurð lýsingu á atvikum máls og rökstuðning aðila.

16. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 213. gr. laganna orðast svo: Gögnin sendir Landsréttur, ásamt athugasemdum ef Landsréttur svo kýs, í þeim fjölda eintaka sem Hæstiréttur mælir fyrir um.

III. KAFLI

Breyting á lögum um dómstóla, nr. 50/2016.

17. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna orðast svo: Varadómari skal fullnægja skilyrðum til að skipa megi hann í embætti hæstaréttardómara, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr.

18. gr.

    3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laganna orðast svo: Settur dómari skal þá fullnægja skilyrðum til að skipa megi hann í embætti hæstaréttardómara, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr.

19. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laganna orðast svo: Varadómari skal fullnægja skilyrðum til að skipa megi hann í embætti landsréttardómara, sbr. 21. gr.

20. gr.

    3. málsl. 2. mgr. 26. gr. laganna orðast svo: Settur dómari skal þá fullnægja skilyrðum til að skipa megi hann í embætti landsréttardómara, sbr. 21. gr.

21. gr.

    7. tölul. 2. mgr. 29. gr. laganna orðast svo: Hefur í minnst þrjú ár verið alþingismaður eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi. Leggja má saman starfstíma þessara greina.

22. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 35. gr. laganna orðast svo: Ekki verður sett í embætti héraðsdómara á leyfistíma nema brýn nauðsyn krefji, svo sem vegna forfalla fleiri en eins dómara, og dómstólasýslan mæli með því.

23. gr.

    Á eftir 7. mgr. 54. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ef tilskilinn fjöldi dómenda úr röðum embættisdómara getur ekki tekið þátt í meðferð máls vegna vanhæfis eða annarra forfalla getur ráðherra, að tillögu hlutaðeigandi tilnefningaraðila, sett dómanda til að taka sæti í málinu. Geti tilskilinn fjöldi dómenda sem skipaður er skv. 4. mgr. ekki tekið þátt í meðferð máls vegna vanhæfis eða annarra forfalla setur ráðherra að tillögu forseta Endurupptökudóms dómanda til að taka sæti í málinu og skal hann fullnægja skilyrðum skv. 4. mgr. um skipun í dóminn.

24. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi, sbr. þó 2. og 3. mgr.
    Ákvæði 4. og 9. gr. gilda ekki um dóma sem gengið hafa í héraði fyrir gildistöku laga þessara.
    Ákvæði 6. og 10. gr. gilda ekki um dóma eða úrskurði sem gengið hafa í Landsrétti fyrir gildistöku laga þessara.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu og af réttarfarsnefnd. Frumvarpið var lagt fram á 152. löggjafarþingi en ekki mælt fyrir því. Er það nú lagt fram að nýju óbreytt að frátöldum breytingum á 6. gr. sem nánari grein er gerð fyrir í kafla 5 um samráð.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og lögum um dómstóla, nr. 50/2016. Mikilvægustu breytingarnar sem lagðar eru til með frumvarpinu varða heimild til að sækja um kæruleyfi til Hæstaréttar Íslands í auknum mæli sem og rýmri skilyrði fyrir því að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar. Aðrar breytingartillögur miða ýmist að því að skýra eða einfalda gildandi lagaákvæði eða færa þau til betri vegar í ljósi fenginnar reynslu.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með frumvarpinu eru lagðar til misumfangsmiklar en þó aðkallandi breytingar á gildandi réttarfarslöggjöf. Á þeim tæplega fimm árum sem liðin er frá því að þriggja þrepa dómskerfi var komið á fót hér á landi og Landsréttur tók til starfa hafa dómsmálaráðuneytinu og réttarfarsnefnd borist ábendingar um ýmis atriði sem reynslan hefur leitt í ljós að betur megi fara í hinu nýja regluverki um málsmeðferð fyrir þessum dómstólum. Einnig hafa borist ábendingar um önnur atriði sem ekki tengjast nýlegum breytingum á dómstólum og réttarfari. Ekki er um að ræða atriði sem hafa hamlað málsmeðferð fyrir þessum dómstólum heldur frekar þætti í málsmeðferðinni sem þarfnast frekari útfærslu eða samræmingar milli dómstiga.
    Starfsemi dómstóla og meðferð mála sem rekin eru fyrir þeim er að stærstum hluta fest í lög og breytingar á því verkferli sem dómsmál eru unnin eftir, þótt smávægilegar séu, verða því að jafnaði ekki gerðar nema með því að breyta lögum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í þessum kafla verður vikið að veigamestu atriðunum sem frumvarpið felur í sér en ekki er um tæmandi talningu að ræða. Jafnframt er vikið að sjónarmiðum sem birtust í umsögnum um frumvarpið að því marki sem rétt þykir samhengisins vegna. Nánari grein er gerð fyrir breytingatillögum í skýringum við einstakar greinar frumvarpsins og umsögnum í kafla 5.

3.1. Eintakafjöldi gagna sem leggja þarf fram við kæru.
    Samkvæmt lögum um meðferð einkamála ber þeim sem kærir úrskurð eða dómsathöfn héraðsdóms til Landsréttar að senda Landsrétti í fjórriti þau gögn málsins sem hann telur sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefnið. Á samsvarandi hátt er nú kveðið á um í lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála að sá sem kærir, ef við á með kæruleyfi, dómsathöfn Landsréttar til Hæstaréttar skuli senda Hæstarétti sömu gögn í sex eintökum. Lagt er til með frumvarpinu að Landsrétti annars vegar og Hæstarétti hins vegar verði látið eftir að ákveða með reglum þann fjölda eintaka gagna málsins sem leggja þarf fram í kærumálum í stað þess að binda það í lög.

3.2. Frestur til greinargerðaskila á sumarleyfistíma og um stórhátíðir.
    Með frumvarpinu er lagt til að Landsrétti og Hæstarétti verði heimilt að lengja fresti varnaraðila í kærumálum til að skila skriflegri greinargerð og málsgögnum á tímabilunum frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með annars dags páska. Þá er einnig lagt til að Landsrétti og Hæstarétti verði heimilt að lengja fresti stefnda við áfrýjun til að skila greinargerð og málsgögnum frá og með 15. júlí til og með 14. ágúst, frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með öðrum degi páska. Framangreindar breytingatillögur taka eingöngu til laga um meðferð einkamála. Í umsögnum komu fram sjónarmið um að heimildir til að lengja framangreinda fresti mættu jafnvel vera enn rýmri að því leyti að þær stæðu einnig til þess að lengja fresti til greinargerðarskila í kærumálum í kringum lögbundna frídaga og til þess að lengja fresti í áfrýjuðum málum sem sæta lögbundinni flýtimeðferð. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að um er að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu að málsmeðferð skuli vera hröð og markviss. Í því tilliti þykir rétt að stíga varlega til jarðar og ganga ekki lengra en nauðsynlegt þykir við frestveitingar. Til þess er að líta að þeir lögbundnu frídagar sem ekki falla undir þær heimildir sem hér eru lagðar til eru stakir dagar sem ekki ber upp á stórhátíðir. Þá þykir að sama skapi varhugavert vegna þeirra hagsmuna sem um ræðir í málum sem sæta flýtimeðferð samkvæmt lögum að mæla fyrir um heimild til lengdra fresta til greinargerðarskila með þess háttar undantekningarreglu sem hér um ræðir.

3.3. Útgáfa gagnáfrýjunarstefnu í einkamáli.
    Lagt er til að heimild gagnáfrýjanda í áfrýjuðu einkamáli, bæði fyrir Landsrétti og Hæstarétti, til að fá gagnáfrýjunarstefnu gefna út að nýju sé bundin við það að áfrýjunarstefna í aðalsök hafi verið gefin út að nýju eða að gagnsök hafi verið vísað frá dómi. Með breytingunni er einkum að því stefnt að girða fyrir að unnt sé að tefja meðferð máls með því að þingfesta ekki gagnáfrýjunarstefnu, þó þannig að gætt verði að því að svo megi eftir sem áður gera ef áfrýjunarstefna í aðalsök hefur verið gefin út að nýju, sem og þegar gagnsök hefur verið vísað frá dómi. Réttmætt þykir að málsaðilar hafi sama tækifæri til að koma sínum málatilbúnaði að þegar áfrýjunarstefna í aðalsök er gefin út að nýju. Þá þykir að sama skapi rétt að heimila að gagnáfrýjunarstefna verði gefin að nýju innan fjögurra vikna þegar gagnsök hefur verið vísað frá dómi, svo sem almennt gildir, því að ellegar hefði frávísun þess þáttar máls í reynd sömu réttaráhrif og ef málatilbúnaði gagnáfrýjanda hefði, að þessu leyti, verið hafnað með efnisdómi.

3.4. Rýmkuð heimild til að sækja um kæruleyfi til Hæstaréttar í einkamálum.
    Samkvæmt lögum um meðferð einkamála sæta tiltekin atriði sem kveðið er á um í 1. mgr. 167. gr. laganna kæru til Hæstaréttar. Þá er heimilt skv. 2. mgr. 167. gr. að sækja um leyfi til að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar þegar svo er mælt fyrir í öðrum lögum. Lagt er til að ákvæðið verðið rýmkað þannig að unnt verði að sækja um leyfi til að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar um réttarfarsatriði sem fjallað er um í lögum um meðferð einkamála.
    Við mat á því hvort Hæstiréttur samþykki að taka kæruefni til meðferðar skal líta til þess hvort það varði mikilverða almannahagsmuni, hafi fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð viðkomandi máls. Þá geti Hæstiréttur tekið kæruefni til meðferðar ef ástæða er til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi eða efni. Fram komu í umsögnum sjónarmið um að hætta kunni að vera á að dómsmál taki of langan tíma og að sótt yrði um kæruleyfi til að tefja rekstur þeirra. Einnig að kostnaður af rekstri dómsmála kunni að aukast ef heimild til að sækja um kæruleyfi til Hæstaréttar í einkamálum yrði rýmkuð. Í því sambandi er vert að hafa í huga að eftir sem áður mun Hæstiréttur búa yfir því úrræði samkvæmt því ákvæði sem nú er að finna í 3. mgr. 167. gr. laganna, en verður 4. mgr. 167. gr. þeirra ef frumvarp þetta nær fram að ganga, að synja um að taka kæruefni til meðferðar á hvaða stigi máls sem er ef rétturinn telur kæru tilefnislausa eða augljóslega setta fram í þeim tilgangi að tefja framgang máls. Með kæruefni í þessu tilliti er, líkt og almennt er viðtekið, hvort tveggja átt við sakarefni sem unnt er að kæra til réttarins með eða án leyfis Hæstaréttar. Þá er vert að árétta að um er að tefla heimild til að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði til réttarins og slíkri ósk yrði því að sama skapi hafnað ef efnisleg skilyrði laganna til að veita slíkt leyfi þættu ekki vera fyrir hendi. Að sama skapi er þess að geta að með 7. gr. þessa frumvarps er að því stefnt að fela Hæstarétti ákvörðunarvald um fjölda eintaka málsgagna í kærumálum. Það ákvæði kann að nýtast til að bregðast skjótt við breyttri þörf eintakafjölda málsgagna sem nauðsynlegt er að lögð yrðu fyrir réttinn þegar sótt er um leyfi til að kæra þangað úrskurði Landsréttar. Ætla verður að framangreindar heimildir Hæstaréttar geti vegið á móti möguleikanum á því að annar málsaðila kunni að telja sig hafa hag af töfum máls og einnig á móti auknum kostnaði, án þess þó að farið yrði á mis við það réttarfarslega hagræði að fá fordæmisgefandi niðurstöðu Hæstaréttar í þeim málum sem unnt yrði að æskja leyfis til að kæra þangað.

3.5. Rýmkuð heimild til að óska eftir leyfi til að áfrýja héraðsdómi í einkamáli beint til Hæstaréttar.
    Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að óska eftir leyfi til að áfrýja héraðsdómi í einkamáli beint til Hæstaréttar. Slíkt leyfi skal þó ekki veitt nema þörf sé á að fá skjótt endanlega niðurstöðu Hæstaréttar og niðurstaða málsins geti verið fordæmisgefandi, haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna eða haft verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá skal ekki veita leyfi ef málsaðili telur þörf á að leiða vitni í málinu eða enn er uppi ágreiningur um sönnunargildi munnlegs framburðar. Með frumvarpi þessu er lagt til að skilyrðið um þörf fyrir skjóta niðurstöðu Hæstaréttar verði fellt brott og heimildin þannig rýmkuð. Þá er lagt til að það viðbótarskilyrði verði sett fyrir veitingu slíks leyfis að ekki sé enn deilt um staðreyndir sem sérkunnáttu þarf í dómi til að leysa úr.

3.6. Niðurfelling saksóknar að undangenginni sáttamiðlun hjá lögreglu.
    Lagt er til að kveðið verði á um úrræðið sáttamiðlun í lögum um meðferð sakamála auk þess sem það verði skilyrði fyrir niðurfellingu máls á grundvelli samkomulags að sáttamiðlun hjá lögreglu hafi áður farið fram. Í júní 2020 skilaði starfshópur, sem þáverandi dómsmálaráðherra skipaði, tillögum til aðgerða sem stytta eiga boðunarlista til afplánunar refsinga. Ein af þeim aðgerðum sem starfshópurinn lagði til var sú að efla heimildir ákærenda til að ljúka málum með sáttamiðlum með það að markmiði að fjölga málum sem lýkur án ákæru og draga þannig bæði úr álagi og kostnaði við meðferð mála. Í kjölfarið var sett á fót sérstök nefnd um sáttamiðlum sem falið var að koma með tillögur að lagabreytingum og eftir atvikum breytingum á fyrirmælum ríkissaksóknara og öðrum reglum sem eiga við um sáttamiðlun í sakamálum. Byggist 14. gr. frumvarpsins á tillögum þessarar nefndar.
    Sáttamiðlun er sú aðferð sem oftast er beitt við uppbyggilega réttvísi (e. restorative justice), þ.e. að ná sáttum á milli brotamanns og brotaþola í kjölfar afbrots. Brotamaður og brotaþoli eru leiddir saman í því skyni að koma hinum brotlega í skilning um þau rangindi sem hann hefur viðhaft og fá hann til að friðmælast við brotaþola með það fyrir augum að þeir komist að samkomulagi um málalok. Markmið breytingarinnar sem lögð er til með 14. gr. frumvarpsins er að úrræðinu verði beitt í fleiri málum en nú er gert en einnig til að koma í veg fyrir að hægt sé að semja sig frá hefðbundinni ákærumeðferð án aðkomu réttarvörslukerfisins. Dæmi eru um að slíkt hafi verið gert í tengslum við kynferðisbrot þar sem aðstöðumunur er á milli brotamanns og brotaþola. Slíkir samningar kunna jafnvel að hafa það markmið að koma í veg fyrir að þolendur kæri brot til lögreglu eða hvetja þá til að draga kæru til baka. Sama gildir um aðra brotaflokka.
    Sáttamiðlun er úrræði sem kemur í stað hefðbundinnar saksóknar og er því eðli máls samkvæmt á forræði ríkissaksóknara. Skv. 21. gr. laga um meðferð sakamála gefur ríkissaksóknari út almenn fyrirmæli um meðferð ákæruvalds. Snemma árs 2021 tóku gildi ný fyrirmæli ríkissaksóknara um sáttamiðlun, nr. 2/2021, sem taka mið af tillögum framangreindrar nefndar um sáttmiðlun. Með fyrirmælunum eru heimildir til sáttamiðlunar verulega auknar með það að markmiði að úrræðinu verði beitt í fleiri málum en nú er. Sé málið nægjanlega upplýst og játning liggur fyrir kemur til greina að vísa því til sáttamiðlunar að öðrum skilyrðum uppfylltum ef ætla má að refsing fari ekki fram úr sektum, skilorðsbundnu fangelsi eða sex mánaða fangelsi. Þau brot sem helst koma til greina eru talin upp í dæmaskyni í fyrirmælunum. Samhliða útgáfu fyrirmæla ríkissaksóknara gaf ríkislögreglustjóri út verklagsreglur lögreglu um sáttamiðlun þar sem er meðal annars kveðið á um samræmingu málaflokksins innan lögreglu og hlutverk sáttamanna, sem lögreglumenn sinna, við sáttamiðlun.

3.7. Framlenging gæsluvarðhalds.
    Lagt er til að skýrt verði tekið fram í lögum um meðferð sakamála að þegar svo háttar til að óskað er framlengingar á gæsluvarðhaldi, og sú krafa er tekin fyrir áður en gæsluvarðhaldið rennur út, þá falli það ekki niður á meðan dómari ræður því lykta hvort fallist verður á kröfuna eður ei. Þeim sjónarmiðum var lýst í umsagnarferli að þessi breytingartillaga gætti ekki að meðalhófi og þeirri reglu að gæsluvarðhald skyldi ekki vara lengur en nauðsyn krefur. Um verulega íþyngjandi ákvæði væri að ræða fyrir gæsluvarðhaldsfanga. Nærtækara væri að setja lagaákvæði þess efnis að ef framlengja ætti gæsluvarðhald þyrfti slík krafa að koma í tæka tíð fyrir dómstóla. Að þessu tilefni skal tekið fram að mjög miklir hagsmunir kunna að búa að baki því að gæsluvarðhaldsfanga verði ekki sleppt úr haldi á meðan dómari ákveður hvort orðið skuli við beiðni um framlengingu gæsluvarðhalds, jafnvel þótt einungis væri um fáeinar klukkustundir að ræða. Á það við hvort heldur sem gæsluvarðhald byggist á rannsóknarhagsmunum eða því að viðkomandi teljist hættulegur sér eða öðrum. Þótt vissulega kunni slík framlenging sem hér er lögð til að vera íþyngjandi fyrir gæsluvarðhaldsfanga er jafnframt mikilvægt að dómari hafi svigrúm til þess að taka ígrundaða ákvörðun um hvort fallast beri á framlengingu gæsluvarðhalds, og þá án þess að framangreindum hagsmunum sé stofnað í hættu. Eftir sem áður er mikilvægt að krafa um framlengingu gæsluvarðhalds berist dómara eins fljótt og kostur er. Dómara ber ávallt að leggja úrskurð á kröfu um gæsluvarðhald, eða framlengingu gæsluvarðhalds, svo fljótt sem verða má. Ekkert bendir til þess að þeirri reglu sé ekki fylgt í framkvæmd eða að svo verði ekki gert verði þessi breytingartillaga samþykkt. Aukinheldur skal bent á að gæsluvarðhaldsfangi kann að eiga rétt á bótum á grundvelli XXXIX. kafla laga um meðferð sakamála síðar meir vegna framlengingar gæsluvarðhalds við þessar aðstæður, sem kemur til móts við hagsmuni hans og stuðlar enn frekar að því að leyst sé úr kröfu innan tilhlýðilegs tíma. Þess skal einnig getið að sú leið að mæla fyrir um að krafa um framlengingu gæsluvarðhalds skuli fortakslaust koma fram í tæka tíð, til að mynda innan 24 klukkustunda áður en það rennur út, fæli í raun í sér að sá tími sem lögregla og ákæruvald hefði til rannsóknar umrædds sakamáls væri styttur sem því næmi. Slíkt þjónar ekki þeim mikilvægu hagsmunum sem í húfi eru og í mörgum tilvikum yrði einfaldlega ekki ljóst á þeim tímapunkti hvort nauðsynlegt væri að gera kröfu um framlengingu gæsluvarðhalds.

3.8. Einföldun á framsetningu úrskurða á grundvelli IX.–XIV. kafla laga um meðferð sakamála.
    Lagt er til að við samningu dómsúrskurðar vegna krafna á grundvelli IX.–XIV. kafla laga um meðferð sakamála verði nægjanlegt að taka lýsingu á atvikum máls og rökstuðning aðila orðrétt upp í úrskurð í stað þess að endursegja og umorða þann málatilbúnað. Slíku verklagi er meðal annars ætlað að styðja við þann ávinning sem hlotist getur af aukinni rafvæðingu réttarvörslukerfisins. Undanfarin misseri hefur hluti þeirra krafna sem hér um ræðir borist héraðsdómstólunum tveimur á höfuðborgarsvæðinu í gegnum hugbúnað sem nefnist réttarvörslugátt. Hin svonefnda réttarvörslugátt hefur meðal annars verið notuð til öruggrar og skjótvirkrar rafrænnar gagnasendingar á milli lögreglu og dómstóla og til úrvinnslu dómstóla á kröfum sem stafa frá þessum aðilum. Hugbúnaðurinn er í þróun og þegar fram í sækir er ætlunin að tengja fleiri aðila réttarvörslukerfisins við hann, auk þess að nýta búnaðinn í fleiri tegundum mála. Þessi tækni hefur almennt nýst vel við meðferð krafna sem borist hafa dómstólum á grunni IX.–XIV. kafla laganna. Með lagabreytingunni er miðað að skilvirkara vinnulagi þannig að til að mynda verði heimilt að nýta forskráðan málatilbúnað þess sem kröfu gerir fyrir dómi og taka hann orðrétt upp í dómsúrskurð án þess að nauðsynlegt sé að breyta framsetningu málatilbúnaðar þess sem kröfuna gerir. Sýnt þykir að sú tilhögun mundi spara vinnu og tíma og er því lagt til að heimila og stuðla að einfaldra verklagi í meðferð þar tilgreindra krafna sem þurfa skjóta afgreiðslu, oft og tíðum í miklu annríki þegar margar kröfur af því tagi berast dómstólum með stuttu millibili.

3.9. Setning héraðsdómara.
    Samkvæmt lögum um dómstóla er heimilt að setja héraðsdómara vegna leyfa skipaðra dómara en þó aldrei til skemmri tíma en 12 mánaða, nema um sé að ræða leyfi við héraðsdómstól þar sem þrír eða færri dómarar starfa. Lagt er til að þessari reglu verði breytt þannig að heimilt verði að setja dómara við héraðsdómstól, óháð því hversu margir dómarar starfa þar, ef brýn nauðsyn krefur og dómstólasýslan mælir með því.

3.10. Setning dómara við Landsrétt og Hæstarétt.
    Samkvæmt lögum um dómstóla skulu dómarar sem settir eru við Landsrétt og Hæstarétt, hvort heldur í einstök mál eða yfir tiltekið tímabil, koma úr röðum fyrrverandi dómara, en sé það ekki unnt þá úr röðum annarra sem fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í viðkomandi embætti. Líkt og vikið er að í skýringum við 17.–20. gr. kom umrætt skilyrði um fyrrverandi dómara inn sem nýmæli við setningu gildandi laga um dómstóla. Það hefur ekki gefið góða raun þar sem óraunhæft hefur reynst að fá fyrrverandi dómara til að taka að sér setningu í öllum tilvikum. Því er lagt til að þessi regla verði færð í sama horf og fyrir setningu gildandi laga þannig að settir dómarar við Landsrétt og Hæstarétt skuli fullnægja skilyrðum til að skipa megi þá í það embætti sem um ræðir, að frátöldum 70 ára hámarksaldri. Vakin er athygli á því að áfram er gert ráð fyrir því að dómnefnd sem starfar skv. III. kafla laga um dómstóla, en ekki hlutaðeigandi dómstóll, tilnefni aðila til setningar í embætti dómara um ákveðið tímabil sem og ef enginn dómari umrædds dómstóls getur tekið þátt í meðferð máls af einhverjum ástæðum.
    Í umsagnarferli komu fram athugasemdir við þessa breytingatillögu þar sem bent var á mikilvægi þess að regluverk um setningu dómara væri skýrt og gagnsætt þannig að lögfræðingar úr ýmsum áttum samfélagsins gætu komið til greina. Í því sambandi var meðal annars bent á þann möguleika að halda lista yfir þá sem hafa áhuga á að taka að sér setningu sem dómari, sem hæfur einstaklingur væri valinn af hverju sinni. Í ljósi þessara sjónarmiða er rétt að árétta að þegar nauðsynlegt er að setja dómara til starfa, hvort heldur er yfir tiltekið tímabil eða í einstakt mál, þjónar það alla jafna þörfum viðkomandi dómstóls best að til þess veljist aðili sem hefur reynslu af dómsstörfum sem gerir honum kleift að ganga umsvifalaust til verks og án sérstaks undirbúningstíma eða starfsþjálfunar. Með því er þó ekki fullyrt að setning annarra hæfra lögfræðinga geti ekki þjónað sama markmiði og ekki heldur að sérstakur listi á borð við þann sem að framan er lýst geti gagnast við setningu dómara. Í ljósi þess hversu miklum vandkvæðum það hefur reynst bundið að fá fyrrverandi dómara til að taka að sér setningu, eins og lög mæla nú fyrir um, og mikilvægis þess að sú regla verði færð úr núverandi horfi þegar í stað, er sú leið að halda sérstakan lista ekki lögð til hér, enda krefst hún ítarlegri útfærslu og lagabreytinga en ráðgerðar hafa verið með þessu frumvarpi. Það útilokar þó ekki að hún hljóti nánari athugun síðar meir.

3.11. Hæfisskilyrði héraðsdómara.
    Samkvæmt 7. tölul. 2. mgr. 29. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, má skipa þann einn í embætti héraðsdómara sem hefur í minnst þrjú ár verið alþingismaður eða stundað málflutningsstörf að staðaldri eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi hjá ríkinu en leggja má saman starfstíma í hverri af þessum greinum. Með frumvarpi þessu er lagt til að skilyrðin verði rýmkuð og eftirleiðis verði einungis gerð krafa um að viðkomandi hafi í þrjú ár verið alþingismaður eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu gefa ekki tilefni til að ætla að þær séu í andstöðu við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var kynnt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is á tímabilinu 23. desember 2021 til 10. janúar 2022 (mál nr. S-243/2021). Alls bárust fjórar umsagnir um frumvarpið, frá Lögmannafélagi Íslands, Reykjavíkurborg, dr. Hauki Loga Karlssyni og Leifi Runólfssyni lögmanni. Efnislega varða helstu ábendingar og athugasemdir umsagnaraðila eftirfarandi sex atriði.

5.1. Frestur til greinargerðaskila á sumarleyfistíma og við stórhátíðir.
    Af hálfu lögmannafélagsins, Reykjavíkurborgar og Leifs Runólfsson er talið jákvætt að lagt sé til að Landsrétti og Hæstarétti verði heimilt að lengja fresti varnaraðila til greinargerðarskila á sumarleyfistíma og við stórhátíðir. Af hálfu tveggja síðastnefndu var þó bent á að hugsanlega mætti ganga lengra í þessum efnum, svo sem heimila lengri fresti í kringum lögbundna frídaga og við meðferð mála sem sæta flýtimeðferð. Þessar ábendingar gáfu ekki tilefni til breytinga á frumvarpinu og er nánar vikið að ástæðum þess í kafla 3 um meginefni frumvarpsins.

5.2. Rýmkuð heimild til að sækja um kæruleyfi til Hæstaréttar í einkamálum.
    Í umsögn lögmannafélagsins kemur fram að það geti óneitanlega haft kosti í för með sér að Hæstiréttur geti kveðið upp fordæmisgefandi dóma um réttarfarsatriði í öðrum tilvikum en við áfrýjun mála til réttarins. Félagið lýsir þó áhyggjum af því að rýmkuð heimild til að sækja um kæruleyfi til Hæstaréttar kunni í ákveðnum tilvikum að valda óhóflegum töfum á framgangi mála og jafnvel að verða nýtt gagngert í þeim tilgangi. Að sama skapi sé hún til þess fallin að stofna til aukins kostnaðar við málarekstur sem málsaðili fái ekki bættan úr hendi gagnaðila. Þessar athugasemdir urðu ekki til þess að breytingar voru gerðar á frumvarpinu en nánar er fjallað um þessi sjónarmið í kafla 3 um meginefni frumvarpsins.

5.3. Framlenging gæsluvarðhalds.
    Í umsögnum lögmannafélagsins og Leifs Runólfssonar eru gerðar athugasemdir við fyrirhugaða breytingu um að þegar krafa um framlengingu gæsluvarðhalds sé tekin fyrir áður en gæsluvarðhald rennur út þá falli það ekki niður á meðan dómari ræður því lykta hvort fallist verður á kröfuna eður ei. Var meðal annars bent á í því sambandi að breytingin gætti ekki að meðalhófsreglu, væri mjög íþyngjandi fyrir gæsluvarðhaldsfanga og gæti stofnað til skaðabótaskyldu íslenska ríkisins. Ekki voru gerðar breytingar á frumvarpinu í ljósi þessara athugasemda og er nánar vikið að ástæðum þess í kafla 3 um meginefni frumvarpsins.

5.4. Niðurfelling saksóknar að undangenginni sáttamiðlun hjá lögreglu.
    Lögmannafélagið tekur undir að þörf sé á að því að færa lagastoð undir sáttamiðlun sem úrræði í réttarvörslukerfinu sem geti leitt til þess að saksókn falli niður. Félagið telur þó skorta að fjallað sé um forsendur og skilyrði sáttamiðlunar í frumvarpinu og jafnframt þurfi að skýra aðkomu verjanda og/eða réttargæslumanna að sáttamiðlun. Svipuðum sjónarmiðum er lýst í umsögn Leifs Runólfssonar. Þessar ábendingar eru réttmætar og hefur í kjölfarið verið aukið við umfjöllun í kafla 3 um meginefni frumvarpsins og skýringum við 14. gr. Að sama skapi hefur nú verið gert skýrt að sáttamiðlun fari fram hjá lögreglu. Hvaða varðar aðkomu verjenda og réttargæslumanna að sáttamiðlun þá er jafnframt tekið undir með lögmannafélaginu að reglur þar að lútandi þurfi að vera skýrar. Bent er á að skv. 1. mgr. 30. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, er lögreglu skylt að verða við ósk sakbornings um að tilnefna honum verjanda ef hann hefur verið handtekinn í þágu rannsóknar máls. Þá er lögreglu heimilt endranær eftir ósk sakbornings að tilnefna honum verjanda við rannsókn máls áður en til málshöfðunar kemur ef ástæða er til þess með tilliti til eðlis brots og aðstæðna að öðru leyti, sbr. 2. mgr. 30. gr. sömu laga. Þá er fjallað um skyldu til tilnefningar réttargæslumanns í 41. gr. laganna. Ekkert í gildandi lögum stendur í vegi fyrir því að verjandi og/eða réttargæslumaður séu tilnefndir við sáttamiðlun en ekki þykir rétt að gera slíkt að skilyrði. Verður ábendingum lögmannafélagsins þar að lútandi komið áfram til lögreglu og ákæruvalds.

5.5. Tilnefning dómstólasýslunnar í dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara.
    Lögmannafélagið og dr. Haukur Logi Karlsson gera athugasemd við fyrirhugaða breytingu um að fella brott skilyrði um að sá nefndarmaður sem dómstólasýslan tilnefnir í dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara megi ekki koma úr röðum dómara. Ákvæðið hefur því verið fellt brott úr frumvarpinu.

5.6. Setning dómara við Landsrétt og Hæstarétt.
    Lögmannafélagið og dr. Haukur Logi Karlsson gera athugasemd við að regla um setningu dómara við Landsrétt og Hæstarétt verði færð í sama horf og fyrir setningu laga um dómstóla, þannig að settir dómarar við þessa dómstóla skuli fullnægja skilyrðum til að skipa megi þá í umrædd embætti, að frátöldum 70 ára hámarksaldri. Ekki var gerð breyting á frumvarpinu en nánar er fjallað um þau sjónarmið sem búa þar að baki í kafla 3 um meginefni frumvarpsins.

5.7. Aukastörf dómara.
    Í umsögnum lögmannafélagsins og dr. Hauks Loga Karlssonar var bent á að í frumvarpinu væri engin ákvæði að finna sem varða aukastörf dómara. Að því tilefni skal tekið fram að aukastörf dómara voru ekki til athugunar við samningu þessa frumvarps.
    Einnig er rétt að taka að fram að við nánari athugun, eftir að frumvarpið var kynnt í samráðsgátt, var fellt brott úr frumvarpinu ákvæði um breytingu á 3. mgr. 25. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, þess efnis að ríkislögreglustjóri gæti falið löglærðum starfsmanni sínum að flytja mál sem hann höfðar. Talið var að breyting af þessu tagi þyrfti nánari skoðunar við.
    Tveimur ákvæðum varaukið við frumvarpið eftir að það var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda en áður en það var lagt fram á 152. gr. löggjafarþingi. Í fyrsta lagi er lögð til breyting sem miðar að því að einfalda framsetningu og samningu úrskurða á grundvelli IX.–XIV. kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, en um þá breytingu vísast nánar til kafla 3 um meginefni frumvarpsins og skýringa við 15. gr. frumvarpsins. Í öðru lagi hefur verið bætt við ákvæði um hvernig fara skuli með ef tilskilinn fjöldi dómenda Endurupptökudóms getur ekki tekið þátt í meðferð máls vegna vanhæfis eða annarra forfalla. Um þá breytingu vísast nánar til skýringa við 23. gr. frumvarpsins.
    Þá er rétt að geta þess að eftir að frumvarpið var lagt fram á 152. löggjafarþingi barst dómsmálaráðuneytinu umsögn Landsréttar um það. Í þeirri umsögn er í fyrsta lagi bent á að ástæða kunni að vera til að breyta orðalagi 6. gr. frumvarpsins þannig að kveðið verði á um að kæra megi til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar en ekki dómsathafnir. Bendir Landsréttur meðal annars á í því sambandi að hugtakið dómsathöfn sé víðtækara en úrskurður og undir það falli margvíslegar ákvarðanir um rekstur dómsmáls, þar á meðal ákvarðanir vegna undirbúningsþinghalda, svo sem um tímalengd ræðu aðila, hvaða hlutar af upptökum úr héraði skuli spilaðir við aðalmeðferð og hvaða vitni skuli leidd fyrir Landsrétt til skýrslugjafar. Ekki verði séð að rök standi til að ákvarðanir um rekstur dómsmála sæti jafn viðamikilli endurskoðun. Í öðru lagi bendir Landsréttur á að ekki sé í sama ákvæði að finna fyrirmæli um að líta skuli til þess „hvort kæruefnið varði mikilsverða almannhagsmuni“ sem sé aftur á móti til staðar í 1. mgr. 167. gr. gildandi laga. Álitamál sé hvort ekki sé rétt að kveða á um sömu skilyrði í þessum tveimur málsgreinum þannig að staðan væri sambærileg í kærumálum samkvæmt lögum um meðferð einkamála og öðrum lögum. Þessar ábendingar eru taldar réttmætar og hafa verið gerðar viðeigandi breytingar á 6. gr. frumvarpsins.
    Í þriðja lagi er í umsögn Landsréttar vikið að þeim breytingum sem felast í 9. gr. frumvarpsins þar sem ráðgert er að rýmka heimild til að óska eftir leyfi til að áfrýja héraðsdómi í einkamáli beint til Hæstaréttar. Bendir Landsréttur meðal annars á í því sambandi að reglur gildandi laga hafi verið vandlega ígrundaðar og byggist á því sjónarmiði að mikilsverð mál fái meðferð á þremur dómstigum ef svo ber undir. Sú heimild að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar sé hugsuð sem þröng undantekning við sérstakar aðstæður. Um sé að ræða afar mikla breytingu á þeirri skipan sem komið var á með stofnun Landsréttar. Reglurnar eins og þær séu núna hafi aðeins gilt í fjögur ár og ekkert bendi til annars en að reynslan af þeim sé góð. Telur Landsréttur að í frumvarpinu séu ekki færð fullnægjandi rök fyrir því að nauðsynlegt sé að ráðast í slíka stefnubreytingu á þessu stigi. Þessi athugasemd Landsréttar hefur verið tekin til athugunar en ekki er talið rétt að gera breytingar á frumvarpinu. Bendir ráðuneytið á að áfram verði um undantekningarheimild að ræða sem ekki komi til athugunar nema niðurstaða máls geti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna eða verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá þarf jafnframt að liggja fyrir að ekki þurfi að leiða vitni í máli, ekki þurfi að endurskoða sönnunargildi munnlegs framburðar og ekki reyni á atriði sem sérkunnáttu þarf til í dómi. Það hagræði sem felst í því, einkum með tilliti til málshraða og kostnaðar, að leysa úr slíkum málum með endanlegum dómi svo fljótt sem kostur er, þykir vega þyngra en þau sjónarmið sem koma fram í umsögn Landsréttar. Er þá einnig litið til þess að í flestum ef ekki öllum tilvikum yrði um að ræða mál sem hvort sem er hefðu komið til meðferðar hjá Hæstarétti að fenginni úrlausn Landsréttar.

6. Mat á áhrifum.
    Áhrif frumvarpsins eru fyrst og fremst þau að málsmeðferðarreglur verða afdráttarlausari, skýrari og samræmdari og lögfesting þess ætti að koma dómstólunum sjálfum og þeim sem þeir eiga að þjóna til góða. Ekki verður séð að frumvarpið geti haft neikvæð eða íþyngjandi áhrif á starfsemi dómstólanna eða þá sem dómstólarnir eiga að þjóna. Hvorki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð né sveitarfélögin.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á jafnrétti eða stöðu kynjanna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til leiðrétting á ákvæði 9. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Ástæðan er sú að með 2. gr. laga nr. 76/2019, þar sem ákvæði 9. gr. laga nr. 91/1991 var breytt, var orðið sakborningur tekið upp í ákvæðið í stað orðsins aðili. Sú misritun skýrist af því að með 18. gr. laga nr. 76/2019 var gerð efnislega samhljóða breyting á 1. mgr. 11. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

Um 2. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að gerð verði breyting á 3. mgr. 147. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, þannig að eftirleiðis verði Landsrétti látið eftir að ákveða eintakafjölda þeirra málsgagna sem leggja þarf fyrir réttinn þegar dómsathafnir eru kærðar til réttarins í stað þess að kveða á um þann fjölda í löggjöf líkt og nú er gert. Nærtækara þykir að mælt verði fyrir um atriði af þessu tagi í reglum Landsréttar fremur en að festa það í löggjöf en rétturinn mælir nú þegar fyrir um fjölda eintaka greinargerða og málsgagna í málum sem áfrýjað er til réttarins, sbr. 1. og 4. mgr. 156. gr. laganna. Með þessu fyrirkomulagi má meðal annars ætla að skjótvirkara verði að bregðast við breyttri þörf á gagnaframlagningu sem leiða mun af rafrænni gagnasendingu. Ekki verður séð að varhugavert sé að færa valdið til ákvörðunar þar um frá löggjafanum.

Um 3. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að Landsrétti verði heimilað til að lengja frest varnaraðila til að skila skriflegri greinargerð um kæruefni ásamt þeim málsgögnum sem hann telur vanta á tímabilunum frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með öðrum degi páska. Hér hagar þannig til að án lagaheimildar af þessu tagi hefur varnaraðili í málum sem ekki sæta flýtimeðferð skv. XIX. kafla laganna færri virka daga til að skila greinargerð, og eftir atvikum þeim málsgögnum sem hann telur vanta, en annars væri ef frestir til þess bæru ekki upp á og í kringum hátíðisdaga. Kæra málsins og skil á málsgögnum og greinargerð sóknaraðila er ákveðin af sóknaraðila sem hefur því almennt í hendi sér hvenær varnaraðili þarf að taka til varna. Það kann að koma sér illa fyrir varnaraðila að þá vinnu beri upp á þessa daga og við því er brugðist með því að veita Landsrétti heimild til að lengja frest varnaraðila skv. 148. gr. laganna. Ekki þykja efni til að hafa þá heimild enn rýmri eins og nánar er rakið í kafla 3 um meginefni frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Þessi grein felur í sér tvenns konar breytingar á 4. mgr. 153. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Annars vegar á orðalagi ákvæðisins til samræmis við það að niðurfellingu máls getur borið að með öðrum hætti en uppkvaðningu dóms og því er látið við það sitja að ákvæðið mæli almennt fyrir um niðurfellingu máls í stað þess að tilgreina með hvaða hætti þær málalyktir getur borið að. Hins vegar er lögð til sú breyting á ákvæðinu að kveðið verði sérstaklega á um að heimild gagnáfrýjanda í áfrýjuðu einkamáli til að fá gagnáfrýjunarstefnu gefna út að nýju sé bundin við það að áfrýjunarstefna í aðalsök hafi verið útgefin að nýju eða að gagnsök hafi verið vísað frá Landsrétti. Með breytingunni er þannig girt fyrir þá aðstöðu að unnt sé að tefja meðferð máls með því að þingfesta ekki gagnáfrýjunarstefnu, þó þannig að gætt verði að því að svo megi eftir sem áður gera ef áfrýjunarstefna í aðalsök hefur verið gefin út að nýju, sem og þegar gagnsök hefur verið vísað frá Landsrétti. Réttmætt þykir að málsaðilar hafi sama tækifæri til að koma sínum málatilbúnaði fyrir réttinn þegar áfrýjunarstefna í aðalsök er gefin út að nýju. Þá þykir að sama skapi rétt að heimila að gagnáfrýjunarstefna verði endurútgefin að nýju innan fjögurra vikna þegar gagnsök hefur verið vísað frá Landsrétti, svo sem almennt gildir um áfrýjunarstefnur samkvæmt ákvæðinu, því að ellegar hefði frávísun þess þáttar málsins í reynd sömu réttaráhrif og að málatilbúnaði gagnáfrýjanda hefði, að þessu leyti, verið hafnað með efnisdómi.

Um 5. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að Landsrétti verði heimilað að lengja fresti stefnda í 1. mgr. 158. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, til að skila skriflegri greinargerð og öðrum málsgögnum sem hann leggur fram á tímabilunum frá og með 15. júlí til og með 14. ágúst, frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með öðrum degi páska. Án lagaheimildar af þessu tagi er aðstaða stefnda, sem ætlar sér að una dómi héraðsdóms, sú að þurfa að taka til varna yfir hásumarleyfistíma eða á þeim tíma árs þar sem færri virkir dagar eru en ella, án tillits til þess hvort málinu verði strax úthlutað til dómara í kjölfarið. Um heimild Landsréttar er að ræða sem ætla má að verði einkum beitt að því er sumarleyfistímann varðar, en að sama skapi kann að vera málefnalegt að lengja fresti stefnda til að koma málatilbúnaði sínum á framfæri á hinum tímabilunum sem tilgreind eru. Réttmætt þykir að heimildin taki einvörðungu til stefnda en ekki áfrýjanda sem kosið hefur að skjóta málinu til Landsréttar og hefur þannig tekið ákvörðun um áframhaldandi málarekstur. Það kann að koma sér illa fyrir stefnda að vinna við málatilbúnað hans beri upp á tilgreind tímabil og við því er brugðist með því að unnt sé að lengja frestinn skv. 1. mgr. 158. gr. laganna. Ekki þykja efni til að hafa þá heimild enn rýmri eins og nánar er rakið í kafla 3 um meginefni frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að heimild Hæstaréttar til að veita leyfi skv. 167. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, til að kæra úrskurð Landsréttar verði rýmkuð frá gildandi rétti. Við stofnun Landsréttar sem millidómstigs var lagt upp með að kæruheimildir til Hæstaréttar væru fáar og afmarkaðar. Byggðist það annars vegar á því varfærnisjónarmiði að nokkur reynsla þyrfti að komast á nýtt skipulag réttarkerfisins áður en lagt væri endanlegt mat á afkastagetu Hæstaréttar og hins vegar á því að koma í veg fyrir að kærur um réttarfarságreining yllu töfum á meðferð mála. Því var farin sú leið að kveða á um tiltekin atriði í 1. mgr. 167. gr. laganna sem ávallt mætti kæra til Hæstaréttar og tiltaka í 2. mgr. þeirrar greinar að unnt væri að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar í kærumálum þegar svo væri mælt fyrir um í öðrum lögum. Heimildir af því tagi má nú finna í fjölmörgum sérlögum.
    Af framangreindu leiðir að ekki er hægt að sækja um leyfi til að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar um önnur réttarfarsatriði sem fjallað er um í lögum um meðferð einkamála. Með 6. gr. frumvarpsins er lagt til að þessu verði breytt og unnt verði að sækja um leyfi til að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar um önnur atriði en þau sem greinir í 1. mgr. 167. gr. laganna. Er þá meðal annars litið til þeirrar reynslu sem nú hefur fengist sem og mikilvægi þess að Hæstiréttur geti kveðið upp fordæmisgefandi dóma um réttarfarsatriði þar sem það þykir nauðsynlegt. Lagt er til að þegar Hæstiréttur metur hvort veita skuli slíkt kæruleyfi skuli líta til þess hvort kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, hafi fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins. Þá geti Hæstiréttur tekið kæruefni til meðferðar ef ástæða er til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi eða efni.
    Nánari umfjöllun um þau sjónarmið sem breytingin byggist á er í kafla 3 um meginefni frumvarpsins.

Um 7. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til breyting á 2. mgr. 171. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, þannig að Hæstarétti verði látið eftir að ákveða þann fjölda eintaka gagna málsins sem leggja þarf fyrir réttinn þegar dómsathafnir eru kærðar til réttarins í stað þess að kveða á um þann fjölda í löggjöf. Nærtækara þykir að mæla fyrir um þetta atriði í reglum Hæstaréttar fremur en að festa það í löggjöf, en rétturinn mælir nú þegar fyrir um fjölda eintaka greinargerða og málsgagna í málum sem áfrýjað er til réttarins, sbr. 1. og 4. mgr. 180. gr. laganna, auk þess sem nú þegar er kveðið á um fjölda eintaka gagna málsins sem leggja þarf fyrir réttinn þegar dómsathafnir eru kærðar til réttarins. Með þessu fyrirkomulagi má meðal annars ætla að skjótvirkara verði að bregðast við breyttri þörf á gagnaframlagningu sem leiða mun af rafrænni gagnasendingu. Ekki verður séð að varhugavert sé að færa valdið til ákvörðunar þar um frá löggjafanum.

Um 8. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að Hæstarétti verði veitt heimild til að lengja frest varnaraðila til að skila skriflegri greinargerð um kæruefni ásamt þeim málsgögnum sem hann telur vanta á tímabilunum frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með öðrum degi páska. Um er að ræða sams konar heimild og lagt er til að Landsrétti verði fengin með 3. gr. þessa frumvarps. Nánar um ákvæðið vísast til skýringa við þá grein frumvarpsins að breyttu breytanda eftir því sem við á um kærur til Hæstaréttar.

Um 9. gr.

    Hér eru lagðar tilbreytingar á 1. og 2. mgr. 175. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
    Með a-lið er lagt til að fallið verði frá því skilyrði fyrir heimild til að fá leyfi til að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar að þörf sé á að fá endanlega niðurstöðu réttarins með skjótum hætti. Nokkrum beiðnum um að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar hefur verið hafnað þar sem skilyrðið hefur ekki þótt vera uppfyllt, án þess að önnur skilyrði 1. mgr. 175. gr. laganna standi áfrýjun í vegi. Sum hver þessara mála hafa síðar verið dæmd af Hæstarétti. Meginmarkmiðið með því að koma á millidómstigi hér á landi var að tryggja milliliðalausa málsmeðferð á tveimur dómstigum þar sem slíkrar sönnunarfærslu væri þörf og um leið var gengið út þeirri forsendu að sem allra fæst mál kæmu til meðferðar á þremur dómstigum. Í málum sem hafa ótvírætt fordæmisgildi og þar sem fyrir liggur að ekki þarf að leiða vitni eða endurskoða mat á sönnunargildi munnlegs framburðar og ekki reynir á atriði sem sérkunnáttu þarf í dómi til að leysa úr getur verið bagalegt fyrir málsaðila að reka málið á þremur dómstigum, einkum með tilliti til málshraða og kostnaðar. Ekki er gert ráð fyrir að rýmkun þessarar heimildar leiði til þess að fjöldi héraðsdómsmála sem verði áfrýjað beint til Hæstaréttar aukist mikið og í flestum ef ekki öllum tilvikum yrði um að ræða mál sem hvort sem er hefðu komið til meðferðar hjá Hæstarétti að fenginni úrlausn Landsréttar.
    Með a-lið er einnig lögð til breyting á orðalagi til samræmis við 2. mgr. 167. gr. laganna þar sem ekki verður séð að orðalag ákvæðanna hafi mismunandi þýðingu.
    Með b-lið er lagt til að tekið verði fram í 1. mgr. 175. gr. laganna að ekki skuli veita leyfi til að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar ef enn er deilt um staðreyndir sem sérkunnáttu þarf í dómi til að leysa úr. Til samræmis við heimild forseta Landsréttar skv. 2. gr. a sömu laga til þess að kveða til setu í dómi við réttinn sérfróðan eða eftir atvikum sérfróða meðdómendur, í málum þar sem enn er deilt um staðreyndir sem eru bornar fram sem málsástæður fyrir Landsrétti og forseti telur þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr, þykir heppilegra að slík mál komi að jafnaði til kasta Landsréttar og því skuli ekki veita leyfi til að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar ef sú staða er fyrir hendi.
    Með c-lið er lögð til breyting á 2. mgr. 175. gr. laganna í þeim tilgangi að kveða afdráttarlaust á um að ekki skuli gefa út áfrýjunarstefnu sem lögð er fyrir Landsrétt með ósk um að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar, sbr. upphafsmálslið málsgreinarinnar. Slíka stefnu skuli Landsréttur einungis gefa út að framkominni ósk áfrýjanda þess efnis ef Hæstiréttur hafnar ósk um að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar, en ósk um áframhaldandi meðferð málsins fyrir Landsrétti skal áfrýjandi bera upp við Landsrétt innan viku frá höfnun Hæstaréttar. Sem fyrr er við það miðað að áfrýjunarfrestur til Landsréttar sé rofinn með móttöku stefnunnar hjá réttinum, en ekki komi til neinnar frekari meðferðar hennar eftir almennum reglum, þar á meðal að ekki skuli inna af hendi gjald fyrir útgáfu hennar á grundvelli laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, fyrr en að fram kominni fyrrgreindri tilkynningu áfrýjanda.

Um 10. gr.

    Hér er mælt fyrir um breytingar á 1. mgr. 180. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, vegna meðferðar mála fyrir Hæstarétti, sem eru af sama toga og mælt er fyrir um í 4. gr. frumvarpsins vegna meðferðar mála fyrir Landsrétti. Nánar um ákvæðið vísast til skýringa við þá grein frumvarpsins að breyttu breytanda eftir því sem við á um málskot til Hæstaréttar.

Um 11. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að Hæstarétti verði veitt heimild til að lengja fresti stefnda í 1. mgr. 182. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, á tímabilunum frá og með 15. júlí til og með 14. ágúst, frá og með 22. desember til og með 4. janúar og frá og með skírdegi til og með öðrum degi páska, til að skila skriflegri greinargerð og öðrum málsgögnum sem hann leggur fram. Um er að ræða sams konar heimildir og lagt er til í 5. gr. frumvarpsins að Landsrétti verði veittar vegna meðferðar mála fyrir Landsrétti. Nánar um ákvæðið vísast til skýringa við þá grein frumvarpsins að breyttu breytanda eftir því sem við á um málskot til Hæstaréttar.

Um 12. gr.

    Hér er lagt til að bæta nýjum málslið við 1. mgr. 98. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, þar sem kveðið verði afdráttarlaust á um að þegar óskað er eftir framlengingu á gæsluvarðhaldi og slík krafa er tekin fyrir af dómara áður en það rennur út þá falli það gæsluvarðhald sem krafist er framlengingar á ekki niður meðan dómari hefur kröfuna til meðferðar. Þannig muni eftirleiðis ekki leika minnsti vafi á um hvort hið sama eigi við þegar gæsluvarðhalds er krafist í upphafi eða þegar slík þvingunarráðstöfun er framlengd. Því skal haldið til haga að eftir sem áður skal dómari að jafnaði leggja úrskurð á kröfuna svo fljótt sem verða má og ávallt innan 24 klukkustunda, sbr. 94. gr. laganna. Um ástæður þessarar breytingartillögu vísast nánar til 3. kafla um meginefni frumvarpsins.

Um 13. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á 1. og 3. mgr. 104. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
    Með a-lið er lagt til að bæta við 1. mgr. 104. gr. laganna nýjum málslið sem hafi að geyma undantekningu frá þeirri meginreglu að sá sem geri kröfu skv. 1. mgr. 102. gr. laganna skuli mæta fyrir dóm. Eftirleiðis skuli meginreglan vera sú að í þeim tilvikum sé ekki nauðsynlegt að sá sem kröfuna gerir mæti til dómþings en það verði dómarans að meta hvort þá þörf, eftir atvikum til að þess að svara spurningum um kröfuna, atvik að baki henni eða af öðrum ástæðum. Eftir sem áður ber dómara að tilkynna um stað og stund þinghalds sem háð skal svo fljótt sem verða má að kröfunni fram kominni en með því að áfram sé mælt fyrir um þá tilkynningu í lögunum er ætlunin að hnika í engu frá þeirri nauðsynlegu festu í málsmeðferð sem þörf er á þegar kröfur af þessum toga koma til kasta dómstóla.
    Sú breyting sem lögð er til með b-lið greinarinnar leiðir af a-lið hennar. Til samræmis við þá reglu sem lögð er til með a-lið, þ.e. að sá sem kröfu gerir skuli einvörðungu í undantekningartilvikum boðaður til þinghalds, er mælt fyrir um að niðurfelling máls og úrskurður um greiðslu ómaksbóta úr hendi þess sem kröfu gerir, sökum þess að ekki er sótt þing af hans hálfu, sé bundin því að sá sem kröfu gerir hafi verið boðaður af dómara til að mæta fyrir dóm.

Um 14. gr.

    Í greininni er lagt til að heimildir lögreglu til að ljúka málum með sáttamiðlun verði lögfestar en hvorki er vikið að úrræðinu í gildandi réttarfarslögum né reglum. Nauðsynlegt þykir að sáttamiðlun eigi sér beina lagastoð þar sem hún getur leitt til niðurfellingar saksóknar. Við beitingu úrræðisins ber ákæranda að fylgja fyrirmælum ríkissaksóknara um sáttamiðlun og lögreglu að fylgja verklagsreglum ríkislögreglustjóra um sama efni. Að öðru leyti gilda önnur ákvæði laga um meðferð sakamála um beitingu og framkvæmd úrræðisins. Nánar er fjallað um sáttamiðlun og tilgang hennar í kafla 3 um meginefni frumvarpsins.

Um 15. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til einföldun framsetningar úrskurða sem lúta að aðgerðum skv. IX.–XIV. kafla laganna. Þannig nægi dómara eftirleiðis að taka lýsingu á atvikum máls og rökstuðning aðila orðrétt upp í úrskurð í stað þess að skýra með eigin orðum frá þessum atriðum. Þessu verklagi er meðal annars ætlað að styðja við þann ávinning sem hlotist getur af aukinni rafvæðingu dómskerfisins. Lagt er til að heimila og stuðla að einfaldara verklagi í meðferð krafna samkvæmt framangreindum köflum laganna sem þurfa skjóta afgreiðslu, oft og tíðum í miklu annríki þegar um margar kröfur af því tagi berast dómstólum með stuttu millibili. Áréttað er að um heimildarákvæði er að ræða þannig að eftir sem áður getur dómari kosið að lýsa atvikum og rökstuðningi aðila með eigin orðum.

Um 16. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að gerð verði breyting á lokamálslið 1. mgr. 213. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, þannig að eftirleiðis ákveði Hæstiréttur þann fjölda eintaka gagna málsins sem leggja þarf fyrir réttinn þegar dómsathafnir eru kærðar til réttarins í stað þess að kveða á um þann fjölda í löggjöf. Nærtækara þykir að mæla fyrir um þetta atriði í reglum Hæstaréttar fremur en að festa það í löggjöf en rétturinn mælir nú þegar fyrir um fjölda eintaka greinargerða og málsgagna í málum sem áfrýjað er til réttarins, sbr. 1. og 2. mgr. 219. gr. laganna. Með þessu fyrirkomulagi má meðal annars ætla að skjótvirkara verði að bregðast við breyttri þörf á gagnaframlagningu og ekki verður séð að varhugavert sé að færa valdið til ákvörðunar þar um frá löggjafanum.

Um 17.–20. gr.

    Í 17.–20. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar er lúta að setningum varadómara, sem taka sæti í einstökum málum, og setningum dómara til lengri tíma, bæði í Hæstarétti og Landsrétti. Samkvæmt gildandi lögum skulu slíkir dómarar koma úr röðum fyrrverandi dómara en sé það ekki unnt þá úr röðum annarra sem fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í viðkomandi embætti. Umrætt skilyrði kom inn sem nýmæli við setningu gildandi laga um dómstóla en reynslan hefur sýnt að örðugt er að setja fyrrverandi dómara til starfans í öllum tilvikum. Kemur þar bæði til að fyrrverandi dómarar eru misfúsir að taka að sér setningu auk þess sem ekki er raunhæft að leita til allra fyrrverandi dómara, eins og ákvæðið gerir í raun ráð fyrir eins og það er, þegar litið er til aldurs, starfsgetu og hversu langt er um liðið frá því að viðkomandi sinnti dómstörfum.
    Af þessum sökum er lagt til að ákvæðið verði fært í sama horf og fyrir setningu gildandi laga um dómstóla, að breyttu breytanda, þ.e. að settir dómarar, jafnt varadómarar og þeir sem eru settir til lengri tíma, skuli einfaldlega fullnægja skilyrðum til að skipa megi þá í það embætti sem um ræðir. Þannig þurfi settir dómarar við Hæstarétt að fullnægja skilyrðum 2. og 3. mgr. 13. gr. laga um dómstóla og settir dómarar við Landsrétt að fullnægja skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. sömu laga. Áfram verði þó heimilt að setja dómara við þessa dómstóla þótt hann hafi náð 70 ára aldri. Rétt er að taka fram að þótt hér sé lagt til að rýmka umrædd skilyrði að þessu leyti er ekki óeðlilegt að þegar nauðsynlegt er að setja dómara við Hæstarétt eða Landsrétt sé fyrst leitað til dómara sem nýlega hafa látið af störfum og búa yfir fullri starfsgetu. Á hinn bóginn er rétt að ákvæðin veiti meira svigrúm þannig að ekki þurfi að leita til allra fyrrverandi dómara um setningu áður en til greina kemur að fara út fyrir þeirra raðir. Um sjónarmið að baki þessum breytingum vísast nánar til kafla 3 um meginefni frumvarpsins.

Um 21. gr.

    Samkvæmt 7. tölul. 2. mgr. 29. gr. laga um dómstóla má skipa þann einn í embætti héraðsdómara sem hefur í minnst þrjú ár verið alþingismaður eða stundað málflutningsstörf að staðaldri eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi hjá ríkinu en leggja má saman starfstíma í hverri af þessum greinum. Bent hefur verið á að með áskilnaði ákvæðisins um störf fyrir ríkið eða sveitarfélag séu útilokaðir þeir sem hafa í þrjú ár haft lögfræði að aðalstarfi hjá einkaaðilum, svo sem einkareknum háskólum eða fyrirtækjum. Í ljósi þess að störf fyrir einkaaðila geta falið í sér vinnu við flókin og umfangsmikil lögfræðileg úrlausnarefni þykir ekki tilefni til að gera lengur greinarmun á störfum hjá hinu opinbera og einkaaðilum að þessu leyti. Því er lagt til að ákvæðið geri það eingöngu að skilyrði að umsækjandi um embætti héraðsdómara hafi í þrjú ár verið alþingismaður eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi. Tekið skal fram að þeir lögmenn sem stunda málflutningsstörf hafa lögfræðistörf að aðalstarfi og er því eftir þessa breytingu ekki nauðsynlegt að tilgreina málflutningsstörf sérstaklega í ákvæðinu.

Um 22. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að setja héraðsdómara vegna leyfa skipaðra dómara en þó aldrei til skemmri tíma en 12 mánaða nema um sé að ræða leyfi við héraðsdómstól þar sem þrír eða færri dómarar starfa. Með öðrum orðum er óheimilt að setja dómara við tvo stærstu héraðsdómstóla landsins, Héraðsdóm Reykjavíkur og Héraðsdóm Reykjaness, til fárra mánaða vegna leyfa eða forfalla dómara. Þessi regla kom inn sem nýmæli með gildandi lögum um dómstóla og grundvallaðist hún á því sjónarmiði að nægilega margir dómarar væru starfandi við hina stærri dómstóla til að takast á við aukið álag vegna leyfa og forfalla annarra dómara. Nokkur reynsla er nú komin á ákvæðið og þykir ljóst að nauðsynlegt sé að gera ráð fyrir því að í undantekningartilvikum verði heimilt að setja dómara í styttri tíma en 12 mánuði við þá dómstóla þar sem fleiri en þrír dómarar starfa. Þannig getur til að mynda komið upp sú staða að fleiri en einn dómari sé í leyfi á sama tíma, svo sem vegna náms, veikinda, fæðingarorlofs eða setningar til starfa á æðra dómstigi. Við þær aðstæður eykst álag á aðra dómara verulega og afleiðingarnar geta orðið þær að afköstum og skilvirkni dómstóls sé stefnt í hættu og málsmeðferðartími lengist.
    Með þessari grein er því lögð til sú regla að ekki verði sett í embætti héraðsdómara á leyfistíma nema brýn nauðsyn krefji, svo sem vegna forfalla fleiri en eins dómara, og dómstólasýslan mæli með því. Áréttað er að meginreglan verði áfram sú að ekki skuli setja í embætti héraðsdómara vegna leyfa eða forfalla. Aftur á móti verði slíkt heimilt í undantekningartilvikum og þegar brýn nauðsyn krefur. Undantekningarheimildin kemur fyrst og fremst til athugunar þegar leyfi og forföll dómara varna viðkomandi dómstóli frá því að sinna hlutverki sínu sem skyldi, svo sem ef fleiri en einn dómari er frá störfum. Rétt er að hafa í huga að í sumum tilvikum er um að ræða launalaus leyfi dómara og tímabundin setning dómara eykur því ekki launakostnað dómstólanna. Lagt er til að heimildinni verði ekki beitt nema dómstólasýslan mæli með því enda hefur stofnunin yfirsýn yfir mannaflaþörf og rekstrarkostnað héraðsdómstólanna.

23. gr.

    Endurupptökudómur tók til starfa í ársbyrjun 2021 og er hann skipaður fimm dómendum. Þrír þeirra koma úr röðum embættisdómara sem tilnefndir eru af dómstigunum þremur en tveir eru skipaðir að undangenginni auglýsingu og málsmeðferð skv. III. kafla laga um dómstóla. Jafnmargir varamenn eru skipaðir á sama hátt. Í lagaákvæðum um Endurupptökudóm er ekki vikið að þeirri aðstöðu að tilskilinn fjöldi dómenda geti ekki tekið þátt í meðferð máls, til að mynda vegna vanhæfis, og er lagt til með þessari grein að bætt verði úr því.
    Hvað varðar embættisdómara þá er lagt til að ef tilskilinn fjöldi þeirra getur ekki tekið þátt í meðferð máls setji ráðherra dómanda til að taka sæti í málinu að tillögu þess tilnefningaraðila sem í hlut á. Þetta mundi þýða, svo dæmi sé tekið, að ef þeir sem eru skipaðir sem aðal- og varamenn að tilnefningu Landsréttar væru báðir vanhæfir til meðferðar tiltekins máls mundi ráðherra setja dómanda til að taka sæti í því að tillögu Landsréttar. Þetta er sama tilhögun og almennt gildir þegar skipað er í stjórnsýslunefndir samkvæmt tilnefningum.
    Þá er lagt til að þegar tilskilinn fjöldi dómenda sem skipaður er að undangenginni auglýsingu getur ekki tekið þátt í meðferð máls setji ráðherra dómanda eða dómendur til að taka sæti í því að tillögu forseta Endurupptökudóms. Þar sem tveir slíkir dómendur taka þátt í meðferð hvers máls mundi þetta gerast við þær aðstæður að báðir aðalmenn og a.m.k. einn varadómandi vikju sæti, svo sem vegna vanhæfis. Lagt er til að forseti Endurupptökudóms geri tillögu um aðila til setningar sem er sama fyrirkomulag og gildir um hina almennu dómstóla við sams konar aðstæður. Þá er að lokum tekið fram að sá sem settur er skuli fullnægja skilyrðum 4. mgr. 54. gr. laganna. Í því felst að hann skal uppfylla skilyrði til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara og skal ekki vera fyrrverandi eða starfandi dómari eða núverandi starfsmaður dómstóls.

Um 24. gr.

    Frumvarpið fjallar um ýmsar breytingar á lögum meðferð einkamála, nr. 91/1991, og lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, auk þess að mæla fyrir um nokkrar breytingar á lögum um dómstóla, nr. 50/2016. Þær breytingar sem mælt er fyrir um á tveimur fyrstnefndu lögunum eru gerðar á mismunandi stöðum í meðferð þeirra dómsmála sem þau lög varða og fyrir liggur að þau mál verða misjafnlega á vegi stödd þegar almenn gildistaka þessara laga gengur í garð. Því er nauðsynlegt að kveða sérstaklega á um gildistöku einstaka ákvæða þessa frumvarps með þeim hætti sem mælt er fyrir um í frumvarpinu.