Ferill 289. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 293  —  289. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum til að bæta stöðu kynsegin fólks (foreldrisnöfn og vegabréf).

Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Eva Sjöfn Helgadóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Hanna Katrín Friðriksson.


I. KAFLI

Breyting á lögum um mannanöfn, nr. 45/1996.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
              a.      Í stað orðanna „föður- eða móðurnöfn“ í 1. mgr. kemur: foreldrisnöfn.
              b.      Í stað orðanna „föður eða móður“ í 1. og 2. málsl. 2. mgr. kemur: foreldris.
              c.      Í stað orðsins „föður“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: foreldris.
              d.      Í stað orðanna „afa síns“ í 4. málsl. 2. mgr. kemur: foreldris foreldris síns.
              e.      3. mgr. orðast svo:
                     Foreldrisnöfn eru mynduð þannig að á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum og millinafni, ef því er að skipta, kemur nafn foreldris í eignarfalli með eða án viðbótarinnar son, dóttir eða bur.
              f.      Orðin „hvort heldur er í karllegg eða kvenlegg“ í 5. mgr. falla brott.
              g.      Í stað orðanna „föður eða móður“ í 6. mgr. kemur: foreldris.

II. KAFLI
Breyting á lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019.
2. gr.

    Við 2. mgr. 6. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Til viðbótar er heimilt að gefa út aukavegabréf, sbr. c-lið 11. gr. laga um vegabréf, til fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. Í slíkum aukavegabréfum er heimilt, óháð skráningu kyns í þjóðskrá, að velja þá kynskráningu sem handhafi vegabréfsins kýs.

III. KAFLI
Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.
3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 14. gr. laganna:
              a.      Við 1. tölul. bætist nýr stafliður, f-liður, svohljóðandi: Útgáfa vegabréfa til einstaklinga með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá fer skv. 4. tölul.
              b.      4. tölul. orðast svo:
                      a.      Útgáfa vegabréfa til einstaklinga með hlutlausa skráningu kyns vegna leiðréttingar á kynskráningu skal vera gjaldfrjáls. Útgáfa vegabréfs vegna endurnýjunar skal fara eftir 1. tölul.
                      b.      Útgáfa aukavegabréfs skv. 2. mgr. 6. gr. laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, skal vera gjaldfrjáls.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til þrenns konar breytingar til að bæta stöðu kvára og stálpa í samfélaginu. Verði frumvarpið að lögum verður fólki frjálst að velja endingu foreldrisnafns óháð opinberri kynskráningu. Þá verður öryggi fólks á ferðalögum aukið með því að heimila fólki með hlutlausa skráningu kyns að eiga aukavegabréf með annarri kynskráningu. Að lokum er lagt til að útgáfa aukavegabréfs og endurnýjun vegabréfs vegna breyttrar kynskráningar verði gjaldfrjáls.
    Þann hluta frumvarpsins sem snýr að lögum um mannanöfn er að finna í frumvarpi sem lagt var fram á 152. löggjafarþingi (525. mál).

Kynhlutlaus foreldrisnöfn.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að kynskráning hafi ekki áhrif á það hvers konar foreldrisnöfn fólk má velja sér. Með því er ætlunin að leiðrétta skekkju sem fylgdi samþykkt laga um kynrænt sjálfræði, vegna tveggja hliðstæðra en ólíkra breytinga á lögum um mannanöfn.
    Annars vegar var fellt brott ákvæði 5. gr. sem kvað á um að stúlku skyldi gefa kvenmannsnafn og dreng karlmannsnafn. Samkvæmt greinargerð þótti eðlilegt í ljósi breyttra viðhorfa og efnis frumvarps um kynrænt sjálfræði að fella brott ákvæði sem byggðist alfarið á tvíhyggju um kyn.
    Hins vegar bættist nýr málsliður við 8. gr. sem heimilar einstaklingum með hlutlausa kynskráningu í þjóðskrá að nota föður- eða móðurnafn, þ.e. nafn föður eða móður í eignarfalli án viðbótarinnar -son eða -dóttir eða með viðbótinni -bur. Sú breyting gagnast hins vegar aðeins þeim kynsegin einstaklingum sem velja að taka upp hlutlausa kynskráningu í þjóðskrá.
    Af svörum dómsmálaráðherra (152. löggjafarþing, þskj. 932, 445. mál) og forsætisráðherra (152. löggjafarþing, þskj. 1203, 670. mál) að dæma telja stjórnvöld hér ekki vera um vandamál að ræða, en raunin er önnur sé leitað beint til kynsegin fólks. Þannig kemur fram í nýlegri rannsókn sem unnin var fyrir Kvenréttindafélag Íslands að mörg kvár veigra sér við að breyta kynskráningu sinni af ótta við mismunun eða skrifræðislegar hindranir. 1 Hlutlaus skráning kyns getur líka skapað hindranir í stjórnsýslu heilbrigðiskerfisins, en það styðst við skráningu kyns í þjóðskrá og boðar t.d. ekki kvár með leg í leghálskrabbameinsskimanir eða kvár með blöðruháls í blöðruhálskrabbameinsskimanir. Breytt kynskráning getur einnig haft ófyrirséðar afleiðingar þar sem nokkurt bakslag hefur orðið í baráttu hinsegin fólks bæði hérlendis og erlendis og fólk óttast hvað framtíðin kunni að bera í skauti sér.
    Það orkar tvímælis að á sama tíma og krafa um kynjaskipt eiginnöfn var fjarlægð úr mannanafnalögum hafi slíkt hið sama ekki verið gert gagnvart foreldrisnöfnum. Núverandi fyrirkomulag stendur í vegi fyrir því að hluti kynsegin fólks geti að fullu nýtt rétt sinn til að breyta nafni sínu. Þetta stangast á við það markmið laga um kynrænt sjálfræði að tryggt sé að kynvitund fólks njóti viðurkenningar, enda er rétturinn til nafns stór þáttur í rétti fólks til að skilgreina kyn sitt. Því er hér lagt til að allar útgáfur foreldrisnafna sem gildandi lög heimila standi einstaklingum til boða óháð kynskráningu viðkomandi.

Aukavegabréf.
    Mörg kvár veigra sér við að leiðrétta skráningu kyns í þjóðskrá. Þetta er verulega bagalegt því að mikilvægt er að greina tölfræðiupplýsingar eftir kyni til að rannsaka og koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns, sbr. markmið laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Fyrrgreind rannsókn Kvenréttindafélags Íslands bendir til þess að ein helsta ástæða þess að kynsegin einstaklingar leiðrétta ekki skráningu kyns sé vegna þess að henni fylgir jafnframt skráning í ferðaskilríki.
    Víða er réttindabarátta hinsegin fólks komin mun skemur á veg en hérlendis. Hlutlaus skráning kyns í vegabréf kann því að verða einstaklingum til trafala á ferðalögum erlendis og jafnvel hættuleg. Það er því mikilvægt öryggisatriði fyrir einstaklinga með hlutlausa skráningu kyns að vera ekki bundin ferðaskilríki sem kveður á um hinseginleika þeirra. Dæmi eru um að hlutlaus skráning kyns hafi dregið óæskilega athygli í landamæraeftirliti og öryggisleit og skapað vandamál við bókun flugmiða. Samkvæmt vegabréfastöðlum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar er kyn vegabréfshafa meðal þess sem skrá ber í vegabréf. Það gæti því reynst erfitt fyrir íslensk stjórnvöld að afleggja slíka skráningu einhliða í íslenskum vegabréfum.
    Því er lagt til í 2. gr. frumvarpsins að heimilt sé að gefa út aukavegabréf til fólks sem hefur ástæðu til að óttast að kynhlutlaus skráning í vegabréfi verði því til ama á ferðalögum. Fyrir eru dæmi í lögum um heimild til útgáfu aukavegabréfa, t.d. til einstaklinga sem ferðast mikið til útlanda vegna vinnu. Með þessum hætti geta stjórnvöld unnið að auknu öryggi kynsegin einstaklinga. Svo virðist sem ekki hafi verið hugsað fyrir þessum veruleika þegar lög um kynrænt sjálfræði voru sett. Markmið þessa frumvarps er að bæta úr því og bregðast þannig við ákalli þeirra einstaklinga sem lögum um kynrænt sjálfræði var ætlað að standa vörð um.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að útgáfa nýs vegabréfs verði gjaldfrjáls til einstaklinga eftir að þeir hafa leiðrétt skráningu kyns í þjóðskrá, en breyting á skráningu kyns í þjóðskrá er nú þegar gjaldfrjáls. Einnig er lagt til að útgáfa aukavegabréfs verði gjaldfrjáls. Einstaklingar ættu ekki að þurfa að greiða aukalega fyrir þau mannréttindi sem átti að tryggja þeim með lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019. Endurnýjun vegabréfs eftir að gildistími þeirra liði undir lok færi svo eftir 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.

1     Birta Ósk. „Að vera kvár á Íslandi. Hvað felst í kynjajafnrétti fyrir kvár?“ Kvenréttindafélag Íslands, september 2022.