Ferill 300. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 305  —  300. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003 (greiðsla meðlags til rétthafa sem búsettir eru erlendis).

Flm.: Gísli Rafn Ólafsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Eva Sjöfn Helgadóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson, Wilhelm Wessman.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða 67. gr. laganna:
        a.     Orðin „er búsettur hér á landi og“ í 1. mgr. falla brott.
        b.     Orðin „sem búsettur er hér á landi“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Samkvæmt núgildandi ákvæðum barnalaga greiðir Tryggingastofnun ríkisins út meðlag til rétthafa gegn því skilyrði að hann sé búsettur á Íslandi. Móttakendur meðlags fá því ekki greitt meðlag fyrir hönd meðlagsskylds aðila frá Tryggingastofnun ríkisins ef þeir eru búsettir erlendis. Af því leiðir einnig að Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtir ekki meðlag frá meðlagsskyldum aðilum, þó að þeir séu búsettir á Íslandi, ef réttmætur móttakandi greiðslunnar er búsettur erlendis. Á þessu er þó ein undantekning. Í gildi er Norðurlandasamningur um gagnkvæma innheimtu meðlaga sem leiðir til þess að Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtir meðlagsgreiðslur frá hinum meðlagsskylda aðila á Íslandi, berist beiðni um það frá viðkomandi Norðurlandaríki.
    Í frumvarpi til laga sem urðu að barnalögum nr. 76/2003 var ekki að finna þetta búsetuskilyrði. Því var hins vegar breytt í meðförum allsherjarnefndar til að gæta samræmis við þágildandi 9. gr. a laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, um að meginregla um greiðslu almannatrygginga væri háð búsetu á Íslandi (128. löggjafarþing, þskj. 1338, 180. mál). Meðlag er hins vegar eðlisólíkt stuðningi ríkisins við fólk sem á rétt til greiðslu lífeyris af hálfu hins opinbera. Foreldrar eru framfærsluskyldir gagnvart börnum sínum skv. IX. kafla barnalaga til að tryggja sem best hagsmuni barnsins. Það samræmist ekki jafnræðisreglu að mismuna börnum með þessum hætti eftir búsetu. Þá verður ekki séð að innheimta af hálfu Innheimtustofnunar sveitarfélaga sé torveldari eftir því hvort móttakandi greiðslunnar er búsettur hérlendis eða erlendis. Þá má einnig benda á að finna má undantekningu á meginreglu laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, í 20. gr. þeirra, en samkvæmt því ákvæði er núverandi búseta á Íslandi ekki skilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris, en barnalífeyrir er greiddur ef annað foreldra eða bæði eru látin. Börn einstæðra foreldra eru ávallt í viðkvæmari stöðu þegar annars foreldrisins nýtur ekki við. Það er ótækt að meðlagsskyldir aðilar komist hjá því að greiða meðlag nema forsjáraðilinn sjálfur fari í innheimtuaðgerðir, því íslenska ríkið mismunar þessari aðstoð við börn eftir búsetu.